vald.org

Nýju föt bankakerfisins … framhald

25. nóvember 2007 | Jóhannes Björn

Ástandið í fjármálaheiminum er farið að minna á tímabilið rétt fyrir frönsku stjórnabyltinguna. Nokkrir útvaldir geta sópað til sín gífurlegum upphæðum, oft með aðferðum sem ekki eru skattlagðar til jafns við venjulegar tekjur, og milljarðamæringar borga því oftast lægri skatta (í prósentum) en fólkið sem skúrar skrifstofur þeirra. Leigupennar ásamt pólitíkusum sem búið er að kaupa afsaka síðan þessi vinnubrögð með prédikunum um að það þjóni hagsmunum fólksins best að það búi við hagkerfi þar sem auðurinn seytlar niður í smásprænum.

Þessi "trickle-down economics" kom vel í ljós á dögunum þegar fjármálastofnanir á Wall Street greindu frá því að bónusgreiðslur til starfsmanna í árslok—og obbinn rennur til fárra útvaldra—verði þær mestu í sögunni eða $38 milljarðar. Þegar þessi yfirlýsing var gefin út höfðu hlutabréfaeigendur í þessum sömu fyrirtækjum tapað $74 milljörðum á sex mánaða tímabili og tapið hefur aukist á síðustu dögum. Þetta Títanik er að sökkva en áhöfnin hleypur í björgunarbátana með allt kampavínið ásamt peningakassa skipsins á meðan hluthafarnir tapa stórt!

Þetta eru snillingarnir sem á liðnum árum hafa tekið ákvarðanir sem Goldman Sachs telur að eigi eftir að orsaka beint tap upp á $400 milljarða og kosta hagkerfið $2.000 milljarða (tvær amerískar trilljónir). Þetta eru risaupphæðir sem þó segja aðeins hálfa söguna. Ef fyrirtæki sem tryggja skuldabréf falla í áliti og fá ekki lengur AAA stimpil, þá verða þessar tölur miklu hærri og afleiðingarnar hræðilegar.

Nú hefur ruslabréfadrepsóttin líka borist til Asíu. Orðrómur um að bankar séu að fela allt að $500 milljarða tap hefur á síðustu dögum orðið til þess að fólk í Kína og Kóreu hefur forðað peningum sínum frá óöruggari reikningum og m.a. sett þá í ríkisskuldabréf. Flóttinn í öruggari höfn hefur skapað slíka eftirspurn að vextir á þriggja mánaða ríkisbréfum hefur fallið úr 4% niður í 1%. Hlutabréf hafa eðlilega verið að hríðfalla og þegar verst lét féllu bréf á Hong Kong markaðinum um 4,15% á einum degi.

Í Evrópu hefur verið verslað með svokölluð "dekkuð skuldabréf" eða Pfandbrief í nærri 240 ár. Þetta er feikilega stöðugur markaður og ástæðan er augljós. Bréfin eru dekkuð með opinberum skuldum og fasteignum upp að 60% andvirði þeirra. Með öðrum orðum, bréfin haggast ekki nema fasteignaverð falli yfir 40% eða hið opinbera borgi ekki skuldir sínar. Þrátt fyrir þetta hefur endurnýjunarkostnaður bréfanna nýlega verið að hækka svo mikið að bankayfirvöld í Evrópu stöðvuðu öll viðskipti með þau í síðustu viku. Menn eru orðnir ansi óttaslegnir þegar þeir stöðva $4.000 milljarða (tvær billjónir sterlingspunda) markað. Kerfið allt skautar greinilega á mjög þunnum ís.

Margir halda í þá von að seðlabankar heimsins geti alltaf bjargað í horn og þá skipti engu máli hvaða upphæðir er verið að tala um. Þessar stofnanir geta vissulega prentað peninga, en ef ákveðnar reglur eru brotnar þá hrynur hagkerfið eins og það leggur sig. Miðað við raunverulega peninga í umferð þá eru alls konar pappírsverðmæti sem hringsóla í bankakerfinu svo ævintýraleg að seðlabanki Zimbabwe gæti ekki prentað nóg ef þau lentu í vanskilum.

Ef við höldum okkur við dollara sem viðmiðun þegar við skoðum eitt dæmi um kostnað, þá er enska ríkið búið að moka um $50 milljörðum í einn vandræðabanka, Northern Rock. Miðað við t.d. Barclays þá er þetta ekki stór banki, en samt ótrúlegt svarthol sem endalaust gleypir peninga. En vitleysan virðist engan enda ætla að taka því núna kemur allt í einu í ljós—og svipað á eftir að koma upp á teninginn þegar aðrar peningastofnanir verða gerðar upp—að bankinn á varla nokkurn skapaðan hlut. Eignarfyrirtæki skráð í skattaparadís á 70% af öllum fasteignalánum bankans. Lísa í Undralandi er raunverulegri en þetta rugl!

Það er orðið erfitt að skrifa um þennan kapítula fjármálasögunnar vegna þess að himininn virðist alls staðar vera að falla. Kannski má segja að stofnanir sem tryggja skuldabréf upp á afstæðar upphæðir séu síðasta vígið. Það er búið að tryggja skuldir upp á margfalt hærri upphæðir en nemur ársframleiðslu heimsins—eins og þessi síða reyndar benti á fyrir löngu síðan—og það virðist einfaldlega ekki raunhæft. Fitch og fleiri stofnanir sem meta lánshæfni hafa nýlega beint sjónum sínum að nokkrum fyrirtækjum sem tryggja skuldir, t.d. MBIA Inc, Ambac Financial Group, CIFG Guaranty, Financial Guaranty Insurance Co. og ACA Capital. Þessi fyrirtæki eru í stórvandræðum, ACA tapaði t.d. nýlega yfir einum milljarði dollara á fasteignabréfum, en það er gífurleg pressa á Flitch að halda áfram að gefa þessum fyrirtækjum AAA einkunn. Ástæðan er augljós því ef einhver ruggar þessu fleygi þá bitnar það ekki aðeins á vafasömum pappírum; skuldabréf margra borga og byggðalaga hrapa þá líka í verði.

Framhald …