vald.org

Þegar hagtölur ljúga

20. desember 2006 | Jóhannes Björn

Stundum þegar illa gengur hjá ríkisstjórnum og fyrirtækjum þá grípa menn til þess ráðs að falsa hagtölur eða ársreikninga. Ólíkt því sem mörg fyrirtæki hafa stundað í tímans rás þá geta ríkisstjórnir ekki falið slóðina með ósýnilegu fjárstreymi á leynireikningum í skattaparadísum heimsins, en þær geta auðveldlega hagrætt mikilvægum hagtölum með því að breyta mikilvægum forsendum. Eins og maðurinn sagði, lygin kemur í þrem útgáfum: Lygi, haugalygi og í formi útreikninga.

Þegar opinberir reiknimeistarar breska ríkisins sögðu nýlega að verðbólgustigið væri 2,4%—og þetta er mikilvæg tala því ellistyrkur og margt annað hækkar í takt við verðbólguna—þá þótti ritstjórum Telegraph nóg komið. Blaðið réði hlutlausa aðila til þess að reikna dæmið upp á nýtt og þeir notuðu nákvæmlega sömu hagtölur og möppudýr ríkisins höfðu stuðst við. Þessir nýju útreikningar leiddu í ljós að ríkið er að borga gamla fólkinu fjórum sinnum lægri hækkanir (verðbólgubætur) en því ber lögum samkvæmt. Það er nefnilega búið að hagræða tölunum þannig að alls konar dót sem unglingar kaupa (t.d. tölvur, leiktæki og fatnaður) vegur allt of þungt miðað við útgjöld sem allt venjulegt fólk verður að bera. Svo eitthvað sé nefnt, þá hafa allar tegundir trygginga, lyf, upphitun húsa og bensín verið að hækka miklu meira en dót frá löndum þar sem nútíma þrældómur tíðkast. Sem sagt, það er dregið úr vægi lífsnauðsynlegra útgjalda—og þá sérstaklega þarfa gamla fólksins—en hlutir sem aðallega ungt fólk sem býr frítt heima hjá sér kaupir eru of hátt skrifaðir. Því ekki að stíga skrefið til fulls og reikna bara út verðbólguna hjá drottningunni sem borgar ekki fyrir neitt sjálf!

Það er ömurlegt þegar gamalt eða sjúkt fólk deyr úr kulda heima hjá sér eða verður að velja á milli þess að kaupa annað hvort mat eða lífsnauðsynleg lyf, en það er líka önnur alvarleg hlið á þessu máli. Raunverulegur hagvöxtur er reiknaður þannig að verðbólgustigið er dregið frá heildar hagvexti. Ef tölur Telegraph eru réttar—og það er ekki mikið hægt að rengja þær vegna þess að eyðsla ákveðinna hópa var mæld í stað þess að reikna eitthvað fáránlegt meðaltal—þá er enginn hagvöxtur þessa stundina í Bretlandi. Við erum aðeins að horfa upp á ímyndaðan hagvöxt í líki verðbólgu og sterlingspund sem því er allt of hátt skráð. Og ef hagtölur fela þá staðreynd að efnahagsstefnan er röng, hvernig er þá hægt að leiðrétta stefnuna?

Fyrir síðustu þingkosningar í Bandaríkjunum reyndi sitjandi stjórn að tryggja sínum mönnum kosningu með því að hamra stöðugt á jákvæðum hagtölum. "Þið hafið það svo gott", tuggðu pólitíkusar í sífellu, en þær fullyrðingar höfðu aðeins þau áhrif að misbjóða dómgreind fólks. Þetta fór í taugarnar á mörgum og yfir 80% þjóðarinnar, fólkið sem hefur lækkað í rauntekjum í stjórnartíð Bush, hélt áfram að hafa áhyggjur af afkomunni. Þessi skopleikur gekk svo langt að stjórnmálamenn voru farnir að kvarta í viðtölum yfir skilningsleysi fólksins—það var bara eins og það skildi ekki eigin velsæld!. Þetta var auðvitað hámark vitleysunnar því einstaklingurinn sér ekki fjármál sín í gegnum litað gler sem einhver stjórnmálamaður heldur á lofti. Einstaklingurinn skoðar tekju- og skuldaliði heimilisins á hverjum degi. Þegar hann sér allt hækka hraðar en opinberar tölur gefa til kynna þá fer hann í fýlu og kýs jafnvel öðruvísi en síðast.

