vald.org

Lyfjaveldið

27. febrúar 2006 | Jóhannes Björn

Lyfjaiðnaðurinn auglýsir sjálfan sig betur en nokkur önnur gróðastarfsemi. Fyrirtækin reyna að telja okkur trú um að þau stundi einhvers konar hugsjónastarfsemi, séu vísindalega í fremstu röð og bæti og lengi líf allra. Þetta eru stórkostlegar ýkjur sem sífellt eru endurteknar til þess að draga athyglina frá einu mesta okri viðskiptasögunnar.

Helsti nægtabrunnur lyfjaveldisins er Bandaríkjamarkaður, en þar ráða markaðslögmálin ferðinni þegar lyf eru verðsett. Allir aðrir þættir lyfjaframleiðslunnar eiga ekkert sameiginlegt með fríverslun. Árið 2003 borguðu bandarískir neytendur yfir $200 milljarða fyrir meðul sem voru afgreidd gegn lyfseðlum. Tíu stærstu lyfjafyrirtækin græddu meira árið 2002 ($35,9 milljarða) en 490 önnur fyrirtæki á Fortune 500 listanum græddu samanlagt ($33,7 milljarða).

Lyfjaveldið segist eyða gífurlegum upphæðum í rannsóknir á sífellt betri lyfjum. Þetta eru miklar ýkjur. Þótt fyrirtækin geri allt sem þau geta til þess að láta bókhaldið sýna sem mestan kostnað við rannsóknir—ókeypis sýnishorn sem læknar fá flokkast t.d. undir "rannsóknir"—þá eyða þau 250% meira í auglýsingar og skriffinnsku en í grunnrannsóknir. Markaðssetning er starkasta hlið lyfjaveldisins og vísindalegar framfarir eru miklu hægari en fólk almennt heldur.

Mest selda krabbameinslyf allra tíma heitir Taxol (paclitaxel). Það var upphaflega unnið úr berki sígrænna trjáa er nefnast ýviður. Bandaríska krabbameinsfélagið (skattgreiðendur) rannsakaði þetta efni í yfir þrjátíu ár áður en Bristol-Myers Squibb bjó til pillur úr því. Lyfjafyrirtækið okraði síðan hressilega á lyfinu, sem skattgreiðendur höfðu fjármagnað, og græddi á milli einn og tvo milljarða dollara á því árlega í mörg ár. Ársskammtur á hvern sjúkling kostaði á milli $10.000 og $20.000. Samkvæmt stórblaðinu Boston Globe þá voru 45 af 50 vinsælustu lyfjum á Bandaríkjamarkaði á milli 1992 og 1997 upphaflega fjármögnuð af ríkinu.

Flest lyf miða að því að viðhalda heilsu fólks sem hefur veikst og það er mjög sjaldgæft að lyf (önnur en fúkkalyf) lækni nokkurn skapaðan hlut. En stundum skjóta frábær lyf upp kollinum og eitt þeirra er Gleevec (imatinib mesylate), en það virðist hreinlega lækna sumar tegundir hvítblæðis, þótt tíminn eigi enn eftir staðfesta lækninguna. Fyrsta skrefið í þróun Gleevec var stigið þegar vísindamenn við Fíladelfíuháskóla sáu einkennilegt krómósóm í sjúklingum sem þjáðust af hvítblæði. Þetta gerðist 1960 og litningurinn skrýtni fékk nafnið "Fíladelfíu-krómósómið." Eftir miklar rannsóknir fjölda vísindamanna kom í ljós að Fíladelfíu-krómósómið var með arfbera sem framleiddi óeðlilegan lífhvata (ensím). Þessi lífhvati orsakaði krabba í blóðfrumum. Lyfjafyrirtækið Novartis notaði allar þessar upplýsingar til þess að framleiða nokkur efnasambönd sem hugsanlega gætu hindrað þennan lífhvata og fékk einkaleyfi á þeim 1994. En fyrirtækið aðhafðist ekkert frekar í málinu fyrr en vísindamaður við Oregon Health & Science University, Brian J. Druker, rannsakaði öll þessi efnasambönd og uppgötvaði að eitt þeirra, imatinib mesylate, gerði kraftaverk. Sennilega þótti möppudýrunum lyfjafyrirtækisins markaðurinn fyrir þetta lyf ekki nógu stór, því Novartis dró lappirnar og vildi helst ekkert gera í málinu. Samkvæmt frásögn Brian J. Druker þá þurfti hann að margbiðja fyrirtækið um að sinna málinu og tókst loks að fá að gera minni háttar rannsóknir. Árið 1999 gat hann loks sýnt fram á frábæran árangur sem ekki var hægt að horfa fram hjá og það liðu ekki nema tvö ár þangað til lyfjarisinn gat byrjað að græða á þessu undralyfi.

