vald.org

Dollarinn

22. nóvember 2006 | Jóhannes Björn

Seðlabanki seðlabankanna, Bank for International Settlements (BIS) í Sviss, sendi frá sér uggvænlega fréttatilkynningu 17. nóvember 2006. Þar segir að verslun með svokallaðar afleiður (derivatives) hafi aukist um 24% á sex mánuðum og hljóði nú upp á margföld viðskipti alls heimsins. Þessi nýja tegund keðjubréfa tryggir verðmæti og skuldir upp á hvorki meira né minna en 370 billjónir (amerískar trilljónir) dollara. Heimsframleiðslan eins og hún leggur sig er um $60 billjónir á ári!

Bankinn segir að sá þáttur afleiðuviðskipta sem tryggir skuldabréf og önnur lán (credit derivatives) standi í mestum blóma. Fréttatilkynning BIS segir orðrétt:

The volumes outstanding of over-the-counter derivatives expanded at a brisk pace in the first half of 2006. Notional amounts of all types of OTC contracts stood at $370 trillion at the end of June, 24% higher than six months before. Growth was particularly strong in the credit segment, where the notional amounts of outstanding credit default swaps (CDS) increased by 46%. Rapid growth was also recorded in other market segments. Open positions in interest rate derivatives rose by 24%, while those in FX contracts expanded by 22%. Equity and commodity contracts grew at 17% and 18%, respectively. Gross market values, which measure the cost of replacing all existing contracts and thus represent a better measure of market risk at a given point in time than notional amounts, increased by 3% to $10 trillion at the end of June 2006.

Aðferðirnar sem notaðar eru við brask á afleiðum eru oftast viðskiptaleyndarmál og þessi starfsemi er í 58% tilfella í höndum áhættusjóða, en það eru nær alveg eftirlitslausar stofnanir sem oft hreiðra um sig í skattaparadísum heimsins. Mjög fáir skilja þessi viðskipti—þeir sem græða á þeim eru náttúrulega ekki að auglýsa í smáatriðum þessa gullgerðarlist—og starfsmenn Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og BIS viðurkenna að þeir hafa enga hugmynd um hve traust kerfið er eða hvort það er fyrirfram dæmt til þess að hrynja undan eigin þunga.

Það hlýtur að fara hrollur um menn sem hafa kynnt sér sápukúlur á hinum ýmsu fjármálamörkuðum þegar þeir sjá tölur eins og $370 billjónir og 24% aukningu á aðeins sex mánuðum. Hvernig getur þetta dæmi gengið upp? Hvernig er hægt að tryggja pappíra og skuldir með hljóða upp á 600% hærri upphæð en nemur allri ársframleiðslu jarðarinnar? Hluti svarsins hlýtur að felast í því að afleiður hafa þróast í sjálfstæðan gjaldmiðil. Keðjubréfin ganga sem greiðslur á milli banka og sjóða, en raunveruleg verðmæti sem upphaflega lágu til grundvallar eru útþynnt og skipta sífellt minna máli.

Þetta er svipuð þróun og átti sér stað hjá gullsmiðum fyrir nokkur hundruð árum. Þeir voru þeir einu í viðskiptalífinu sem áttu þjófheldar byggingar og því geymdi fólkið gullið sitt hjá þeim. Gullsmiðirnir gáfu viðskiptavinum kvittanir fyrir gullinu og þær byrjuðu brátt að gagna á milli fólks eins og peningar. Það var miklu auðveldara að nota þessar kvittanir sem peninga heldur en að sækja gull í hvert skipti sem verslað var með eitthvað sem ekki var hægt að afgreiða með vöruskiptum. Gullsmiðirnir tóku fljótlega eftir því að þeir voru alltaf með yfir 90% gullsins í hirslum sínum og þeir gátu byrjað að gefa út gjaldgengnar kvittanir á sjálfa sig. Þannig framleiddu þeir peninga úr engu og komust upp með það svo lengi sem fólkið treysti greiðslugetu þeirra.

Það getur ekki gengi til lengdar að yfir 9000 áhættusjóðir græði á tá og fingri með því að elta sömu tækifærin. Málið er þannig vaxið að þeir sem braska með þessa sjóði verða sífellt að taka meiri áhættu til þess að hafa eitthvað upp úr krafsinu. Þetta er lífróður því léleg afkoma þýðir einfaldlega að þeir sem fjárfesta í þessum sjóðum hætta því. Þessir 9000 sjóðir eru því allir samtaka um að blása í sápukúluna og þynna út pappírana. Eins og þessi síða hefur áður bent á þá taka áhættusjóðir t.d. orðið hlægilega lítið gjald fyrir að tryggja vafasama pappíra eins og "junk bonds".

