vald.org

Evra

11. nóvember 2008 | Jóhannes Björn

Það er mikil umræða í þjóðfélaginu um að Ísland taki einhliða upp evru. Nokkrir hagfræðingar hafa haldið því fram að þetta sé auðvelt og benda máli sínu til stuðnings á þá staðreynd að flest viðskipti eru rafræn og seðlar og mynt í umferð eru smápeningar í því dæmi. Málið er kannski ekki alveg svo einfalt.

Til að byrja með þá bíða margir erlendir aðilar eftir að tækifæri myndist til þess að taka háar upphæðir úr landi. Það gerist sama dag og þessi fræðilega evra fer í umferð. Ef atvinnuleysi eykst og fjöldi Íslendinga ásamt erlendu vinnuafli sem hér hefur verið kýs að yfirgefa landið, þá myndast mikið útstreymi á þessum evrum. Viðskiptahalli við útlönd myndi líka láta evrur gufa upp og við þær aðstæður væru tollar og skattar einu vopnin til þess að laga stöðuna. Við fellum ekki evruna og enginn aðgangur að yfirdrætti kæmi okkur strax í tímahrak.

Það er erfitt að sjá hvernig þjóð sem er á hnjánum getur komið sér upp nægilega stórum evrusjóði til þess að dæmið gangi upp. Þetta var líklega hægt 2005 eða 2006 en staðan er mikið breytt síðan þá. Með fáum undantekningum þá verða þjóðir sem búa við nútíma peningakerfi að hafa aðgang að seðlabönkum. Það verður að bíta í það súra epli þótt kerfið sé í eðli sínu meingallað. Það er ekkert annað kerfi í gangi.

En þetta eru bara tæknilegar hliðar málsins. Ef Íslendingar taka upp evru og seðlabanki Evrópu fer í fýlu þá blasa við vandamál sem gera millilandaverslun mjög erfiða. Þeir geta neitað að láta tékka, bankaábyrgðir og aðra pappíra ganga í gegnum greiðslukerfi sambandsins. Ef Bretar og Hollendingar líta á aðgerðir Íslendinga sem leið út úr samningaumræðum við þá, þá geta þeir ábyggilega fundið margar aðferðir til þess að gera Íslendingum lífið leitt.

Peningakerfi nútímans virkar þannig að það er ekkert á bak seðlana sem notum. Allir peningar í umferð verða til þegar bankakerfið (fyrst seðlabanki) lánar til einstaklinga, fyrirtækja eða ríkisins. Þetta er nokkurs konar gildra vegna þess að allir peningar fara í umferð sem lán sem bera vexti og til þess að geta borgað þessa vexti til baka þá verða menn að leita aftur til bankakerfisins til þess að fá lán sem ber vexti … og þannig gengur þetta endalaust. Þetta er útskýrt í Falið vald.

Seðlabanki getur haft einhverja stjórn á peningamagni í umferð með því að skilda bankakerfið til þess að setja ekki ákveðna prósentu peninga í umferð eða með mismunandi háum stýrivöxtum. Seðlabanki getur aldrei neitað bankakerfinu um lán og starfar því ekki ósvipað og hitaveitan. Vatnið er alltaf látið renna en verðið getur haft áhrif á neysluna.

Bankakerfi sem hefur ekki aðgang að seðlabanka, svo við notum sömu samlíkingu, verður að eiga stóra hitaveitutanka til þess að geta mætt kuldaköstum eða óvæntum leka í kerfinu. Því miður, við núverandi aðstæður er erfitt að sjá hvernig Ísland getur tekið upp nýjan gjaldmiðil án heimilda til þess að taka lán í seðlabankanum sem prentar þann sama gjaldmiðil.