vald.org

Hengiflug

7. apríl 2006 | Jóhannes Björn

Hér eru skilaboð til þeirra sem braska með hlutabréf í kauphöllum heimsins: Sápukúlan sem sprakk árið 2000 var þanin út á traustari hagfræðiforsendum en sápukúlan sem við erum að horfa á þessa dagana. Á árunum fyrir 2000 var þenslan afsökuð með "nýju" tímabili hátækni—og það var dálítið til í þeirri fullyrðingu. Í dag hækkar verð hlutabréfa eingöngu vegna seðlaframleiðslu.

Við getum rakið það sem er að gerast í dag beint til ársins 1971 þegar svokallað Bretton Woods samkomulag var lagt á hilluna og gjaldmiðlar byrjuðu að fljóta 24 tíma á dag. Þetta nýja fyrirkomulag gerði bönkum og öðrum bröskurum kleift að þéna óhemju á því einu að flytja fjármagn á milli landa. Veltan á þessum markaði er komin yfir tvær billjónir dollara á sólarhring og mikið af því er svokölluð "carry-trade." Menn slá peninga þar sem vextir eru lágir og lána þá aftur þar sem vextir eru hærri. Svo einfalt er það. Þeir sem græða á þessum viðskiptum halda því auðvitað fram að þetta sé gott fyrir hagkerfið, skapi sveigjanleika og geri peninga notadrýgri, en röskunin sem þetta veldur vegur sennilega miklu þyngra. Það er nefnilega líka hægt að spila á þetta kerfi og kúga heilar þjóðir, eins og reyndar Íslendingar hafa mátt þola nýlega.

Nú er svo komið að kerfið er að sála sjálfu sér. Þúsundir svokallaðra áhættu- eða baktryggingasjóða (hedge funds) hafa sprottið upp og upphæðirnar sem þessir sjóðir (og gamla bankakerfið) senda um heiminn þveran og endilangan eru stjarnfræðilegar. Sérstaklega hefur gengið vel að moka peningum út úr Japan, sem er risastór markaður og uppspretta nærri því ókeypis peninga. Það er þessi fáránlega peningastefna og viðskiptahalli Bandaríkjanna sem hafa skapað sápukúlu á verðbréfamörkuðum heimsins og hækkað fasteignaverð í mörgum löndum. En, eins og venjulega þegar of margir ætla sér að græða á sama hlutnum, þá springur kerfið á endanum.

Svona hafa helstu hlutabréfamarkaðir heimsins staðið sig síðan 30. september 2002.

Þetta fyrirkomulag—"carry trade" og botnlaus viðskiptahalli—hefur orðið til þess að margir seðlabankar hafa misst tök á eigin seðlaútgáfu. Á síðasta 12 mánaða tímabili jókst t.d. peningamagn í umferð í Bandaríkjunum um 8,2% og um 8,3% á Evrópusvæðinu. Miðað við verðbólgu þá eru þetta algjörlega óverjandi tölur. Greiðsluhalli Bandaríkjanna við útlönd 2005 fór yfir $800 milljarða og stefnir í billjón (amerísk trilljón) 2006. Á sama tíma og þetta er að gerast hefur fasteignaverð víða í Bandaríkjunum hækkað um 100% á fimm árum. Það er ekkert á bak við þessa hækkun verðbréfa og fasteigna annað en seðlaprentun. Þetta línurit útskýrir allar nýlegar hækkanir á Bandaríkjamarkaði … já, allar hækkanir vegna þess að kaup flestra hefur verið að lækka.

