vald.org

Vangaveltur

18. júlí 2006 | Jóhannes Björn

Það eru rösk tvö ár síðan Vald.org hóf göngu sína og kannski kominn tími til að fara yfir um hvað hefur verið fjallað á síðunni og líka hverju hefur verið sleppt. Það eru aðalega tvær ástæður fyrir því af hverju ég byrjaði með þessa síðu. Bókin Falið vald hefur verið ófáanleg í yfir 20 ár og hagkerfi jarðarinnar hefur þróast nákvæmlega eins og bókin spáði. Helsta hlutverk þessarar síðu er að vara við afleiðingunum.

Hnattvæðing hagkerfisins er eðlilegur hlutur, en það er ekkert eðlilegt við hvernig þessi þróun hefur farið fram. Örlítil klíka baktjaldamanna hefur að mestu leyti ráðið ferðinni og grætt stjarnfræðilegar upphæðir á meðan gengið er á lífkjör vinnandi fólks á Vesturlöndum. Græðgin er svo mikil að heilu atvinnugreinarnar eru fluttar til landa þar sem framleiðslukostnaði er haldið niðri með þrældómi og taumlausri mengun umhverfisins. Ruglið er svo yfirþyrmandi að Kína eitt ógnar orðið vistkerfi jarðarinnar. Indland fylgir fast á eftir og á eftir að reisa fleiri kolaorkuver en Kínverjar fyrir 2030.

Kínverskar verksmiðjur spúa um 6 milljón tonnum af brennisteinsgufum út í loftið árlega, en það orsakar 400.000 ótímabær dauðsföll á hverju ári í landinu. Súrt regn fellur líka á Japan og síur á vesturströnd Bandaríkjanna fyllast af sóti. Staðir sem liggja hátt eru í mestri hættu. Lake Tahoe, staðsett í fjalllendi austarlega í Kaliforníu, er einn fallegasti staður heimsins. Fólkið sem þar býr getur keypt ódýrar kínverskar vörur, en það getur líka fengið lungnasjúkdóma þegar það andar að sér eitrinu sem kínverskar kolaverksmiðjur senda kringum hnöttinn.

Hnattvæðingin er leikur sem örfáir aðilar á Vesturlöndum græða á. Þrátt fyrir stórbætta tækni þá fara lífskjör flestra versnandi. Nú er talað um að stytta fríin, hækka eftirlaunaaldurinn og draga úr félagslegi þjónustu. Maður sem vann á bensínstöð í Reykjavík, Gautaborg eða Hamborg fyrir 40 árum gat séð heilli fjölskyldu farboða, en í dag getur hann varla borgað leigu af þriggja herbergja íbúð. Betri menntun hefur sífellt minna að segja því ótrúlegustu störf eru á leið til láglaunasvæða, t.d. gerð skattskýrslna, bókhaldsvinna, verkfræðivinna, líftæknirannsóknir og lestur röntgenmynda.

Hnattvæðingin er komin lengst í Bandaríkjunum og millistéttin þar er u.þ b. að taka afdrifaríkt skref niður á við. Fyrsta greinin á Vald.org var einmitt um stöðu dollarans og hvernig launabaráttan í því ágæta landi tengist málinu. Í stuttu máli þá hefur staða vinnandi fólks sífellt verið að veikjast og fyrirtækin taka til sín stærra hlutfall alls gróða sem skapast í hagkerfinu. Síðan greinin var skrifuð hefur ástandið versnað, en sápukúla á fasteignamarkaði hefur falið vandann. Fólk hefur slegið gífurlegar upphæðir út á hækkandi húsnæðisverð (allt að $700 milljarða á ári) og þannig getað haldið neyslunni gangandi. En núna er hinn "fullkomni stormur" að ganga yfir. Verð á mikilvægustu fasteignamörkuðum stendur í stað eða fer lækkandi—bráðum hríðlækkandi. Sveigjanleg lán (fasteignalán sem byrja á ótrúlega lágum vöxtum) upp á tvær billjónir dollara fara upp í eðlilega vexti á þessu og næsta ári. Laun halda ekki í við verðbólgu og þegar hækkandi greiðslur til trygginga eru reiknaðar með þá hafa laun 85% þjóðarinnar verið að lækka verulega. Allt orkuverð hefur hækkað mikið, sem hefur gífurleg áhrif í landi sem telur 5% jarðarbúa en eyðir 25% orkunnar. Vextir fara hækkandi og greiðsluhallinn við útlönd er slíkur að landið verður að hala inn tvo til þrjá milljarða dollara á dag frá viðskiptavinum sínum. Ofan á þetta bærist bullandi halli ríkissjóðs, sem er skelfileg staðreynd í ljósi þess að efnahagslægð er á næstu grösum, og vegna þess að tímabundinn hallarekstur ríkisins hefur alltaf verið besta ráðið til þess að klóra sig út úr efnahagskreppu. Allar þessar staðreyndir benda til þess að á næstu 18 mánuðum eða svo verði fleiri nauðungaruppboð á íbúðarhúsnæði en bandaríska þjóðin hefur séð í yfir 70 ár og neysla dragist varanlega saman hjá 85% þjóðarinnar.

