vald.org

Blikur á lofti … framhald

17. september 2006 | Jóhannes Björn

Daginn eftir að fyrri hluti þessarar greinar birtist hér á vald.org þá sendi Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn frá sér kolsvarta skýrslu sem varar við hugsanlegu hruni sem gæti m.a. byrjað vegna fasteignakreppu á Bandaríkjamarkaði eða fjármálahallans þar í landi. Hvað er að gerast þegar þessi sjóður, sem er lítið annað en handbendi "Big Business", byrjar að óttast um framvindu stórviðskipta í heiminum?

Það er frekar lítill hópur ofurríkra manna sem ræður mestu um stefnu stærstu fjölþjóðabanka og fjölþjóðafyrirtækja heimsins. Lykilinn að völdum þeirra byggist á hagfræðihugtæki sem kallað hefur verið "gróði af stjórn", en það þýðir að einn aðili eða samstilltur hópur þarf ekki að eiga nema lítið brot stórfyrirtækis til þess að ráða stefnunni (hinir milljón eigendurnir sem eiga 97% eru ekki samstilltir). Þessir baktjaldamenn hafa í marga áratugi haft markvissa stefnu sem miðar að því að galopna alla markaði, leyfa fjármagni að flæða óhindrað á milli landa og láta markaðinn ákveða verðgildi gjaldmiðla. Fyrir utan glapræðið að láta gjaldmiðla fljóta 24 tíma á dag, þá er í sjálfu sér ekkert athugavert við þessi markmið, en framkvæmdin hefur hins vegar öll gengið út á að efla fjölþjóðafyrirtæki og banka á kostnað almennra borgara. Bæði Alþjóðabankinn og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafa verið notaðir fyrst til þess að opna lönd fyrir fjölþjóðafyrirtæki. Í næsta skerfi hegðar sjóðurinn sér eins og lögregla og heimtar gengisfellingar, niðurskurð til félagsmála og annað góðgæti. Með því að setja öfgahægrimanninn Paul Wolfowitz yfir allt klabbið þá er allt að því taktískt verið að viðurkenna þetta hlutverk bankans.

Draumur baktjaldamanna hefur að mestu ræst … en eru þeir óvænt að missa tök á stöðunni? Þessar nýju leikreglur flæðandi peninga hafa latt að nýja leikmenn og allt peningakerfið hefur verið að breytast með undrahraða á aðeins nokkrum árum. Fjárfestingabankar eru að bola gömlu viðskiptabönkunum frá viðskiptum sem þeir áður drottnuðu yfir og áhættusjóðir skjóta upp kollinum eins og gorkúlur (9000 sjóðir og þeim fjölgar um 15% á ári). Er mögulegt að þessi nýja þróun hafi komið "gömlu peningunum" í opna skjöldu?

Áhættusjóðir eru nær alveg eftirlitlaus fyrirtæki sem oft skrá sig í einhverri skattaparadís. Sjóðirnir ganga sjálfala, vilja alls engar nýjar reglur um gagnsæi og hafa því verið að moka millljónum dollara í bandaríska pólitíkusa. Vorið 2006 voru eignir þeirra $1,2 billjónir (amerískar trilljónir) og braskið var í upphæðum sem hugurinn vart nemur. Tíu öflugustu áhættusjóðirnir voru með $157 milljarða til að spila úr í mars 2006. Árstekjur 26 tekjuhæstu forstjóra sjóðanna voru að meðaltali $363 milljónir (á kjaft) árið 2005.

Það má vel vera að Paul Wolfowitz hafi tekið við Alþjóðabankanum á óheppilegum tíma (fyrir hann) því áhættusjóðir og braskdeildir innan fjárfestingabankanna eru að gera Alþjóðabankann og systurfyrirtæki hans að nátttröllum. Gamla bankakerfið rétt haltrar áfram miðað við nýja kynslóð spekúlanta sem getur pumpað ódýrum peningum út úr ódýrum hagkerfum og síðan grætt á dýrari mörkuðum—allt í einum hvelli án þess að vera með bankaeftirlitið á bakinu. En þessi gullgerðarlist hefur skapað hættur sem allir skynsamir menn sjá.

