vald.org

Blikur á lofti

11. september 2006 | Jóhannes Björn

Hagkerfi sem byggir á seðlaprentun gengur í gegnum lægðir eða kreppur með vissu millibili. Það er einfaldlega lögmál. Nú styttist óðum í næstu efnahagslægð á Vesturlöndum eða jafnvel kreppu. Allt veltur á verðfalli fasteigna. Ef verðið staðnar í nokkur ár á meðan verðbólgan lækkar raunverð eignanna þá sleppum við með efnahagslægð. Ef verðið hrynur um tugir prósenta, sérstaklega á Bandaríkjamarkaði, þá er stórhætta á kreppu þar sem þjóðarframleiðslan dregst saman og atvinnuleysi eykst mikið.

Það eru nokkrar óheppilegar staðreyndir sem á síðustu árum hafa haldið hagvextinum uppi. Þetta eru óheppilegar staðreyndir vegna þess að við erum að tala um sjónhverfingar miklu frekar en heilbrigða uppbyggingu hagkerfisins. Hagfræðibækur framtíðarinnar eiga sennilega eftir að tala um síðasta áratug sem sápukúlutímabilið mikla.

Hlutirnir eru alltaf að endurtaka sig. Þegar tæknibólan hafði lyft hlutabréfamarkaðinum í vitskertar hæðir árið 2000 þá birtust virtir hagfræðingar í fjölmiðlum og spáðu miklu meiri hækkun. Þarna bar mikið á Abby Cohen hjá Golman Sachs og Arthur Laffer, en hann er höfundur hinnar frægu "Laffer curve". Margir hafa réttilega bent á að Laffer-boglínan er ekkert annað en vúdú- hagfræði sem talsmenn milljarðamæringa nota til þess að troða skattalækkunum í gegnum þjóðþingin. Nú eru bæði Abby Cohen og Laffer aftur að prédika betri tíð og hækkandi markaði. Það verður "mjúk lending" á fasteignamarkaði, segja þessar björtu perur, en á móti kemur vaxandi hagnaður fyrirtækja sem gera eittvað annað en að byggja hús eða selja.

Það þarf ekki að eyða löngum tíma í að skoða grundvallarstaðreyndir til þess að sjá að "mjúk lending" bandaríska hagkerfisins er óhugsandi nema eitthvað alveg sérstakt gerist, eitthvað á borð við yfirlýsingu um að ný óþrjótandi og ódýr orka sé að koma á markaðinn. Það er ólíkleg útkoma og kreppa á Bandaríkjamarkaði hefur keðjuverkanir út um allan heim.

Síðan 2001 hefur húsnæðisverð í Bandaríkjunum hækkað að meðaltali um 57% (mjög misjafnlega þó eftir stöðum). Hækkunin hefur verið fjármögnuð með greiðsluhalla ríkisins og braski áhættusjóða. Þegar viðskiptahallinn við útlönd er t.d. $600–800 milljarðar á ári, ár eftir ár, þá streyma þessar upphæðir jafnt og þétt úr landi. Útlendingar taka ekki mikið af beinhörðum peningum heldur kaupa alls konar skuldabréf, t.d. ríkisskuldabréf og skuldabréf sem stórfyrirtæki gefa út. Á seinni árum hafa fjárfestar utan Bandaríkjanna í vaxandi mæli verið að kaupa pappíra sem eru baktryggðir með bandarískum fasteignum. Áhættusjóðir braska sífellt meira með þessi bréf og þau hafa breytt markaðinum þannig að í nokkur ár hefur verið miklu auðveldara fyrir fólk að slá peninga út á híbýli sín eða fá ný lán til húsnæðiskaupa. En það er enginn "free lunch" í peningaheiminum og milljónir fasteignalána seinni ára eru flókin tálbeitulán (bera tombóluvexti til að byrja með). Vanskilin verða hrikaleg þegar upp er staðið, því þegar allt dæmið snýst við og uppboðin byrja fyrir alvöru þá heimtar markaðurinn enn hærri áhættuvexti fyrir þessa lánapakka.

Þegar talað eru um hundruð milljarða eða billjónir dollara þá fórnar flest fólk höndum. Það er erfitt fyrir mannshugann að grípa svona tölur. En við verðum að gera okkur einhverja grein fyrir þessum fúlgum til þess að skilja að þetta er ekki ástand sem getur endalaust haldið áfram. Greiðsluhalli Bandaríkjanna er á milli $700 og $800 milljarðar á þessu ári, en tölurnar hafa versnað á hverju ári síðan Bush tók við stjórnartaumunum http://www.americaneconomicalert.org/ticker_home.asp. Þessir peningar koma til baka og m.a. fjármagna feikilegan halla ríkissjóðs http://www.brillig.com/debt_clock/ og fasteignamarkaðinn. Það eru þessi flóknu fjármálaviðskipti sem að mörgu leyti fela fáránleika kerfisins. En lítum á hvað þessar tölur þýða. Tvö fylki í Bandaríkjunum, Iowa og Kansas, eru verðmætar matarkistur, en allt land í Iowa sem er nýtt til landbúnaðarframleiðslu er metið á $85,7 milljarða. Í Kansas er þessi tala $124,1 milljarður. Með öðrum orðum þá gætu útlendingarnir sem fjármagna greiðsluhalla Bandaríkjanna keypt allar jarðir í Iowa og Kansas á rétt rúmlega þrem mánuðum!