Þessi saga endurtekur sig sífellt í einni aða annarri mynd. Fagrit birta greinar um allar helstu rannsóknir á sviði læknisfræðinnar. Eitt slíkt, Health Affairs, gerði könnun á hvaðan þessar greinar komu allt árið 1998. Ekki nema 15% komu frá lyfjaiðnaðinum, 54% frá rannsóknastofum menntastofnanna og 13% frá ríkisstofnunum. Ekki aðeins fleyta lyfjafyrirtækin rjómann af rannsóknum, þau okra líka á viðskiptavinunum og fá ótrúleg skattfríðindi.

Þótt okrið sé ótrúlegt þá er það þessa dagana að taka á sig nýja og enn skuggalegri mynd. New York Times greindi frá því 15. febrúar 2006 að bandaríska fyrirtækið Genentech, sem er dótturfyrirtæki Roche í Sviss, sé búið að verðleggja nýjasta krabbameinslyfið, Avastin, sem á að geta haldið lífinu í dauðvona sjúklingum u.þ.b. fimm mánuðum lengur. Það var kannski ekki von á góðu frá fyrirtæki sem hefur verið að selja annað lyf, Herceptin, fyrir $40.000 ársskammtinn á hvern sjúkling, en samt gátu læknar og sjúklingar ekki komist hjá því að taka andköf. Fólk sem kýs að taka Avastin verður að borga $100.000 á ári fyrir það! Jafnvel Bandaríkjamenn sem eru vel tryggðir verða að borga allt að $20.000 úr eigin vasa. Þetta er svívirðilegt og á eftir að slíta allar eigur af fjölda einstaklinga rétt fyrir andlátið. Heildarveltan á Avastin er upp á einn milljarð dollara þessa stundina, en reiknað er með að salan nái $9 milljörðum 2009. Svissararnir velta sér upp úr peningum.

New York Times greinir frá því 7. febrúar 2006 að sala á svefntöflum hafi aukist um 60% í Bandaríkjunum síðan árið 2000. Á síðasta ári voru lyfseðlar á svefnlyf skrifaðir í 42 milljón skipti og hver lyfseðill gefur "sjúklingnum" rétt til þess að fara í apótekið í nokkur skipti. Þetta er aðeins síðasti kapítulinn í langri raunasögu þar sem fólk reynir að lægja öldur hugans með gengdarlausu pilluáti. En þetta eru arðvænleg viðskipti. Sepracor, sem framleiðir svefnlyfið Lunesta, réði nýlega 450 nýja sölumenn og er núna með 1950 einstaklinga í vinnu, fólk sem hefur þann einn starfa að þrýsta á lækna og fá þá til þess að skrifa lyfseðla á Lunesta. Lyfjafyrirtækin græða alla sína peninga á lyfjum sem þau hafa einkarétt á og þegar sá einkaréttur rennur út þá breyta þau lyfinu smávegis (ekki endilega til betri vegar) og fá nýtt einkaleyfi. Sanofi-Aventis, sem tapar einkaleyfi á svefnlyfinu Ambien í október, er með 3000 manna starfslið sem gerir ekkert annað en sannfæra lækna um ágæti Ambien CR, sem er nákvæmlega eins og gamla Ambien fyrir utan margfalt hærra verð og sykurhúð sem leystist upp hraðar og kjarna sem leysist upp hægar.

