vald.org

Skattaparadís

21. janúar 2006 | Jóhannes Björn

Nú er svo komið að fyrirtæki sem framleiða vörur eða þjónustu í einu landi og selja í öðru geta sjálf ákveðið hvort þau borga eðlilega tekjuskatta eða borga nákvæmlega enga skatta. Þetta er hægt vegna þess að fjöldi ríkisstjórna á litlum eyríkjum og víðar græða á að láta löglega jafnt sem ólöglega peninga flæða inn á reikninga hlutafélaga og banka sem sérhæfa sig í feluleik með fjármuni.

Fyrir 1970 var bankaleynd aðallega bundin við ríki eins og Sviss, Lúxemborg, Liechtenstein, Hong Kong og Andorra. Síðan hafa eyríki hér og þar bæst í hópinn og þau hafa dregið til sín billjónir dollara, peninga sem einstaklingar vilja fela eða fyrirtæki kjósa halda sem lengst frá skattheimtunni. Þegar fjölþjóðafyrirtæki felur gróða þá eru tilfærslurnar oft mjög flóknar, en grundvallaraðferðin er sáraeinföld. Varan er framleidd á láglaunasvæði, t.d. í Kína, og seld á hálaunavæði. Gróðinn situr eftir í skúffu pappírsfyrirtækis, t.d. á eyju í Karíbahafi. J. W. Smith lýsir þessu þannig í bók sinni, The World´s Wasted Wealth:

(1) Á pappírunum eru höfuðstöðvarnar fluttar til skattaparadísar í þriðja ríki eða dótturfyrirtæki er stofnað þar; (2) verksmiðja er reist á láglaunasvæði í vanþróuðu landi þar sem kostnaður við framleiðslu á hverri einingu er lítill, segjum tíu dollarar; (3) skattaparadísin fær vörureikning sem sýnir engan gróða, verðið er áfram þessi tíu dala framleiðslukostnaður; (4) skattaparadísin skrifar vörureikning fyrir hálaunasvæðið, sem sýnir gróða er rennur til pappírsfyrirtækisins í skattaparadísinni, segjum $30 fyrir hverja einingu, og varan er flutt beint frá láglaunasvæðinu í vanþróaða landinu til hálaunasvæðisins á meðan gróðinn rennur skattlaus til skattaparadísinnar, sem er ekkert nema póstfang og nafnplata sem er hengd upp á vegg. Engin vara snerti milligönguríkið; pappírsvinnan er meira að segja unnin í höfuðstöðvum fyrirtækisins.

Frá sjónarhóli skattheimtumanna á Vesturlöndum er þetta ekkert annað en bókhaldssvindl sem gengur undir nafninu "transfer pricing", en það er hægara sagt en gert að sanna þetta svindl þegar búið er að framleiða keðju pappírsfyrirtækja í löndum sem gefa utanaðkomandi engar upplýsingar. Samkvæmt skýrslu OECD þá er nú svo komið að yfir helmingur alls þess sem verslað er með á jörðinni hefur verið hagrætt með "transfer pricing."

Fáir vita að eignarfyrirtækið Caymans 97 Holding Ltd. á BP, en British Petroleum er annað stærsta olíufélag heims. Eins og nafn fyrirtækisins bendir til þá er það skráð á Caymans Islands og sem slíkt borgar það enga skatta. Cayman 97 á fyrirtæki út um allan heim, t.d. BP Exploration, sem græddi $15 milljarða árið 2003. Hugmyndin með öllu þessu er að hagræða bókhaldinu þannig að skattbyrgði BP verði sem minnst þegar ársreikningarnir eru gerðir upp og hluthöfum er borgaður arður.

Hagkerfi Vesturlanda byggir á þeirri hugmynd að frjáls samkeppni skili samfélaginu mestum hagnaði. Hæfustu öflin græða mest og allir njóta góðs af í leiðinni. Skattaparadísir snúa þessu lögmáli á haus því nú græða þeir mest sem fela best. News Corporation—stórveldi Rupert Murdoch sem á Fox, Sky, Harper Collins og fjölda annarra fyrirtækja—keppir við Disney á mörgum sviðum, t.d. í sjónvarpsrekstri, kvikmyndaframleiðslu og bókaútgáfu. En það er einn grundvallarmunur á þessum tveim risum. News Corporation á sextíu pappírsfyrirtæki í skattaparadís og höfuðstöðvarnar í Ástralíu borguðu að meðaltali 6% í tekjuskatta á árabilinu 1994 til 1998. News Corporation á Bretlandi borgaði enga skatta af hreinum gróða upp á einn milljarð og fjögur hundruð þúsund pund. Á sama tíma borgaði Disney, sem á ekkert pappírsfyrirtæki í paradís, 31%.

Stórfyrirtæki sem stunda hreint svindl komast ekki upp með það árum saman nema þau komi sér fyrst vel fyrir í skattaparadís. Árið 2000 rak Enron 692 pappírsfyrirtæki á Caymans og 200 önnur í löndum eins og Mauritius, Bermuda, Barbados og Panama. Löngu eftir að Enron var tæknilega gjaldþrota voru yfirmenn fyrirtækisins að "kjafta upp" hlutabréfin á meðan þeir sjálfir seldu og græddu tugmilljónir dollara. Þetta var hægt vegna þess að allt tapið var falið í pappírsfyrirtækjum á eyjum handan sjóndeildarhringsins á meðan bókhaldið í Texas ljómaði.

Þróunin á Caymans Islands síðustu áratugi sýnir hve arðvænlegt það er að fela peninga. Árið 1963 var aðeins einn banki á staðnum og hann var ekki í símasambandi við umheiminn. Íbúarnir voru 8000 fátæklingar sem veiddu sér í soðið. Um aldamótin 2000 var íbúafjöldinn kominn í 40.000 og enginn kvartaði yfir kjörunum. Hvorki meira né minna en 580 bankar og 65.000 fyrirtæki voru skráð á eyjunum. Með skráð pappírsverðmæti upp á $700 milljarða þá var Caymans orðin fimmta stærsta bankamiðstöð heims.

Framhald …