vald.org

Aðsend grein

2. desember 2008 | Jóhannes Björn

Stundum gerist það að ríkjandi sjónarmið í samfélaginu breytast á örstuttum tíma. Viðteknar hugmyndir sem hafa verið nær óbreyttar í mörg ár eða jafnvel áratugi hverfa allt í einu eins og dögg fyrir sólu og ný samfélagsviðhorf leysa þær af hólmi. Oft gerist þetta í kjölfar storms eyðileggingar af einhverju tagi—óðaverðbólgan í Þýskalandi 1923 opnaði þjóðarsálina fyrir öfgum nasismans og atómsprengjan breytti lífsviðhorfi fólks út um allan heim—en stundum þarf miklu minna til.

Fræg mynd af jörðinni sem var tekin frá tunglinu breytti viðhorfi milljóna og er almennt talin hafa markað upphaf umhverfisverndarstefnunnar. Um leið og getnaðavarnarpillan kom á markaðinn leysti hún úr læðingi kynlífsbyltingu og félagsleg staða kvenna gjörbreyttist. Hrun íslensku bankanna breytti hugarheimi þjóðarinnar á svipstundu og nýr raunveruleiki er enn í mótun.

Þegar stökkbreyting á sé stað í þjóðfélaginu þá fer hún oft ofan garðs eða neðan hjá dágóðum hópi fólks. Bylting á listasviðinu er meira kynslóðabundin en aðrar þjóðfélagsbreytingar og það var t.d. fjölmennasta kynslóð allra tíma með hrinti bítlatímabilinu af stað. Miklir hagsmunir gera líka einstaklinginn ósveigjanlegri og það er sérstaklega áberandi á Íslandi í dag. Fólk upp til hópa er einn risastór hugmyndabanki á meðan embættismennirnir eru eins og nátttröll á sólríkum degi. Munurinn á fólkinu í landinu og pólitíkusunum var t.d. ærandi á borgarafundi sem nýlega var haldinn. Brennandi áhugi fólksins á að finna leið út úr ógöngunum virtist fara í taugarnar á pólitíkusunum og embættishrokinn draup af hverju svari.

Öll uppákoman á fundinum minnti óþyrmilega á lýsingu meistara Þórbergs á presti sem muldraði eitthvað óskiljanlegt í barminn við hverja guðsþjónustu. Fólkið byrjaði að færa sig nær guðsmanninum og loks var allur söfnuðurinn svo til búinn að umkringja hann. Presturinn leit þá upp alveg forviða og hreytti út úr sér:”Nú þykir mér pöpulinn vera farinn að færa sig upp á skaftið.”

Íslendingar hafa aldrei skrifað, bloggað og rökrætt meira en þeir hafa gert á síðustu vikum. Við erum að upplifa það sem kallað er á ensku paradigm shift. Menn og konur á öllum aldri og af öllum stigum þjóðfélagsins eru að gera upp fortíðina og leggja drög að réttlátara samfélagi framtíðarinnar. Allt er á teikniborði fólksins á meðan pólitíkusarnir hegða sér eins og danskir embættismenn gerðu fyrir hundrað árum.

Vilhjálmur Árnason sendi síðunni langa grein. Fyrir fólk sem er ekki alltaf að skrifa, þá er löng grein um svo flókið efni feikilega tímafrekt viðfangsefni. Framlag Vilhjálms er dæmigert fyrir eldmóðinn sem hefur heltekið þjóðina og vel þess virði að lesa.

Drekanum banað

2. desember 2008 | Vilhjálmur Árnason

Framtíðarsýn sem vantar í ríkisstjórn og seðlabanka. Þessu hefur verið kallað eftir.

Það eru margir sem halda að maður þurfi einhverja sérstaka menntun eða hæfileika til að komast að sannleikanum. Sannleikurinn er að menntun sumra hagfræðinga og prófessora er að þvælast fyrir þeim í dag. Flestir hagfræðingar eru því miður lærðir í kenningum sem virka ekki lengur.

Það eru hagfræðingar og bankamenn sem þurfa að fara í skóla. Tekur einn vetur. Kannski biblíuskóla. Og það er ekki erfiður skóli nema að þeir vilji þrjóskast við. Við erum mörg í því að finna sökudólga og ástæður og lausnir við ástandi sem við höldum að sé þessum og hinum að kenna. Og það er nauðsynlegt til að sjá hve kerfið er rotið.

Lausnin hefur legið fyrir í mörg ár og líka ástæðan fyrir kerfishruninu. Það eru bara svo margir sem vilja setja hausinn í sandinn og halda svikamyllunni áfram. Þeir afneita því að þeir verði að breyta um hugarfar. Við þurfum ekki fleiri stjórnmálamenn sem trúa á þetta peningakerfi kapítalisma sem við búum við. Þeir mega víkja. Til dæmis ætla ég að vera svo djarfur að segja að allir þeir hagfræðingar sem láta sér koma til hugar að taka upp evru séu af gamla skólanum og á villubraut. Þeir sjá ekki nema hálfann sannleikann.