Allt þetta dópát hefur aukaverkanir. Stýrimaður ferju sem rakst á bryggju á Staten Island í New York 2003 er talinn hafa verið undir áhrifum Ambien, en 11 manns létust í því slysi. Það sama ár létust átta farþegar í rútuslysi í Tallulah, Lousiana, en bílstjórinn hafði notað Ambien kvöldið áður. Málið er flókið þegar áhrifin sem reynt er að kalla fram eru slökun og svefn, þau sömu og aukaverkanirnar—að sofna við stýrið. Þessi nýja kynslóð svefnlyfja, stundum kölluð Z-lyf, getur líka fengið fólk til þess að ganga í svefni og gleyma löngum tímabilum. Þegar lögfræðingur í Buffalo, New York, Steven Wells, tók Ambien þá byrjuðu einkennilegir hlutir að gerast. Suma morgna tók hann eftir því að hann hafði nóttina áður gengið frekar sóðalega um ískápinn, en hann mundi ekki nokkurn skapaðan hlut. Honum þótti nóg komið og hætti að taka lyfið eftir að hafa rifið grind út úr vegg um miðja nótt.

Það alvarlegasta við öll lyf sem hafa áhrif á hugarstarfsemina er sú staðreynd að það er ósköp lítið vitað um meðvitund einstaklingsins. Ambien og Lunesta hafa áhrif á boðefni heilans, sem talið er að hægi á starfsemi taugafruma. Nýtt svefnlyf frá Japan, Rozerem, virkar hins vegar á melatón-næmi heilans sem talið er hafa áhrif á svefnmunstrið. Þetta eru allt rannsóknir og getsakir um hvaða afleiðingar ákveðin efnasambönd hafa frekar en vísindi sem styðjast við grundvallarorsakir.

Nýjustu rannsóknir á meðvitund lifandi vera benda til þess að hugsunin sé alls ekki staðbundin við heilann. Það er meira að segja óvíst að hugsunin tilheyri þeim víddum sem við skynjum. Eins og Roger Penrose bendir á í bókinni The Emperor's New Mind, þá virðist hugsunin miklu frekar byggjast á "quantum mechanics", sem þýtt hefur verið "skammtafræði" á íslensku. Ef Penrose og fleiri hafa rétt fyrir sér þá er eins gott að fara varlega í gleðipilluátið.

Þegar við horfum inn í heim minnstu einda, heim skammtafræðinnar, þá hættir tími að vera til. Ef ljóseind er skipt í tvennt þá virðist óskiljanlegt samband haldast og þá virðast fjarlægðir á milli þessara tveggja einda ekki skipta nokkru máli. Tími, sem mælir hreyfingu á efni í rúmi, er ekki lengur til. Tími virðist líka stundum gufa upp þegar við sofum. Margir hafa eflaust upplifað eftirfarandi atburðarás: Jón Jónsson er steinsofandi þegar vekjaraklukkan hringir á slaginu sjö. Hann slekkur á henni og heldur áfram að sofa. Nú tekur við langur draumur með allskonar atburðum og flóknum samtölum. Klukkustundir hljóta að hafa liðið, en þegar Jón hrekkur upp þá er klukkan 7:01. Hann er forviða og veit að samtölin ein saman hefðu átt að taka miklu lengri tíma. Í heimi skammtafræðinnar er þetta fullkomlega eðlilegur atburður.

