vald.org

Vaxtaokur … framhald

1. nóvember 2008 | Jóhannes Björn

Það þykir bera vott um andlegt ójafnvægi þegar einhver endurtekur sömu (bull)aðgerðina aftur og aftur en heldur í hvert einasta skipti að eitthvað jákvætt hljóti nú að fara að gerast. Velkomin í Seðlabankann! Á seinni árum hafa fáir harmleikir leikið þjóðina eins grátt og fljótandi dvergkróna og okurvextir, en nú er ákveðið að halda píslargöngunni áfram og þetta er matreitt í okkur sem einhvers konar hjálparaðgerð.

Það er fnykur í lofti og hann virðist koma beint frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. IMF elskar okurvexti og gjaldeyrisbrask. Fljótandi gjaldmiðlar henta fjöljóðafyrirtækjum og stórbönkum mjög vel. Því ekki að keyra niður krónuna og fjárfesta í ódýrri orku? Okurvextir hjálpa þessum húsbændum IMF vegna þess að þeir lama hagkerfi Íslands og landið verður loks að sækja meira fé til bankans—og þá verður þumalskrúfan enn hert.

Stóra myndin lítur þannig út að flest lönd eru að ganga í gegnum efnahagslægð. Við eðlilegar kringumstæður dregur það úr hagvexti á Íslandi. En aðstæður núna eiga langt í land með að teljast eðlilegar. Með því að hella okurvöxtum yfir þjóðina á þessu augnabliki þá er tryggt að hagvöxtur verður minni en enginn og krónan er dauðadæmd.

Burt séð frá bókstafstrú í Seðlabankanum, þá ráða stýrivextir sama og engu um gengi gjaldmiðla; þeir sem fjárfesta í atvinnulífinu einblína mest og best á hagvöxt og grundvallarheilbrigði hagkerfisins. Er vinnuaflið vel menntað? Er orka fyrir hendi? Góðar samgöngur og skilvirkt bankakerfi? Þetta eru stóru spurningarnar sem hugsandi fjárfestar spyrja. Braskarar velta því hins vegar fyrir sér hvort hægt sé að græða á jöklabréfum á næstu sex mánuðum og hvert kapítalið skuli halda næst. Braskarar byggja ekki upp hagkerfi og okurvextir rífa þau niður.

Það má vel vera að almenningur í Sviss fái áfall þegar stýrivextir hækka um eitt eða tvö prósent, en okurvextir hafa aldrei verið gott hagstjórnartæki á Íslandi. Ástæðurnar eru bæði félagslegar og hagfræðilegar eins og áður hefur verið fjallað um á þessari síðu. En að keyra stýrivexti upp í 18% við ríkjandi aðstæður er hreint sjálfsmorð. Hvernig eiga fyrirtæki að borga 100% vexti (með vaxtavöxtum) á innan við fjórum árum? Það er verið að lækka vexti niður í 1–4% út um allan heim og samt er allt á niðurleið. Hvaða undur eru að gerast á Íslandi sem fá seðlabanka eða pólitíkusa til þess að halda að þetta sé eitthvað annað en rothögg á þjóðina? Kannski ætti aldrei að hleypa mönnum í ráðherrastóla eða inn í Seðlabankann nema þeir hafi áður rekið fyrirtæki í a.m.k. eitt ár. Og kannski myndi það skerpa hugsun möppudýranna ef risnan væri lögð niður!

En hvað átti að gera? Áður en menn byrja að semja um eitthvað þá verða þeir fyrst að draga línu í sandinn og ákveða hvað fellur innan hæfilegs ramma. Okurvextir og fljótandi dvergkróna áttu ekki einu sinni að vera til umræðu. Það var hægt að tala um að binda krónuna við annan gjaldmiðil, t.d. með hjálp annarra seðlabanka, eða hreinlega loka hagkerfinu í stuttan tíma á meðan menn vöndust 4% vöxtum, verðbólgan lækkaði og staða gjaldmiðilsins skýrðist. Þeir sem setja sig í stellingar og segja að lágir vextir og lækkandi verðbólga fari ekki saman ættu að skoða málið betur. Okurvextir hafa alltaf aukið verðbólgu á Íslandi vegna þess að hagkerfið er lítið og allir þekkjast. Menn reikna vaxtakostnaðinn beint inn í verðlagið—í takt.

Það er fyrir löngu kominn tími til að íslenskir pólitíkusar, þessir svokölluðu fulltrúar fólksins, hætti að komast upp með að fara með milliríkjasamninga eins og einkamál. Þetta eru hagsmunir fólksins og það er verið að semja um sameign þjóðarinnar. Birtið strax alla skilmála samningsins við IMF. Birtið líka í leiðinni á hvaða verði íslenska þjóðin er að selja orku til erlendra fyrirtækja. Þetta er ekki ykkar einkamál.

Fyrir mörgum árum greindi Elías Davíðsson frá leynisamningi sem Ísland gerði við IMF í kringum 1960. Ísland fékk lán en lofaði að fella gengið um 100% (gert í tveimur áföngum) og e.t.v. var þetta byrjun stóriðjunnar. Kannski væri hægt að sjá þetta plagg áður en það verður fimmtugt.