vald.org

Rennur blóð eftir slóð …

28. desember 2007 | Jóhannes Björn

Draumaverksmiðjan í Hollywood er búin að opinbera allar myndir ársins 2007 og því kominn tími til þess að meta árangurinn.

Það færist í vöxt að bitastæðustu bíómyndirnar berist ekki í kvikmyndahús fyrr en skömmu fyrir áramót og þetta ár var engin undantekning. Sennilega er einföld skýring á þessu: Meðalaldur fólksins í akademíunni, þeirra einstaklinga sem kjósa í keppninni um Óskarinn, er orðinn svo hár að allt sem er eldra en tveggja mánaða er grafið og gleymt!

Nokkrar flottar myndir voru ekki nógu einstakar (of mikil formúla) til að verðskulda Óskarinn. George Clooney leikur lögfræðing í Michael Clayton, Denzel Washington mafíuforingja í American Gangster og Coen bræður leikstýra meiriháttar ofbeldi í No Country for Old Men. Allt mjög góðar myndir sem samt hefðu mátt koma meira á óvart.

Tvær myndir standa upp úr og koma virkilega á óvart. Sweeney Todd, sem Tim Burton leikstýrir, er stórfurðuleg kvikmynd. Fyrir utan hryllilegt blóðbað og mannakjötsát þá gæti þessi söngleikur allt eins verið framleiddur af Walt Disney. Helstu óvinir Sweeney Todd eru einhliða og ýktir þrjótar, beint úr Oliver Twist, og sama má segja um leikmyndina. Johnny Depp er feikilega góður í hlutverki sem líka sýnir hugrekki hans sem leikara. Ekki margir stórleikar mundu treysta sér til að leika þennan syngjandi morðhund. Í venjulegu árferði væri Óskarinn borðliggjandi.

Langbesta kvikmynd ársins er epískt stórvirki, There Will be Blood, sem Paul Thomas Anderson leikstýrir. Daniel Day-Lewis leikur aðalhlutverkið—hann er reyndar á tjaldinu svo til allan tímann í þessari yfirveguðu 158 mínútna mynd—og brillerar. Það fer varla fram hjá nokkrum að þetta er eitt mesta leikafrek allra tíma. Sagan spannar um 30 ára tímabil og byrjar 1898 þegar öld olíunnar var að hefjast. Það voru þröngir hagsmunir sem réðu ferðinni í upphafi og kannski hafa olíuviðskipti alltaf fylgt þessum farvegi. There Will be Blood gefur okkur innsýn í upphafið, en mynd sem kom út árið 2005, Syriana, lýsir ástandinu í dag. Samfélagsleg ábyrgð og olíuviðskipi hafa aldrei farið saman. Olía og stríð eiga miklu meira sameiginlegt. Þess vegna stöndum við á barmi olíuskorts á plánetu sem við erum langt komin með að eyðileggja.