vald.org

Er hægt að bjarga spilltu kerfi?

21. maí 2008| Jóhannes Björn

Það var ekki óalgengt í kreppunni miklu 1929–1934 að menn hentu sér út um glugga skýjakljúfa. Nú er öldin önnur og miklu algengara að einstaklingar sem hafa rústað fyrirtækjum gangi brosandi á braut með tugmilljónir í vasanum. Bankakreppan sem nú gengur yfir heiminn varð til vegna siðblindu á ótal stöðum og þegar upp er staðið erum við að horfa upp á mesta peningasvindl allra tíma.

Skömmu fyrir jól árið 2000 voru bandarískir þingmenn á þönum við að ljúka þingstörfum með afgreiðslu fjárlagafrumvarps. Á síðustu stundu lék einn öldungadeildarfulltrúi repúblikana, Phil Gramm (William Philip Gramm), gamalt bragð og læddi 200 blaðsíðna plaggi neðst í pakkann. Það er ekki vitað til þess að nokkur maður hafi lesið þetta torf, að öllum líkindum skrifað af lögfræðingum fjármálastofnana á Wall Street, en málalok urðu þau að svokallaðir vogunarsjóðir (betri þýðing væri baktryggingasjóðir—“venture capital funds” væru þá vogunar- eða áhættusjóðir) losnuðu undan öllu opinberu eftirliti.

Náttúrulega varð sprenging á þessum markaði og sjö árum seinna voru vogunarsjóðirnir orðnir yfir 9000 talsins. Einstaklingar opnuðu sjóði, oft á eyríkjum í skattaparadís, og gamla bankakerfið stofnaði sína eigin sjóði. Bear Stearns stofnaði t.d. nokkra vogunarsjóði sem tóku allt kerfið með sér í fallinu þegar þeir sprungu á limminu.

Ein meginástæða hrunsins sem byrjaði 1929 var sú að bankakerfið gat braskað að vild með sparifé almennings. Hlutabréfamarkaðurinn byrjaði að hækka of hratt og breyttist í spilavíti. Skynsemin vék þegar græðgin yfirbugaði fjöldann og bankarnir virtust blómstra. En öll keðjubréf—hvort sem þau flokkast undir tæknidellu eða fasteignabólu—missa dampinn þegar gleðskapurinn virðist standa í hámarki.

Eftir hörmungar kreppunnar var bankakerfið víðast hólfað þannig að fjárfestingabankar störfuðu sjálfstætt og þeim var bannað að snerta sparifé almennings. Stundum var talað um þetta sem múr sem aðskildi jafnvel deildir einstakra banka. Þegar fram liðu stundir byrjuðu bankamenn að berjast fyrir frjálslegri reglum með þeim rökum að “áhættugreining” (risk modeling) þeirra væru miklu betri en 1929. En ef við höfum lært eitthvað á liðnum árum þá er það sú staðreynd að stór hluti bankakerfisins á Vesturlöndum sýnir litla sem enga siðgæðisvitund og því er gagnlaust að tala um áhættugreiningu. Græðgin ein ræður.

Bandarískir bankar byrjuðu að fá aukið viðskiptafrelsi um leið og Ronald Reagan tók við forsetaembættinu. Reglum um starfsemi sparisjóða var breytt með þeim afleiðingum að alls konar skúrkar gátu sankað til sín ótrúlegum upphæðum á örfáum árum. Miðað við nútíma verðlag þá þurftu skattgreiðendur að punga út yfir $200 milljörðum til þess að koma hlutunum aftur í eðlilegt horf. Jólagjöf Phil Gramm árið 2000 til bankakerfisins opnaði síðan alveg nýjar leiðir og gerði kerfið jafnvel hættulegra en það var fyrir kreppuna miklu. Vogunarsjóðir eru algjörlega eftirlitslausir og bankarnir geta t.d. “lagað” bókhaldið hjá sér með því að hlaða sjóðina fulla af rusli. Bankakreppan byrjaði sumarið 2007 en bankarnir eru enn að fela verðlausa pappíra. Bara óvissuþátturinn sem þessu fylgir—hvaða leyndarmál geyma vogunarsjóðir á Cayman?—er niðurdrepandi fyrir hagkerfið.

Bankakreppuballið byrjaði þegar heilagur Greenspan lækkaði stýrivexti niður í 1% og hélt þeim síðan allt of lengi fyrir neðan verðbólgustigið. Þessi hræðilega hagstjórn gerði bankakerfi og vogunarsjóðum kleift að umbreytast í hálfgerða seðlabanka. Fasteignaverð byrjaði að hækka út um allan heim og kerfið byrjaði um leið að endurvinna fasteignalán og selja. Þetta byrjaði að virka eins og peningaprentun—lánasjóðir voru stöðugt fylltir aftur með endurvinnslu pappíra—en brátt byrjuðu ógeðfelldari hliðar græðginnar að koma í ljós og þá sérstaklega á Bandaríkjamarkaði.

