vald.org

Lyfjaveldið … framhald

15. mars 2006 | Jóhannes Björn

Lyfjaveldið hefur í langan tíma grætt meiri peninga en nokkur önnur framleiðslugrein, en samt eru fyrirtækin þessa dagana að slá ný met í okri. Best gengur að rýja krabbameinsjúklinga (eða stofnanir sem borga fyrir þá) inn að skyrtunni. Annar hópur sem verður fyrir barðinu á okrinu eru þeir sem þjást af frekar sjaldgæfum sjúkdómum. Ef sjúkdómurinn er svo sjaldgæfur að ekki er hægt að græða á honum eða hann herjar á fátækt fólk, þá hætta lyfjafyrirtækin einfaldlega oft að framleiða lyfin.

Lítum á hvernig t.d. lyfjafyrirtækið Ovation Pharmaceuticals hegðar sér. Fyrir skömmu keypti það tvö lyf af risafyrirtækinu Merck—Mustargen og Cosmegen—bæði krabbalyf sem eru frekar lítið notuð. Ovation gerði sér næst lítið fyrir og hækkaði Mustargen um nærri 1000% og Cosmegen enn meira. Fyrirtækið viðurkennir að Merck framleiðir enn bæði lyfin, þannig að það eina sem hefur breyst er álagningin. Raunverulega sérhæfir Ovation sig í okri af þessu tagi. Árið 2003 keypti það t.d. lyfið Panhematin af Abbott Laboratories og hækkaði skammtinn samstundis um lítil 826% úr $230 í 1900 dollara. http://www.nytimes.com/2006/03/12/business/12price.html

Blóðögðuveiki, malaría og höfgasótt eru algengir sjúkdómar í fátækum löndum. Þótt milljónir látist árlega úr þessum sjúkdómum þá hefur lyfjaiðnaðurinn ósköp lítinn áhuga á að finna upp ný meðul fyrir þennan markað. Milljörðum er hins vegar eytt í rannsóknir á pillum sem "lækna" getuleysi eða lækkar sýrumagn í meltingarvegi fólks sem þenur sig út á skyndibitastöðum. Stór hluti mannkyns sem býr við lakari kjör er bara látinn sigla sinn sjó og aðeins þeir sem geta staðið undir okrinu skipta máli.

En stundum þarf ekki einu sinni fátækt að flækja málið í þessum viðskiptum, því ef notendahópurinn er of lítill eða álagningin af einhverjum orsökum of lág, þá hætta lyfjafyrirtækin oft framleiðslunni. Vegna þess að það er ekki hægt að græða nóg á sumum pillum þá hefur verið umtalsverður skortur á mörgum lyfjum á undanförnum árum. Dæmi um þetta eru t.d. ákveðin deyfilyf, sterar fyrir börn sem fæðast fyrir tímann, mótefni (bæði gegn eitrun og ákveðnum meðulum sem eru tekin í of stórum skömmtum), síblæðislyf og ákveðin bóluefni sem sífellt eru á skornum skammti.

Auðveldasta leiðin til þess að selja fleiri pillur er þó að búa til nýja sjúkdóma eða breyta staðreyndum um hvað telst eðlilegt eða óeðlilegt í líkamanum, t.d. tölum um blóðfitumagn eða tíðni brjóstsviða. Þegar lyfjarisinn GlaxoSmithKline t.d. markaðsetti Paxil þá fékk fyrirtækið lyfjaeftirlitið til þess að samþykkja splunkunýjan sjúkdóm—félagslega kvíðaveilu (social anxiety disorder). Þetta var auðvitað frábær hugmynd vegna þess að allt venjulegt fólk finnur fyrir þessum kvíða öðru hvoru. Fyrirtækið útfærði þessa hugmynd enn frekar með loðnara hugtaki og kallaði veikina "almenna kvíðaveilu" (generalized anxiety disorder). Í bandarísku auglýsingaherferðinni fyrir Paxil voru væntanlegir "sjúklingar" fylltir kvíða með röð sjónvarpsauglýsinga sem sýndu tvíburaturnana á því augnabliki er þeir hrundu. Maðurinn sem stjórnaði þessari auglýsingaherferð fyrir GlaxoSmithKline, Barry Brand, sagði í viðtali við tímaritið Advertising Age:

"Draumur allra markaðsstjóra er að finna óskilgreindan eða óþekktan markað og byggja hann síðan upp. Það er einmitt það sem okkur tókst að gera við félagslegu kvíðaveiluna."