Fyrir valdatöku Clinton var verðbólgan í Bandaríkjunum reiknuð með öðrum aðferðum heldur en tíðkast í dag. "Karfa" kostnaðarliða var önnur. En ef við tökum mið af núverandi skuldastöðu ríkis og heimila, og bætum inn í myndina vaxandi óánægju almennings með efnahagsstjórnina, þá virðist liggja nokkuð ljóst fyrir að gamla reiknisaðferðin var miklu nákvæmari og raunhæfari. Af einhverjum orsökum þá hafa stórhættulegar sápukúlur (á hlutabréfum og fasteignum) með tilheyrandi skuldasöfnun mælst sem hagvöxtur í stað þess að koma að verulegu leyti fram sem verðbólga. Þetta línurit segir alla söguna, en bláa strikið sýnir hvernig verðbólgan hefði þróast s.l. 6 ár ef gamla aðferðin hefði verið notuð við útreikningana.

Þetta merkilega línurit kemur frá vefsíðu sem sérhæfir sig í að umreikna tölur sem ríkisstofnanir hafa "hagrætt" eða túlkað einkennilega.

Stundum er sölumennska ekkert nema lygi. Forstjórar fyrirtækja græða oft beint þegar hlutabréfin hækka. Þess vegna er ekkert mark á þeim takandi þegar þeir spá í framtíðina og forstjórar virðulegustu fyrirtækja eru í raun ekkert skárri en sölumenn notaðra bíla. Dag eftir dag koma þessir menn fram í sjónvarpstöðvum sem sérhæfa sig í viðskiptum og yfirgnæfandi meirihluti þeirra spáir hækkandi hlutabréfamarkaði. Á sama tíma eru þessir sömu menn að selja hlutabréf í stórum stíl. Þessa dagana ráðleggja þeir öllum að kaupa en eru sjálfir að selja þessi sömu bréf með meiri þunga en þeir hafa gert í 20 ár. Samkvæmt New York Post þá er innherjar stærstu fyrirtækjanna að selja hlutabréf fyrir $63 fyrir hvern $1 sem þeir kaupa! Þetta eru mennirnir sem eru í miklu betri aðstöðu en aðrir til þess að sjá hvert stefnir. Eigum við að trúa orðum þeirra eða athöfnum?

Stundum getur verið erfitt að greina á milli lygi og óskhyggju. Samtök hagsmunaaðila á bandarískum fasteignamarkaði gáfu út yfirlýsingu fyrir nokkrum dögum þar sem því var slegið föstu að markaðurinn eigi eftir að taka við sér snemma á næsta ári. Þetta þótti töluverð frétt—það var raunverulega verið að segja að botninum væri þegar náð og fasteignaverðið færi að hækka eftir nokkra mánuði—og þessi góðu tíðindi höfðu jafnvel áhrif á viðskipti í kauphöllinni. Þegar yfirlýsingin er hins vegar grannt skoðuð þá kemur í ljós að fullyrðingarnar eru ekki studdar með neinum raunverulegum rökum. Eina hálmstráið var að umsóknum um lán fækkaði ekki á milli mánaða, en það stafaði af því að margir voru að endurfjármagna óhagstæð eldri lán. Þetta mat á stöðunni er því byggt á óskhyggju eða það er sennilega vísvitandi verið að fara með fleipur í þeim tilgangi að ýta undir sölu fasteigna.

Um svipað leyti og þessi bjartsýnisspá sá dagsins ljós birti New York Times frétt um raunveruleg fasteignaviðskipti í Naples, Flórída. Byggingafélög og fasteignasalar eru sérfræðingar í að fela verðlækkanir. Frekar en að lækka húsverðið beint þá eru alls konar hlunnindi látin fylgja með í kaupunum, t.d. engar útborganir í eitt ár eða nýr BMW. Opinberlega hefur verðið ekkert verið að lækka í Naples en þegar 500 manna hópur mætti á uppboð (ekki nauðungaruppboð, þetta var bara ein aðferð til þess að selja) þá reyndist verðið vera um 25% lægra en á síðasta ári. Sölufyrirtæki í Tampa, JP. King, hélt svipað uppboð á dögunum þar sem 50 íbúðir seldust með yfir 40% afslætti miðað við gangverð síðasta árs. Ofsadýr hús seljast heldur ekkert betur í Flórída. Þegar reynt var að selja nokkrar villur á uppboði í sumarparadýsinni Key West í nóvember þá seldist engin. Sem dæmi þá var lægsta verð sem seljandi á einni þeirra gat sætt sig við nærri $6 milljónir en hæsta tilboð í eignina var $2,5 milljónum lægra. Þessi sama saga er að endurtaka sig á dýrustu mörkuðum landsins, bæði á austur- og vesturströndinni.