Það er staðreynd að áhættusjóðir taka meiri áhættu en venjulegir bankar og þeir hafa fjármagnað samruna og yfirtökur fyrirtækja sem gamla bankakerfið hefði aldrei lagt blessun sína yfir. Þetta stigmagnar hættuna þegar vandræði koma upp hjá þessum fyrirtækjum vegna þess að áhættusjóðirnir þurfa ekki að útskýra fyrir bankaeftirlitinu hvers vegna lán eru ekki innkölluð þegar ákveðnar forsendur bresta. Hættan er að menn reyna að vona hið besta og láti vandann rúlla áfram allt of lengi. Einn góðan veðurdag fer stór áhættusjóður á hausinn og þeir sem tapa peningum geta ekki einu sinni kært.

Lánatengdar afleiður (credit derivatives) er fyrirbæri sem hæglega getur brugðið fæti fyrir hagkerfi heimsins. Þetta geta verið ótrúlega flóknar hundakúnstir, en í sinni einföldustu mynd þá tryggja þær skuldir. Þú lánar einhverjum 10 milljónir og þriðji aðili ábyrgist lánið gegn þóknun. Ef þú lánar General Motors þá gæti tryggingin kostað milljón eða meira, en ef þú lánar svissneska ríkinu þá kostar hún sama og ekki neitt. Á fyrsta ársfjórungi 2006 var bankakerfið (og þá eru áhættusjóðir og fleiri braskarar ekki taldir með) búið að tryggja skuldir upp á 110,2 billjónir dollara (!) og gróðinn af þeim viðskiptum var $5,2 milljarðar—á einum ársfjórungi en ársframleiðslan á allri jörðinni er ekki nema $59,38 billjónir!

Snjallasti fjármálamaður Bandaríkjanna, Warren Buffett—en hlutabréf fyrirtækis hans, Berkshire, hafa hækkað um 16.700% á 21 ári—hefur kallað lánatengdar afleiður "gereyðingarvopn peningakerfisins" og það er auðvelt að sjá hvers vegna. Öryggið sem fylgir því að veita tryggð lán stóreykur framboð þeirra, en að sama skapi fá alls konar aðilar lán sem gamla kerfið hefði útilokað. Þetta er falskt öryggi því spilaborgin fellur ef boginn er of hátt spenntur. Long Term Capital var ekki nema $5 milljarða áhættusjóður áður en hann fór á hausinn og bandaríski seðlabankinn þurfti að grípa inn í til að verja allt kerfið.

En snúum okkur aftur að Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Í mars á þessu ári gaf sjóðurinn út bók eftir Garry J. Schinasi, Safeguarding Financial Stability, og hefur síðan hampað henni við öll tækifæri. Það sem er merkilegt við þessa bók er að höfundurinn gagnrýnir hluti sem sjóðurinn hefur hampað frá upphafi vega. Fyrir nokkrum árum hefðu möppudýr sjóðsins skrifað varnargreinar á móti svona bók. Frelsi á peningamörkuðum hefur gert góða hluti, segir höfundur, en það er hætta á óstöðugleika og kerfisröskun. Ástæðan fyrir að stórslys (hrun) hefur ekki átt sér stað er miklu frekar heppni heldur en eðlilegt fjármálaeftirlit. Boðskapur bókarinnar er þessi: Það verður að setja nýjar leikreglur. Kannski má lesa hér á milli línanna að áhættusjóðir séu byrjaðir að sækja of mikið inn á svæði gömlu peningamafíunnar.

Seðlabanki seðlabankanna, Bank for International Settlements í Sviss (sem lýtur ekki svissneskum lögum!)—bankinn sem hjálpaði Rockefeller & Co að yfirfæra gróðann frá fyrirtækjum sínum á yfirráðasvæði nasista alla seinni heimstyrjöldina http://vald.org/falid_vald/kafli07.htm hefur þungar áhyggjur af þessu nýja villta vestri peningaheimsins og segir í nýlegri skýrslu (26. júní 2006) að það sé "erfitt að færa skynsamleg rök fyrir því" hvernig þessi viðskipti fái staðist. Bankinn er venjulega mjög íhaldsamur í skrifum sínum og vill engan styggja eða hræða, en gengur þó svo langt að viðurkenna að þessi nýi heimur er framandi í augum sérfræðinga bankans:

"Vegna þess hve staðan er flókin og þekking okkar takmörkuð, þá er gífurlega erfitt að segja til um hvernig hlutirnir skýrast … skilningur á hvernig þessi staða kom upp er áríðandi til að hægt sé að setja reglur sem draga úr áhættuþættinum."