Þetta graf sýnir hvar mest var tekið af tálbeitulánum 2003, fasteignalán sem byrja með litlum útborgunum en eru að stórhækka þessa dagana.

Vald.org hefur fengið ágætis undirtektir og síðan er að jafnaði lesin af Íslendingum í yfir 30 löndum. Nýlega barst eftirfarandi bréf.

Ég vill byrja á því að þakka þér fyrir góða síðu, hef fylgst með henni núna í einhver ár. Þú virðist vera frekar sannspár og ég held að ein ástæðan sé að þú sért ekki óþarflega bjartsýnn eins og flestir aðrir.

Þess vegna varst þú sá eini sem mér datt í hug að hafa samband við út af eftirfarandi pælingum. Nú virðist ófriður í heiminum bara vera að aukast og til eru menn sem vilja meina að í raun sé heimsstyrjöld sé hafin og það byggist á því að 4–5 lönd standi að sama stríði í nokkrum löndum. Þar í ofaná lag eru nú blessaðir Ísraelarnir farnir inn í Líbanon og nánast búnir að lýsa yfir stríði, Mið-Austurlönd voru nú ekki friðvænleg fyrir, með Bandaríkjamenn og þeirra bandamenn í Írak, kjarnorkudeiluna í Íran og eflaust miklu fleira. Í austurlöndum fjær eru svo Indland og Pakistan sem hafa eldað grátt saman lengi og ekki hefur það skánað eftir hryðjuverkin í vikunni. Svo er það náttúrulega N-Kórea.

En þá komum við að spurningunni, ef spennan sem ríkir breytist í enn fleiri stríð, jafnvel einhverskonar heimsstyrjöld. Hvaða áhrif heldur þú að það hafi efnahagslega á Ísland, verðbólgu, gengi, fasteignaverð, hlutabréf og vaxtastig?

Heldurðu að gull verð eigi eftir að halda áfarm að hækka?

Ef við byrjum á þessu með bjartsýnina, þá vil ég benda á að "sérfræðingar" sem koma fram í sjónvarpsviðtölum eru í langflestum tilfellum sölumenn. Þeir eru að reyna að fá fólk til þess að kaupa pappíra sem þeir eða fyrirtækin sem þeir vinna hjá hafa þegar keypt. Eða þá að þeir eru talsmenn fyrirtækja sem græða sölulaun þegar hlutabréf eru keypt. Í um 99% tilfella eru þetta loddarar og þeir eru meðvitaðir um það. Ég reyni að halda mig við grundvallarstaðreyndir og er algjörlega ópólitískur til hægri eða vinstri.

Lesandi spyr um Ísland. Í þessum jarðneska táradali er Ísland í alveg sérstakri aðstöðu. Tiltölulega fátt vel menntað fólk með sæmilega samfélagsvitund sem situr á gífurlegri orku og frábærum fiski getur ekki annað en blómstrað … nema orkan sé allt að því gefin eiturspúandi álverum. Það er kominn tími til þess að framleiða allt eldsneyti á bíla og báta innanlands. Ef það er gert þá getur svo til ekkert haggað íslenska hagkerfinu.

Ég tel gull vera góða fjárfestingu. Hækkandi vextir út um allan heim vinna gegn gulli, en á móti kemur að seðlabankar margra ríkja eru byrjaðir að fjarlægast dollarann og gull er eitt af því sem þeir kaupa (sjá t.d. hvað Kína er að gera http://www.fin24.co.za/articles/companies/display_article.aspx?ArticleID=1518-1783_1958691) Seðlabankar Bandaríkjanna, Englands og Þýskalands halda þó sínu striki og reyna að halda gullverðinu niðri (hér er góð grein um nýlega "leiðréttingu" á gullverði http://www.stevequayle.com/News.alert/06_Money/060619.Dan.Norcini.html). En það er þungur róður og ástæðan er augljós og sést á þessu línuriti.

