vald.org

Hvað gerist 2007 … framhald

5. febrúar 2007 | Jóhannes Björn

Joseph Patrick Kennedy, faðir John F. Kennedy, var frábær hlutabréfabraskari á Wall Street. Einn góðan veðurdag 1928 var hann á leið á skrifstofuna sína þegar hann staldraði við og lét strákling bursta skóna sína. En í staðinn fyrir að borga stráksa fyrir verkið með peningum þá ákvað hann frekar að gefa honum gott ráð og sagði. "Piltur minn, haltu áfram í skóla." Kennedy brosti í kampinn og gekk á braut en þá kallaði strákurinn fullum hálsi á eftir honum: "Og ég er með ráð handa þér, keyptu hlutabréf í Hindenburg!"

Kennedy þótti þetta stórmerkilegt, snéri við og ákvað að borga stráknum. Það voru að vísu engin hlutabréf til á þessum tíma í fyrirtæki sem hét Hindenburg, það var skröksaga sem einhver hafði sagt drengnum, en þetta fékk Kennedy til þess að hugleiða hve brjálæðislegur markaðurinn væri þegar allir—meira að segja skóburstar—teldu sig færa um að mæla með einstökum hlutabréfum. Þetta atvik hjálpaði honum að taka þá ákvörðun að selja öll hlutabréf sín. Hann gekk meira að segja enn lengra og veðjaði peningum á að botninn dytti úr markaðinum. Þegar upp var staðið græddu mjög fáir einstaklingar nokkuð í líkingu við Joseph Kennedy á kreppunni miklu. Eins og hann orðaði það sjálfur svo eftirminnilega: "You know it is time to sell when the shoe-shine boy tries to give you stock tips."

Einhver ætti að segja Kínverjum þessa sögu því þessa stundina gengur hlutabréfaæði yfir þjóðina og fólk stendur í löngum röðum fyrir utan verðbréfaskrifstofur tilbúið að fjárfesta aleiguna. Á síðasta ári hækkuðu hlutabréf sem eru skráð í kauphöllinni í Shanghai um 130% og þau eru enn á uppleið. Nú ætla allir að verða ríkir og helsta umræðuefnið þar sem hausar eru klipptir eða skór burstaðir eru hlutabréf. Þetta er klassísk sápukúla. Spurningin er aðeins hvort hrun á hlutabréfum og fasteignamarkaði í Shanghai hefur einhverjar keðjuverkanir.

Þegar einstaklingar eða milligöngumenn sem kaupa hlutabréf hafa lánstraust þá nota þeir það venjulega óspart til þess að fjármagna braskið. Hlutfall þessara lána fer venjulega eftir ríkjandi reglum á hverjum stað og getur verið mjög breytilegt. Heildarupphæðin sem menn slá getur þó verið góður mælikvarði á hvort ákveðnir markaðir eru að ofhitna eða ekki. Samkvæmt tölum bandarísku kauphallarinnar (New York Stock Exchange) þá skulduðu hlutabréfakaupendur $221,66 milljarða í árslok 2005 en $270,52 milljarða s.l. nóvember. Það er 22% hækkun á 11 mánuðum. Gamla skuldametið, $278,52 milljarðar, var slegið í mars 2000 rétt fyrir sögulegt hrun hlutabréfamarkaðarins.

Samkvæmt öllum venjulegum hagfræðiformúlum þá er peningakerfi heimsins gjörsamlega stjórnlaust í dag. Þetta er orðið svo augljóst að meira að segja seðlabankastjórar og sérfræðingar seðlabanka seðlabankanna, Bank for International Settlements í Sviss, eru farnir að hafa áhyggjur. Afleiðuviðskipti og peningamokstur frá vaxtalágum svæðum hafa dregið svo mikið úr eðlilegum áhættukostnaði að hrikalega gjaldþrot hljóta að vera kraumandi rétt undir yfirborðinu.

Línurit Moody´s yfir hvað svokölluð BAA skuldabréf kosta fyrirtæki sýnir að peningaflóðið er búið að drekkja öllu áhættuskyni. BAA skuldabréf standa aðeins tröppu hærra en svokölluð ruslabréf (junk bonds) en samt kostar það fyrirtæki aðeins örlítið meira að slá peninga á þennan hátt heldur en það kostar t.d. bandaríska ríkið, sem fræðilega á að hafa 100% möguleika á að borga til baka.

