vald.org

Skattaparadís … framhald

26. janúar 2006 | Jóhannes Björn

Baktryggðir sjóðir (hedge funds) eru eðlilegt framhald hnattvæðingarinnar. Þetta eru huldusjóðir sem halda sig á eyríkjum eða annars staðar þar sem skattar eru ekki borgaðir og græða í laumi. Starfsaðferðir þeirra eru viðskiptaleyndarmál og nöfn einstaklinga sem fjárfesta í gegnum þessa sjóði eru venjulega ekki gefin upp.

Ævintýri Long-Term Capital Management segir alla söguna. Þessi sjóður var skráður á Cayman Islands 1994, en það var gagngert gert til þess að fela bókhaldið, því dagleg starfsemi fór fram í Greenwich, Connecticut. Tveir nóbelsverðlaunahafar í hagfræði voru meðal starfsmanna sjóðsins sem þjónaði forríku fólki. Lágmarks fjárfesting í Long-Term Capital var $10 milljónir og því var fljótlegt að safna saman 1,2 milljörðum dala fyrsta árið. Þetta var þó aðeins byrjunin. Eins og aðrir baktryggingasjóðir—og fjöldi þeirra er núna yfir 8000—þá þurfti Long-Term Capital ekki að leika samkvæmt sömu reglum og t.d. banki í New York. Í fyrsta lagi þá ríkir nærri fullkomið frelsi til þess að gera hvað sem mönnum sýnist á Cayman og öðrum svipuðum stöðum. Í öðru lagi þá skipta yfirvöld á Vesturlöndum sér lítið af þessari tegund viðskipta og bera því við að fólk sem fjárfestir tugmilljónir dollara geti séð um sig sjálft og þurfi enga vernd.

Long-Term Capital græddi ótrúlega. Árið 1994 var arður sjóðsins 28% en hoppaði næstu tvö árin yfir 50%. Þegar best lét var eigið fé $7 milljarðar á meðan sjóðurinn fjárfesti $140 milljarða. Þetta var svo til alveg óþekkt fyrirtæki en það velti hærri upphæðum en flestir bankar heimsins. Hvernig var þetta hægt? Long-Term Capital græddi mest á braski með ríkisskuldabréf. Tölvuforrit fundu óeðlilegar verðsveiflur sem endurtóku sig aftur og aftur. Þegar t.d. rússnesk ríkisskuldabréf (segjum 10 ára bréf) voru tveggja ára gömul þá seldust þau með meiri afföllum en eðlilegt gat talist miðað við bandarísk ríkisskuldabréf. Þetta bil mjókkaði síðan aftur eftir vissan tíma. Sjóðurinn spilaði á þennan mun með því að kaupa og selja þessi bréf á sama augnabliki.

Nóbelsverðlaunahafarnir byrjuðu að trúa því að þessar sveiflur væru náttúrulögmál, en haustið 1997 var nokkuð ljóst að hagkerfi Rússlands stefndi í meiriháttar hrun. (Undirritaður spáði því t.d. hér http://www.vald.org/eiturlyf/kafli09.htm) Sumarið 1998 kom að skuldadögunum og bréf rússneska ríkisins, sérstaklega til lengri tíma, féllu eins og grjót. Tap Long-Term Capital var ótrúlegt og sjóðurinn blæddi dollurum upp á hundruð milljóna á dag. Að lokum var aðeins ein leið fær—leið sem talsmönnum kapítalsins er mjög kær, og sérstaklega þeim sem fela sína eigin peningana handan sjóndeildarhringsins—það var leitað á náðir skattgreiðenda!

Þegar bandaríski seðlabankinn bjargar fyrirtækjum sem eru honum hjartfólgin, þá er það alltaf afsakað með sama hætti: Sum fyrirtæki eru of stór eða mikilvæg til þess að hægt sé að láta þau fara á hausinn. Þetta er auðvitað út í hött þegar nær óþekkt fyrirtæki sem þar að auki er skráð á Cayman Islands á í hlut. En Long-Term Capital skuldaði gæðingum á borð við JP Morgan, Merrill Lynch og Goldman Sachs milljarða dollara. Einstaklingar sem stjórna þessum fyrirtækjum tilheyra klúbbi milljarðamæringa og flestir eru góðir vinir Alan Greenspan. Goldman Sachs er meira að segja hluthafi í seðlabankakerfi Bandaríkjanna.