Eftir að dollarinn var tekinn úr sambandi við gull 1971 þá skiptu prentvélar seðlabankans um gír og byrjuðu að framleiða dollara með vaxandi hraða. Eins og útskýrt er í áttunda kafla Falið vald þá eru allir peningar settir í umferð í formi nýrra lána sem bera vexti. Til þess að gera fólki kleift að borga til baka verður seðlabankinn stöðugt að prenta meiri peninga. Gullpeningur sem var sleginn í Konstantínópel hélt verðgildi sínu í 800 ár, en pappírspeningar nútímans eiga meira sameiginlegt með heróínneytenda sem stöðugt þarf stærri skammta til þess að halda sér eðlilegum. Það er alls ekki útilokað að dollarinn hrynji og verð á gulli margfaldist. Þótt bandaríski seðlabankinn sé að hækka vexti—og ástæðan sem er gefin er barátta við verðbólguna—þá heldur hann áfram að auka peningamagn í umferð eftir öðrum leiðum. Græna strikið sýnir þróunina.

Er heimsstyrjöld hafin, spyr lesandi? Ef það er rétt þá heitir sá bardagi olíuheimsstyrjöld.

En tökum hér eitt hliðarskerf og lítum á hvað gerðist 11. september 2001. Þetta er viðfangsefni sem ég hef ekki treyst mér til þess að skrifa um, en margar bækur fullyrða að eitt mesta samsæri sögunnar hafi átt sér stað þennan dag og Netið er stútfullt af bollaleggingum af sama toga. Malefnin.com er t.d. með mikið efni um þetta. Í stuttu máli þá er "sannleikurinn" svona: Mörgum árum áður en turnarnir í New York hrundu var sérfræðingum leyniþjónustunnar ljóst að meiri háttar olíukreppa var í uppsiglingu. Þegar horft var 10–15 ár fram í tímann þá blasti í fyrsta skipti í sögunni við skortur á olíu og verðið átti eftir að margfaldast. Það var því barátta upp á líf eða dauða fyrir stórveldið að leggja undir sig olíulindir fyrir botni Miðjarðarhafs, annað hvort beint eða óbeint. Áætlunin gerði líka ráð fyrir stórauknu eftirliti heima fyrir. Pólitískar staðreyndir flæktu þó málið og það var ljóst að eitthvað "stórt" yrði að gerast til þess að réttlæta víðtækar hernaðaraðgerðir. Menn eru ekki á sama máli um hvað gerist næst. (1) Hópur múslima lagði á ráðin um að ræna flugvélum og fljúga þeim inn í byggingar, en ákveðnir aðilar innan leyniþjónustunnar fylgdust með þeim og hjálpuðu þeim óbeint að framkvæma voðaverkið. Eða (2) öll uppákoman var skipulögð af hópi manna samkvæmt óskum forseta og varaforseta. Fjarstýrðar flugvélar hersins flugu inn í tvíburaturnana og flugskeyti, ekki flugvél, lenti á stjórnstöð hersins (Pentagon). Sprengjuefni var líka notað til þess að fella þrjá skýjakljúfa í New York.

Það er ákaflega erfitt að trúa því að slík mannvonska sé til og í fljótu bragði þá virðast allt of margir einstaklingar koma hér við sögu. Það er varla hægt að ímynda sér að það væri hægt að halda slíku samsæri leyndu. En hitt er líka rétt að opinber útgáfa á árásinni á stjórnstöð hersins er mjög dularfull. Það hljóta að vera til margar myndir af vélinni sem flaug á bygginguna en engin hefur verið birt. Gatið sem kom á bygginguna er allt of lítið, nema vængirnir hafi klippts af flugvélinni, en ekkert brak er sjáanlegt fyrir utan. Og þá er það aðflugið. Tveir atvinnuflugmenn hafa tjáð mér að það sé algjörlega útilokað að einhver viðvaningur hafi setið við stýrið og hvorugur sagðist treysta sér til þess að leika þetta eftir. Ég talaði við þessa menn fyrir um 18 mánuðum, en fyrir nokkru barst eftirfarandi tölvupóstur til Vald.org.

Sæll Jóhannes Björn.

Ég geri ráð fyrir því að þú hafir séð myndbönd þau sem Pentagon gerði opinber nú í dag eða gær og sýna þegar meint farþegaþota flýgur inn í Pentagon bygginguna.

Ég hef hingað til lítið velt mér upp úr kenningum þess efnis að það hafi ekki verið flugvél heldur flugskeyti. Eftir að hafa séð þessar myndbandsupptökur þá er ég hinsvegar (meðan augun í mér senda heilanum ekki fölsk skilaboð), sannfærður um að það hafi ekki verið flugvél sem lenti á byggingunni.