Lyf sem lækka kólesteról í blóðinu hafa reynst lyfjafyrirtækjunum ómetanleg gullnáma. Árið 2002 var Lipitor mest selda lyf heimsins og Zocor var í öðru sæti. Áður en þessi lyf komu á markaðinn þótti eðlilegt að hver desílítri blóðs innihéldi 280 milligrömm kólesteróls. Gleymum ekki að gullna reglan í lyfjaiðnaðinum er þessi: Sá sem á gullið ræður reglunum. Eðlilegt magn kólesteróls var brátt lækkað niður í 240 mg og í næstu umferð niður í 200 (sem getur orsakað kyndeyfð ásamt öðrum óþægindum). Tugmilljónir nýrra "sjúklinga" sáu dagsins ljós og ótaldir milljarðar komu í kassann.

Sennilega á það eftir að koma á daginn að hjartasjúkdómar hafa ósköp lítið með kólesteról að gera og það er verið að eltast við einkenni sem eiga sér dýpri rætur. Dr. Broda Barnes hitti líklega naglann á höfuðið í bók sinni, Solved: The Riddle of Heart Attacks, sem kom út 1976, en hann heldur því fram með góðum rökum að flest tilfelli hjartveiki byrji með óeðlilegri vanvirkni skjaldkirtils. Þetta var staðfest 1992 í víðtækri rannsókn (Physicians´ Health Study) sem sýndi að slímbjúgur í karlmönnum (orsakast af hægum skjaldkirtli) allt að því þrefaldaði tíðni hjartasjúkdóma. Oft má kenna skorti á járni og selen (selenium) um vanvirkni skjaldkirtils. Þegar búið er að koma skjalkirtlinum á rétt ról þá ber að forðast hertar olíur, gervifitu og allt sælgæti. Þetta eru úrlausnir sem kosta sama og ekki neitt, nokkuð sem lyfjaveldið kærir sig kollótt um að rannsaka. Bók doktors Barnes er gullnáma og enn fáanleg. http://www.amazon.com/gp/product/0913730270

Flestir halda að ný lyf hljóti að vera betri en eldri lyf, en þetta er mikill misskilningur og í vaxandi mæli ekki rétt vegna þess að lyfjaveldið hefur á síðustu 20 árum lagt undir sig svo til öll stig rannsókna og tilrauna. Það er t.d. alveg sama hvert litið er í Bandaríkjunum, allir eru á jötunni—vísindamenn háskóla, starfsmenn heilbrigðisráðuneytis og "óháðar" rannsóknastofur. Tölurnar eru sláandi. Aðstoðarforstjóri ríkisstofnunar, Laboratory of Immunology, var með $179.000 í tekjur árið 2003 en hafði þénað $1,4 milljónir á 11 árum sem ráðgjafi lyfjafyrirtækja og safnað hlutabréfagróða upp á $865.000. Tólf stærstu lyfjafyrirtæki heimsins eru meðal helstu stuðningsaðila virtasta læknaskóla heims, Harvard Medical School. Yfirmaður geðdeildar Brown University Medical School, samkvæmt Boston Globe (4. október 1999), tók inn hálfa milljón dollara 1998 fyrir ráðgjöf. Ekkert nema rándýr framleiðsla getur borgað fyrir þetta spillta kerfi.

Eins og áður hefur komið fram þá eru flest lyf á markaðinum "ég líka" meðul, þ.e. eftirhermur af öðrum lyfjum. Það er ákaflega sjaldgæft að þessi lyf séu borin saman með vísindalegum rannsóknum eða lækningarmáttur þeirra sé borin saman við eldri og ódýrari lyf. Í þau fáu skipti sem rannsóknir af þessu tagi fara fram þá kemur venjulega eitthvað alveg óvænt upp á yfirborðið. Þegar átta ára mjög nákvæm rannsókn var gerð á 42.000 manns sem tóku lyf við of háum blóðþrýstingi, þá kom í ljós að yfir 50 ára gamlar hræódýrar þvagörvandi töflur skiluðu bestum árangri og höfðu fæstar hliðarverkanir. Mörg nýrri og miklu dýrari blóðþrýstingslyf geta orsakað hjartveiki og eitt þeirra, Cardura (alpha-adrenergic blocker), var svo slæmt að það var tekið út úr rannsókninni í miðju kafi.

Sem sagt, hræódýrt lyf sem enginn hefur einkarétt á reyndist best, en tök lyfjaveldisins á markaðinum eru slík að hættulegri og miklu dýrari lyf ráða enn ferðinni. Þetta segir okkur að íslenska ríkið gæti sparað milljarða og bætt heilsu landsmanna með því einu að láta nefnd heiðarlegra lækna og lyfjafræðinga velja og hafna lyfjum með það í huga að velja það besta en ekki það dýrasta.