vald.org

Hvað gerist 2007?

24. janúar 2007 | Jóhannes Björn

Hagkerfið hóf 2007 með miklum látum. Olíufatið lækkaði niður í verð sem ekki hefur sést í nærri tvö ár og margir sérfræðingar eru að spá endalokum tímabils hækkana á málmum og mörgu öðru hráefni. Það er hætt við að þetta sé aðeins forleikur meiri hamagangs en heil kynslóð olíukaupmanna og verðbréfabraskara hefur áður upplifað.

Við getum byrjað á að slá því föstu að fréttir af andláti olíunnar eru allt of ýktar. Ef olíuverðið er skoðað í sögulegu samhengi þá er það enn mjög hátt. Allir hlutir sem ganga í gegnum langt skeið hækkana hrapa öðru hvoru í verði. Í fjármálaheiminum er þetta kallað "tímabundin leiðrétting" (þ.e. þegar frökkustu spekúlantarnir tapa stórt) og þessar leiðréttingar eru oft harkalegar í beinu hlutfalli við þá hagsmuni sem eru í veði. Hvergi er braskið meira en á olíumarkaði þar sem fyrirtæki, ríkisstjórnir, bankar og áhættusjóðir versla með hvert fat í um 200 skipti áður en það er notað af endanlegum neytenda. Ekki bætir úr skák að þessi viðskipti eru stórpólitísk og margir telja t.d. að eitt fyrirtæki, Goldman Sachs, sem hefur bein tengsl við sitjandi ríkisstjórn Bandaríkjanna, hafi með aðgerðum sínum fyrir síðustu kosningar lækkað allt orkuverð heimsins. Síðan 2001 hefur olíuverðið þróast svona:

Hvert stefnir olíuverðið? Staðreyndir málsins eru ekki flóknar. Allar stærstu olíulindir heimsins fundust fyrir mörgum áratugum. Allar þessar olíulindir eru komnar af léttasta skeiði og margar þeirra eru byrjaðar að hnigna. Sum svæði, eins og Norðursjórinn, Mexíkó og sum Arabaríki eru á hraðri niðurleið. Eins og áður hefur verið fjallað um á þessari síðu þá bentir líka margt til þess að Saudi Arabía standi miklu tæpar en flesta grunar. Nýjar olíulindir sem finnast koma ekki til með að gera betur en vega upp á móti því sem tapast á næstu árum og áratugum. Margir sérfræðingar, t.d. T. Boone Pickens og Matt Simmons telja ólíklegt að framleiðslan fari nokkurn tíma yfir 85–86 milljónir fata á dag, en neyslan er rétt undir því marki. Á því augnabliki sem það verður almennt viðurkennt að neyslan hafi farið fram úr framleiðslugetunni þá stórhækkar allt orkuverð í heiminum. Þetta línurit, reiknað í milljörðum fata og neyslu á ársgrundvelli, sýnir glöggt að við höfum nú í nokkurn tíma verið að ganga á höfuðstólinn. Græna strikið speglar framleiðslu en brúnu súlurnar olíufundi.

Á milli 1955 og 2005 jókst olíuneysla heimsins um yfir 500% eða úr 15 milljónum fata á dag í yfir 82 milljónir. Með vaxandi orkuþörf Kína, Indlands og fleiri landa sem búa við hagvöxt er varla hægt að gera ráð fyrir að þessari þróun verði snúið við. Stóra bremsan kemur ekki fyrr en orkuverðið snarhækkar.

Þeir sem halda því fram að orkuvandinn verði leystur með því að nýta tjörusand eða kornstöngla eru annað hvort mjög illa upplýstir eða þeir reykja eitthvað ólöglegt. Auðvitað verður allt nýtt sem hægt er að nýta, en það verður eins og krækiber í helvíti, alla vega fyrstu áratugina. Það tekur óskaplegt átak og flókið dreifingakerfi að framleiða orku sem samsvarar tugmilljónum fata af olíu á dag. Og það sem verra er, það eru engar líkur á að slíkt starf hefjist fyrir alvöru fyrr en allt er komið í óefni. Næsta skref í þessu ferli verður sennilega aukinn ófriður á þeim svæðum þar sem olíu er að fá. Maðurinn er eins og villidýr sem ræðst á allt og alla frekar en að aðlagast breyttum tímum.