Jóhannes Björn, Morgunblaðið, 11. júní 2002

Fátt er hvimleiðara en að hlusta á atvinnugóðmenni (presta) tyggja sömu vitleysuna ár eftir ár eins og biluð hljóðskífa. Með eldmóði sem ríkisstarfsmenn einir geta tamið sér muldra þeir um eingetinn son guðs sem var negldur á kross svo við öll mættum lifa. Birgir Baldursson bendir í nýlegri grein í Mbl. á þessar bábiljur, en gerir síðan þau mistök að hefja vísindamenn í svipað veldi og kirkjan naut á minna upplýstum tímum. Það er engum til góðs að gera þann hóp vísindamanna sem spáir í eðli og uppruna alheimsins að nýrri prestastétt. Birgir segir orðrétt:

"Vísindunum hefur í megindráttum tekist að skýra heiminn mekanískum skýringum. Allar fullyrðingar um tilhlutan yfirnáttúrlegra afla við gerð og stjórnun hans eru óþarfar, mekanískar skýringar nægja. Allt slíkt tal verður því að telja getgátur og sé slíkt boðað sem sannleikur má flokka það undir hindurvitni."

Þetta er einfaldlega ekki rétt. Það merkilega er að mekaníska skýringin á tilverunni verður ósennilegri með hverjum deginum sem líður. Newton/Einstein-heimurinn er ágætur til síns brúks, en það er augljóst að raunveruleg svör um alheiminn fást aðeins í gegnum "quantum mechanics" (skammtafræði) og þau vísindi eru að mörgu leyti að verða dularfyllri. Ef eitthvað er þá virðist skammtafræðin vera á góðri leið með að sanna að lífið sjálft sé ríkjandi afl í alheiminum.

Í stuttu máli þá fjallar skammtafræðin um frumeindir og þaðan af smærri eindir. Í þeim heimi gilda engin venjuleg lögmál um tíma, hraða eða vegalengdir. Enginn veit hvernig það má vera, en árangur tilrauna með frumeindir fer algjörlega eftir því hver er viðstaddur til að meta útkomuna. Ef ekkert vitni sér tré falla út í skógi, var spurt hér áður fyrr, féll þá nokkuð tré? Í heimi smæstu einda er svarið nei.

Miklihvellur

Fyrir hundrað árum störfuðu stjarnvísindamenn eins og aðrir vísindamenn. Þeir uppgötvuðu ný fyrirbæri og reyndu síðan að útskýra eðli þeirra. Þetta byrjaði að breytast með "big bang"-kenningunni og í dag hafa vinnubrögðin alveg snúist við hjá þessum spekúlöntum. Fyrst dreyma þeir upp ákveðinn raunveruleika og síðan smíða þeir kenningar sem falla að þessum nýja raunveruleika. Mannlegi þátturinn hefur líka sitt að segja og það hefur t.d. vissan rómantískan blæ þegar lamaður maður sem talar með hjálp tölvu tekst á við alheiminn. Hér er auðvitað átt við Stephen Hawking, sem sendir frá sér straum skemmtilegra hugmynda er enginn getur sannað eða afsannað. Getur einn alheimur getið af sér aðra alheima (skapað "baby universes") eða er hægt að sameina öll lögmál alheimsins—eins og Lord Kelvin taldi á næsta leiti fyrir heilli öld—í eina litla jöfnu? Hver veit? Hawking getur þó varla verið alvara þegar hann talar um að afhjúpa leyndardóma alheimsins með því að pára nokkur tákn á blaðsíðu. Hann veit vel að stærðfræði er kerfi sem byggir á fenginni reynslu, ekki ósvipað sagnfræði sem þekkir fortíðina en getur ekki spáð í framtíðina nema að litlu marki.