Tvö fyrirtæki, Credit Suisse og Tremont Capital Management Inc., reyna að fylgjast með heildargróða áhættusjóða. Þróunin er ekki upp á það besta. Árið 2003 ávöxtuðu sjóðirnir innistæður sínar um 15,4%, árið 2004 um 9,6% en 2005 og það sem af er þessu ári aðeins um 7,6%. Þeir sem leggja peninga inn í áhættusjóði reikna með miklu hærri vöxtum en 7,6% og þessi þróun útskýrir vaxandi glannaskap sjóðanna.

Nýlega fór meðalstór áhættusjóður, Amaranth, á hausinn þegar verð á jarðgasi skyndilega snarlækkaði. Tapið var um $4 milljarðar, sem varla telst mikið á markaði sem veltir hundruð billjóna, en það var nóg til þess að orsaka tímabundin vandræði og ósveigjanleika á skuldabréfamarkaðinum í London. Það má gera ráð fyrir að kerfið sé ekki nógu vel í stakk búið til þess að þola t.d. tíu sinnum stærra gjaldþrot áhættusjóða. Einn líklegur atburður gæti hæglega hrundið skriðunni af stað. Margir telja að Ísrael eða Bandaríkin eigi eftir að gera loftárásir á Íran áður en Bush lætur af völdum eftir tvö ár. Íran svarar slíkri árás örugglega með því að loka öllum siglingarleiðum á svæðinu og olíuverðið stórhækkar þá á nokkrum mínútum (alla vega tímabundið). Margir áhættusjóðir sem braska með framtíðarsamninga sem lofa olíu á föstu verði rúlla þá á meðan aðrir sjóðir stórgræða—og kerfið springur.

Hagkerfi heimsins er sannkallað froðubað. Gífurlegur viðskiptahalli Bandaríkjanna og halli ríkissjóðs dælir þrem milljörðum dollara á dag inn í alþjóðakerfið þegar gleðskapurinn er fjármagnaður með nýjum ríkisskuldabréfum. Bankar og sjóðir moka allt að ókeypis peningum út úr Japan og lána í allar áttir á hærri vöxtum. Þegar koma þarf öllum þessum peningum í umferð í einum hvelli þá eykst hættan á vafasömum fjárfestingum að sama skapi. Sá vandi er leystur með því að tryggja skuldir upp á hundruð billjóna. Kerfið er í raun að tryggja sjálft sig. Þetta er svipað og ef tryggingafélag færi út í glannalegar fjárfestingar og tryggði sig sjálft fyrir áhættunni!

Stór þáttur í þessum pappírsleik er óhófleg peningaframleiðsla bandaríska seðlabankans og fjármálaráðuneytisins þar í landi. Þetta eru þættir sem yfirvöld hafa reynt að fela með ýmsum aðferðum á meðan athyglinni er stöðugt beint að hetjulegri baráttu seðlabankans gegn verðbólgunni. Það er þó allt á huldu með hvernig glíman við verðbólgudrauginn gengur því seðlabankinn tók það óvenjulega skerf 23. mars 2006 að hætta að gefa upp tölur um heildarfjármagn í umferð. Hér er átt við M3 sem er breiðasta mælistikan á fjármuni í umferð (M1 sýnir t.d. aðeins seðla í umferð og innistæður sem hægt er að taka út fyrirvaralaust). Óháðir aðilar hafa hins vegar haldið áfram að reikna út M3 og dæmið lítur svona út:

Græna línan (sem breytist í svarta eftir að seðlabankinn hætti að birta þessar tölur) sýnir peningamagn í umferð, en bláa línan breytingar í prósentum. Sem sagt, yfirvöld segjast vera að berja niður verðbólguna á meðan peningamagnið æðir upp. Milton Friedman—maðurinn sem hugsaði meira um peningamagn í umferð en nokkur annar hagfræðingur—er heppinn að vera kominn undir græna torfu!

Það er fróðlegt að bera M3 saman við tölur sem eru birtar, þ.e. M1 og M2.

Tvíklofinn er augljós. Lækkandi fasteignaverð og hækkandi vextir endurspeglast í augnablikinu í M1 og M2. Baráttan gegn verðbólgunni gengur vel á yfirborðinu. En falda stærðin, M3, gefur allt aðra mynd.

