vald.org

Fjörefnalögreglan

30. apríl 2006 | Jóhannes Björn

Stóru lyfjafyrirtækin hafa lengi litið vítamínmarkaðinn hýru auga. Þau hafa ákveðið að leggja þennan markað undir sig með því að banna allt nema minnstu bætiefnaskammta og síðan neyða einstaklinga sem vilja stærri skammta til þess að kaupa þá gegn lyfseðli. Þetta er örugg leið til þess að innleiða óþarfa okur á þessari vörutegund og setja minni framleiðendur á hausinn.

Auðvitað segja lyfjafyrirtækin ekkert beint út um þessi mál, enda væri vonlaust að fá fólk sjálfviljugt til þess að banna eða stórhækka verð á náttúrulegum efnum sem hjálpa því og oft bjarga lífum. Lyfjafyrirtækin nota bakdyrnar og—eins og sífellt fleiri myrkramenn gera nú til dags—læða áformum sínum í gegnum stofnanir sem geta sagt ríkisstjórnum og þjóðþingum fyrir verkum. Í þessu tilfelli erum við að tala um Alþjóðaheilbrigðismálastofnunina (WHO), Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna (FAO) og World Trade Organization (WTO).

Sagan byrjaði árið 1963 þegar WHO og FAO stofnuðu nýja fastanefnd, Codex Alimentarius, sem fékk það hlutverk að staðla marga þætti matvælaframleiðslunnar. Það var allt gott og blessað, enda setur Codex oft þarflegar reglur, t.d. um auka- og litarefniefni í mat. Lyfjaiðnaðurinn sá þó snemma að hér var gagnlegt apparat á ferðinni og byrjaði skipulegt starf með það í huga að fjarstýra því sem mest. Áhlaupið á fjörefnamarkaðinn hófst síðan fyrir alvöru 1988. Möppudýrin eru þolinmóð og málinu var mjakað í gegnum kerfið skref fyrir skref í átta ár. En árið 1996 var loks haldinn fundur í Þýskalandi þar sem alþjóðlegar leiðbeiningar um sölu bætiefna voru samþykktar og grunnstarfinu lauk 1998 með "grænni skýrslu" (EEC6565), en þar var því hátíðlega lýst yfir að öll náttúruefni sem hafa áhrif á líkamsstarfsemina skyldu flokkuð sem lyf og seld sem slík.

Hér höfum við frábært dæmi um hvernig apparat með botnlaus peningaráð getur beitt þrýstingi á stofnanir sem fræðilega starfa á vegum fólksins—og hvernig læðst er að okkur öllum í gegnum bakdyrnar. Fulltrúar lyfjarisans hafa ekki beinan atkvæðisrétt á hjá Codex, en þeir sækja þessa fundi stíft, gefa svokallað sérfræðiálit og borga fyrir rannsóknir sem leiða hið "rétta" í ljós. Helstu boðorð grænu skýrslunnar eru þessi:

Í upphafi voru reglugerðir Codex aðeins ráðleggingar sem einstök ríki gátu samþykkt eða hafnað. En þetta breyttist allt með tilkomu WTO og nú er hægt að krefjast þess að allir hlýði. Það starf er byrjað og endar ekki fyrr en öll aðildarríkin segja já og amen. Fjörefnalögreglunni hefur gengið einna best í Kanada og Noregi, en krukka af Tryptófani (amínósýra) sem áður kostaði $14 í Kanada út úr heilsubúð kostar núna allt að $200. Maður getur vel skilið að lyfjafyrirtækin leggi töluvert á sig til þess að ná undir sig nýjum markaði þar sem líka er hægt er að hækka vöruna um 1400%.