Miklihvellur er vissulega stór hugmynd sem haldið er á floti með miklum heilabrotum og endalausum kenningasmíðum. Til þess að hugmyndin gangi upp þá verðum við að gera ráð fyrir óhemju efnis í alheiminum sem hingað til hefur verið ósýnilegt. Ef alheimurinn fæddist í sprengingu fyrir um 14 milljörðum ára þá er auðvelt að reikna út nokkuð jafna dreifingu efnisins. Þegar byrjað var að kortleggja alheiminn þá kom hins vegar í ljós að stjörnuþyrpingar (vetrarbrautir) höfðu víða þjappað sér í 500 milljón ljósára klumpa, oft með um 500 milljón ljósára gapi á milli klumpaþyrpinga. Samkvæmt ríkjandi kenningum þá ætti þjöppun af þessu tagi að taka um 100 milljarða ára.

Það er ekki hægt að benda á alla vankanta miklahvells í einni blaðagrein, en ekki má gleyma þeirri staðreynd að stjörnuþyrpingar hafa fundist sem eru töluvert eldri en "big bang." Það eitt ætti að nægja til að menn hugsi sig um tvisvar áður en þeir kyngja kenningunni hrárri. En ef alheimurinn varð til með einni frumsprengingu þá hlýtur einföld spurningin að vakna: Hvað var það sem sprakk og hvaðan kom það? Það er auðvelt að segja að einhvers konar skammtaflæði (quantum flux) hafi átt sér stað en skammtafræðin gerir ráð fyrir að einhver sé viðstaddur þegar það gerist (í skammtafræði veltur útkoman á þeim sem mælir fyrirbærið og tilraunir hafa sýnt að sá sem mælir getur jafnvel ákveðið útkomuna fyrirfram). Í nýlegri grein í New York Times er málið leyst með því að teikna auga sem horfir á skammtaflæðið við fæðingu alheimsins!

Það þarf mikið hugmyndaflug til að halda "big bang" á floti. Sumir vísindamenn tala um ósýnilega strengi sem liggja þvers og kruss um alheiminn—alheim sem við skynjum í þrívídd en er í raun þjappaður inn í margar fleiri víddir. Einn slíkur heldur fyrirlestra á Guggenheim listasafninu í New York og lætur strengjakvartett spila í bakgrunninn á meðan áhorfendur dreypa á rauðvíni! Aðrir vísindamenn láta sig dreyma um ofurstrengi, ósýnilegt og hingað til ómælt afl sem ýtir efninu saman. Þannig mætti lengi halda áfram.

Óþekkt náttúruöfl

Bætt tækni til að afla upplýsinga um alheiminn og vinna úr þeim hefur nýlega dregið fram í dagsljósið fjölda fyrirbæra sem enginn skilur. Hér er ekki verið að tala um einhver minni háttar frávik, heldur hluti sem hreinlega kollvarpa Newton/Einstein-veröldinni. Ef það var miklihvellur fyrir um 14 milljörðum ára þá ætti þensla alheimsins að hægja á sér með hverju árinu sem líður. Vísindamenn urðu nýlega furðu lostnir er mælingar sýndu að alheimurinn þenst út með vaxandi hraða. Nýtt afl, andþyngd, virðist hafa skotið upp kollinum. Vísindamenn urðu ekki minna hissa þegar þeir staðfestu mælingar á hraða þriggja bandarískra gervihnatta sem eru á siglingu út úr sólkerfinu. Þeir eru allir að hægja á sér og engin skýring er handbær. Nýtt afl, kannski það sama og heldur vetrarbrautum saman, virðist vera fundið (sýnilegur massi stjörnuþyrpinga nægir ekki til að láta þær loða saman og fræðilega séð ættu þær að gliðna í allar áttir). Við skiljum orku nokkuð vel, en efnið sjálft er enn ráðgáta sem menn hafa reynt að leysa með 30 ára leit að svokallaðri Higgs-öreind (nefnd eftir Peter Higgs við Edinborgarháskóla). Margir eru byrjaðir að hallast að þeirri skoðun að Guðs-öreindin, eins og Higgs-öreindin er of kölluð, sé einfaldlega ekki til og eðlisfræðin sitji uppi kenningalaus um sjálft efnið.

Framhald 15. mars