vald.org

Svartur svanur 2

8. júlí 2008 | Jóhannes Björn

Bandaríkjamenn notuðu eftirfarandi spakmæli í marga áratugi: “Örlög þjóðarinnar eru samtvinnuð örlögum General Motors” (“As GM Goes, So Goes the Country”). Eins og þessi síða benti á í apríl 2005 þá stefnir í að GM verði smáfyrirtæki. Þá fer Chrysler bráðum á hausinn og bandaríski armur Ford á eftir að heyja erfitt varnarstríð. Eftir nokkur ár eiga bílar frá Japan, Þýskalandi og Kóreu eftir að drottna yfir markaðinum. Takið eftir móttökunum sem fyrsti lúxusbíllin frá Kóreu, Hunndai Genesis, á eftir að fá.

Öll hlutabréf GM kosta samtals um $6 milljarða þessa dagana en öll hlutabréf Toyota $144 milljarða. Toyota er því 25 sinnum verðmætara fyrirtæki. Framleiðsla varahluta í bandaríska bíla er líka í vaxandi mæli kínverskur iðnaður. Það er verið að reka síðustu naglana í þessa kistu.

Viðbrögð seinni ára við hnattvæðingunni—að skapa heilar starfsstéttir í kringum fasteignabólu og brask bankakerfisins með verðlaus keðjubréf—hafa mistekist hrapalega og bandaríska millistéttin er í frjálsu falli þessa dagana.

Þetta er þróun sem hefur verið að malla í langan tíma. Stórbankar og fjölþjóðafyrirtæki hafa algjörlega stjórnað hnattvæðingunni. Bæði tæknibólan sem sprakk árið 2000 og fasteignabólan sem nýlega sprakk út um allan heim földu vanda millistéttarinnar að einhverju marki, en nú er ekkert eftir til þess að blása út þannig ömurleg örlög millistéttarinnar hellast yfir með vaxandi þunga. Niðurskurðurinn er kominn lengst á leið í Bandaríkjunum, og ef við lítum á aðskilin tímabil, þá sjáum við að atvinnusköpunin hægir stöðugt á sér. Í dag er minni atvinnusköpun 80 mánuðum eftir að botni var náð í síðustu efnahagslægð (talan 100 notuð sem viðmiðun) heldur en tókst að skapa (meðaltal) á 24 mánuðum eftir hverja efnahagslægð á árabilinu 1958–1982.

Deutsche Bank AG, Lehman Brothers Holdings Inc. and UBS AG sendu nýlega frá sér plagg sem spáir miklum hækkunum bandarískra hlutabréfa seinni hluta ársins eða um allt að 18%. Þetta er ekki brandari! Það þarf ekki að skoða stöðuna lengi til þess að sjá að allar grundvallartölur benda í þveröfuga átt. Kreppan sem er byrjuð í Bandaríkjunum og víðar verður miklu verri en flestir gera sér grein fyrir og botn er hvergi í sjónmáli. Það eru margar augljósar ástæður fyrir þessu.

Warren Buffett sagði einu sinni að það væru alltaf þrjú “i” sem tengdust uppgangstímum. Fyrst kæmi “innovatior”, næst “imitator” og síðast “idiot”. Tímabili vitleysinganna (bankamanna í þessu tilfelli) lýkur venjulega með verulegu hruni. Þá getur leikurinn hafist upp á nýtt þegar einhver “innovator” horfir yfir rústirnar og fær snjalla hugmynd. Við erum núna að ganga í gegnum vitleysingahrunið og það er enn í fullum gangi.