Sápukúlur springa alltaf þegar tekjur einstaklinga hækka ekki í takt við verðmætin sem eru að hækka. Allir peningar í umferð eru skuldir vegna þess að bankakerfið er uppspretta allra peninga. Það kemur alltaf að skuldadögunum, en það gerist misjafnlega hratt og getur oft dregist ótrúlega lengi. En þróunin er alveg augljós. Þegar allar skuldir bandarískra heimila, lausar og fastar, eru lagðar saman þá eru þær yfir $9 billjónir. Á síðasta ári, sem dæmi, slógu heimilin um $700 milljarða út á húsin sín. Hitt er líka áhyggjuefni að fólk hefur á seinni árum verið að slá dýrari lán í vaxandi mæli, t.d. greiðslukortalán, og það hefur líka verið að slá fasteignalán sem eru ódýr í byrjun en hækka fljótlega upp í eðlilegar prósentur.

Þetta línurit sýnir hvernig dýrustu lánin hafa þróast, en vextir af greiðslukortum eru oft yfir 18%. Árið 1990 voru meðalgreiðslukortaskuldir heimila $2996, en árið 2003 var þessi tala komin í $9205.

Fólk er oft tælt til þess að taka fasteignalán með því að láta það borga sáralitla vexti í byrjun, venjulega eitt eða tvo ár, en síðan hækkar lánið upp í ríkjandi gangverð. Hjón sem í fyrra tóku $300.000 lán til 30 ára á 1,6% vöxtum hafa verið að borga mánaðargreiðslur sem hljóða upp á $1050. Núna er lánið hækkað upp í 6,5% og þá hækka mánaðargreiðslurnar upp í tæpa $1900. Þetta súlurit sýnir prósentutölu þeirra sem hafa tekið svona lán, en upphaflegu vextirnir (tálbeituvextir) hafa aldrei verið lægri en s.l. tvö ár.

Er kannski hægt að líta þannig á málið að hækkandi fasteignaverð geri fólki mögulegt að taka svona gífurleg lán? Ef við lítum á lántökur heimilanna og berum þær saman við þjóðartekjur þá kemur í ljós hve glannaleg þessi þróun er.

Samkvæmt tölum frá Economic Policy Institute (31/5/05) þá hafa tekjur bandarískra heimila (þeirra sem ekki eru á eftirlaunum) lækkað um 4,8% síðan árið 2000. Fólkið heldur ekki í við verðbólguna. Á sama tíma hefur fasteignaverðið víða tvöfaldast. Pólitíkusarnir tyggja stöðugt á að betri menntun geti snúið dæminu við og sé besta vopnið gegn hnattvæðingunni, en dálkahöfundurinn Michael Mandel afsannaði þessa þjóðsögu í Business Week 15. september 2005. Þegar hann rannsakaði málið og bar saman tekjur á milli áranna 2001 og 2005 þá kom í ljós að tölvufræðingar höfðu lækkað í kaupi um 12,7%, tölvuverkfræðingar fengu 12% lægra kaup og rafverkfræðingar voru 10,2% í mínus. Byrjunarlaun sálfræðinga lækkuðu um 9,3% og markaðstjóra um 6,5%.

Sennilega hrynja hlutabréf út um allan heim þegar nógu mörgum er orðið ljóst að eintóm froða getur ekki haldið fasteignamarkaðinum uppi. Þegar fasteignaverð staðnar eða lækkar þá hverfa $700 milljarðar úr umferð bara á Bandaríkjamarkaði og fólk verður að horfast í augu við lækkandi lífskjör. En auðvitað geta alls konar aðrir atburðir hleypt skriðunni af stað. Uppnám nálægt olíulindum eða óvænt risagjaldþrot, svo dæmi séu nefnd. Gull í $600 únsan er líka aðvörunarbjalla.

Það eru gömul sannindi á Wall Street að allir geta grætt peninga þegar markaðurinn rís, en aðeins sérfræðingar sópa inn auðæfum þegar botninn dettur úr honum. Eftirfarandi línurit gæti bent til þess að fólkið sé að eyða síðustu aurunum í kauphöllinni á meðan sérfræðingarnir búa sig undir uppskeruna. Græna strikið sýnir hvað tröllin eru að gera … bláa strikið sýnir sauðina á leið í sláturhúsið.