vald.org

Dansað á ystu nöf … framhald

10. ágúst 2008 | Jóhannes Björn

Menn sem ráða þjóðum heyja styrjaldir fyrir föðurland og hugsjónir, sagði skáldið Ari Jósefsson í ljóðabókinni Nei, og þeir myrða okkur sem eigum ekkert föðurland nema Jörðina og enga hugsjón nema lífið. Nú á dögum heyja ráðamenn aðallega stríð fyrir olíu og líklega á það líka við um átökin í Georgíu. Rauða strikið sýnir olíuleiðslu sem er rauði þráðurinn i þessum átökum.

Þegar olíu- og hráefnisverð var í hámarki fyrir nokkrum vikum þá spáði þessi síða verðlækkunum á olíu og gulli. Þessar lækkanir hafa byrjað en nú er alls óvíst að þær haldi áfram. Stríðið í Georgíu og stóraukin peningaframleiðsla í Bandaríkjunum hafa sett strik í reikninginn.

Með því að standa 100% á bak við skuldbindingar Fannie Mae og Freddie Mac þá hefur Bandaríkjastjórn ákveðið að stórauka halla ríkissjóðs. Þessar risaeðlur ásamt fleiri gjaldþrotum banka eiga eftir að kosta skattgreiðendur hundruð milljarða dollara.

Dollarinn hefur verið að braggast nýlega, aðallega vegna þess að Evruland er að veikjast hraðar en menn reiknuðu með. Þetta er kapphlaup niður á botninn því bandaríska hagkerfið er að dragast saman.

Þessi hækkun dollarans er mjög líklega tímabundin. Halli ríkissjóðs æðir bráðum yfir $500 milljarða á ári og viðskiptahalli við útlönd situr fastur í yfir $700 milljörðum. Þessi gífurlega peningaframleiðsla á aftur eftir að hækka verðlag á öllum hráefni. Grundvallarlögmál hagfræðinnar eiga alltaf síðasta orðið þó það taki stundum Ótrúlega langan tíma.

Bandaríski fasteignamarkaðurinn er búinn að segja sig á sveit og margar lánastofnanir eru á spena ríkisins. Bílaiðnaðurinn kemur næst og biður um tugmilljarða dollara “lán” úr galtómum ríkiskassanum. Samkvæmt Bloomberg þá stefna GM, Ford og Chrysler öll á hausinn. Aðilar sem tryggja lán til þessara fyrirtækja telja 84% möguleika á að GM rúlli, 75% á að Ford leggi upp laupana og 95% líkur á að Chrysler fari á hausinn.

Við þessar aðstæður er fyrirsjáanlegt að peningaprentvélarnar verð látnar ganga þar til markaðurinn heimtar miklu hærri vexti fyrir skuldabréf ríkisins. Í millitíðinni hækkar verð á gulli, olíu og öðrum hráefnum. Það er ekki enn ljóst hvort þetta gerist strax eða eftir nokkra mánuði, en til lengri tíma tapar enginn að fjárfesta í orku, góðmálmum, landbúnaði eða hráefnum.