vald.org

Draumalandið er meistaraverk!

9. ágúst 2006 | Jóhannes Björn

Meistaralega skrifuð bók er annað hvort ritverk sem ljómar af snilld eða það er verk sem verulega breytir hugsunarhætti lesandans um alla framtíð. Þetta eru tveir gjörólíkir hlutir. Bækur á borð við Heimsljós, Svartfugl og Fagra veröld eru vissulega snilldarverk, en þær kollvarpa ekki beinlínis heimsmynd eða hugsun lesandans. Því skal hér haldið fram að síðan 1924 hafi tvær íslenskar bækur beinlínis breytt því hvernig þjóðin hugsar og sú þriðja sé byrjuð á sömu braut.

Þórbergur Þórðarson er faðir íslenskra nútímabókmennta. Þegar Bréf til Láru kom út 1924 þá tók þjóðin andköf. Bókin átti sér enga hliðstæðu og hún byrjaði að lyfta af þjóðinni andlegum fjötrum íhaldsemi, afturhalds og svæsnustu sveitamennsku. Bréf til Láru ruddi líka veginn fyrir Laxness og veitti honum frelsi til þess að beita eitraðri kímnigáfu sinni strax í byrjun. Salka Valka og Sjálfstætt fólk eru meiri ritverk, en Bréf til Láru hafði miklu meiri áhrif á þjóðina.

Á milli 1924 og 1950 ríkti önnur gullöld íslenska bókmennta. Laxness og Gunnar Gunnarsson voru báðir í hópi bestu rithöfunda heimsins og margir minni spámenn voru mjög liðtækir. En það var erfitt fyrir nýja kynslóð sem kom inn á markaðinn eftir 1950 að standa í skugga Laxness og bókmenntir næstu ára einkenndust helst af því að menn voru of hástemmdir og tóku sjálfa sig allt of alvarlega. Það getur aldrei heppnast að vera "lítill Laxness".

Árið 1966 voru íslenskar skáldsögur lítið betri en þær voru 1923 … en þá féll næsta sprengja þegar Guðbergur Bergsson gaf út Tómas Jónsson, metsölubók. Hér var aftur komin bók sem var ólík öllum öðrum, textinn mjög vel skrifaður, minnti helst á tryllt villidýr sem á næsta augnabliki umhverfðist í malandi kött, formið var splunkunýtt og húmorinn eitraður. Tómas Jónsson galopnaði alla glugga og veitti fersku lofti inn í kúltúr bókmennta sem var að kafna úr formfestu og naflaskoðun. Guðbergur hafði ekki eins bein áhrif á þjóðina og Þórbergur hafði á sínum tíma, en seinni kynslóðir rithöfunda standa í mikilli þakkarskuld við hann.

Og þá er það Draumalandið sem Andri Snær Magnason sendi frá sér nýlega.

Pólitísk umræða á Íslandi hefur lengstum verið ákaflega frumstæð. Oftast er hún ekki málefnalegri en svo að menn eru dregnir í dilka og kallaðir nöfnum eins og "kommi" eða "græningi" eða eitthvað annað ámóta gáfulegt. Þegar búið er að merkja fólk á þennan hátt þá þarf ekki að svara því málefnalega. Það er t.d. nóg að segja: "Þið þessir græningjar eru á móti öllu" í staðinn fyrir að þurfa að útskýra flókin mál eins og t.d. orkusölu til erlendra aðila. Sennilega eru stjórnmálamenn upp til hópa ánægðir með þessa hefð hártoganna og þennan barnalega dilkadrátt. Pólitískt siðgæði er hin hlið peningsins og er á átakanlega skornum skammti. Stjórnvöld komast upp með að halda ótrúlegustu upplýsingum leyndum, t.d. á hvaða verði þjóðin er að selja orku.

Draumalandið lyftir pólitísku umræðunni upp á alveg nýtt og áður óþekkt plan hérlendis. Þetta er bók sem á eftir að hafa áhrif á hvernig ákvarðanir eru teknar um hluti sem varða framtíð þjóðarinnar. Andri Snær vegur og metur stöðuna af miklu meira innsæi en nokkur pólitíkus hefur hingað til gert og varpar nýju ljósi á nærri því allt sem hann fjallar um. Svona bók hefur aldrei áður verið skrifuð á íslensku. Eina erlenda bókin sem kemur upp í hugann sem skrifuð er í svipuðum stíl er Blink eftir Malcolm Gladwell. Það er alveg ópólitísk bók, en það er ekki ólíklegt að bæði Gladwell og Andri Snær hafi orðið fyrir áhrifum af Lao Tzu sem skrifaði Bókina um veginn.

Fyrir þúsund árum bjó bóndi ásamt fjölskyldu sinni á lítilli jörð í Kína. Einn góðan veðurdag slapp eini hesturinn á bænum og hvarf út í buskann. Þegar nágrannar hans heyrðu tíðindin komu þeir og vottuðu samúð sína. Bóndinn horfði undrandi á fólkið og spurði: "Hvernig vitið þið að þetta eru slæm tíðindi?"

Næsta dag skilaði hesturinn sér ekki aðeins heim heldur lokkaði með sér villtan hest. Nú komu nágrannarnir aftur og óskuðu honum til hamingju. Bóndinn horfði forviða á þá og spurði: "En hvernig vitið þið að þetta er gott?"

Nú liðu nokkrir dagar og sonur bóndans byrjaði að temja hestinn. Það fór illa því hann datt af baki og fótbrotnaði. Enn komu nágrannarnir til að votta samúð sína og aftur spurði bóndinn: "Já, en hvernig vitið þið að þetta er slæmt?"

Fólkið hristi hausinn og fór, en næsta dag kom stríðsherra í héraðið og smalaði saman öllum karlmönnum sem gátu barist.

Draumalandið sýnir okkur að hugurinn er oft eins og fljót sem rennur stöðugt í sama farveg—ekki endilega besta eða hagkvæmasta farveg sem völ er á—og stærsta vandamál okkar er að við höfum tilhneigingu til þess að festast í ákveðnu hugarmynstri sem stjórnar því er við sjáum eða gerir okkur staurblind. Þegar fólk sér eitthvað í alveg nýju ljósi þá upplifir það "hugljómun’, eins og austræn fræði mundu orða það. Draumalandið er ein allsherjar hugljómun og ef nógu margir lesa bókina breytist samfélagið til hins betra.