vald.org

Hvert fer Óskarinn?

13. desember 2006 | Jóhannes Björn

Vertíð kvikmyndaverðlauna er að ganga í garð og á morgun, 14. desember, opinberar Golden Globe (félag erlendra blaðamanna í Hollywood) nöfn þeirra sem hugsanlega koma til með að vinna gullhnöttinn 15. janúar. Þetta verður í sextugasta og fjórða skipti sem Golden Globe verðlaunin eru veitt, en val erlendu blaðamannanna er oft ótrúlega líkt vali þeirra sem veita Óskarinn.

Kvikmyndin er vafalaust sterkasta tjáningarform nútímans og því er það synd að sjá hve miklu púðri Hollywood eyðir í bullmyndir fyrir misjafnlega vanþroskuð ungmenni. En gamla markaðslögmálið er í fullu gildi. Flestir sem fara í kvikmyndahús eru á aldrinum 12 til 24 ára og til þess að þjóna þessum viðskiptavinum þá verða 90% allra mynda að gagna út á óraunhæft ofbeldi, barnalegan hasar og óskaplegan hávaða. Þetta eru staðreyndir lífsins og ekkert við því að gera á meðan þessi hópur ræður ferðinni.

Á síðasta ári brá þó svo við (eins þessi síða benti á) að draumaverksmiðjan í Hollywood framleiddi óvenju margar hágæðamyndir og sumar þeirra voru rammpólitískar. En eins og við var að búast þá var þessi þróun allt of jákvæð til að vera raunveruleg og kvikmyndir á þessu ári hafa aftur að mestu leyti sokkið í fen meðalmennsku. Nokkrar myndir með pólitísku yfirbragði hittu þó nærri því beint í mark, t.d. The Last King of Scotland, en ég tel enga þeirra verðskulda Óskarinn.

Mynd Clint Eastwood, Flags of Our Fathers, hafði alla tilburði til þess að heppnast mjög vel. Hér er á ferðinni saga sem ætti að fá góðan hljómgrunn á stríðstímum, þegar raunveruleikinn skiptir miklu minna máli en áróðurstæknin. Þannig var það og verður í framtíðinni. Eastwood er yfirleitt frábær leikstjóri, en í þessu tilfelli tókst honum að klúðra þungamiðju myndarinnar—innbyrðis sambandi þessara þriggja hermanna sem voru dubbaðir upp í hálfvandræðaleg hetjuhlutverk. Þessar óljósu persónur ná auðvitað aldrei beinu tilfinningasambandi við áhorfendur úti í sal. Fólki er hálfpartinn sama um örlög þeirra. Annað hvort voru rangir leikarar valdir í þessi hlutverk eða þeim er ekki leikstýrt rétt.

Önnur merkileg kvikmynd, Babel, er hetjuleg tilraun til þess að lýsa sambandsleysi á milli einstaklinga, hópa og heilla þjóða. Líkt og í t.d. Syriana þá eru margar sögur í gangi á sama tíma víðsvegar um heim og myndin gerist nú á dögum, en grunnhugmyndin kemur auðvitað beint úr Biblíunni. Guði þótt mannfólkið, sem á þeim tíma á að hafa talað eitt tungumál, vera farið að færa sig heldur betur upp á skaftið í borginni Babýlon [það er ekki alveg ljóst hvað fólkið var að bralla, en sumir sem kunna frummálið segja að atburðarásin hafi verið miklu alvarlegri en það eitt að menn hafi verið að reisa turn]. Guði leist ekki á blikuna og ákvað að tvístra mannkyninu um allar jarðir. Sambandsleysið varð síðan til þess að ný tungumál byrjuðu að þróast og hóparnir hættu brátt að skilja hvorn annan. Guð notar hér aðferð sem margir harðstjórar hafa beitt í gegnum tíðina: fyrst að sundra fólkinu og síðan drottna yfir því. Babel er átakanleg kvikmynd og feikilega metnaðarfull, en hún er of langdregin og ekki nógu þjál eða spennandi.