Ég er starfandi atvinnuflugmaður og sem slíkur, þá veit ég eitt og annað um hegðun flugvéla, hvernig þeim er stjórnað og hvað þær geta. Einnig er ég nokkuð vel að mér í því hvað menn geta á annað borð gert í slíkum vélum.

1. Á myndbandi 2 sést einhver torkennilegur hlutur koma á ofsahraða í sirka 2–5 metra hæð yfir jörðu og lenda í byggingunni. Hluturinn kemur lárétt að henni með engu horni miðað við jörðu.

2. Aftan úr hlutnum kemur þykkur hvítur reykur.

Í fyrsta lagi: Væri þetta flugvél sem stýrt er af mönnum, þá væri fyrir mjög reynda flugmenn ákaflega erfitt að finna og greina lágreista byggingu, þó stór sé inni í miðri stórborg úr flugvél sem hefur farflugshraða um 450 sjómílur á klukkustund (830km/klst) og gefur eingöngu útsýni fram á við og örlítið til hliðanna. Til þess að finna slíka byggingu þyrfti nánast að gera það á GPS, með því að vera fyrirfram búinn að finna punktinn og setja hann handvirkt inn í Flight Management System vélarinnar.

Í öðru lagi: Ef þetta væri flugvél sem stýrt er af mönnum, þá er ógerlegt að koma lárétt inn rétt yfir grastoppunum eins og þessi hlutur gerir þarna. Til þess þyrfti að vera að lágmarki um tveggja til þriggja kílómetra slétt og opið land fyrir framan bygginguna til þess að hægt væri að lækka sig niður í slíka hæð án þess að það endaði með ósköpum löngu áður en vélin kæmist að byggingunni. Fallhraða flugvéla af þessari stærð er mjög erfitt fyrir mannsaugað að greina með slíkri nákvæmni að menn geti stöðvað lækkunina á einhverju frímerki, en samt í nánast engri hæð á slíkum ofsahraða. Menn þurfa töluverða reynslu á svona vélar til þess að gera sér grein fyrir því í hvaða hæð flugstjórnarklefinn er þegar botn vélarinnar er við það að snerta jörðina.

Ef við ímyndum okkur að þetta væri hægt, (það er séns að allra færustu menn gætu þetta eftir að hafa margæft sig í flughermi, þó að ég telji það samt frekar ólíklegt) til hvers? Þetta er algjörlega tilgangslaus og fráleit aðferð ef þú vilt ná árangri í því að eyðaleggja sem mest með farþegaflugvél. Maður sem hefði flogið vél á bygginguna hefði komið niður að henni í nokkuð kröppu horni til að ná sem mestri ferð og vera nánast öruggur um að hitta á bygginguna en ekki að enda í túninu fyrir framan hana. Svo er sú aðferð miklum mun auðveldari ef þú á annað borð finnur húsið sem þú vilt klessa á.

Í þriðja lagi, þá er þessi hlutur of lítill til þess að geta verið farþegaþota að mínu mati.

Í fjórða lagi, þá kemur ekki hvítur þykkur reykur aftan úr farþegaþotum fyrr en þær eru komnar í loft þar sem daggarmark er komið langt niður fyrir frostmark. Ástæðan er efna og veðurfræðileg. Til þess að útblástursgufur þotuhreyfils þéttist, þá þarf daggarmark að vera nógu lágt til þess að loftið í kringum hann beri ekki þann raka sem kemur út úr hreyflinum. Sú vatnsgufa sem kemur út úr þotuhreyfli er sá raki í loftinu sem fyrir var, plús allur sá raki sem er í steinolíunni sem brennt er á hverju augnabliki fyrir sig. (er eins og gefur að skilja fremur lítill.) Þess vegna sjáum við aðeins hvítan þykkan reyk leggja frá farþegaþotum í mikilli hæð þar sem hitastigið er komið niður í –30 gráður á celsius eða minna.

Kveðja (nafni sleppt að ósk bréfritara)

Allt þetta mál heldur áfram að vera ráðgáta þar til myndir af flugvélinni verða birtar.

Það eru margar blikur á lofti í heiminum í dag. Endalok olíualdar eru rétt handan við hornið og það er hætt við vaxandi hörku á svæðum þar sem svart gull er að finna. Spurningin er aðeins hvor nýtt tímabil nýlendustefnu sé að renna upp. Á lokamínútum kvikmyndarinnar Three Days of the Condor sem Sydney Pollack leikstýrði fyrir 30 árum segir starfsmaður leyniþjónustunnar eitthvað á þessa leið: "Einn góðan veðurdag verður olíuskortur og þá krefst fólkið þess að við náum í hana. Því er alveg sama hvernig við gerum það." Viturlega mælt.