vald.org

Endalok olíualdar (5)

25. ágúst 2008 | Jóhannes Björn

Olíuverðið hefur lækkað úr $147 niður í um $114 á stuttum tíma. Ef þetta væri byrjunin á varanlegum lækkunum þá væru þetta vissulega góð tíðindi, en það eru engar líkur á að svo sé og menn sem eru að spá olíuverði undir $80 til fjölda ára hafa ekki aðeins rangt fyrir sér—þeir eru að ýta undir andvaraleysi sem sannarlega er ekki á bætandi.

Síðan olían byrjaði að hækka verulega 2004 hafa stundum komið snöggar verðlækkanir. Þetta er þriðja leiðréttingin og enn sem komið er hún ekkert sérstaklega merkileg því í ágúst 2007 var verðið í kringum $70. Yfir 100% hækkun á einu ári var ekki eðlileg.

Háværar raddir kenna spákaupmönnum um þessar hækkanir. Fólk sem hefur horft upp á tvær bólur tútna út og springa með nokkra ára millibili—fyrst himinhátt verð hlutabréfa í tæknifyrirtækjum og síðan óraunverulegar hækkanir fasteigna—á auðvitað auðvelt með að trúa því að sama lögmál gildi um olíuna. En það er fjarstæða að halda því fram að spekúlantar geti árum saman haft úrslitaáhrif á olíumarkaði og ráðið verðinu að verulegu marki. Tiltölulega fáir einstaklingar gera þessa samninga og stór hluti olíunnar skiptir um hendur milliliðalaust. Þótt almenningur fjárfesti í olíufélögum eða annars staðar í orkugeiranum þá hefur það lítil áhrif á sjálft orkuverðið.

Það er ekkert dularfullt við hátt olíuverð og alveg öruggt að það æðir upp á næstu árum. Ef 1929 kreppa gengur yfir á næstunni þá kaupir hún nokkra ára frest á þessum hækkunum, en ef hlutirnir malla áfram eins og venjulega þá má nærri því veðja á $300 olíu ekki seinna en 2011. Þetta línurit segir okkur allt sem við þurfum að vita og það er byggt á raunverulegum tölum, ekki áætlunum. Rauða strikið sýnir heimsframleiðsluna og svarta strikið hvernig olíuframleiðslan hefur þróast. Við sjáum að olían hættir að halda í við framleiðsluna 2004 eða nákvæmlega á þeim punkti sem hækkanirnar byrja.

Það eru þrjár stærðir sem takast á í hagkerfinu þessa dagana: (1) Skortur á olíu, landbúnaðarframleiðslu og sumum hráefnum; (2) verðfall á fasteignum víða um heim og hrun á alls konar pappírum í bankakerfinu; og (3) peningaframleiðsla seðlabanka til gjaldþrota banka (og bráðum fyrirtækja eins og Ford og GM). Fyrrverandi kapítallistar sem nú þiggja af sveit fá líka hjálp úr ríkiskassanum, en flestar ríkisstjórnir eru blankar og fá þessa peninga frá seðlabönkum.

Frekar en að tala um peningamagn í umferð þá væri nákvæmara að tala um skuldir í umferð því allir peningar í samfélaginu sjá dagsins ljós í formi lána. Peningar fara ekki í umferð nema einstaklingar, fyrirtæki eða ríkissjóður fái lán úr banka eða seðlabanka. Áður en fasteignabólan sprakk hafði bankakerfið sett gífurlegt fjármagn í umferð, ekki aðeins með lánum út á snarhækkandi fasteignir, heldur líka með því að pakka þessum lánum og selja aftur eins og um raunveruleg verðmæti væri að ráða. Með öðrum orðum þá veitti bankakerfið sjálfu sér lán út á gömul lán!

Þessi gullgerðarlist náði lengst í bandaríska hagkerfinu og í dag eru risar eins og Citigroup, Freddie Mac og Fannie Mae allt að því gjaldþrota. Ruslabréf sem þessar stofnanir salta í bókhaldinu hjá sér kallast “Level 3 Asseets” og Citigroup er með yfir $150 milljarða (hundrað og fimmtíu þúsund milljónir dollara) af þessum geislavirku pappírum. Menn bíða og vona að bankakreppan leysist og ruslið hækki í verði, en það er ekkert sem bendir til þess að kreppan sé meira en hálfnuð.