The Queen er annað pólitískt skot sem hittir ekki langt frá marki. Síðustu mínúturnar eyðileggja mikið þegar höfundur handrits eða leikstjórinn (eða einhver framleiðandi) telur sig knúinn til þess að gera drottninguna miklu mannlegri en efni standa til. Þetta lyktar af pólitískri pressu og kemur eins og skrattinn úr sauðalegg rétt undir lokin.

Nokkrar væntingar voru í gangi varðandi mynd Mel Gibson, Apocalypto, en allt gott í þeirri mynd—spennandi saga um örlög týndra kynþátta í framandi umhverfi—er eyðilagt með brjálæðislegu ofbeldi. Hvaða draugar sveima í sálarlífi Mel Gibson? Var ekki nóg að láta berja frelsarann í spað í síðustu mynd? Þurfa pyntingarnar að stigmagnast með hverri nýrri mynd? Endar þetta ekki bara með kvikmynd þar sem risastór hakkavél gleypir menn og málleysingja í samfellt 100 til 120 mínútur? Lítil furða þótt maður spyrji.

Allar bollaleggingar um hver verðskuldar Óskarinn eru auðvitað huglægar og spurning um smekk, en samkvæmt mínum kokkabókum þá fara stytturnar til eftirfarandi:

Besta kvikmynd: Dreamgirls. Þegar mér var nýlega boðið á forsýningu á þessari mynd þá hafnaði ég nærri því boðinu. "Þetta verður tómt glamur og húmbúkk", hugsaði ég með mér. En myndin er feikilega skemmtileg, vel leikin og örugglega í hópi bestu söngvamynda allra tíma. Ég hef aldrei áður séð bíógesti klappa eftir einstök atriði líkt og þeir væru í leikhúsi. Þessi mynd sópar líka væntanlega inn verðlaunum fyrir leikbúninga, sviðsmynd, lýsingu og fleira.

Besti leikstjóri: Martin Scorsese fyrir The Departed. Bretar búa til góðar gamanmyndir, Frakkar ástarmyndir, en enginn sendir frá sér betri mafíumyndir en Bandaríkjamenn. The Departed er einn besti þriller seinni tíma og besta mafíumyndin síðan Goodfellas kom út fyrir 16 árum.

Besta handrit: The History Boys. Samtöl af þessu tagi hafa ekki sést á leiksviði eða í kvikmyndum síðan Arthur Miller var upp á sitt besta. Líkt og Dreamgirls þá var verkið upphaflega skrifað fyrir leikhús.

Besti leikari: Forrest Whitaker fyrir frábæra túlkun á Idi Amin í The Last King of Scotland. Hér er á ferðinni persónutúlkun og leikur sem loðir við áhorfandann löngu eftir að hann yfirgefur kvikmyndahúsið. Óvænt og ógleymanleg frammistaða.

Besta leikkona: Helen Mirren fyrir túlkun sína á Elísabetu Bretadrottningu. Ef eitthvað þá er Mirren sennilega enn meira sannfærandi í hlutverki drottningar heldur en Beta sjálf!

Besti leikari í aukahlutverki: Jack Nicholson fyrir The Departed. Hann hefur ekki sýnt slík tilþrif síðan One Flew Over the Cuckoo´s Nest og The Shining. Annar leikari sem líka gæti hæglega unnið er Eddie Murphy. Hann fer á kostum í Dreamgirls, syngur og gantast, en sýnir líka nýja og óvænta dýpt í túlkun sinni á sálartetri sem er að sökkva. Það er líka byr í bak Eddie Murphy að hann hefur aldrei fengið Óskarinn.

Besta leikkona í aukahlutverki: Jennifer Hudson fyrir Dreamgirls. Flott leikur, glæsileg rödd. Hafið vasaklútinn á lofti þegar hún grátbiður (syngjandi) um ást og er hafnað.