vald.org

Dökk ský

30. ágúst 2007 | Jóhannes Björn

Miðað við ótrúlega stórtæk afskipti fjölda seðlabanka á þessum svokölluðu "frjálsu" mörkuðum, þá eru atburðir síðustu vikna þeir alvarlegustu sem hagkerfi heimsins hefur gengið í gegnum síðan spilaborgin hrundi 1929. Fallið 1987 var hressilegt, en það var miklu tæknilegra og hjólin byrjuðu aftur að snúast eðlilega eftir nokkra daga. Það sem við höfum verið að sjá nýlega er hræðsla og vanttrú á sjálfu kerfinu. Hringrás peninganna stöðvaðist og seðlabankar neyddust til þess að nota vægast sagt glannalegar aðferðir (allt að því ólöglegar) og gífurlegt peningamagn til þess að koma flæðinu aftur af stað. En eftir situr sú staðreynd að ef markaðurinn fær ekki að refsa mönnum fyrir glannaleg viðskipti og seðlabankar koma alltaf hlaupandi þá halda menn áfram að hegða sér glannalega. Sumir eiga þó greiðari leið að prentvélunum en aðrir.

Það er varla hægt að hugsa sér arðbærari viðskipti en að komast í þá aðstöðu að prenta peninga og hér áður fyrr voru margir seðlabankar í einkaeign. Englandsbanki var t.d. þjóðnýttur 1946 og hafði þá verið í einkaeign í 252 ár. Bandaríski seðlabankinn—sem reyndar samanstendur af 12 bönkum, en bankinn í New York er langmikilvægastur—hefur alltaf, tæknilega séð, verið í einkaeign. Þegar seðlabankinn var stofnaður 1913 var helstu bönkum landsins (margir í Rockefeller-Morgan veldinu) úthlutað hlutabréfum í honum. Þessi bréf ganga ekki kaupum og sölum á almennum markaði heldur fylgja með í kaupunum þegar þessir upphaflegu bankar eru keyptir eða þeir sameinast öðrum. Seðlabankinn borgar einhvern arð af þessum bréfum, en sjálfsagt hefur helsti ávinningur einkabankanna verið sá að hafa sem mest áhrif innan seðlabankans. Hér er átt við óbein áhrif en ekki daglega stjórnsýslu. Seðlabankinn hefur oft reddað "réttum" aðilum—og þá er venjulega sagt að yfirvofandi gjaldþrot þeirra ógni öllu kerfinu—á meðan margir óvígðir eru látnir rúlla. Long Term Capital var t.d. bjargað þótt það væri smásjóður miðað við allt hagkerfið.

Þann 22. ágúst s.l. var hagkerfið mikið til frosið og þá sendu fjórir stórbankar sameiginlega frá sér mjög sérkennilega tilkynningu. Citigroup, JP Morgan Chase, Bank of America og Wachovia byrjuðu á að upplýsa alla um eigið ágæti, jú bankarnir ættu nóg af peningum og gætu jafnvel slegið meiri pening hér og þar. Samt sem áður höfðu bankarnir allir fjórir ákveðið að fá lánaðar vænar summur hjá seðlabankanum, bara svona til að sýna öðrum bönkum fram á ágæti slíkra lána. Citigroup tók þó fram að viðskipavinur bankans þyrfti þetta lán.

Þessi tilkynning var alveg út í hött. Hvernig gat það hjálpað í stöðunni ef einhverjir aðilar sem áttu nóg af peningum tóku lán? Hér var eitthvað allt annað í gangi, enda kom fljótlega í ljós að þessi viðskiptavinur Citigroup var Citigroup sjálft! Citigroup Global Markets var að sligast undan fjalli afleiðna og ruslabréfa—og seðlabankinn gaf Citigroup grænt ljós á $25 milljarða!! Þetta var klárt brot á reglugerð (section 23A, Federal Reserve Act, Regulation W) sem kemur í veg fyrir að bankar með ríkistryggðar innistæður skauti á hálum ís með því að slá peninga fyrir brasksjóði sína. Seðlabankinn gekk svo skrefi lengra og byrjaði, þegar hann lánaði bönkum, að taka veð í ótryggari pappírum en áður. Svona fengu fjárfestingasjóðir stóru bankanna í raun beinan aðgang að prentvélum seðlabankans.

Bæði bankar og einstaklingar reka áhættusjóði. Þessir sjóðir starfa í anda frjálshyggjunnar, oftast með lögheimili í einhverri skattaparadís og fá að ávaxta pund sitt án teljandi afskipta yfirvalda. Þeir sem stjórna þessum sjóðum eru oft milljarðamæringar og þeir sem fjárfesta í þeim forríkir, því venjulega er ekki hægt að leggja inn lægri upphæð en $5 milljónir. En þegar braskið klikkar þá breytast þessir frjálshyggjumenn í örgustu sósílista og heimta að ríki og seðlabanki komi hlaupandi til þess að bjarga málunum. Áhættusjóðir og braskdeildir bankanna (með hjálp fyrirtækja sem áttu að leggja sjálfstætt áhættumat á verðbréf en lugu) hafa sett hagkerfið á annan endann, t.d. með því að endurvinna ónýta fasteignapappíra og selja sem örugga (AAA) fjárfestingu. Þessir sjóðir eiga skilið að fara á hausinn, margir eru reyndar að rúlla þessa dagana og miklu fleiri gjaldþrotafréttir eiga eftir að berast á næstu vikum og mánuðum.

