vald.org

Hvað gerist 2007 … framhald

30. janúar 2007 | Jóhannes Björn

Það er deginum ljósara að áhættan sem búið er að byggja inn í fjármálakerfi jarðarinnar á sér enga hliðstæðu í sögunni. Afleiðuviðskipt hafa gert kerfið svo sveigjanlegt að það lítur orðið út eins og fimleikamaður sem hefur beygt líkamann þar til hann er eins og hjól í laginu. Allt rúllar síðan áfram og kerfið matar sig sjálft. Alls konar ruslapappírar seljast eins og heitar lummur og stjórnendur áhættusjóða telja sig hafa fundið upp eilífðarvél sem malar gull.

Ekkert hefur gert fleira fólk gjaldþrota en að trúa því að það lifi á breyttum tímum, að "nýtt hagkerfi" hafi leyst það gamla af hólmi og í þetta skipti gangi hlutirnir öðruvísi fyrir sig en áður. Sem dæmi þá þótti sjálfsagt í kringum árið 2000 að kaupa hlutabréf í tæknifyrirtækjum sem höfðu sama og engar tekjur eða einu sinni raunhæfar vonir um tekjur. Og í dag halda flestir að fjárfestar geti tryggt sig út í hið óendanlega með afleiðum og öðrum tilfærslum verðmæta. Þessi nýja gullgerðarlist er vissulega flóknari vitleysa en að t.d. kaupa 30 grömm af túlípönum fyrir 50.000 krónur eins og menn gerðu í Hollandi 1624 (lauslega reiknað yfir á nútíma verðlag), en þetta er vitleysa samt. Hvernig getur nokkur ímyndað sér að það sé hægt til lengri tíma að tryggja skuldir í hagkerfinu upp á margfalt hærri upphæðir en nemur ársframleiðslu allrar jarðarinnar?

Með því að skoða hvernig þetta einkennilega hagkerfi þróaðist þá getum við líka gert okkur grein fyrir veikleikum þess. Langstærsti markaðurinn, sá bandaríski, ræður hér alveg ferðinni. Skömmu eftir að þessi öld gekk í garð hrundu hlutabréfamarkaðir út um allan heim. Bréf í tæknifyrirtækjum lækkuðu mest og meðalverðið á NASDAQ hrapaði t.d. um 78% á tveim árum. Það var 1929 stæll á hlutunum. Hagkerfið byrjaði eðlilega að hægja á sér og stjórnvöld reyndu að spyrna á móti með því að lækka vexti og skatta. En eitthvað hafði breyst frá fyrri tíð því þessar venjulegu ráðstafanir virkuðu ekkert á efnahagslífið og í ársbyrjun 2003 var veruleg hætta á neikvæðum hagvexti. Það er næsta skrefi bandaríska seðlabankans að þakka eða kenna hvernig málin standa í dag og útskýrir m.a.hvers vegna það er ekki hægt að þverfóta fyrir áhættusjóðum sem sigla á pappírsfjöllum og af hverju bandaríski fasteignamarkaðurinn er loks að hrynja eftir gífurlegar hækkanir. Bankinn lækkaði stýrivexti niður í 1% og hélt þeim þar í heilt ár. Þegar hagkerfi sem leiðir öll önnur hagkerfi heimsins byrjar að borga með lánum (lána undir verðbólgustiginu) og sturtar peningum í tvær styrjaldir á sama tíma—og borgar fyrir allt ballið með hallarekstri—þá gerast alls konar furðulegir hlutir.

Svo til öll verðmæti sem voru verðlögð í dollurum byrjuðu að hækka 2003. Gull, silfur, kopar og alls konar hráefni tvöfölduðust í verði á stuttum tíma. Fasteignaverð byrjaði líka að hækka í Bandaríkjunum og víðar. Fasteignamarkaðurinn hóf brátt að mata sjálfan sig þegar stór hluti kaupanda keypti eingöngu til þess að græða vegna þess að verðið fór stöðugt hækkandi Þetta var klassísk sápukúla keyrð áfram með ódýrum peningum. Hækkandi fasteignaverð varð til þess að fólk byrjaði að slá svimandi upphæðir út á eignir sínar, það eyddi þessum peningum (borgaði líka upp eldri skuldir) og efnahagslífið fór loks að sýna eitthvað lífsmark. Ódýrir peningar urðu líka til þess að sparnaður heimilanna fór niður fyrir núllið og hefur verið neikvæður í nærri 20 mánuði í röð.

Allt eru þetta klassískt dæmi um hagkerfi sem er keyrt áfram með seðlaprentun frekar en raunverulegri verðmætasköpun. Kaupmáttur þorra fólksins stendur í stað eða lækkar miðað við verðbólgu á sama tíma og fasteignir og hráefni hækka. Þetta gengur eins lengi og menn geta braskað með fasteignir eða annað sem aukið peningamagn í umferð hækkar í verði. Eins og sagan hefur sýnt okkur í ótal skipti þá siglir þó allt í strand á vissum punkti, t.d. þegar svo er komið að aðeins lítið brot þjóðarinnar hefur efni á að kaupa sér húsnæði. Þá gengur allt dæmið til baka. Meira að segja áhættusjóðir á Cayman og víðar sem hafa byggt upp afleiðupýramída með útistandandi húsnæðislánum, lánum sem búið er að "pakka" (þúsundir lána sem eru seld á einu bretti), eiga eftir að verða gjaldþrota.

