vald.org

Vaxtaokur

1. febrúar 2008 | Jóhannes Björn

Seðlabanki Íslands spilar á fiðlu á meðan hlutabréfin brenna og óveðurský hrannast upp við sjóndeildarhringinn. Hvar annars staðar í heiminum mundi slíkt aðgerðaleysi seðlabanka viðgangast á meðan hlutabréfin lækka um 40%? Það verður að lækka stýrivexti um helming á mjög stuttum tíma. Já, helming, og þeir sem brosa yfir þessari tillögu ættu að lesa þessa grein aftur í september.

Til að byrja með þá getur ekkert eðlilegt hagkerfi búið við 13,75% stýrivexti. Allir peningar fara í umferð í formi lána til einstaklinga, fyrirtækja eða ríkissjóðs og þau bera vexti. Ef meðalvextir eru t.d. 15% þá verður hagvöxturinn að vera svipaður til þess að dæmið gangi upp. Slíkur hagvöxtur er ekki raunhæfur og eina sem gerist er að ákveðinn vandi safnast upp. Vaxtaokur er líka félagslegt óréttlæti vegna þess að bitnar mest á ungu fólki sem er að kaupa sér húsnæði í fyrsta skipti.

Háir vextir hafa heldur aldrei verið gott hagstjórnartæki á Íslandi. Hagkerfið er lítið og þeir sem selja vörur eða þjónustu geta verið nokkuð samstíga þegar þeir reikna vaxtakostnað inn í verðlagið. Þeir sem keppa við innflutning eru þó vissulega í vandræðum.

Háir vextir virðast heldur ekki hægja mikið á fasteignamarkaðinum og hann bremsar aldrei fyrr en fasteignaverðið sjálft er orðið of hátt. Þetta er séríslenskt fyrirbæri sem á sér margar skýringar. Verðtrygging fasteignalána felur t.d. baggann sem fólk er að taka á sig með því að lækka mánaðargreiðslurnar á meðan höfuðstóllinn hækkar. Þetta forneskjulega fyrirkomulag—sem aðeins er hægt að afsaka á meðan verið er að lækna óðaverðbólgu—hefur sennilega hækkað allt húsverð í landinu töluvert, því mánaðarleg greiðslugeta einstaklings stýrir kaupunum algjörlega.

Annað sem fær ungt fólk á Íslandi til þess að kaupa húsnæði með okurlánum er félagsleg pressa. Fyrir 1980 borgaði óðaverðbólga húsin fyrir einstaklingana á nokkrum árum. Fyrst í stað voru kaupin gífurlega erfið, en eftir 3–4 ár var verðbólgan búin að lækka lánin (miðað við húsverðið og breytt kaup í landinu) um kannski helming og fólk var á sléttum sjó. Eftir 10 ár voru lánin brandari. Það voru tvær kynslóðir sem lentu í þessu lukkupotti og flestir (alla vega eins og það hefur komið undirrituðum fyrir sjónir) virðast ekki vera meðvitaðir um þessa gjöf. Þvert á móti þá blæs þetta fólk sig út við öll tækifæri og þykist hafa unnið stórvirki sem verðtryggðu kynslóðirnar hljóti að geta leikið eftir.

Dapurlegt ástand bankamála í heiminum og óumflýjanleg efnahagslægð víða kalla á tafarlausa vaxtalækkun á Íslandi. Það er ekki lengur hægt að stýra hagkerfinu með hliðsjón af gömlum vandamálum þenslu og verðbólgu. Lækkun á hlutabréfamarkaði og yfirvofandi lækkun fasteigna draga sjálfkrafa úr bæði þenslu og verðbólgu. Samdrátturinn er á leiðinni og það er eins gott að afgreiða vaxtamálin á meðan enn árar sæmilega. Það er líka ljóst að bankar og fyrirtæki verða í vaxandi mæli að stóla á innlent fjármagn og neikvæð áhrif hárra vaxta margfaldast þá skyndilega.

Margir risabankar í Bandaríkjunum og Evrópu eru lamaðir. Tap vegna ruslabréfa sem fasteignamarkaðurinn ungaði út er hrikalegt og ekki nærri því allt komið fram. Fyrir nokkrum árum, t.d. þegar Long Term Capital rúllaði, þá óttuðust menn um stöðugleika alls kerfisins ef ein stofnun tapaði nokkrum milljörðum dollara á einu bretti. Nú hafa yfir $100 milljarðar gufað upp á nokkrum mánuðum og sú tala á eftir að tvöfaldast. Tapið er mest í Bandaríkjunum og Evrópu.

Hlutirnir er að renna út í eina allsherjar vitleysu.