Margir sem blaðra í fjölmiðla, og þá sérstaklega einstaklingar sem tengjast Wall Street eða öðrum peningastofnunum, halda því fram að bankakreppan muni brátt renna sitt skeið. Þetta fólk segir um leið að niðursveiflan (sem það viðurkenndi aldrei til að byrja með) sé líka að fjara út og hlutabréf á helstu mörkuðum heimsins komi til með að stórhækka í haust. Þetta eru sölumenn sem aldrei færa nein grundvallarrök fyrir máli sínu.

Það er aldrei gaman að flytja slæm tíðindi og undirritaður hefur haft af nóg af þeim á undanförnum árum. En þessi síða hefur alltaf rökstutt nákvæmlega hvers vegna ástandið er svona dökkt. Blaðrandi höfuð á vegum hagsmunaaðila rökstyðja hins vegar varla nokkurn hlut. Þessir aðilar benda í mesta lagi á tæknileg atriði, t.d. hvernig svipaður markaður hegðaði sér 1982 eða 1991 eða þeir fullyrða að billjónir dollara séu í biðstöðu og rétt u.þ.b. að hellast inn á markaðinn.

Síðan bankakreppan hófst hafa bankar og aðrar stofnanir víða um heim þurft að afskrifa hátt í $400 milljarða. Þetta er mest rusl sem hefur safnast í kringum bandaríska íbúðarmarkaðinn. Ruslapappírar sem tengjast atvinnuhúsnæði af öllu tagi, bílalánum, greiðslukortalánum og gjaldþrota fyrirtækjum eru rétt að byrja sína eigin píslagöngu. En svo við höldum okkur í bili við íbúðarhúsnæði, þá er það enn á hraðri niðurleið og á eftir að valda miklu meiri vandræðum. Ef verðþróunin á japanska fasteignamarkaðinum er einhver mælikvarði þá nær sá bandaríski sér ekki á strik í langan tíma. Eins og það er sett fram á þessu línuriti þá stóð japanski markaðurinn í 100 árið 1984 og hafði hækkað um 250% 1990.

Meðalverð á íbúðarhúsnæði í 10 og 20 stórum borgum í Bandaríkjunum miðað við sama tíma síðasta árs.

Salan dregst stöðugt saman (svarta strikið eru áætlaðir undirskrifaðir samningar tvo mánuði fram í tímann).

Til þess að atvinnulífið taki við sér eða húsnæði byrji aftur að hækka þá verður fólk að hafa peninga til að eyða. Vaxandi skuldir heimilanna, neikvæður sparnaður og tekjur sem halda ekki í við verðbólgu—svo ekki sé talað um aukið atvinnuleysi, hækkandi orkuverð og dýrara heilbrigðiskerfi—eru ekki hlutir sem skila sér í vaxandi velmegun. Þetta graf skýrir sig sjálft.

Tölurnar eru allar á einn veg. Í apríl 2008 fjölgaði nauðungaruppboðum í BNA um 65% frá sama mánuði 2007. Engin furða þótt svartsýn grafi um sig meðal fólksins.

Það er dálítið broslegt að stofnun sem framleiðir peninga úr engu skuli hafa efnahagsreikning, en seðlabanki Bandaríkjanna er með einn slíkan upp á um $850 milljarða [Nixon tók dollarann úr sambandi við gull 1971 og sagði um leið að gull væri úrelt, en þá keyptu $35 eina gullúnsu … núna þarf $926 til að kaupa sömu únsu, sem þýðir að dollarinn hefur fallið um 96% gagnvart gulli!]. Þeir sem halda að bankakreppan sé nærri því búin ættu að staldra við og skoða fyrrnefndan efnahagsreikning.

Þessar tölur lýsa töluverðri örvæntingu. Bankinn er í fyrsta skipti farinn að lána út á alls konar vafasama pappíra og gárungarnir segja að Ben verði bráðum að fljúga þyrlunni sinni í allar áttir til þess að innheimta námslán og skuldir af þriggja ára bíldruslum. Seðlabanki Evrulands hefur líka verið duglegur við að moka peningum í peningastofnanir sem eru í vanda, en þessar sömu stofnanir virðast vera að borga fyrir greiðann með því að gagngert framleiða ruslapappíra sem hægt er að “dumpa” á seðlabankann. Ef þetta er rétt hjá Financial Times þá er ekkert siðferði eftir. Og lítil von.

Þessi síða hefur oft varað við óhóflegum afleiðuviðskiptum bankanna, en þau hljóða upp á tífalda ársframleiðslu heimsins. Bloomberg spáði því nýlega að a.m.k. $150 milljarða tap sé í uppsiglingu á þessum markaði. Það er ekkert skrýtið því þessi viðskipti, eins og þau hafa þróast, eiga heima í Las Vegas, ekki í bankakerfinu.