vald.org

Staðan

4. mars 2008 | Jóhannes Björn

Silfur Egils 2. mars fór mest í að ræða stöðu efnahagsmála og hugsanlegar leiðir út úr vandanum. Það sem var mest sláandi var að enginn virtist hafa merkilegri lausn á takteinum heldur en þá að þreyja þorrann og taka svo seinna á málunum. Ársæll Valfells giskaði á að öldurnar á alþjóðlegum lánamarkaði tækju að lægja eftir sex til níu mánuði, en hann færði engin rök fyrir þessari skoðun sinni.

Það er nokkuð sjálfgefið að hagstjórn sem byggir á voninni einni á eftir að valda vonbrigðum. Beinharðar staðreyndir benda til þess að bankakreppan sé að versna og verði jafnvel miklu verri eftir sex til níu mánuði. Auðvitað er ekki hægt að spá þessu með fullri vissu, því seðlabankar heimsins gætu hugsanlega tekið á sig suður-amerískan blæ með beinum kaupum á gjaldþrotapappírum—og þannig sleppt verðbólgunni lausri—en miðað við núríkjandi leikreglur þá geta seðlabankarnir ósköp lítið gert. Bankakreppan er byrjuð að kæfa hagkerfi heimsins og það endar með efnahagslægð eða kreppu sem nær til flestra landa. Þetta getur gerst miklu hraðar á Íslandi heldur en spekingarnir hjá seðlabankanum gera ráð fyrir.

Margir halda að seðlabankarnir geti alltaf komið í veg fyrir kreppu eins og heimurinn gekk í gegnum eftir hrunið 1929. Þetta er einfaldlega ekki rétt. Seðlabanki getur gert peningakerfið sveigjanlegra með því að auka fjármagn í umferð, en hann getur aldrei keypt (fjármagnað) tap fyrirtækja eða einstaklinga. Seðlabankinn getur notað óbeinar aðferðir eins og vaxtalækkanir eða opnað nýjar leiðir fyrir banka til þess að slá hjá honum, en hann getur aldrei neytt nokkurn til þess að lána þessa peninga aftur. Þetta er nákvæmlega það sem er að gerast í Bandaríkjunum og víðar. Bankar geta fengið ódýra peninga en þeir lána þá ekki í sama mæli og áður. Hvers vegna ætti banki að lána út á fallandi verðmæti eða til aðila sem hugsanlega fara á hausinn?

Bandaríski fasteignamarkaðurinn heldur áfram að falla og nauðungaruppboðum fjölgar að sama skapi. Fjöldi óseldra húsa á markaðinum slær ný met í hverjum mánuði. Pappírar sem nú þegar hafa kostað bankakerfið yfir $150 milljarða afskriftir eru því enn að lækka í verði. Fenið virðist vera botnlaust.

Kreppa á bandarískum fasteignamarkaði gengur alltaf bæði mjög ójafnt yfir landið og á misjöfnum tíma. Sum fylki (aðallega í miðríkjunum) haggast varla vegna þess að það er svo auðvelt að byggja og markaðurinn nær aldrei að bólgna út til að byrja með. Á myndinni hér að ofan sjáum við að svörtu fylkin eru í mestum vandræðum, en risafylkin á austurströndinni eru rétt að byrja ballið. Þetta graf frá New York borg segir alla söguna.

Viðbrögð stjórnvalda lýsa örvæntingu. Alríkisstjórnin vill stöðva öll nauðungaruppboð í 30 daga og New York fylki er að tala um aðgerðir sem ekki hafa sést síðan í kreppunni miklu—leggja niður nauðungaruppboð í heilt ár! Hvernig málin verða afgreidd gagnvart þeim sem eiga veð í þessum eignum og fá ekki borgað er ráðgáta. Það er gott og blessað að segja að bankinn og sá sem skuldar komist að samkomulagi um "sanngjarnar" greiðslur, en hátt hlutfall þeirra sem eru að tapa húsnæðinu getur ekki borgað nema brot af því sem bönkunum þykir sanngjarnt. Og hvað gerist þá ef það er bannað að ganga að eignunum?

