vald.org

Frosið kerfi

3. október 2008 | Jóhannes Björn

Tæknilega séð þá er heimskreppa skollin á og nú er aðeins að sjá hvernig ráðamenn—og þá sérstaklega í Bandaríkjunum—bregðast við. Verður hnúturinn leystur á nokkrum vikum eða verður þröngum hagsmunum hyglað með yfirborðslegum aðgerðum á meðan allur almenningur lepur dauðann úr skel árum saman?

Bankakreppan hefur staðið í meira en ár en um miðjan september hægði verulega á peningahringrásinni. Millibankavextir, þ.e. áhættuþóknun sem bankar rukka hvern annan fyrir skammtímalán, hafa hækkað í áður óþekktar hæðir. Þegar tryggingarisi eins og Hartford—fyrirtæki sem á 200 ára afmæli eftir tvö ár, er með 31.000 manns í vinnu í mörgum löndum og var með $2,9 milljarða í hreinan gróða 2007—á erfitt með að endurfjármagna pappíra og verður að borga óeðlilega háa vexti, þá vitum við að kerfið er beinfrosið.

Bandaríska þingið er búið að samþykkja $700 milljarða pakka sem á að koma peningahringrásinni aftur í eðlilegt horf. Hugmyndin, alla vega eins og þetta er auglýst, er að kaupa ruslapappíra af lánastofnunum svo þær geti aftur byrjað að lána peninga. Maður hefði haldið að eftir 14 mánaða bankakreppu væru þúsundir hagfræðinga á vegum bandaríska seðlabankans og fjármálaráðuneytisins tilbúnir með úthugsaða áætlun, en þessum $700 milljarða pakka var hróflað saman í fljótheitum með hótunum um að kerfið væri allt í einu að fara til helvítis. Málið hefur síðan verið keyrt áfram með hræðslupólitík og alls konar fullyrðingum sem ekki standast. Það eru sáralitlar líkur á að þessir $700 milljarðar bjargi kerfinu lengur en í nokkrar vikur. Það eru hins vegar miklar líkur á að þröngir hagsmunir á Wall Street uppskeri ríkulega.

Starfsmenn fjárfestingabanka voru í áratug ein best launaða stétt jarðarinnar. Bankarnir byggðu upp kerfi sem gaf af sér feikilegan gróða á meðan allt lék í lyndi. Lánum var endurpakkað, yfirtökur fyrirtækja (oft óraunhæfar) fjármagnaðar og alls konar alþjóðlegt peningastreymi magnaðist. Þegar fasteignabólan sprakk féll þetta kerfi saman með afleiðingum sem við sjáum allt í kringum okkur í dag. Eftir stendur að þótt bankakreppan leystist strax á morgun þá gæti þessi peningamaskína ekki tekið upp þráðinn þar sem frá var horfið. Þetta “módel” er dautt. Bankastarfsemi næstu ára á eftir að bera miklu meiri keim af 1975 heldur en 2005.

Það hefur því ósköp litla þýðingu að ausa $700 milljörðum í þetta svarthol. Bankamál geta stundum verið dálítið snúin og þess vegna geta þeir sem græða á þessum peningamokstri blekkt fólkið, en hugsum okkur einfaldara dæmi. Árið 1968 hvarf síldin af Íslandsmiðum og allir sem komu nálægt síldveiðum lentu í greiðsluerfiðleikum. Hvernig hefði það litið út ef Viðreisnarstjórnin hefði ákveðið að nota sameiginlega sjóði fólksins til þess að borga alla útistandandi reikninga síldarbáta og síldarplana—endurgjaldslaust og án þess að eignast nokkuð í þessum fyrirtækjum í nafni þess að bjarga þessum glataða iðnaði!

Þótt $700 milljarðar virðist vera miklir peningar þá er erfitt að sjá hvernig kaup á ruslapappírum á eftir að gera eitthvað meira fyrir kerfið heldur en nýlegur peningaaustur seðlabanka heimsins. Vandinn liggur í því að fasteignir og önnur verðmæti eru enn að lækka og pappírar sem tengjast atvinnuhúsnæði, bílalánum, greiðslukortaskuldum, gjaldþrota fyrirtækjum o.s.frv. eru líka að hrynja í verði. Bankarnir þora ekki að lána því þeir sjá allt sökkvandi í kringum sig. Millibankavextir eru að slá öll met vegna þess að tæknilega gjaldþrota bankar vita að margir aðrir bankar eru líka tæknilega gjaldþrota.

Menn sem skilja hvernig peningar fara í umferð sjá líka hættu sem pólitíkusarnir í Washington gera sér enga grein fyrir. Þessir $700 milljarðar verða settir í hít sem fljótlega þarf enn meiri hjálp. Þetta skapar ekki þenslu vegna þess að það er aðeins verið að koma í veg fyrir frekari lækkun verðmæta sem þegar eru til staðar. Þótt bókhaldið braggist aðeins þá hefur það sennilega sáralítil áhrif á almennum lánamarkaði, alla vega til lengri tíma

En málið hefur líka aðra hlið.

