vald.org

Paulson-klíkan

24. nóvember 2008 | Jóhannes Björn

Það hefur verið sagt að í hagfræði sé engin hugmynd svo fráleit að hún sé ekki reynd. Með hliðsjón af nýfenginni reynslu þá má kannski segja að hlutirnir hafi breyst á þann veg að nú séu svo til allar nýjar hugmyndir sem fljóta í hakerfinu út í hött. Þetta lyktar af klíkuskap og örvæntingu og bendir til þess að alvöru heimskreppu sé jafnvel í spilunum.

Fyrir nokkrum vikum síðan bað fjármálaráðherra BNA, Henry Paulson, um $700 milljarða til þess að bjarga kerfinu. Fyrst var þessi beiðni sett fram í nokkrum línum þar sem honum var leyft að ráðstafa þessari gífurlegu upphæð að eigin geðþótta og án eftirlits, en þjóðin rak upp vein og málið var endurskoðað. Frumvarpið sem var loks samþykkt gerði ráð fyrir að breska leiðin yrði notuð og ríkið keypti sig inn í stærstu bankana. Hugmyndin var að skikka bankana til þess að lána meira út í þjóðfélagið og endurvekja traust á milli banka. Það átti að lækka millibankavexti og koma peningahringrásinni aftur í gang. Gott mál og menn sáu loks hvernig hægt var að enda bankakreppuna.

Henry Paulson er gömul Wall Street rotta og verk hans benda eindregið til þess að félagarnir á strætinu hafi drjúgt forskot á fólkið í landinu. Hann sagðist ætla að fara bresku leiðina en hann sleppti síðan öllu sem máli skipti í þeirri leið. Gordon Brown fékk atkvæðisrétt í bönkunum sem hann hjálpaði, skipaði ríkisstarfsmenn í stjórnir þeirra, fékk 12% arð í ríkiskassann og skriflegt samþykki frá bönkunum varðandi lánaumsvif þeirra. Paulson fékk 5% arð, ekkert atkvæði í nokkrum banka, engan mann í stjórn bankanna og ekkert skriflegt samkomulag um aukningu lána.

Þetta er ótrúlegt klúður og kemur á versta augnabliki. Það eru nærri því tveir mánuður þar til næsta stjórn tekur við og það er engin trygging fyrir að kerfið þoli þessa bið. Útlán banka hafa ekkert aukist og bankamenn bara yppa öxlum og benda réttilega á að þeir hafi ekki skrifað undir neitt sem knýr þá til þess að lána meiri peninga. Helmingur peninganna sem skattgreiðendur eru búnir að ausa í níu stærstu bankanna verða látnir renna sem hlutabréfaarður til hluthafanna á næstu þrem árum. Það er gaman fyrir vini Paulson sem eiga milljónir hlutabréfa í bönkum, en skattgreiðendum verður ekki eins skemmt þegar gjaldþrota ríkið þarf að draga úr útgjöldum til samgöngu- og heilbrigðismála. Hinn helmingur peninganna verður notaður til þess að borga bónusgreiðslur og fjármagna yfirtökur annarra banka.

Í síðustu viku tilkynnti Bank og America um $7 milljarða fjárfestingu í kínverskum banka, China Construction Bank, en þá voru bara nokkrir dagar liðnir síðan bankinn fékk $15 milljarða frá skattgreiðendum. Það segir þó ekki alla söguna því Paulson (upp á sitt eindæmi og ólöglega segja margir sérfræðingar sem Washington Post spurði) breytti skattalögunum þannig að þegar eitt fyrirtæki yfirtekur annað þá er hægt að búa til gervifyrirtæki sem tekur á sig pappírstap. Vegna þessa tapar ríkiskassinn um $140 milljörðum árlega. Það á greinilega að hygla vinunum fram á síðasta dag.

Það sem greinir stjórn Bush frá öðrum ríkisstjórnum er ofsatrú á verktökum og undirverktökum. Herinn er t.d. hættur að gera alls konar hluti sem hann áður gerði, t.d. að elda mat eða þrífa, en vertakar selja t.d. hernum 6 kók fyrir $49 í Írak og taka $99 fyrir hvern fataþvott, en hermönnum er bannað að þvo sinn eigin þvott. Lausn bankakreppunnar fylgir sömu formúlu.

Bandaríski seðlabankinn er búinn að ausa út yfir $2000 milljörðum (tvær amerískar trilljónir) með því að taka alls konar pappíra upp í veð af bankakerfinu. Seðlabankinn neitar að gefa upp hvaða rusl hann er að taka af bönkunum og Bloomberg fréttastofan er búin að höfða mál til þess að fá þessar upplýsingar. Nú bregður svo skemmtilega við að seðlabankinn notar þau rök að New York útibúið sé ekki ríkisstofnun og lög um opinbert upplýsingafrelsi eigi því ekki við. Það er stutt síðan þessi síða vitnaði í vefsíðu Federal Reserve Bank of New York þar sem kvartað var yfir þeim algenga misskilningi að seðlabankinn væri í einkaeign.

Þegar seðlabanki er viljugur að skipta á rusli fyrir beinharða peninga þá vilja eðlilega sem flestir komast í þá aðstöðu að geta stundað slík viðskipti. Þess vegna eru sterk peningafyrirtæki, eins og t.d. American Express, óðum að breyta sér í banka. “We are all banks now” er viðkvæðið á Wall Street þessa dagana.

Hvað myndi Adam Smith segja ef hann væri ofanjarðar og sæi kapítalíska sósíalismann eins og hann grasserar í dag? Bandaríska bankakerfið er eins og það leggur sig á bráðavakt ríkis og seðlabanka. Stærstu innlendu bílaframleiðendur landsins eru nýbúnir að fá $25 milljarða “lán” og heimta núna annað af sömu stærðargráðu. Samt er GM að opna nýja risaverksmiðju í Rússlandi og Ford eina tæknilegustu verksmiðju heimsins í Brasilíu. Til hvers eiga bandarískir skattgreiðendur að fjármagna þessa starfsemi? Hallarekstur ríkisins fer bráðum yfir þúsund milljarða á ársgrundvelli og þá á eftir að reikna þessa $700 milljarða inn í dæmið auk alls þess sem næsti forseti gerir.

Það er verðfall á svo til öllu í augnablikinu, en þegar dæmið snýst við þá er hætt við verðbólguskoti af stærri gerðinni.