Það sem málið snýst um er að Twenty-First Century Mortgage lánaði út á hús. Lánið var selt í pakka með öðrum lánum. Sá pakki var síðan notaður sem trygging þegar stærra lán var slegið. Barclay Bank var síðast á keðjunni og endaði með lista yfir hús (ekki veð eða upphaflega pappíra) sem tryggðu lánið. Bankinn gat gengið að þeim aðilum sem ekki stóðu í skilum … eða svo hélt hann. Dómarinn segir hins vegar á þessu plaggi að ekkert tengi Twenty-First Century við Barclay og hann leyfi því ekki uppboð.

Þegar seðlabanki Bandaríkjanna lækkar stýrivexti úr 4,25% í 3,0% á innan við tveim vikum (og verðbólgan er sennilega yfir 3% um þessar mundir og dollarinn veikur) þá vitum við að menn eru alvarlega hræddir. Þeir hafa líka góða ástæðu til þess að hræðast. Bankakerfinu er að blæða út og það á hættulega lítið af kapítali. Hér er eitt skelfilegasta línurit seinni tíma, en það sýnir að bankakerfinu er mest og best haldið gangandi með beinum reddingum seðlabankans. Gráu súlurnar sýna efnahagslægðir.

Eftirfarandi línurit sýnir sama peningaleysi bankanna frá öðrum sjónarhóli. Skortur á kapítali og þörf fyrir lán frá seðlabanka koma fram sem neikvæð sveifla. Í bókinni Investing Public Funds er þessu grafi lýst þannig:

"Another useful indicator of the Federal Reserve's relative monetary policies can be found weekly in the Federal Reserve data. A key statistic is the net free reserves or net borrowed reserves line item. This statistic measures the degree to which depository institutions have found it necessary to obtain funds in the Fed Funds market and through the Fed discount window in order to obtain required reserves.

During periods of central bank credit-tightening operations, the depository sector might find it necessary to borrow funds to meet reserve requirements. This practice results in net borrowed reserves, which shows as a negative number. Conversely, if ample funds are available through the banking system to meet reserve requirements, banks can become net lenders of reserves through the Fed Funds markets"

Bankakreppan er rétt að byrja. Miklu meira rusl sem tengist íbúðarhúsnæði á enn eftir að koma fram. Atvinnuhúsnæði er byrjað að falla í verði og bráðum hefjast meiriháttar vanskilin á þeim bæ. Rétt þar á eftir koma stóraukin vanskil greiðslukortanotenda. Og hafið í huga að skuldir tengdar bæði atvinnuhúsnæði og greiðslukortum hafa farið í samskonar vinnslu og ruslabréf sem tengdust íbúðarhúsnæði. Þetta hringsólar allt í Undralandi afleiðna, heimi sem veltir mörgum sinnum hærri upphæðum en nemur heildarframleiðslu jarðarinnar.

Efnahagslægðin er örugglega hafin í Bandaríkjunum, það er alla vega skoðun 71% þjóðarinnar, en hagtölur mæla stundum ekki niðursveiflur fyrr en þær eru yfirstaðnar! Samkvæmt Monster Worldwide þá fækkaði atvinnuauglýsingum um 5% í nóvember, 14% í desember og 9% í janúar. Þetta eru vægast sagt hrikalegar tölur. Evrópa kemur næst og Bretlandseyjar þá sennilega fyrst.

Sennilega mælir ekkert aðvífandi kreppur betur en svokallað Baltic Dry Shipping Index, en það sýnir kostnað við vöruflutninga á 24 helstu flutningaleiðum heimsins. Fyrir átta dögum féll það um 4,6% á einum degi niður í 7949 og síðan hefur það verið í frjálsu falli [bláa strikið—það rauða sýnir meðaltal yfir lengri tíma]. Vöruflutningar (viðskipi) eru að dragast saman með hraða sem fáir gera sér grein fyrir.

Seðlabankar heimsins hafa verið að framleiða ótrúlegt peningamagn á síðustu vikum. Bandaríski seðlabankinn útbýtir þessu í $30 milljarða slumpum á gjafavöxtum með reglulegu millibili. Eins og línuritin hér að ofan sýna þá er þetta eins og næring beint í æð bankakerfisins. Menn eru líka hugmyndaríkir því nú stendur til að bandaríska ríkið (sem er rekið með bullandi tapi og skuldar yfir $9.000.000.000.000) sendi öllum heimilum landsins tékk með ósk um að peningunum verði eytt eins fljótt og unnt er. Einn grínisti útlagði þetta þannig að báðir flokkarnir vildu bjarga nautunum á Wall Street á þessu kosningaári.

Það er langt síðan þessi síða mælti með gulli. Á þessari gullöld peningaprentara virðist það enn vera einn fárra steina sem hægt er að skríða undir. Orkan er þó best ef horft er til lengri tíma.

"If you don't trust gold, do you trust the logic of taking a pine tree, worth $4,000–$5,000, cutting it up, turning it into pulp, putting some ink on it and then calling it one billion dollars?"

—Kenneth J. Gerbino