Ríkiskassinn skuldar þegar yfir $10 billjónir (amerískar trilljónir) og til þess að ná sér í næstu billjón verður ríkissjóður að selja skuldabréf. Þegar einstaklingar eða fyrirtæki kaupa ríkisskuldabréf þá dregur það úr peningamagni í umferð af þeirri einföldu ástæðu að peningar í umferð eru notaðir til þess að kaupa skuldapappíra (þegar seðlabankinn kaupir þá virkar það öfugt). Á óvissutímum kaupa bankar, fjárfestingafyrirtæki og aðrir þessi bréf í vaxandi mæli. Óttinn er svo mikill um þessar mundir, að þótt vextir ríkisskuldabréfa halda ekki einu sinni í við verðbólgu, þá eru þau rifin út og dollarinn er því allt of hátt skráður miðað við allar grundvallarstaðreyndir. Olía og gull lækka líka tímabundið af þessum sömu ástæðum. Í stuttu máli, það á að taka peninga úr umferð með sölu ríkisskuldabréfa til þess að blása takmörkuðu lífi í verðlausa pappíra þótt það sogi til sín fjármagn sem annars yrði lánað.

Bandarískir þingmenn eru eins og starfsbræður þeirra annars staðar óhræddir við að framleiða staðreyndir eftir þörfum og margir hafa á undanförnum dögum haldið því fram að ríkið eigi á endanum eftir að græða á þessum viðskiptum. Markaðurinn er ekki “sveigjanlegur” þessa stundina, segja þessar ljósaperur, og bréfin sem við kaupum hækka í verði þegar fram líða stundir. Þetta er hreint bull eins og þessi nýja skýrsla frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum sýnir, en hún er úttekt á svipuðum bjargaraðgerðum í gegnum tíðina.

Það er ekki enn vitað á hvaða verði bandaríska ríkið ætlar að kaupa ruslið, en við getum hengt okkur upp á að það verður allt of hátt. Annars væri þetta brölt ekki nauðsynlegt því það er alltaf markaður fyrir hluti sem eru verðlagðir rétt. Þegar Wachovia rúllaði um daginn þá voru bókfærðar eignir fjárfestingabankans $75 milljarðar. Citigroup borgaði tvo milljarða dollara fyrir pakkann og Michael Rapoport hjá Dow Jones spurði: “Borguðu þeir of mikið?”

Spurningunni um hvað Bandaríkjastjórn hefði átt að gera má svara svona: Allir peningar sem notaðir eru til þess að leysa efnahagsvandann verða að skila sér í vaxandi fjárstreymi í hagkerfinu. Ríkið gæti tímabundið keypt sig inn í bankakerfið og þannig dælt fjármagni inn í kerfið, peningum sem aftur færu í hringrásina. Enn betra væri að eyða $700 milljörðum í tímabundin verkefni sem skapa atvinnu og hærri tekjur—það eina sem getur hjálpað fasteignamarkaðinum. Samgöngukerfið eitt þarf miklu hærri upphæðir og það þarf að endurbyggja allt járnbrautakerfið til að mæta hækkandi orkukostnaði. Það er fimm sinnum ódýrara að flytja vörur með lestum en stórum trukkum og munurinn eykst enn meira þegar olían hækkar.

Nýhægrimenn og ofurfrjálshyggjumenn eru iðnir við að endurskrifa söguna. Núna eru menn á þeim bæ samstilltir um að segja að stjórnlausir (frjálsir) markaðir hafi virkað vel, en það hafi verið stjórn Clinton að kenna að mesti þjófnaður fjármálasögunnar var framinn á átta ára stjórnarferli Bush! Máli sínu til stuðnings hafa þeir grafið upp gamla grein í New York Times. Eins og Eyjan.is greindi frá 2. október þá kom einn frjálshyggjupostulinn, Henri Lepage, til Íslands til þess að boða fagnaðarerindið:

Lepage hélt fyrirlestur á vegum Rannsóknarstöðvar um samfélags- og efnahagsmál í hádeginu í dag. Þar fjallaði hann meðal annars um ástæðurnar fyrir þeim þrengingum sem eiga sér stað á alþjóðlegum fjármálamörkuðum nú um stundir.

Í ræðu sinni benti hann m.a. á náin tengsl milli stjórnenda Fannie Mae og Freddie Mac, og stjórnmálamanna demókrataflokksins, og að ástæðurnar fyrir gjaldþroti þessara sjóða og erfiðleikum sem fjármálamarkaðirnir glíma nú við eru að hluta til komnar vegna þess að stjórnmálamenn, á grundvelli laga gegn mismunun minnihlutahópa, hvöttu sjóðina til að slaka á veðkröfum á tímum Clinton stjórnarinnar.

Hann benti jafnframt á að í víðara samhengi þessarar fjármálakreppu hefðu vanhugsaðar reglur, takmarkanir og fyrirmæli stjórnmálamanna neytt fjármálafyrirtæki heimsins til óskynsamlegra ráðstafana frá þjóðhagslegu sjónarmiði og þar með ýtt þeim fram á brún efnahagslegs hengiflugs.

Að mati Lepage er þetta grunnástæðan fyrir þeirri fjármálakreppu sem þjóðir heims glíma við núna: Ekki gallar í markaðskerfinu heldur vanhugsuð og óeðlileg stjórnmálaleg afskipti.

Það er varla hægt að byrja að svara þessu rugli. Endurpökkun lána byrjaði fyrir alvöru undir Bush, skjalafals hefur aldrei verið löglegt og enginn neyddi bónusgreiðslum upp á kerfið. Bankarnir stunduðu algjörlega ábyrgðarlausa lánastarfsemi vegna þess að þeir gátu endurselt lánin og þeir kenndu starfsmönnum sínum að fara í kringum kerfið. Hér er lýsing á hvernig JPMorgan Chase lék þennan leik.

Fyrirtæki sem áttu að meta þessa ruslapappíra voru á kafi í svindlinu og bera mikla ábyrgð á að þetta eitur barst út um allan heim og setti bankakerfið á annan endann. Þessi grein lýsir því í smáatriðum.

Framhald …