Þegar fasteignir snarlækka í verði og pappírspýramídinn sem fylgir þeim verður verðlaus, þá hverfa gífurlegar peningaupphæðir úr umferð. Þótt seðlabanki Bandaríkjanna hafi tekið ruslabréf upp í veð og þannig dælt um $450 milljörðum inn í bankakerfið, þá sér ekki högg á vatni. Fasteignamarkaðurinn einn hefur glatað margfalt hærri upphæðum. Það eru ýmsar aðferðir í boði þegar peningamagn í umferð er mælt. Hér eru stærðirnar reiknaðar á ársgrundvelli án tillits til verðbólgu. M1 eru beinharðir peningar í umferð og innistæður sem hægt er að nálgast samstundis. Á hinum endanum er M3 sem sýnir alla peninga í umferð án tillits til tíma sem tekur að leysa þá út (plús M1 og M2). M3 breytist hér úr rauðu í blátt strik á þeim punkti sem einkaaðilar neyddust til þess að reikna dæmið eftir að seðlabankinn hætti að birta tölurnar.

Til þess að átta sig betur skammtímasveiflum þá er best að reikna M3 með því að mæla prósentubreytingar á meðaltali þriggja mánaða miðað við fyrra ár og taka verðbólguna út úr dæminu.

Breytingar á M3 taka um sex til tólf mánuði að vinna sig í gegnum peningakerfið. Ef þetta graf er marktækt þá gerast bráðum slæmir hlutir á hlutabréfamarkaðinum. Við þetta bætist að millibankavextir í heiminum eru á uppleið, sem er öruggt merki um að frekari vandræði séu í vændum, og bankakerfið í heild er að draga saman seglin með minni útlánum.

Þegar bankakreppunni lýkur þá blasir allt annar heimur við þessum spekingum. Starfsemi sem skilaði kerfinu billjónum verður lögð niður því illskiljanlegar afleiður ganga þá ekki út og allar reglur verða hertar til muna. En þótt milljónir einstaklinga missi húsin sín og atvinnuleysi aukist mikið á næstu misserum, þá er eins líklegt að topparnir í bankakerfinu gangi út með fulla vasa af peningum. Það er tímanna tákn.

Olía og gull hafa nýlega lækkað af tæknilegum ástæðum og vegna ótta um að hjól atvinnulífsins á Vesturlöndum séu að hægja á sér. Þetta getur breyst mjög skyndilega þegar bandaríska ríkið (sem er rekið með bullandi tapi) og seðlabankinn (sem nú þegar er með 50% rusl á bókum sínum) byrja að moka tugmilljörðum í Fannie Mae, Freddie Mac og aðrar gjaldþrota stofnanir. Um leið og dollarinn byrjar aftur að lækka þá hækka flest hráefni.

Nýleg hækkun dollarans er ekki í neinum beinum tengslum við það sem er að gerast í bandaríska hagkerfinu. Verri horfur annars staðar hafa lækkað aðra gjaldmiðla og markaðurinn er líka að kreista gróða út úr fjölda spekúlanta sem veðjuðu á móti dalnum. Þannig hafa markaðir alltaf virkað. Raunverulegar stoðir dollarans eru allar að veikjast og hann getur ekki haldið velli í langan tíma. Halli ríkissjóðs fer vaxandi, viðskiptahallinn fer ekki í bráð niður fyrir $700 milljarða á ári, fasteignamarkaðurinn er enn í frjálsu falli, skuldir heimilanna eru gífurlegar, greiðslukortaskuldir á okurvöxtum vaxa hratt og horfur á atvinnumarkaði versna stöðugt.

Verð á olíu á eftir að stórhækka á næstu árum og þegar allir átta sig loks á að olíutoppnum er náð (framleiðsla heldur ekki í við eftirspurn) þá geta aðrir hlutir líka farið að gerast. Þjóðir, eins og t.d. Mexíkó, sem verður orðinn innflytjandi á olíu 2012, gætu bannað allan útflutning löngu áður en búist var við. Hagfræðilega séð þá er ekkert annað til í dæminu. Til hvers ætti ríki að flytja út olíu sem aðeins fer hækkandi frekar en að nota hana innanlands í miklu lengri tíma? Við mundum ekki flytja út matvæli ef skortur væri fyrirsjáanlegur. Þegar olíutoppurinn er viðurkenndur þá bresta alls staðar forsendur fyrir því að auka framleiðsluna. Svarta gullið verður betur geymt í jörðinni og við sjáum þá ekki aðeins himinhátt verð. Það verður líka olíuskortur.

Íslenskir stjórnmálamenn samtímans eru prúðar skrifstofublækur. Þeir geta ekki tekið merkilegri ákvarðanir en að reisa enn fleiri eiturspúandi álver. Olíukreppan er hins vegar spurning um þjóðaröryggi—okkur verður á næstu árum að takast að láta stóran hluta bílaflotans ganga fyrir íslenskri orku. Þetta er stórverkefni sem kallar á stórhuga fólk … en leynist einhverjar slíkar sálir við Austurvöll?