vald.org

Bless dollari … halló evra!

21. september 2007 | Jóhannes Björn

Það þarf að leita allt aftur til ársins 1933 til þess að sjá mynd á borð við þessa frá landi sem býr við þróað hagkerfi—við getum kallað hana "run on the bank"—en þarna flykkist fólk að Northern Rock bankanum í Englandi og krefst þess að fá aurana sína áður en hann rúllar.

Vandræði Northern Rock voru alltaf tímaspursmál, því bankinn stundaði (eins og margir áhættusjóðir) að slá skammtímalán til þess að fjármagna lengri tíma lán. Þegar endursölumarkaður fasteignalána fór í hnút þá blasti gjaldþrot við. Eftir að lætin byrjuðu var seðlabankastjóri Englands, Mervyn King, fyrst kokhraustur og talaði um ábyrgð og annað gamaldags hjal í þeim dúr, en hann og stjórnsýslan snéru síðan algjörlega við blaðinu og eiginlega lofuðu að prenta eins mikið af peningum og þyrfti til að dekka öll vandræði sem kynnu að koma upp. Það voru stór loforð því bankakerfið á aldrei í reiðufé nema lítið brot innistæðna viðskiptavina sinna Það má segja að hálfgerður Zimbabwe-andi hafi svifið yfir vötnunum.

En Bretum er vorkunn. Peningarnir flæða ekki eins og áður, millibankavextir eru háir og hrikalegar lækkanir á fasteignaverði eru fyrirsjáanlegar. Hækkandi vextir og tregða í lánastarfsemi nægja til þess að sprengja þessa sápukúlu sem lengi hefur verið að tútna út á fasteignamarkaði á Bretlandseyjum. Og hér er ótrúleg spá: Innan þriggja ára verður verð fasteigna í helstu borgum Englands 30–40% lægra en það er þessa stundina og pundið verður töluvert lægra skráð gagnvart evru, svissneskum franka og jeni.

Menn sem fylgjast grannt með því sem gerist á Wall Street segja stundum að stráklingar braski með hlutabréf en ráðsettir menn fjárfesti á skuldabréfamarkaði. Ef eitthvað óvænt gerist þá sé alltaf heillavænlegast að skoða viðbrögð þeirra sem versla með skuldabréf (oftast menn sem stýra risasjóðum), en gleyma sveiflum og auglýsingaskrumi hlutabréfamarkaðarins. Þegar bandaríski seðlabankinn á dögunum lækkaði stýrivexti meira en flestir áttu von á þá greip um sig kaupæði á hlutabréfamarkaði en skuldabréfamarkaðurinn leit á þessa lækkun sem neikvæð tíðindi—og það er auðvelt að sjá hvers vegna.

Dollarinn hefur ekki verið brattur upp á síðkastið og lítil furða því Bandaríkin þurfa að selja útlendingum skuldabréf eða eignir fyrir hátt í $3 milljarða á dag til þess að fjármagna greiðsluhallann. Þetta er nokkuð sem hægt er að gera í einhvern takmarkaðan tíma en ekki leikur sem hægt er að leika endalaust. Þótt dollarinn hafi verið að falla þá heldur greiðsluhallinn við útlöng áfram að vera í sögulegu hámarki og dollarar hlaðast upp erlendis. Kína situr t.d. á um $900 milljörðum og hótaði nýlega að selja í stórum stíl (og þannig stórhækka vexti á Bandaríkjamarkaði) ef einhver væri með þrýsting á þeirra eigin gjaldmiðil. Við þetta bætist þrálát verðbólga sem virðist vera á uppleið frekar en hitt. Hráefni og margar landbúnaðarvörur eru á ískyggilegri uppleið. Tryggingar og heilsuþjónusta hækka hratt. Verðbólga í Kína er líka byrjuð að leita inn á Bandaríkjamarkað.

Allt eru þetta hlutir sem seðlabanki Bandaríkjanna er meðvitaður um en samt var ákveðið að lækka vexti. Það þýðir að kreppan á fjármálamarkaðinum var talin enn alvarlegri og því var dollaranum fórnað. Viðbrögðin voru snögg. Evran fór í $1,40, olían hækkaði, gullið hækkaði og dollari Kanadamanna varð verðmeiri en sá bandaríski í fyrsta skipti síðan 1976. Korn hækkaði um 3%, hveiti um 1,8% og sojabaunir um 1,6%. Þetta er byrjunin á þróun sem endar með því að evran leysir dollarann af hólmi sem viðmiðunargjaldmiðill heimsins.

Með því að lækka vexti er seðlabankinn sjálfkrafa að draga úr erlendu peningastreymi til landsins og því verður að fjármagna greiðsluhallann og hallarekstur ríkissjóðs með innlendu fjármagni. En hvert á að sækja það fjármagn? Hagkerfið er að dragast saman og því verða færri skattgreiðendur fyrir hendi til þess að leggja í púkkið. Íbúðarhúsnæði á enn eftir að lækka mikið og fyrstu merkin um samdrátt á iðnaðar- og verksmiðjuhúsnæði eru að koma í ljós. Þá er ekkert eftir nema að prenta peninga … en þar er nýi seðlabankastjórinn í essinu sínu. Skrif hans og ræður frá fyrri tíð sýna hræðilega barnatrú og misskilning á hlutverki nýrra peninga í umferð. Hann er því stundum uppnefndur "þyrlu-Ben" af gárungunum.

Hlutabréfamarkaðir heimsins halda brátt suður (niður). Seðlabankar geta blásið í glæðurnar annað veifið, en allar sápukúlur verða á endanum að renna sitt skeið. Það verður sjálfsagt reynt að peningavæða vandann, t.d. með því að láta seðlabanka taka ruslapappíra af markaðinum eftir einhverjum krókaleiðum, en þá rís skuldabréfamarkaðurinn á einhverjum punkti upp á afturlappirnar og stórhækkar vexti. Þetta virðist vera frábær tími til þess að selja allt sem ekki er baktryggt með góðmálmum eða orku.