vald.org

Hengiflug … framhald

14. júní 2006 | Jóhannes Björn

Þann 7. apríl veifaði þessi síða rauðu flaggi og varaði við væntanlegu hruni á verðbréfamörkuðum heimsins. Þetta var hjáróma kall því flestir hagfræðingar voru að spá hækkandi mörkuðum og t.d. Dow Jones var alveg við það að svífa hærra en nokkru sinni fyrr. En 10. maí byrjaði raunvaxtaskjálfti að hrista markaðina og hlutabréf hafa síðan verið að lækka. Svona lítur þetta út þar sem lækkunin hefur orðið mest.

Ástæðan fyrir þessu hruni er mest og best hræðsla við hækkandi vexti. Eins og bent var á í fyrri grein þá hafa seðlabankar heimsins misst tök á sinni eigin seðlaprentun vegna þess að tiltölulega lítil klíka banka og áhættufyrirtækja hefur leikið það að moka ódýrum peningum út úr einu landi til þess að fjárfesta á svæðum þar sem kapítalið er dýrara. Nú hafa seðlabankarnir ákveðið—eða neyðst til vegna vaxandi verðbólgu—að ryksuga eitthvað af þessu pappírsrusli út úr kerfinu og afleiðingarnar láta ekki á sér standa. Meira að segja góðmálmar hafa lent illa út úr þessu, sennilega vegna þess að áhættusjóðir hafa neyðst til þess að selja til að geta mætt öðrum skuldbindingum, en gullið á mjög líklega eftir að ná sér vel á strik eftir stuttan tíma.

Ef sagan kennir okkur eitthvað þá eiga markaðirnir eftir að ná sér eitthvað á strik (ganga í svokallaða bjarnargildru) á næstunni, en næsta áfall kemur þegar menn átta sig á að bandarískir neytendur verða að draga saman seglin á miklu stórtækari máta en flesta grunar. Sparnaður á þeim bæ er kominn niður fyrir núllið og hefur haldið því striki um nokkuð skeið. Það þarf enga kristalkúlu til þess að sjá hvað neytandinn gerir næst, því þetta línurit segir okkur allt.

Háskóli Michigan hefur í langan tíma kannað væntingar fólks um öll Bandaríkin í sambandi við fasteignamarkaðinn. Þetta línurit sýnir stöðuna á fyrsta ársfjórðungi áranna á milli 1988 og 2006. Ljósari línan sýnir væntingar fólks og þær hafa rokkað á milli 87 og 53 (vinstri skalinn). Dökkbláa línan sýnir hagvöxt. Það er alveg ljóst að góð skilyrði á fasteignamarkaði endurspegla góða tíma, sem síðan koma fram í tölum um almennan hagvöxt. Nú er svo komið að væntingar á fasteignamarkaði hafa ekki verið lægri síðan 1991—árið sem gamli Bush tapaði forsetaembættinu vegna óánægju fólks með efnahagslífið—og þessi órói á örugglega eftir að draga úr neyslu á næstunni og lækka hagvöxt. En ástandið er miklu alvarlegra í dag heldur en það var t.d. 1991 vegna þess að þegar á heildina er litið þá hefur hækkandi fasteignaverð haldið neyslunni gangandi í nokkur ár. Þetta súlurit sýnir hlutfall fasteigna í verðmætasköpun heimilanna.

Og hugleiðið þetta: Þegar meðaltal áranna 1952 til 2005 er reiknað þá kemur í ljós að hlutfall fasteigna í verðmætasköpuninni er ekki nema 19,9%. Þetta er sápukúla af hættulegustu gerð … trúðaleikur á hengiflugi.