Þetta óglæsilega graf sýnir hve oft fyrstu skóflustungur við byggingu íbúðarhúsnæðis hafa verið teknar á þessu ári. Rauða strikið sýnir breytingar í prósentum (hægri skali), en bláu súlurnar fjölda nýbygginga. Október var óvenju kaldur mánuður þannig að það verður að reikna hann með nóvember. Leiðin liggur enn niður.

Kaupmannasamtökin eiga það líka til að fara óvarlega með staðreyndir þegar þau reyna að skapa rétt hugarástand (neysluæði) hjá neytendum. Bandaríkjamenn halda alltaf upp á þakkargjörðadag á þriðja fimmtudegi nóvembermánaðar. Daginn eftir rennur upp svokallaður "svartur föstudagur" sem er annar mesti söludagur ársins. Á þessum degi er allt gert til þess að koma fólki í verslunarstuð sem varir síðan til jóla. Föstudagurinn svarti var ekki einu sinni að fullu liðinn þegar fréttir af rosaverslun fóru að berast. Skilaboðin voru þessi: Verslunin hefur stóraukist síðan í fyrra … allir eru að versla … og þú verður líka að taka þátt í þessu! En þetta var hreint bull og m.a. byggt á viðtölum við fólk þar sem spurt var hvað það "ætlaði" að kaupa. Lincio Report fylgist hins vegar með raunverulegri verslun (ekki óskalistum fólks) með því að smala saman upplýsingum um innheimtu söluskatts um öll Bandaríkin. Fréttabréfið sagði nýlega orðrétt: "Upplýsingastreymið sýnir svo ekki verður um villst að neyslan hefur minnkað, og meirihluti þeirra aðila sem við erum í sambandi við hefur þungar áhyggjur af lækkandi söluskattstekjum."

Það sem hefur verið að gerast á Vesturlöndum um árabil, og þessi þróun er hröðust í Bandaríkjunum, er að fjölþjóðafyrirtækin hafa kerfisbundið verið að flytja framleiðsluna í þrælabúðir í Asíu og víðar. Það er ekkert rangt við skipulagða hnattvæðingu, en þessu hefur öllu verið stjórnað af örlítilli klíku manna sem hvorki virðir mannréttindi eða vistkerfi jarðarinnar. Í stað raunverulegrar framleiðslu hefur nýtt pappírshagkerfi komið til sögunnar. Feikileg prentun peninga hefur getið af sér yfir 9000 áhættusjóði og stórfurðulegt brask með skuldapappíra sem enginn getur séð fyrir um hvernig endar. Þessi pappírsleikur hefur fundið sér leið inn á fasteignamarkaði í Evrópu og Ameríku. Fasteignaverð hefur rokið upp vegna offramleiðslu peninga. En hagkerfi sem er þanið út eins og keðjubréf stenst ekki til lengri tíma og þess vegna er fasteignamarkaurinn að gefa eftir. Það er kanarífuglinn í kolanámunni.

Draumurinn um að gera heil þjóðfélög rík með pappírsverðmætum er gömul martröð. Það er kannski stærsta lygi allra tíma. Sagan er full af hrollvekjandi sögum um alls konar sápukúlur sem á endanum skildu allt eftir í rúst. Þegar bankakerfið framleiðir of mikið peningamagn þá eykur það líka stéttaskiptinguna. Hlutfallslega fáir hafa aðgang að ferskum braskpeningum og þeir aðilar græða mest áður en dreggjarnar "seytla" niður til pöpulsins. Hagkerfi þar sem of mikið kapítal er í gangi einkennist af spekúlasjónum þar sem fyrirtæki eru keypt (stundum með fjandsamlegum hætti) og hæpin ævintýri oft fjármögnuð. Þetta er leikur sem hlutfallslega fáir stunda og gefur oft feikilegan gróða í aðra hönd.

Fólkið situr síðan uppi með verðbólgu sem alltaf heldur innreið sína áður en pappírsfylliríinu lýkur … og kannski eru yfirvöld víða að slá timburmönnunum á frest með því að láta reiknimeistarana fela hana.