Reuters greinir frá því að Basis Yield Alpha Fund, sem er skráð á Cayman, hafi lýst yfir gjaldþroti í New York (sem þýðir að engin verðmæti eru eftir því annars hefði sjóðurinn notað hliðhollari dómstóla á Cayman). Sjóðurinn var með einn milljarð dolla í ávöxtun fyrir nokkrum vikum en hefur síðan tapað 80%. Financial Times segir frá því hvernig Cheyne Capital í London sé að fjara út. Times Online lýsir því hvernig Carlyle blæðir peningum til þess að halda $20 milljarða sjóði sínum í Hollandi á floti. Fréttir af þessu tagi eiga eftir að halda áfram að berast í marga mánuði.

Þessi síða hefur lengi verið að vara við hruni á bandarískum fasteignamarkaði, en núna er það að komast í tísku að fylgjast með nýjustu tölum af þeim markaði og margir virðast halda að þessar upplýsingar geti sveiflað verði hlutabréfa nærri því samstundis. Þetta er hrein tímasóun. Hlutabréfamarkaðir rokka upp og niður, en fasteignamarkaðurinn er eins og skip á siglingu. Ákveðnar grundvallarstaðreyndir geta stýrt markaðinum árum saman. Þegar fasteignaverðið byrjar að hækka hraðar en verðbólgan og tekjur fólksins þá vitum við að sápukúla hefur myndast. Margir byrja að kaupa bara til þess að græða. Þegar sápukúlan springur þá tekur við margra ára tímabil þar sem verðið stendur í stað (verðbólgan lækkar raunverðið) eða húsnæðið beinlínis lækkar. Þetta tekur oftast langan tíma vegna þess að fólk rígheldur í húsin eins lengi og mögulegt er frekar en að tapa á þeim. Margar mánaðartölur eru líka marklausar. Fólk er t.d. skráð sem kaupendur þegar það skrifar undir sölusamninga, en ef það síðan hættir við þá kemur það hvergi fram. Sama fólk gæti líka keypt aðra eign og því verið talið tvisvar, en þessar tölur eru leiðréttar löngu seinna. Byggingafyrirtæki segja að þessa dagana sé verið að rifta 20%–40% allra samninga.

Það er frekar auðvelt að sjá að bandaríski fasteignamarkaðurinn á eftir að halda áfram að lækka í langan tíma. Skoðað í sögulegu samhengi þá er verðið víðast enn allt of hátt. Hlutfall á milli húsnæðisverðs og leigu er rangt. Skuldir einstaklinga eru allt of háar og kaupið þokast ekkert upp hjá þorra fólks. Orkukostnaður hefur hækkað verulega og heilsutryggingar æða fram úr eðlilegum verðbólgukostnaði. Vegna veðurfars er orðið fáránlega dýrt að tryggja hús á svo til allri suður- og suðausturströndinni. Mikið magn ruslalána er á leið í vanskil á næstu 18 mánuðum og nauðungaruppoðum fjölgar mikið. Það setur pressu á allt húsnæðisverð á markaðinum. Við allt þetta bætist að bankakerfið lánar ekki nema pottþéttu fólki á næstunni og úthýsir þannig fjölda einstaklinga sem annars hefðu viljað kaupa sér þak yfir höfuðið.

Það er þó einn annar möguleiki í stöðunni. Valdamiklir menn í kerfinu (bönkum, sjóðum og þingi), einstaklingar sem sjá fram á mikið tap úr eigin vasa eða buddu skjólstæðinga sinna, eru að reyna að fá stjórnvöld til þess að "bjarga fólkinu" sem (maður gæti haldið ómeðvitað) fékk óhagstæð lán. Stjórnarformaður PIMCO, Bill Gross, sem sennilega situr uppi með stjarnfræðilegar upphæðir í formi húsnæðislána, er meira að segja búinn að gefa nýrri ríkisstofnun nafn: RMC—eða fullu nafni Reconstruction Mortgage Corporation. Þetta billjón dollara fyrirbæri á að hjálpa milljónum einstaklinga að borga skuldir sínar við bankakerfið. Þetta er auðvitað fyrirtækjasósíalismi af svæsnustu gerð, en þessum mönnum er fúlasta alvara. Það er varla hægt að hugsa þetta dæmi til enda … en orðið "verðbólga" skýtur þó upp kollinum.

Við allt þetta bætist svo efnahagslægð í Bandaríkjunum, skilgreind sem neikvæður hagvöxtur í hálft ár eða lengur, bíður rétt handan við hornið. Fasteignamarkaðurinn tekur allt annað með sér í fallinu. Framundan eru villtir dagar á hlutabréfamörkuðum þar sem seðlabankar og bjarndýr takast á. Sveiflurnar verða miklar með góðum tímabilum, en sagan segir okkur að þegar upp er staðið þá verði fallið verulegt.

Markaðurinn (Dow hér) hefur lent í fimm niðursveiflum síðan 1968. Þessi línurit sýna hve miklu Dow mundi tapa í dag ef svipaðar kreppur gengu yfir.