Eina skammtímalausnin á orkuvanda heimsins (fyrir utan sparnað) liggur á hafsbotni og krefst smíði olíupalla sem geta borað á sífellt meira dýpi. Þessu fylgja þó tvö vandamál. Hækkandi hitastig sjávar framleiðir sífellt fleiri fellibyli og styrkleiki þeirra magnast. Við sáum afleiðingarnar í Mexíkóflóa þegar fellibylurinn Katrín gekk yfir olíupallana þar. Litið til næstu 10 ára eða svo þá er seinna vandamálið kannski enn verra. Floti olíuborpalla er allt of lítill, hann er of gamall og það tekur óþægilega langan tíma að endurnýja hann. Skoðum þetta línurit:

Eftir olíukreppuna 1973 var mikil gróska í greininni og fjöldi borpalla var smíðaður. Fyrir röskum 20 árum lækkaði olíuverðið skyndilega allt of mikið og við sjáum á grafinu hvernig iðngreinin nærri því dó út. Þegar hópuppsagnir starfsmanna byrjuðu fyrir 20 árum—og munið að þetta eru feikilega sérhæfð störf—þá fuku þeir eðlilega fyrst sem höfðu minnsta starfsreynslu. Þetta kemur sér ákaflega illa í dag vegna þess að meðalaldur þessarar sérhæfðu stéttar er óeðlilega hár og olíufélögin þurfa því fljótlega að ráða nýtt fólk í flestar gömlu stöðurnar. Á sama tíma vantar hæfa menn til þess að þjálfa her nýrra starfsmanna í þessari vaxandi atvinnugrein. Iðnaðurinn sem smíðar olíuborpalla glímir við svipuð vandamál eftir áratuga vanrækslu. Samt verður að endurnýja stóran hluta gamla flotans áður en hægt er að stækka heildarflotann verulega. Af öllum þessum orsökum telur t.d. Matt Simmons að flotinn verði ekki mikið stærri eftir áratug en hann er í dag.

Það er allt of mikið moldviðri á olíumörkuðunum til þess að hægt sé að gera skynsamlegar skammtímaspár um verðþróun, en samt er hægt að fullyrða að allt bendi í þá veru að verðið tvöfaldist eða gott betur innan örfárra ára. Kannski fyrr en síðar því grundvallarstaðreyndir málsins, framboð og eftirspurn, eru borðliggjandi.

Ef ráðist verður á Íran þá breytir það líka öllu á olíumarkaðinum. Margir sem fylgjast grannt með framvindu mála í Miðausturlöndum telja mjög líklegt að þessi árás verði gerð á næstu mánuðum. Ástæðan er mjög einföld. Ísrael telur að það verði að ljúka þessu verki af áður en vinveitt stjórn Bush hverfur af sjónarsviðinu og þá skipti ekki máli hvor þjóðin varpar sprengjunum. Það er líka ólíklegt að kosningaárið 2008 verði fyrir valinu, þannig að tímaglasið er að tæmast. Það er annars athyglisvert—eins og nýlega var bent á í grein á vefsíðu Asian Times—hvernig bandaríski herinn hefur verið að þróast í nokkurs konar olíulögreglu. Ef við skoðum staðsetningu nýrra herstöðva og hvernig flotanum er stillt upp, þá er ljóst að hlutverk hersins er í vaxandi mæli að vernda flutningaleiðir olíu á sjó og landi, auk þess að vera í viðbragðsstöðu á svæðum sem framleiða mikið af olíu. Við þetta bætist auðvitað styrjöld í einu mesta olíuríki heimsins og hótanir um beinar hernaðaraðgerðir gegn öðru olíuveldi.

Framhald …