Stór hluti þessara ódýru peninga (um 80% af sparnaði heimsins) sér dagsins ljós vegna viðskiptahalla Bandaríkjanna, þ.e. þegar neytendaskuldirnar leita aftur inn í peningahringrás heimsins. Ef við leggjum tölur sem sýna viðskiptahallann frá árinu 2000 yfir þetta graf þá ganga þær í þveröfuga átt.

Það ríkir mikil bjartsýni í fjármálaheiminum og margir halda að búið sé að finna upp nokkurs konar eilífðarvél og kerfið geti endalaust tryggt sig sjálft með afleiðuviðskiptum. Þetta er gamli draumurinn um að búa til eitthvað úr engu með framleiðslu á pappír frekar en skapa alvöru vörur eða þjónustu. Í raunveruleikanum ganga hlutirnir þannig fyrir sig að aukið framboð vöru og þjónustu skapar rúm fyrir meiri pappírsverðmæti, en það er aldrei hægt að snúa því dæmi við nema í stuttan tíma. Verðbólgan heldur alltaf innreið sína þegar peningar eru prentaðir gagngert til þess að efla hagkerfið.

Sú skoðun virðist líka nokkuð algeng í fjármálaheiminum að seðlabankar landanna geti alltaf hlaupið undir bagga ef gjaldþrotahrina gengur yfir—og þá hafa menn vafalaust í huga ræðu Ben Bernanke (uppnefndur "þyrlu-Ben") sem hann gaf áður en hann gerðist seðlabankastjóri—en sú skoðun er byggð á miklum misskilningi. Seðlabanki getur aldrei varpað peningaseðlum úr þyrlu eða yfirleitt gert nokkuð sem réttlætir slíka samlíkingu.

Þessi barnatrú á töframátt seðlabanka heimsins er farin að valda sumum áhyggjum. Í mjög merkilegu ávarpi sem William Poole, bankastjóri seðlabankans í St. Louis (bandarísku seðlabankarnir eru 12), gaf 17. janúar 2007 fjallar hann um tifandi tímasprengjur í hagkerfinu og þá sérstaklega lánafyrirtækin Freddie Mac og Fannie Mae, sem eru að hluta baktryggð af bandaríska ríkinu. Kannski er Poole óbeint að svara ræðu "þyrlu-Ben" um hvernig peningaprentvélar geta bjargað öllu, en hann tekur skýrt fram að seðlabankinn vill ekki skipta sér beint af glundroðanum sem myndast ef Freddie Mac eða Fannie Mae—fyrirtæki sem velta billjónum dollara og kunna ekki að halda bókhald—lenda í vandræðum. Markaðurinn hegðar sér þó þannig gagnvart þessum fyrirtækum að það mætti halda að þau hefðu beinan aðgang að prentvélunum. Þau geta t.d. slegið peninga á svipuðum kjörum og ríkið. Annað sem Poole tekur skýrt fram og allir ættu að hlusta á er þetta: Lögum samkvæmt getur seðlabankinn ekki rétt einum né neinum peninga; hann getur aðeins aukið greiðslugetu innan kerfisins, t.d. með lægri vöxtum.

Þegar stórir áhættusjóðir rúlla fer af stað keðjuverkun sem seðlabankar ráða lítið við. Það er ekki nóg að gera lán möguleg ef bankar þora ekki að lána, sem er nákvæmlega andrúmsloftið sem myndast þegar menn geta ekki gert sér grein fyrir hvar næsta alda gjaldþrota ríður yfir. Draumur seðlabankastjórans, "þyrlu-Bens", um að varpa peningaseðlum úr háloftunum er aðeins draumur. Og þeir sem halda að verslun með afleiður geti gulltryggt allt hagkerfið ættu að lesa þessa lýsingu á því hvernig fátækt bæjarfélag getur farið út úr því á meðan bankinn rakar inn fé og þessa sem sýnir að færustu sérfræðingar geta líka runnið á rassinn.