Þegar skriðan fer af stað þá gerast hlutirnir með undrahraða. Network USAMortgage, fyrirtæki sem veitir fasteignalán, var með sjö manns í vinnu þegar það hóf göngu sína fyrir 10 árum. Eftir að æði greip um sig á þessum markaði fyrir nokkrum árum þá fjölgaði starfsmönnunum fljótlega í 1800! Fyrirtækið lokaði fyrir nokkrum dögum. Þessi saga er að endurtaka sig um öll Bandaríkin. Eins og áður hefur verið greint frá á þessari síðu þá hafa talsmenn hagsmunaaðila í fasteignabransanum nýlega lýst því yfir að markaðurinn sé að snúa við blaðinu og bjartari tímar séu framundan, en meira að segja Bloomberg dregur það nú í efa. Það er miklu líklegra að það styttist óðum í holskeflu nauðungaruppboða, þá mestu sem Bandaríkin hafa gengið í gegnum í yfir 70 ár. Ástæðan er einföld. Sápukúla á fasteignamarkaði var það eina sem kom í veg fyrir neikvæðan hagvöxt og það blasir ekkert við sem getur komið í staðinn fyrir billjónirnar sem þessi markaður gaf og er núna byrjaður að taka til baka. Sumir hagfræðingar halda að vaxandi fjárfestingar fyrirtækja fylli í skarðið, en það er rökvilla vegna þess að fyrirtæki draga frekar úr umsvifum sínum heldur en hitt þegar almenningur neyðist til þess að spara.

Á myndmáli lítur dæmið svona út:

Bláu súlurnar sýna milljarða dollara sem þjóðin hefur slegið út á húsin sín á hverjum ársfjórðungi. Þetta eru eyðslulán sem fólk slær út á eignarhlutfall sitt í húsnæðinu, ekki föst lán sem fólk tók þegar það upphaflega keypti. Þessar tölur fara gjörsamlega úr böndunum eftir 2002. Rauða strikið sýnir okkur enn betur hvað er að gerast, en það gefur til kynna hvaða vægi eyðslulánin hafa í ráðstöðnunartekjum fólks (tekjum eftir frádrátt skatta og skyldutrygginga). Á tímabili 2004 og 2005 fer þetta hlutfall yfir 10% (!) en það er ekkert fordæmi fyrir slíku. Það þar ekki að horfa lengi á þessa línu áður en mann fer að gruna að mikið blóðbað sé framundan. Eftirfarandi súlurit ætti líka að taka af allan vafa um hvert stefnir:

Bláu súlurnar sýna hagvöxt eins og hann hefur verið samkvæmt útreikningum ríkisins. Rauðu súlurnar umreikna dæmið og sýna hvernig hagvöxturinn hefði litið út ef enginn hefði slegið eyðslulán út á íbúðarhúsnæði. Sem sagt, þegar sápukúlu á fasteignamarkaði er sleppt þá hefur svo til enginn hagvöxtur verið í stjórnartíð Bush. Ríkið hefur á hinn bóginn hlaðið upp ógnvekjandi skuldum og greiðslujöfnur við útlönd hefur slegið öll fyrri met. Sá greiðsluhalli lítur svona út:

Bruðl ríkissjóðs, hrikalegur viðskiptahalli og gífurlegar skattalækkanir hjá ríkasta 1% þjóðarinnar hafa því lítið sem ekkert gert til þess að örva efnahagslífið. Það er fasteignamarkaðurinn sem hefur haldið dampinum uppi. Ástandið er jafnvel enn verra en þessar tölur gefa til kynna vegna þess að tölur um verðbólgu eru stórlega vanmetnar. Möppudýr bandaríska ríkisins mæla ekki verðlagið beint heldur bæta við alls konar fáránlegum formúlum sem fegra tölurnar. Sem dæmi, þá leggja embættismennirnir mat á aukin gæði vöru og þjónustu. Heilsuþjónusta (læknar, lyf, heilsutryggingar og sjúkrahús) hefur um árabil verið að hækka um að meðaltali yfir 10% á ári, en vegna þess að reiknimeistararnir ákveða að þjónustan sé betri (þegar flestir mundu segja hið gagnstæða) þá áætla þeir meðaltalshækkun upp á 4,2%. Hugsum okkur annað dæmi þar sem aðeins tvö veitingahús þjóna litlu þorpi. Eitt árið hækka þau bæði allt á matseðlinum hjá sér um 25%, en á sama tíma opnar skyndibitastaður í þorpinu sem selur algjört rusl á 50% lægra verði. Samkvæmt visku embættismannanna þá hefur útseldur matur ekkert hækkað í þorpinu vegna þess að fólkið getur valið að versla við ódýrari staðinn. Ef sömu rök eru notuð þá hefði útseldur matur lækkað ef skyndibitastaðurinn hefði selt fólki 90% ódýrara svínafóður! Hvers vegna eru möppudýrin með allar þessar flóknu hundakúnstir? Lægri verðbólgutölur sýna hærri hagvöxt sem stjórnin getur montað sig af og draga líka úr greiðslum ríkisins til gamla fólksins.

Aðeins kraftaverk getur komið í veg fyrir að fasteignaverð haldi áfram að falla á Bandaríkjamarkaði, nauðgunaruppboðum stórfjölgi, brasksjóðir út um allan heim fari á hausinn og dollarinn falli enn meira en komið er.

Framhald …