vald.org

Frosið kerfi 2

11. október 2008 | Jóhannes Björn

Rannsókn á sennilega eftir að leiða í ljós að íslensku bankarnir fóru offari, innanbúðarviðskipti voru alls ekki í lagi og laun toppanna ekki í neinu samhengi við almenna skynsemi eða hefðbundið siðferði. Ekki bætti úr skák að Seðlabanki Íslands var eini seðlabanki heimsins sem gerði ekki neitt til þess að hjálpa bönkunum—furðuleg harka eftir að hafa sett innlenda peningamarkaði í járn með þrálátum okurvöxtum. Þegar embættismenn fóru svo að tala opinberlega um að standa ekki við skuldbindingar … þá duttum við ofan í kanínuholuna í Undralandi.

Það var svo sem ekki erfitt að spyrja að leikslokum; þessi síða var búin að benda á hættuna árum saman og betur upplýstir aðilar hljóta að hafa skilið málið fullkomlega. Þegar stofnun eins og banki stólar mest á rúllandi skammtímalán, þá er ekki verið að stunda hefðbundna bankastarfsemi—það er verið að braska með keðjubréf. Þetta er hagfræði 101. Fyrr eða síðar sveiflast lánamarkaðurinn í hina áttina og þá er partíð búið.

Það verður líka að viðurkennast að ytri aðstæður voru mjög erfiðar. Bankakreppan snarversnaði um miðjan september og það er augljóst að gjaldþrot Lehman Brothers var meira en markaðirnir þoldu á því viðkvæma augnabliki. Þetta gjaldþrot var dálítið dularfullt og margir veltu því fyrir sér hvers vegna seðlabankinn hjálpaði ekki einhverjum öðrum aðila að kaupa hræðið. Þannig hefur þetta gengið fyrir sig hingað til og líka síðan Lehman fór á hausinn. Svarið við þessari spurningu virðist vera á þá leið að miklu stærri banki, J.P. Morgan Chase, hafi verið við það að rúlla og Lehman hafi verið fórnað með snjallri leikfléttu. Rob Kirby skrifareftir gjaldþrot Lehman hafi J.P.Morgan Chase fengið að yfirfæra (selja) $138 milljarða af ruslabréfum til Lehman og seðlabankinn hafi síðan greitt Morgan fullt verð fyrir þessi bréf (sem væntanlega hefðu selst fyrir 5–10% á opnum markaði þótt ómögulegt sé að giska á það nákvæmlega).

Það er augljóst að nokkrir hákarlar á bandaríska fjármálamarkaðinum eru á góðri leið með að tæta í sig vænan slatta samkeppninnar. Hitt vita færri að þessir bankar eru hluthafar í seðlabanka landsins, stofnun sem gerir öll þessi kaup möguleg. Við göngum hér inn í ruglingslegt landslag og t.d. einn besti hagfræðingur Íslands, Gunnar Tómasson, sem hefur starfað í bandaríska kerfinu, er ekki sammála því að seðlabankinn bandaríski sé einkabanki (í umræðum á malefnin.com).

Það eru borðliggjandi staðreyndir (raktar í Falið vald) að eigendur stærstu banka Bandaríkjanna, sem voru með höfuðstöðvar á austurströndinni, sátu á leynifundum og skipulögðu nýjan seðlabanka áður en lögin fóru í gegn 1913. Þeir hugsuðu þetta sem tryggingafélag og vopn í baráttunni við vaxandi samkeppni í landi sem var í hraðri uppbyggingu. Kerfið samanstendur af 12 seðlabönkum, en New York bankinn er langmikilvægastur. Stjórnvöld velja helstu toppana sem stjórna þessu kerfi hverju sinni, en stutt athugun leiðir í ljós að þessir einstaklingar eru venjulega nátengdir stóru bönkunum. Seðlabankinn er hlutafélag og stóru bankarnir á austurströndinni (Rockefeller-Morgan) fengu bestu bréfin 1913, að virðist endurgjaldslaust. Það er ekki hægt að selja þessi hlutabréf og þau hafa færst á milli aðila þegar bankar sameinast eða eru keyptir.

Ef maður fer á vefsíðu seðlabankans í New York, skoðar “view all questions” og smellir á spurningunni “hver á bankann?” þá kemur m.a. þetta svar:

The twelve regional Federal Reserve Banks, which were established by Congress as the operating arms of the nation's central banking system, are organized much like private corporations--possibly leading to some confusion about "ownership." For example, the Reserve Banks issue shares of stock to member banks. However, owning Reserve Bank stock is quite different from owning stock in a private company. The Reserve Banks are not operated for profit, and ownership of a certain amount of stock is, by law, a condition of membership in the System. The stock may not be sold, traded, or pledged as security for a loan; dividends are, by law, 6 percent per year.

Hér er reynt að gera lítið úr eignarhaldi í bankanum og gefið í skyn að þetta sé eina hlutafélag heimsins sem er ekki í eigu nokkurs aðila! Samt fá einkabankar 6% arð af starfsemi stofnunar sem prentar peninga. Það virðist vera útilokað að grafa upp hve há þessi upphæð hefur verið á hverju ári.

Kjarni málsins er að Rockefeller & félagar hafa engan áhuga á daglegu amstri í seðlabankanum, en þegar hluthafinn Chase er að fara á hausinn þá er eins gott að geta tekið upp símtólið og náð beinu sambandi við kommissarinn sem sér um skriffinnskunna á því augnabliki.

Ástandið í heiminum er dökkt—sumir segja að Ísland sé kanarífuglinn í kolanámunni—en það er möguleiki á að hægt verði að leysa bankakreppuna á næstunni og við þurfum þá aðeins að glíma við venjulega efnahagslægð eftir það. Ef G7 ríkin byrja að tryggja millibankalán og kaupa sig í vaxandi mæli inn í bankakerfið, þá byrja peningarnir aftur að streyma. En botninn næst ekki fyrr en áþreifanlegir hlutir (aðallega fasteignir) hætta að falla í verði.

Bjartasta vonin um blóm í haga birtist þó nýlega á forsíðu tímaritsins Time. Þar getur að líta ömurlega mynd af fólki sem stendur í röð fyrir framan súpueldhús.

Þegar Time spáir dramatískt í framtíðina á forsíðunni, þá hefur blaðið nærri því alltaf rangt fyrir sér. Hitler var maður ársins, “nýja hagkerfið” var á leið í áður óþekktar hæðir rétt áður en allt hrundi í kauphöllinni árið 2000, ekkert var betra en fasteignamarkaðurinn í “þjóðfélagi húseigenda” rétt fyrir hrunið sem byrjaði 2006 og þannig mætti lengi halda áfram.

Sápukúlur á fjármálamarkaði jafnt sem hrun fylgja svipuðum lögmálum. Þegar allir halda að eitthvað æði upp að eilífu eða haldi endalaust áfram að hrynja—og á nákvæmlega þeim punkti birta Time, Newsweek og áþekk blöð forsíðugrein um málið—þá snúast hlutirnir við. Sápukúla myndast þegar fólk kaupir hús eða hlutabréf aðeins vegna þess að það trúir því að einhver annar muni seinna borga enn meira. Markaðurinn er þá eins og innhverfur píramídi sem brátt hrynur. Markaðshrun endar þegar flestir fyllast vonleysi og selja ódýrt á góðum kjörum.

Vonandi heldur Time áfram þeirri hefð að hafa rangt fyrir sér í öllum stórmálum!