Ekkert leyndarmál er betur falið en sú staðreynd að seðlabanki Bandaríkjanna (kerfi 12 banka) er einkafyrirtæki. Vefsíða seðlabankans í New York fer í kringum spurninguna um hver á bankann eins og köttur í kringum heitan graut. Þar er viðurkennt að hluthafar eigi bankann, en í sömu andránni er sagt að það sé þjóðsaga að bankinn sé í einkaeign. Skattgreiðendur fjármagna ekki bankann. Það er ekki hægt að klóra yfir þá staðreynd að annað hvort á ríkið (fólkið) bankann eða einhver annar á hann. http://www.ny.frb.org/aboutthefed/faq.html

Allt frá stofnun bandaríska seðlabankans 1913 hefur hann verið hlutafélag þar sem völd eigendanna eru skert. Þetta er ekki ósvipað fyrirkomulag og þegar einstaklingar eiga og reka sporvagna- eða lestakerfi en stjórnvöld ráða í ákveðnar stöður. Helstu hluthafar seðlabankans voru og eru enn stóru bankarnir á austurströnd landsins. Þetta fyrirkomulag kom í veg fyrir vaxandi samkeppni í landi sem var að byggjast hratt upp. Hlutabréfin ganga ekki kaupum og sölum á opnum markaði, en handhöfum þeirra er greiddur 6% arður, sem er dálítið broslegt í ljósi þess að þessir einkabankar virðast hafa fengið hlutabréfin ókeypis. Forseti og þing velja seðlabankastjórann, en hann kemur venjulega beint frá bankakerfinu á austurströndinni. Það sem hluthafarnir hafa aðallega upp úr krafsinu er nokkurs konar tryggingafélag sem bjargar þeim sem eru "of stórir" til að fara á hausinn. Þeir fá líka aðgang að ómetanlegum upplýsingum. Að undanskildum 6% arði þá græða einkabankarnir ekkert beint.

Eins og sagði hér í byrjun þá ráða fyrirtæki sem nota skattaparadísir því alveg sjálf hvort þau borga tekjuskatta eða ekki. Hvers vegna borga þau þá yfirleitt nokkuð? Málið er ekki svo einfalt að það borgi sig alltaf að sleppa við skatta. Fyrirtæki eru stöðugt að þrýsta á ríkisstjórnir á ótal sviðum. Þau vilja verkefni sem ríkið býður út, tollalækkanir, hjálp á alþjóðavettvangi, hreina styrki í formi útflutningsstyrkja o.s.frv. Fyrirtæki eyða líka miklum peningum í þrýstihópa og pólitík. Fyrirtæki á Cayman má oft ekki frekar en aðrir útlendingar fjármagna pólitíska starfsemi í t.d. Frakklandi eða Bandaríkjunum.

Risastórt bankakerfi sem starfar í leyni getur reynst mjög hættulegt. Enron gat rústað lífi tugþúsunda einstaklinga með þessum feluleik. Atburðarásin í Asíu 1997 þegar gjaldmiðlar margra landa hrundu tók nærri því allt hagkerfi heimsins með sér í fallinu. Innanhússkýrsla unnin af Alþjóðagjaldeyrissjóðinum 1999 rakti orsakir glundroðans beint inn í skattaparadís. Í öllum tilfellum höfðu lönd sem voru í erfiðleikum falið tap af ýmsu tagi á Cayman og víðar gagngert til þess að efnahagsreikningarnir litu betur út á yfirborðinu. Eins og alltaf þegar feluleikur af þessu tagi er stundaður þá fylgdi miklu verra hrun en ella í kjölfarið.

Hnattvæðing og leynimakk með peninga hafa fært handhöfum kapítalsins pálmann í hendurnar. Þetta fólk fleytir rjómann en lætur lítið í staðinn. Einstaklingar sem selja vinnu sína verða hins vegar að axla vaxandi byrði þegar samfélagið skattleggur þegnana. Þetta óréttlæti er nú þegar byrjað að skammta félaglega þjónustu á vissum stöðum og þá er venjulega ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur. Félagslegar hugsjónir eftirstríðsáranna eru greinilega á undanhaldi.