Ef Kalifornía væri sjálfstætt land þá væru ekki nema sjö ríki í heiminum með meiri þjóðarframleiðslu. Þótt Kaliforníubúar séu ekki nema 10% þjóðarinnar þá er verðmæti fasteigna þar um 25% af heildarverði fasteigna í öllu landinu. Það væri nær að gleyma GM og segja að örlög Kaliforníu og Bandaríkjanna séu samtvinnuð. Nýjustu tölur frá félagi fasteignasala (California Association of Realtors) benda til þess að fasteignir hafi lækkað um 35,3% á milli maí 2007 og maí 2008 í fylkinu. Gífurlegur fjöldi óseldra húsa bendir til þess að botninn sé hvergi í augsýn. Flórída, Arizona og Nevada eru í svipuðum vandræðum, en önnur fylki eru seinna á ferðinni. Þegar Wall Street hefur látið 30% starfsliðsins fjúka—og þúsundir þeirra hafa verið á ofurlaunum—þá verður blóðbaðið í New York ekki minna.

Fyrir hagkerfið þá er þetta eins og stór ryksuga sem sogar feikileg verðmæti út úr kerfinu. Verðbólga, sérstaklega á hráefni og matvælum, hefur verið mikið vandamál á síðustu árum, en næsti kapítuli bankakreppunnar gæti hæglega snúist um verðlækkanir. Ef svartur svanur birtist—stórbanki rúllar, hlutabréf falla gífurlega á örstuttum tíma eða eitthvað hliðstætt gerist—þá gæti olían hrapar niður í $100 og gullið undir $800. Þetta gæti líka gerst á lengri tíma þegar kreppan dregst á langinn. En slík atburðarás myndi líka skapa kauptækifæri aldarinnar í orku og góðmálmum.

Bandaríska þingið er þessa dagana að leggja síðustu hönd á $300 milljarða pakka sem á að bjarga fjölda einstaklinga frá gjaldþroti. Þannig er þetta alla vega auglýst, en eins og venjulega er ætlunin að bjarga sömu bönkum og keyrðu markaðinn út í þetta fen til að byrja með og það er nærri því öruggt að lögin hafi verið skrifuð af lögfræðingum Bank of America. Í stuttu máli þá eiga skattgreiðendur að taka á sig góðan slatta lána, bankinn ræður hvaða rusl hann losar sig við, en þegar upp er staðið þá er bara verið að lengja í hengingaról pöpulsins.

Til þess að slá ryki í augu fólks þá leggja bankarnir fram sinn skerf með því að slá 10% af verði hússins þegar þeir búa til nýtt lán og láta ríkið hafa gamla ruslalánið (tryggt af ríkinu). Þetta er aðeins orðaleikur því bankinn getur—eins og hann hefur alltaf gert—haft töluverð áhrif á matsverðið. Allt mat er gert af einkafyrirtækjum sem hafa áhuga á áframhaldandi viðskiptum og vilja því ekki styggja bankann. Æðsta gráða matsmanna í Bandaríkjunum heitir MAI og það hefur lengi verið brandari meðal bankamanna að stafirnir standi fyrir “Made As Instructed” (gera eins og þeim er sagt).

Við getum t.d. hugsað okkur að banki í Kaliforníu hafi veitt fasteignalán upp á $510.000 árið 2005. Núna kostar þessi eign, sem er á góðri leið með að fara undir hamarinn, $375.000, en bankinn lætur meta hana á $400.000 og tekur síðan 10% tap. Skattgreiðendur gefa bankanum $360.000. Það er mjög líklegt að þegar botninum er náð eftir tvö til þrjú ár þá kosti þessi eign ekki nema $250.000 og sennilega fengi bankinn ekki meira fyrir hana á uppboði. Það er líka nokkuð öruggt að bankinn losar sig fyrst við vonlausustu lánin, t.d. öll lán til fólks sem nýlega hefur misst vinnuna. Það liggur því í augum uppi að þessi endurskoðuðu lán fara upp til hópa í vanskil eftir stuttan tíma.

Þetta er tímanna tákn. Ríkisstjórnir og seðlabankar einbeita sér að því að bjarga glæpamönnum á kostnað skattgreiðenda. Enginn toppmaður sem tók þátt í þessu mesta svindli fjármálasögunnar er látinn svara til saka. Við eigum eftir að horfa upp á sömu leikara endurtaka glæpinn með nýjum aðferðum.