Codex er á algjörum villigötum og spurningin er aðeins hvort það stafar af óvitaskap eða hreinni græðgi. Reglur Codex eru heilsuspillandi. Tökum C-vítamín sem dæmi. Fyrir utan líkama mannskepnunnar, þá eru aðeins vitað um þrjár dýrategundir sem ekki framleiða sitt eigið C-vítamín, en það eru górillur, naggrísir og ein tegund leðurblöku. Þegar C-vítamíni er haldið frá naggrís þá deyr hann á aðeins nokkrum vikum. Þegar hann fær C-vítamín í sömu skömmtum (miðað við líkamsþyngd) og Codex ráðleggur fólki, þá lifir hann áfram en byrjar að þjást af fituhrörnun (fitulag myndast innan veggja stórra og meðalstórra slagæða). Þegar magnið er aukið upp í það sem naggrísinn venjulega borðar af C-vítamíni í gegnum fæðuna í náttúrunni, þá hverfur fituhrörnun og hjartveiki algjörlega. Fólk fær hlutfallslega miklu minna C-vítamín úr fæðunni en naggrís. Svipaðar niðurstöður um samspil C-vítamíns og hjartasjúkdóma hafa komið út úr fjölda rannsókna [t.d. rannsókn tveggja frægra lækna, Linus Pauling og Matthias Rath sem birtist í Journal of Orthomolecular Medicine, 6:125, 1990].

British Medical Journal greindi frá því 1997 að karlmenn sem fá of lítið af C-vítamíni séu 350% líklegri til þess að fá hjartaslag en karlmenn sem fá nóg af því. Önnur rannsókn í Bandaríkjunum sem spannaði 10 ár og 11.000 manns tóku þátt í sýndi að C-vítamín fækkar hjartasjúkdómum um helming og lengir líf fólks um meira en sex ár. Það virðist augljóst að mannslíkaminn þarf a.m.k. 500 mg C-vítamíns á dag.

Ein merkilegasta sönnun allra tíma á samspili hjartveiki og C-vítamíns kom árið 1970 þegar snillingurinn Linus Pauling, sem fékk Nóbelsverðlaunin tvisvar, gaf út bók í Bandaríkjunum um þessi efni, Vitamin C and the Common Cold (endurprentuð 1995) http://www.amazon.com/gp/product/1568496699/qid=1146323856/sr=1-3/ref=sr_1_3/103-4758580-2120635?s=books&v=glance&n=283155. Þetta var metsölubók sem seldist í milljónum eintaka og C-vítamín komst skyndilega í tísku. Neysla landsmanna—og þetta gerðist aðeins í Bandaríkjunum—stökk upp um 300%. Þetta súlurit sýnir afleiðingarnar og þetta var þróun sem aðeins átti sér stað í þessu eina landi þar sem neysla á C-vítamíni hafði tímabundið aukist um 300%.

Á þessu sama tímabili breyttist tíðni hjarasjúkdóma ekki neitt í öðrum löndum þannig að staðreyndir málsins virðast vera frekar einfaldar.

Það væri efni í margar bækur að skrifa um lækningamátt annarra vítamína og náttúrulegra efna. E-vítamín gerir undur fyrir blóðrásina og hjartað. Rannsóknir hafa hvað eftir annað sýnt að seleníum (selen) dregur ótrúlega úr krabbameinstíðni og ef lyfjaveldið framleiddi svipað efni og seldi á okurverði þá væri stanslaust verið að tala um það í fjölmiðlum.

En það væri ósanngjarnt að halda því fram að lyfjafyrirtækin séu að rústa heilsumarkaðinum beinlínis til þess að gera fólk veikara. Það er miklu skynsamlegra að líta á þetta sem ógnvekjandi gróðamaskínu sem einbeitir sér aðallega að því sem gefur mest í aðra hönd. Niðurstöður jákvæðra rannsókna á ódýrum efnum sem enginn hefur einkarétt á drukkna í öllum hávaðanum sem lyfjafyrirtækin skapa með auglýsingastarfsemi sem kostar marga milljarða dollara á hverju ári. Það er kerfið sjálft sem er rotið. Fyrirbyggjandi lækningar eru bæði bestar og ódýrastar. Ef við látum lyfjaveldið líka sölsa þann þátt undir sig þá verður afleitt ástand í dag miklu verra í framtíðinni.