vald.org

Afsakið … hlé

20. mars 2007 | Jóhannes Björn

Því miður verður ekkert nýtt á þessari síðu fyrr en 1. september 2007. Allt sem hér hefur verið skrifað á undanförnum mánuðum um útlit efnahagsmála heimsins stendur óhaggað og engar grunnstaðreyndir hafa breyst. Eins og margoft hefur verið bent á þá stefnir í efnahagslægð sem á upptök sín á bandarískum fasteignamarkaði.

Látið ekki blekkjast af sölumönnum eða talsmönnum einhverra hagsmunaaðila. Sem dæmi, allar götur síðan bandarísku fasteignamarkaðurinn byrjaði að falla þá hefur kór loddara (því þeir vita betur) reynt að kjafta lífsmark í markaðinn. Alltaf þegar jákvæðar mánaðartölur birtast—þetta eru óstaðfestar og handónýtar tölur á slíkum langtímamarkaði—þá spá menn því að markaðurinn sé að jafna sig og leiðin liggi brátt upp á við. Það þarf engan sérfræðing í lestri línurita til þess að sjá að það eru engar sannanir fyrir hendi í þá veru að markaðurinn sé að gera nokkuð annað en halda niðurleiðinni áfram.

Tekjur flestra Bandaríkjamanna fara lækkandi og halda ekki í við verðbólguna. Flest ný störf sem hafa verið að skapast í hagkerfinu eru illa borguð og eru hjá ríkinu og í heilsugeiranum. Neyslunni, sem er yfir 70% hagkerfisins, er haldið gangandi með vaxandi skuldasöfnun fólksins. Neikvæður sparnaður er svo þrálátur að það þarf að leita aftur til kreppunnar miklu til þess að finna hliðstæðu. Það er örstutt í að þessu neyslufylleríi ljúki því fasteignirnar mjólka ekki lengur peningum.

Nú kann einhver að segja: "En ef fólkið er svona tekjulágt, hvernig stendur þá á uppsveiflunni í kauphöllinni á síðustu árum?" Það eru mörg svör við þeirri spurningu og sum eru augljósari en önnur. Ríkt fólk hefur meiri peninga til þess að fjárfesta, mikill samruni fyrirtækja hækkar oft verð hlutabréfa og brasksjóðir hafa aldrei verið stórtækari. Helsta ástæðan gæti þó kannski verið sú að fyrirtækin sjálf hafa verið að kaupa gífurlegt magn eigin hlutabréfa. Þetta er gamla lögmálið um framboð og eftirspurn. Færri hlutabréf eru dýrari. Þetta línurit varpar ljósi á málið en það sýnir að fyrirtækin hafa á örfáum árum tekið andvirði hlutabréfa upp á nærri $600 milljarða úr umferð:

Þetta er í sjálfu sér vantraustsyfirlýsing á bandaríska hagkerfið. Yfirmönnum þessara fyrirtækja þykir hagstæðara að kaupa pappíra frekar en að eyða peningunum í að reisa nýjar verksmiðjur eða byggja upp aðra framleiðslu.

Verð á gulli og öðru hráefni fellur venjulega þegar hagkerfi Vesturlanda dregst saman. Það er þó alls ekki víst að það gerist að þessu sinni og gullið er sérstaklega girnilegt þessa dagana. Seðlabankar heimsins hafa undanfarin ár selt gull til þess að verja dollarann óbeint. Nú er svo komið að bankarnir eiga svo lítið gull eftir að þeir geta ekki haldið þeim leik áfram. Eftirspurnin er mikil og þá sérstaklega í Asíu. Hitt gæti þó tekið gullið í ótrúlegar hæðir að margt bendir til þess að bandarísk stjórnvöld ætli að "peningavæða" vandamálin á fasteignamarkaði. Þingmenn, og þá sérstaklega þeir sem eru á spena hjá bankakerfinu, eru byrjaðir að tala um að hlaupa undir bagga með fólki sem er að fara undir hamarinn (þýðing: bjarga bönkunum).

Það sem virðist blasa við á næstunni er að dollarinn lækkar enn freka, pundið lækkar og jenið hækkar. Svissneski frankinn heldur velli og gott betur og evran verður stöðug. Allar tryggingar á afleiðumarkaði, t.d. ruslaskuldabréf og aðrar skuldi, byrjuðu að hækka í lok febrúar. Það er því nærri sjálfgefið að einhverjir áhættusjóðir fara á hausinn á næstunni.

Olíuverðið á aðeins eftir að fara til skýjanna, en á svo pólitískum og laumulegum markaði er ákaflega erfitt að tímasetja miklahvellinn sem verður þegar staðreyndir lífsins renna upp fyrir mönnum. Þessa dagana er markaðurinn allur á skjön þar sem lakari olía á Evrópumarkaði er $4 dýrari en sú betri á Bandaríkjamarkaði. Þetta er tímabundið ástand sem myndaðist vegna þess að bensínframleiðslan er of hæg miðað við eftirspurn og óunnin olía hrannast því upp.

Sennilega er niðursveiflan byrjuð á vestrænum mörkuðum, það er bara ekki almennt viðurkennt ennþá. Eftir að markaðirnir hröpuðu í lok febrúar þá náði Las Vegast einkennið yfirhöndinni um stund. Las Vegas einkennið gengur út á það að sumir halda að þeir hljóti að fara að græða eftir að hafa tapað miklu. Þessi tálsýn hefur byggt fleiri hallir í Vegas en nokkuð annað.