Flýtur á meðan ekki sekkur. Enginn sápukúlumarkaður getur endalaust þanist út, alveg sama hvernig keðjubréfin (ríkisskuldabréf og húsnæðislánapakkar) ganga á milli braskara. Fasteignamarkaðurinn er að bremsa. Allt of margir keyptu vegna þess eins að verð var á uppleið. Margir höfðu alls ekki efni á að kaupa en ætluðu að bjarga sér í horn með því að slá út á húsnæðið eftir að það hækkaði. Bandaríski fasteignamarkaðurinn lítur svona út þessa stundina:

Eitt af því sem dauðadæmir fasteignamarkaðinn er sú staðreynd að laun langflestra Bandaríkjamanna eru að lækka. Peningarnir sem fóru í að blása upp sápukúluna á fasteignamarkaði komu beint frá sama fasteignamarkaði! Þetta er búið að vera hreint brask sem erlendir lánadrottnar gerðu tæknilega mögulegt með því að láta neysluskuldirnar renna aftur inn í kerfið. Fasteignir eiga aldrei að geta hækkað umfram verðbólgustigið nema tekjur fólksins séu líka að aukast umfram verðbólgu. Það er t.d. ekkert óeðlilegt við raunhækkanir á húsum á Reyðarfirði, en ef fasteignaverðið á Ísafirði byrjaði að æða upp vegna þess eins að íbúarnir keyptu hver af öðrum í von um skyndigróða, þá væri dæmið auðvitað fáránlegt. Að sama skapi þá hefur ekkert verið að gerast í bandarísku atvinnulífi síðustu fimm árin sem réttlætir hærra fasteignaverð.

Nýlegar rannsóknir á kaupmætti og almennri fjárhagsstöðu bandarísku þjóðarinnar staðfesta allt sem komið hefur fram um þessi mál á vald.org síðastliðin tvö og hálft ár. Eftirtaldar upplýsingar eru sóttar til Federal Reserve Board Survey of Consumer Finances, Economic Policy Institute, New York Times.

[Skilgreining: Hreinar eignir einstaklings eða fjölskyldu eru reiknaðar þannig að fyrst eru verðmæti fasteigna, innistæðna í bönkum, hlutabréfa, eftirlaunasjóða og annarra verðmæta lögð saman og síðan er dregið frá útkomunni allt sem skuldað er, t.d. fasteignalán og greiðslukortaskuldir.]

Í nýrri úttekt frá Goldman Sachs er bætt staða margra fyrirtækja útskýrð á þennan hátt: "Mikilvægasta ástæðan fyrir hærra gróðahlutfalli síðustu fimm ár hefur verið sú að vinnandi fólk fær minni sneið af þjóðarkökunni." Fyrir utan fyrirtækin þá hafa allra ríkustu einstaklingar landsins grætt ótrúlega peninga.

Hnattvæðingin er að drepa bandaríska hagkerfið. Síðan efnahagslægðinni lauk 1991 hafa þrjár milljónir verksmiðjustarfa yfirgefið landið og mörg voru vel borguð störf. Á sama tímapunkti eftir efnahagslægðir í fortíðinni hafði hagkerfið bætt við sig um tveim milljónum verksmiðjustarfa. Helmingur allra starfa sem nú verða til eru í heilbrigðis- og þjónustugeiranum og þau eru yfirleitt illa borguð.

Stjórn Bush hefur verið iðin við að lækka skattabyrgði milljarðamæringa. Þetta er afsakað með fyrrnefndri "Laffer curve", kenningu sem prédikar að tekjur ríkisins aukist þegar ríkt fólk fær tækifæri til þess að eyða meiri peningum. Þessi kenning gæti átt einhvern rétt á sér í lokuðu hagkerfi þar sem skattar eru himinháir, en bandarískir milljarðamæringar í dag fjárfesta og eyða peningum út um allan heim. Þessar skattalækkanir hafa aðeins sett ríkiskassann á hausinn og aukið félagslegt óréttlæti.

En hvernig skyldi forríkt fólk annars eyða peningum? Hvað varð um þessar miklu skattalækkanir? Tveir menn, Hannah Shaw Grove og Russ Alan Prince, sem reka ráðgjafafyrirtæki í Santa Monica í Kaliforníu, gerðu ýtarlega könnun á eyðsluvenjum einstaklinga sem eiga einkaþotu. Hugmyndin var að finna þarfir sem skjólstæðingar þeirra gætu uppfyllt.

Meðalþotueigandi í bandaríkjunum er 57 ára gamall, á hreinar eignir upp á $89,3 milljónir, er með $9,2 milljónir í árstekjur og eyðir peningum sem hér segir (árlegt meðaltal):

Það væri gaman að spyrja Arthur Laffer hvernig það hjálpar bandarískum almenningi og ríkiskassanum að gefa þessum þotumönnum skattalækkanir upp á milljónir dollara árlega á meðan hátt í 50 milljónir einstaklinga hafa ekki heilsutryggingar.