Það eru menn og konur um víðan völl sem gætu unnið betur og séð betur í gegnum lygina. Það sem stendur í vegi fyrir uppbyggingu nýs kerfis er gamall hugsunarháttur og viss tilhneiging til að horfa framhjá sannleikanum. Við þurfum líka fólk sem getur sagt í auðmýkt, Guð viltu leiða mig í sannleikann og gefa mér sannfæringu svo að ég geti staðið upp fyrir réttlæti og sannleika. Aðeins þannig sameinuð í einum sannfæringaranda getum við mótað framtíðarsýn og gert róttækar breytingar til hins betra.

Það er augljóst að fæstir menn á þingi hafa í raun gert sér grein fyrir að þeir hafa lengstum lifað í neti blekkingar. Það hefur berlega komið í ljós á þingi undanfarið. En það er ekki öfundsvert að vera alinn upp í þessu pólitíska landslagi spillingar, hagsmunapóltík og undirlægjuháttar, þar sem stefnan er mótuð af eiginhagsmunum. En ef þeir eru ekki tilbúnir að sleppa sínum gömlu hugmyndum þá fá þeir ekki að vera með í nýju og fersku Íslandi sem nennir ekki að ljúga að sjálfu sér lengur.

Við þurfum fólk sem kallar hlutina sínum réttu nöfnum. Græðgi er græðgi og hún er af hinu illa, sama hvað þú segir Hannes. Okurvextir eru okurvextir, sama hvað greiningardeild Glitnis segir og hvaða yfirlýsingar seðlabankinn gefur. Vaxtaskuldir eru ekki tól fyrir innheimtustofnanir og gráðuga lögfræðinga.

Yfirdráttasektir eru ólöglegar þegar debetkort eru annar vegar. Í fyrsta lagi eru vextirnir of háir og í öðru lagi vafasamir gagnvart lögum vegna markaðssetningar þeirra. Debet þýðir að eiga inni. Debet kort þýðir inneignarkort. Það minnsta sem þetta kort ætti að geta gert er að vera með á hreinu hvort til sé inneign eða ekki. Allt annað er bara þvæla og lygi. Fyrirsláttur til þess að vera með gallaða lygavöru á markaði sem hneppir fólk í farsa yfirdráttar og refsivaxta.

Og nú kemur þetta klassíska upp í huga sumra: þú átt bara að passa að þú farir ekki yfirfum á kortinu. Já, þessi óguðlegu bankarök sem réttlæta refsingu—og græðgi. Fjölgum störfum hjá neytendasamtökunum. Eru neytendasamtökin ekki með verðtryggingarmálið á sínu borði.Verðtrygging er ólögleg, sama hver tapar á því að leggja hana af. Sérstaklega ef það eru bankarnir sem tapa, því að ef ólögleg verðtrygging styrkir stoðir bankana, þá eru þeir byggðir á ólöglegum stoðum og eiga skilið að falla aftur og aftur. Þeir hafa í sjálfu sér ekki tilverurétt.

Miðstýring og fjarstýring flokkast undir ólýðræðisleg vinnubrögð og þá sérstaklega ef þau hafa það í för með sér að við nú tökum upp evru. Nú hafa margir dáðir Íslendingar og þingmenn nefnt það sem lausn. Margir langskólaðir menn, og meðal þeirra Þorvaldur Gylfason, sem er hámenntaður hagfræðingur, vilja vera með í því. Þorvaldur, að mér skilst, hefur starfað hjá IMF … og segir að hann sé ópólitíkur, sem vel má vera. En stefna sjóðsins viðheldur kerfi sem ríkustu menn og voldugustu bankar Ameríku og Evrópu drepa fyrir. Þessir aðilar fara í stríð eftir þörfum til þess að verja kerfið.

Í Bandaríkjunum ríkir Federal Reserve bankinn og hann drottnar með flotgengisstefnu. Federal Reserve bankinn er búinn að hneppa alla Ameríku í þrældóm. Hvernig? Bandaríkin skulda Federal Reserve bankanum gróflega 11,000,000,000,000. Og JP Morgan og Rockefeller og Rothschilds. komu svikamillunni á. Nú á þessu augnabliki er JP Morgan að aðstoða ríkisstjórnina. við að halda svikamillunni gangandi. Megi almættið styrkja okkur öll og svipta í burtu þessari blekkingarhulu.