Það sem bankamenn af "gamla skólanum" óttast er óskaplegt ójafnvægi í fjármálum heimsins. Hagvöxtur heimsins hefur mikið til byggist á því að mörg lönd hafa sent vörur til Bandaríkjanna og fengið pappíra til baka. Þessar pappírsskuldir hafa síðan farið í umferð og aukið ójafnvægið enn frekar, t.d. með því að fjármagna spákaupmennsku á bandarískum fasteignamarkaði. Það gaf aftur milljónum tækifæri til þess að slá peninga út á óraunverulega dýrar fasteignir—peninga sem aftur fóru í að kaupa vörur sem juku viðskiptahallann … og þannig koll af kolli. Kerfið byrjaði ekki að bremsa fyrr en nýlega þegar sápukúlan var komin á það stig að meirihluti fólksins gat ekki lengur keypt sér húsnæði.

Það er dálítið uggvænlegt að þrátt fyrir neikvæðan sparnað einstaklinga í Bandaríkjunum og stjarnfræðilegar skuldir ríkisins, þá eru æðstu prestar banka- og stjórnkerfisins alltaf að hvetja til meiri neyslu. Þeir gera þetta bæði beint í orði og byggja það líka inn í skattkerfið. Eru þessir menn alveg úti að aka eða eru þeir bara að kaupa sér gálgafrest? Nýleg bók, Empire of Debt, eftir Bill Bonner og Addison Wiggin, segir um þetta:

"Þegar verðir veraldlegra dyggða byrja að hvetja fólk til þess að hegða sér glæfralega, þá verðum við að staldra við. Kaupið meira, segir einn bankastjóri alríkisbankans. Sláið fleiri lán, segir annar. Óttist ekki skuldir, vaxtastigið eða að störf eru að hverfa, segir foringi þeirra allra. Þetta er svipað og ef landsamband biskupa gæfi út opinbera yfirlýsingu þar sem menn væru hvattir til þess að skiptast á eiginkonum." (bls. 255)

Nýlegt verðfall á olíu gæti bent til þess að efnahagslægð eða kreppa sé handan við hornið. Það er líka möguleiki að áhættusjóðir séu að spila með markaðinn. Tíminn leiðir sannleikann í ljós. Hitt er annað mál að það er nærri því öruggt að svokallaður olíutoppur er ekki langt undan og olíuverðið á eftir að margfaldast í framtíðinni.

Gull hefur líka verið að lækka og það er ekki ljóst hvers vegna það er að gerast:

Með hliðsjón af yfirvofandi hruni á fasteignamarkaði, stórhættulegu braski áhættusjóða og ójafnvægi peningamála þá standa hlutabréfamarkaðirnir sig enn ótrúlega vel. En það breytist áður en langt um líður. Það eru aðallega tvö atriði sem alltaf halda hlutabréfamörkuðum gangandi miklu lengur en góðu hófi gegnir. Fólk hlustar á ráðgjafa sem alltaf hampa markaðinum og mannskepnan er hópsál.

Nákvæm könnun var gerð á hvernig "sérfræðingar" á Wall Street ráðlögðu almenningi árið 2000. Á þessu ári sprakk sápukúlan og maður gæti ætlað að mikill meirihluti þessara gáfnaljósa hefði ráðlagt fólki að selja. Ekki aldeilis. Árið 2000 gáfu "sérfræðingarnir" út 165.480 skriflegar yfirlýsingar sem ráðlögðu fólki að kaupa, halda eða selja í ákveðnum fyrirtækjum. Í 97,2% tilfella var pöplinum ráðlagt að kaupa eða halda og í aðeins 2,8% tilfella að selja!

Í bókinni The Wave Principle of Human Social Behavior fer Robert Prechter ofan í saumana á hvernig hópsál hegðar sér og hvers vegna. Þegar fólk gerir skoðanir og hegðun hópsins að sínum eigin þá er það ekki aðeins að taka þátti jákvæðri þróun. Það er enn mikilvægara að forðast allt sem gerir einstaklinginn öðruvísi en fjöldann.

"Snákar og fuglar ráðast á ókunnuga. Fuglahópur plokkar til dauðs einstaka fugla sem eru særðir eða vanskapaðir. Á sama hátt getur fólki stafað ógn af öðru fólki ef það skynjar að það sé eitthvað frábrugðið. Það eflir því lífslíkurnar ef maður komur í veg fyrir höfnun með því að sýna að maður sé eins."