vald.org

Fjörefnalögreglan … framhald

7. júní 2006 | Jóhannes Björn

Þegar lyfjaveldið leggur undir sig fjörefnamarkaðinn þá verður það auglýst sem góðverk. Greinar um hættulega stóra vítamínskammta birtast þá í völdum ritum og sögur um vafasöm grös fylgja með. Það er rétt að risaskammtar af fituleysanlegum fjörefnum geta verið hættulegir og sum grös mættu hverfa af markaðinum, en þetta eru smámunir miðað við allt það böl sem dynur yfir milljónir einstaklinga og má rekja beint til vafasamra vinnubragða margra lyfjafyrirtækja.

Oft þegar arðsöm lyf hafa verið á markaði í nokkurn tíma þá koma ófyrirsjáanlegar aukaverkanir í ljós. Hvað eftir annað þá hafa lyfjafyrirtækin verið ásökuð um að halda þessum upplýsingum leyndum og þannig teflt heilsu fólks í tvísýnu. Það munar um hvern dag sem hægt er að selja lyfin. Nýleg dæmi um þetta eru Vioxx, sem talið er orsaka hjartaslag, og Paxil, sem fær börn og unglinga til að hugleiða sjálfsmorð eða hegða sér á þeim nótum. Bandaríska lyfjaeftirlitið hefur verið harðlega gagnrýnt fyrir að draga lappirnar í sambandi við að banna þessi lyf.

Á seinni árum hefur ný hrollvekja verið að þróast í fátækustu ríkjum heims og henni er lýst út í hörgul í splunkunýrri bók eftir Sonia Shah, The Body Hunters: How the Drug Industry Tests Its Products on the World´s Poorest Patients. Hér sjáum við hnattvæðinguna í allri sinni dýrð. Lyfjaveldið fær hræódýrt tilraunafóður, fátækt fólk, sem skilur ekki almennilega hvað er að gerast. Fyrir utan sparnað þá gefur lélegt eftirlit stjórnvalda í þessum löndum fyrirtækjunum ómetanlegt svigrúm til að "rýmka" reglurnar, en helsti kosturinn er þó kannski nokkuð sem menn er stunda lyfjarannsóknir kunna vel að meta—há dánartíðni. Bláfátæk fólk sem tekur gervilyf fær enga alvöru hjálp og deyr því oft hratt, en það gerir samanburð við tilraunalyfin einfaldari. Og ef tilraunalyf drepa fólk þá er ekki eins og fjölskyldur fátæklinga á þessum svæðum geti leitað til lögfræðinga. Forstjórar lyfjafyrirtækjanna ættu að hugleiða hvort þessi starfsemi flokkast undir glæpi gegn mannkyni … og refsingin verði einn góðan veðurdag samkvæmt því.

Óheiðarleikin nær til flestra þátta lyfjabransans. Þegar lyfjafyrirtækið Pharmacia (seinna keypt af Pfizer) rannsakaði nýja gigtartöflu, Celebrex, þá sýndu niðurstöður að fólk sem notaði lyfið í 12 mánuði uppskar svipaðar aukaverkanir og hópar sem tóku gömlu verkjatöflurnar. En vegna þess að Celebrex hafði færri aukaverkanir eftir sex mánuði þá faldi fyrirtækið einfaldlega seinni hluta rannsóknarinnar og birti stórfrétt um færri aukaverkanir í bandaríska læknablaðinu, The Journal of the American Medical Association. Þetta var sérstaklega lágkúrulegt í ljósi þess að gigtarsjúklingar taka verkjatöflur árum eða áratugum saman og árangur sex mánaða skipti því engu máli. Málið snérist aðeins um að plata fólk til þess að kaupa miklu dýrara verkjalyf.

Almenningur á Íslandi og víðar heldur að Prozac og svipuð lyf séu svo gagnleg að það borgi sig að taka þau þrátt fyrir gífurlegar aukaverkanir. Margir sérfræðingar halda því líka fram að þessi tegund lyfja sé börnum stórskaðleg. Bandaríska lyfjaeftirlitið hefur rannsakað öll þessi lyf með því að gefa ákveðnum hópum alvörutöflur og öðrum plattöflur. Árangur þessara rannsókna var síðan læstur inn í skáp og það tók óháða aðila dómsúrskurð til þess að fá að skoða plöggin. Bandaríska lyfjaeftirlitið er nefnilega lítið annað en armur lyfjaveldisins, enda ganga starfsmenn eftirlitsins oftar en ekki beint inn í betur launaðar stöður hjá lyfjafyrirtækjunum þegar þeir hætta að vera ríkisstarfsmenn. Þessar rannsóknir, sem fóru fram á milli 1987 og 1999, sýndu vægast sagt ótrúlega hluti. Þegar sex vinsælustu geðlyfin—Prozac, Paxil, Zoloft, Celexa, Serzone og Effexor (takið eftir að það er x eða z í öllum nöfnunum)—kepptu við sykurtöflur þá skiluðu plattöflurnar 80% árangri miðað við lyfin. Á þunglyndisskalanum (Hamilton Depression Scale), sem hefur 62 þrep, þá var munurinn ekki nema tvö þrep, en það er læknisfræðilega of lítill munur til þess að skipta máli. Lyfjaveldið eyðir billjónum í að auglýsa þessi þunglyndislyf og það er því ekki skrýtið að fólk gerir sér ekki grein fyrir að þessi lyf eru gagnlaus og rannsóknir hafa sýnt að fita úr fiski sem inniheldur omega 3 vinnur miklu betur gegn þunglyndi.

Lyfjafyrirtækin stunda falda auglýsingastarfsemi í vaxandi mæli. Við sáum eitt dæmi um þetta þegar leikkonan Lauren Bacall mætti í viðtal hjá NBC sjónvarpsstöðinni. Milljónir horfðu á leikkonuna baða út öllum öngum þegar hún læddi því inn í viðtalið að vinur hennar hefði augnsjúkdóm sem væri hægt að lækna með Visudyne, en hún gleymdi að segja áhorfendum að lyfjafyrirtækið Novartis borgaði henni beinharða peninga fyrir að koma þessum skilaboðum á framfæri.

Besta aðferðin til þess að selja lyf er auðvitað að sú að ganga í eina sæng með læknum. Í Bandaríkjunum standa málin þannig að yfir 60% framhaldsnáms lækna er fjármagnað af lyfjafyrirtækjunum. Það er ekki erfitt að giska á hvers konar meðferð þessir læknar ráðleggja. Oft fer þetta "nám" fram á sólarströndum eða á skíðahótelum og á rándýrum stöðum. Á Bandaríkjamarkaði einum saman halda lyfjafyrirtækin yfir 300.000 ókeypis námskeið á ári fyrir lækna og aðra í heilsugeiranum, en um fjórðungur þeirra flokkast undir framhaldsnám.

Það er gullna reglan sem ræður: Sá sem á gullið ræður ferðinni. Er þetta fólkið sem á að "bjarga" heilsu okkar með einokun og okri á vítamínum?