Auðvitað lítur það sem í augnablikinu er framkvæmt út sem lausn. Sérstaklega hjá fólki sem hefur verið alið upp í skóla sem fræðir út frá þeim hagfræðikenningum sem verið hafa við lýði. Það er algjörlega skiljanleg. Sumir hagfræðingar eru stórhættulegir og mundi ég glaður kljást við einn slíkan í kastljósi eða silfrinu til að þjóðin fái að sjá hina hlið peningsins. Það verður samt ekki takið frá honum að hann er hæfur maður með eindæmum. Röggsamur og kæmi sennilega í verk því sem nauðsynlega þyrfti að gera í seðlabankanum. Spúla út. En mér skilst á honum að hann vilji taka upp evru og ganga í Evrópusambandið? Hann er blindur af vissum kenningum. Alþjóðahnattvæðingu að mínu viti. Ég skora hann hér með á hólm í beinni útsendingu.

Evrópusambandið hefur einn seðlabanka, það er meinið—krabbameinið—við megum nú ekki styggja hann svo að við fáum nú örugglega inngöngu í þetta myntbandalag, borgum okkur inn. Illkynja og ég get ekki notað sterkari orð um það að svo stöddu. Mér er sama hvað þú heitir hvað þú hefur lært eða hvað þú hefur aðhyllst hingað til, þú hefur hrapalega rangt fyrir þér með peningastefnu Evrópusambandsins og svo líka verðandi hernaðarbandalagið. Bæði atriði algjörlega óásættanlegt fyrir mig og hálfa þessa þjóð.

Hinn helmingurinn á eftir að vakna við vondan draum. Eða kýs að lifa áfram í lygi. Hvort sem þú heitir Björk, Jón Baldvin eða Ingibjörg Sólrún. Hvað kom eiginlega fyrir ykkur vinstri menn? Eða jafnaðarmenn? Þetta er svolítið aumt mundi ég segja, með fullri virðingu. Hrópuðuð einu sinni, en segja svo annað í ræðum á þingi. Manstu eftir NATO?

Ef þú vilt ganga inn í Evrópusambandið þá ertu að ganga inn í bandalag með vaxandi her. Við gætum þurft að sinna herskildu. Berjast gegn Írak? Villt þú að sonur þinn verði sendur til að berjast með vopnum—tólum sem við lögðum niður fyrir 1000 árum? Það væri að fara aftur um þúsund ár. Rök margra í samfylkingu eru á praktískum nótum um aðild að Evrópusambandinu. Það er undirlægjuhátturinn sem lét okkur skrifa undir skuldir bankanna.

Sannleikurinn er að þær verklagsreglur og sú umgjörð sem bankarnir fá er ósiðleg og ólögleg þó að hún sé EES stimpluð. Hvort sem við viljum sjá það eða ekki. Það er algjörlega nauðsynlegt að rústa þessu kerfi. Og nú segir einhver: þessi maður er stórhættulegur. Og það þýðir ekki að allir missi vinnuna eða allt verði hér í upplausn. Það eru setningar sem eru notaðar til að skapa ótta við að breyta um stefnu.

Gulltryggjum gjaldmiðilinn!

Sú bylting mun fjölga störfum, verðtrygging verður óþörf vegna þess að verðbólga verður ekki til. Hagvöxtur verður meiri og miðaður við aðrar mælieiningar. Fullkomið traust mun myndast á bönkum og fylleríi þeirra ljúka, sem vissulega er nauðsynlegt. Hundrað störf skapast við myntslátt og enn fleiri við myntverslanir fyrir ferðamenn og sparisjóði. Og svo færist líf í landsbyggðina þegar auðurinn hættir að renna til Rómarborgar.

Gullið verður hjá fólkinu en hverfur ekki út um gluggann með ævintýrum bankamanna og spillingarævintýrum flokkanna. Hvar sem þú ert núna í pólitík. Vaknaðu! Við Íslendingar erum að vakna. Förum ekki aftur að sofa. Nú þurfum við að endurhanna gamla slagorðið, Ísland úr NATO og herinn burt. Ísland úr sjálfsræningjaflokknum og evran burt. Það er algjörlega nauðsynlegt að koma á réttlátu samfélagi. Umbyltingin getur ekki verið hálfa leið með hálfum sannleika.Við verðum að setja flaggið niður hér.

Fólk mun reyna að sannfæra þig um að allt verði ónýtt ef við breytum. En sannleikurinn er að ef við höfum kjark og þor til að dæma þetta kerfi ónýtt, mun rísa upp nýtt og betra kerfi sem er ekki byggt á lygi og miðstýrðum svikum. Það þýðir ekki að vera með þessa yfirborðsmennsku áfram. Við verðum að komast í gegnum þessa lygi, það er algjörlega nauðsynlegt. Ef við ætlum að vera þjóð.

Mér líður eins og Móses að reyna að sannfæra Ísraelsmenn um að fara frá þrælahöldurunum í Egyptalandi. Hlægilegt. Sumir vildu vera eftir hjá þrælahöldurunum af því að þeir þekktu sig vel í því umhverfi.