John Crudele, sem skrifar um viðskipti í dagblaðið New York Post, hefur litla trú á opinberum hagtölum. Hann skrifaði stórmerkilega grein um þetta 7. nóvember 2006 þar sem hann greinir frá því að fjármálaráðuneytið sé byrjað auka peningamagn í umferð eftir tæknilegum leiðum. Þetta hefur hingað til verið í verkahring seðlabankans. Mjög fáir vita um þessa starfsemi sem gengur út á að dæla nýjum peningum inn í bankakerfið. Nútíma bankakerfi starfar þannig að hver milljón sem kemur inn í ferskum seðlum skapar 9–10 sinnum hærri útlán.

Allt þetta pappírsflóð—M3, ókeypis jen og botnlausar skuldatryggingar áhættusjóða—gerir mönnum mjög erfitt um vik að tímasetja markaðsspár. Það er alveg ljóst að dollarinn á eftir að falla og flest hlutabréf eru allt of hátt skráð. En það er varla nokkur leið að tímasetja atburðarás í hagkerfi sem er allt öðruvísi en það var fyrir aðeins nokkrum árum og auk þess er hringlað með á bak við tjöldin.

Margir einstaklingar sem þekkja hagkerfið út og inn og hafa aðgang að hafsjó upplýsinga geta t.d. ekki skilið hvernig dollarinn heldur sér á floti. Snillingurinn Warren Buffet byrjaði að veðja á móti dollaranum fyrir tveim árum og hefur tapað allt að milljarði dollara á því brölti. Staðreyndir málsins voru honum í hag, en tímasetningin var röng. Útlendingar sitja á 4.300 milljörðum dollara bara í ríkisskuldabréfum, sem er stjarnfræðileg tala, en hún hækkar samt um nærri þúsund milljarða dollara á ári. Þegar M3 hækkar miklu hraðar en verðbólga og hagvöxtur þá er líka verið að þynna út gjaldmiðilinn. Það er líka óheilbrigt og hagfræðilega óverjandi til lengri tíma að nýþróunarríki fjármagni botnlausan hallrekstur hátækniþjóðfélags.

Paul Volcker, fyrrverandi seðlabankastjóri Bandaríkjanna, er annar sérfræðingur sem er alveg hlessa. Við hringborðsumræður sem Concord Coalition hélt í New York 14. nóvember sagði hann beint út um viðskiptaheiminn: "Það er hreint ótrúlegt hve lengi menn hafa ríghaldið í dollarann … á ákveðnum punkti kemur sú staða upp að menn fá sig fullsadda." Samkvæmt Volcker er staðan bæði "hættuleg og ómeðfærileg (intractable)."

Þekktur hagfræðingur, Edwin M. Truman, sem starfaði hjá bandaríska seðlabankanum í aldarfjórðung, líkir hagkerfinu við hringekju sem snýst allt of hratt. Vélbúnaðurinn þolir ekki álagið og er við það að bila. Annað hvort byrjar hringekjan að hægja verulega á sér eða hún snarbremsar með þeim afleiðingum að fólk hendist í allar áttir. Þegar Truman talar um að hagkerfið snúist of hratt þá á hann ekki við raunverulega verðmætasköpun og bætt kjör almennings. Þvert á móti þá eru fólkið að drukkna í skuldum (rauða strikið) sem vaxa miklu hraðar en ráðstöfunartekjur (bláa strikið). Truman er að tala um froðu.

New York Times birti merkilegt viðtal 1. nóvember við Robert E. Rubin, sem var feikilega vinsæll fjármálaráðherra í stjórnartíð Clinton og þótti með afbrigðum snjall. Rubin starfaði hjá Goldman Sach áður en hann gerðist fjármálaráðherra og er núna hjá Citigroup, eignarfyrirtæki Citibank. Það er varla hægt að ímynda sér hæfari fjármálaspekúlant með aðgang að meiri upplýsingum … en dollarinn gaf honum samt slæma byltu. Fyrir tveim árum, tjáði Rubin blaðinu, veðjaði hann á móti dollaranum og tapaði yfir milljón dollurum af eigin fé. En hann benti líka á að þrátt fyrir slæma útreið þá hafi ákvörðun hans í sjálfu sér ekki verið röng. Stundum vegur maður og metur allar staðreyndir nokkuð rétt, en rennur síðan á rassinn með allt saman vegna þess að heimurinn er illa útreiknanlegur og í stöðugri upplausn.