Ruslabréf sem tengjast atvinnuhúsnæði eru næst á dagskrá og við eigum eftir að hjá miklar afskriftir bankanna á næstu mánuðum. Þessi þáttur fasteignageirans er alltaf aðeins seinna á ferðinni. Fyrst byggja menn allt of mörg íbúðahverfi, stuttu síðar byrja þeir að reisa verslunarmiðstöðvar, kvikmyndahús, skyndibitastaði og annað í þeim dúr. Nú stendur þetta atvinnuhúsnæði víða hálfautt og á leið undir hamarinn. Framboð á skrifstofuhúsnæði er líka að stóraukast í mörgum borgum Bandaríkjanna.

Þann 7. febrúar fraus enn annar lánamarkaður í Bandaríkjunum (auction-rate securities) og hefur verið lamaður síðan. Þetta er markaður sem hjálpar fjölda aðila sem tengjast opinberri starfsemi að slá skammtímalán. Borgir, fylki, héruð, hafnir og ótal fleiri þurfa oft að mæta tímabundnum kostnaði með skyndilánum. Sjóðir sem veita námslán eru t.d. með sveiflukennd útgjöld, borga út lán tvisvar á ári, en hafa tekjur af gömlum lánum allt árið. Ef enginn grípur í taumana á þessum skammtímalánamarkaði þá hætta margir námslánasjóðir starfsemi sinni á næstu mánuðum. Opinber rekstur verður líka dýrari þegar þessir aðilar neyðast til þess að taka dýrari lán. En vandræðin enda ekki þar, því þessi lán hafa verið endurlánuð út í kerfið og margir sjóðir og einstaklingar (margir gera sér ekki enn grein fyrir því) sitja á hundruð milljörðum dollara í pappírsverðmætum sem enginn vill kaupa. Virtustu fjárfestingafyrirtækin á Wall Street seldu þetta sem 100% örugga ávöxtun í verðbréfasjóði, en neita núna að standa við skuldbindingar sínar.

Bandaríska bankaeftirlitið sér fram á gjaldþrot margra minni banka og hefur endurráðið 25 sérfræðinga sem voru komnir á eftirlaun. Einn risabanki, Countrywide, stefnir líka beint í gjaldþrot. Baktryggingasjóðir (hedge funds) eru einnig byrjaðir að rúlla og þetta er aðeins byrjunin.

Allt er þetta nógu slæmt, en á næstu grösum eru feitar fyrirsagnir um $45.000 milljarða ($45 billjónir) markað sem verslar með credit default swaps. Öll heimsframleiðslan var $65 billjónir árið 2006. Í sinni einföldustu mynd þá eru þetta samningar sem tryggja skuldir sem bankar, baktryggingasjóðir, tryggingafélög og fleiri stofna til. Banki lánar t.d. álveri $100 milljónir og þriðji aðili ábyrgist lánið gegn gjaldi. Gallinn við þetta kerfi er sá að þessi þriðji aðili getur selt fjórða aðila skuldbindinguna og þannig koll af kolli. Bankinn sem veitti lánið hefur því engin áhrif á hver situr uppi með tryggingarloforðið eða hvort sá aðili getur yfirleitt borgað ef álverið fer í gjaldþrot. Maður getur líka ímyndað sér að einhverja mafíu-týpur—líkt og gerðist þegar Savings & Loan skandallinn gekk yfir—hafi gagngert búið til veikburða fyrirtæki til að fleyta rjómann. En það sem er furðulegast í þessu dæmi er sú staðreynd að það er ekki hægt að rekja til enda um 14% samninganna! Hamagangurinn var svo mikill á þessum markaði sem fimmtíufaldaðist á sjö árum að menn máttu ekki vera að því að skrá hlutina rétt. Já, tryggingar upp á $6,3 billjónir (amerískar trilljónir) eru týndar!

Það byrjar að reyna á þetta dapurlega kerfi þegar gjaldþrotum fyrirtækja fjölgar. Svo til allar nýjar hugmyndir sem bankakerfið hefur ungað út á liðnum árum hafa reynst hrikalega illa. Það eina sem þessar hetjur ætlar að skilja eftir sig er sviðin jörð. Það hefur þó væntanlega engin áhrif á starfslokasamninga.