vald.org

Vaxtaokur—Leiðrétting

4. nóvember 2008 | Jóhannes Björn

Í síðustu grein vitnaði ég í plagg sem Elías Davíðsson skrifaði fyrir yfir 25 árum. Eftir á fékk ég bakþanka og hafði loks eftir langa leit upp á Elíasi þar sem hann býr í Þýskalandi. Hann staðfesti að í fyrrnefndu plaggi, sem fjallaði um ítök Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi, hafi ekki sérstaklega verið fjallað um gengisfellingar. Þetta rangminni mitt kom til vegna þess að eftir að hafa lesið skrif Elísar þá hafði ég samband við Vilmund Gylfason, sem þá var þingmaður, og við ræddum þá líka um þessar tíðu gengisfellingar Viðreisnartímabilsins og hugsanlegan þátt IMF í þeim. Ég skoraði á Vilmund að beita sér fyrir auknu upplýsingafrelsi á Íslandi.

Elías telur að Alþjóðabankinn og systurstofnun hans, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, hafi alla tíð ráðið mjög miklu innan Landsvirkjunar. Hann reyndi oft að fá að skoða samninga sem þessir bankar gerðu við íslenska aðila, en var alltaf tjáð hér á landi að þetta flokkaðist undir “trúnaðarmál” og það væri “hefð” að halda fólkinu frá þessum upplýsingum. Sum mál sem eru talin trúnaðarmál á Íslandi eru þó almennar upplýsingar í Alþjóðabankanum og Elías fékk þær upplýsingar strax þegar hann heimsótti bankann. Honum tókst þó aldrei að skoða samninga frá árunum 1958–1966, en á fyrri hluta þess tímabils tók landið örlagaríkar ákvarðanir um hvernig bæri að nýta orku landsins.

Hvernig væri að birta þessa samninga núna? Ef þeir elstu eru orðnir 50 ára þá er varla hægt að fela sig á bak við trúnað og hefðir. Það er hreinn fyrirsláttur. Það verður að segjast eins og er að íslenskir embættismenn eru á mörgum sviðum heilli öld á eftir tímanum. Þeir stunda klíkuskap og leynimakk líkt og þeir hafi fæðst í þessi embætti með blátt blóð í æðum eða starfi á herteknu svæði fyrir nýlenduveldi.

Íslensk orka er sameign fólksins og þótt þjóðin hafi ráðið eitthvað fólk á háu kaupi til þess að semja við útlendinga þá var aldrei meiningin að þeir gætu falið afrakstur vinnu sinnar. Kannski myndu þessar prímadonnur sýna meiri hógværð ef kaup þeirra væri lækkað um helming og eftirlaunin sniðin að því sem venjulegir borgarar uppskera.