Því miður er sannleikurinn sá að flestir menn sem eru nú í stjórnmálum hafa allan sinn aldur og ævi hrærst og lifað í þessari blekkingu að allt sé með felldu varðandi þetta kerfi. Peningakerfið. Rotið kerfi sem sýgur þrótt úr hagkerfum. Og sérstaklega Afríku. Og gerir þegna þess að þrælum. Og þá fátæku fátækari. Og það versta við það að það veldur hungri í heiminum og viðheldur stríðsvélum risaveldanna.

Við þurfum ekki að vernda okkur gegn ímyndaðri ógn lengur, Þetta er ógnin við okkur öll. Þetta er blekkingarhulan sem allir lifa undir. Við viljum ekki vera með í þessu lengur. Taktu huluna frá og leyfðu okkur að sjá heiminn eins og hann er. Gamla kerfið er að hrynja og mun hrynja til grunna. Það borgar sig ekki að reyna að bjarga úldnum kálhaus og dansa við hann. Það borgar sig ekki að horfa á Evrópusambandið og vitið þið hvers vegna? Rockefeller og Rothschild og J.P Morgan eiga Evrópusambandið og eru með það í vasanum. Evrópusambandið er plan valdasjúkrar yfirstéttar sem kúgar heiminn í laumi í gegnum evruna, dollarann vexti og miðstýringu. Það lítur vel út núna í samanburði við spillinguna hér, það veit ég vel. Og bankarnir viðhalda ástandinu. Og ef ríkisstjórnin viðurkennir að ástæða hörmungana sé fundin og hún sé sjálft kerfið og upplýsir hverjir eiga það, þá eigum við möguleika. En nei! Flestir flokkar eru að lempast niður undan braki ESB.

Það hefur verið kallað eftir hugmyndum. Og lausnum en fæstir gera sér grein fyrir að ef við stingum ekki á þessu kýli munum við falla í forina saman, rík sem fátæk, ung sem aldin. Sjúk af kýlinu, við sult og sár. Evrópusambandið er áframhald á sama kerfi undir öðrum hatti og það mun versna. Það kerfi hefur ljóma fjarskans sem blindað hefur fólk og flokka um víðan völl.

Kannski ekki furða því að þá mundum við losna undan spillingunni hér. En við mundum ganga undir aðra, því heimur evrunnar er eins rotin og sjálft helvíti. Þið haldið kannski að ég sé kommúnisti, vinstri grænn, öfgamaður, öfgatrúarmaður. Ég er sjómannssonur og trúi á Jesús. Pabbi og mamma löngu dáin. Ég er bara eins og þú. Manneskja sem á heima á Íslandi og elskar fólkið sem hér á heima og vill vera Íslendingar. Það er fólkið sem á heima á Íslandi.

En sennilega mun ég fá einhverja stimpla á mig fyrir þessa grein. Það gera reiðir menn og blindir. Þeir stimpla aðra en forðast að líta í eigin barm. Sumir verða sárir og aðrir móðgaðir. Sumir munu gera lítið úr mér og aðrir saka mig um óábyrgt tal. Sumir segja að hann sé nú ekki búinn að klára menntaskólann þessi, það eru stafsetningarvilla þarna. Og annar segir að hagfræðin sem ég lærði sé ekki svona einföld. Og nefna svo einhver nöfn sem einhvern tíman upphugsuðu einhverjar kenningar. Og svo eru það hinir valdamiklu sem verða hrikalega hræddir því þeir halda að þeir tapi völdum.

Mér líður þannig í dag að ég verði að standa upp fyrir sannfæringu minni.

Það eru tvö öfl við lýði á þingi í dag. Annað aflið vill í raun selja landið og einkavæða allt sem þjóðin á. (líka bankana) Og hitt aflið styður það. Það sama afl vill sameinast Evrópusambandinu. Og annað aflið styður það ómeðvitað, vegna þess að bæði öflin rýra hagkerfið okkar og krónu. Og þessi öfl gera það lífsins ómögulegt að halda verðgildi krónunnar. Þar að auki samþykkja bæði öflin þetta kerfi sem er svo rotið að heilar heimsálfur eru að kafna undan því og við ætlum að slást í hópinn. Glöð í bragði í stað þess að vakna. Bæði stjórnaröflin eru blind að hluta og sjálfmiðuð og grunn hvað þetta varðar … og ég er að tala um háttvirta þingmenn vora.

Þess vegna hika ég ekki við að kalla þessa stjórn landráðastjórn sem hefur samþykkt mannréttindabrot gegn þegnum sínum í vangá sinni. Þau eiga öll að víkja. Ef þau hafa ekki vilja til að snúa ofan af mannréttindabrotum gegn þjóð sinni þegar í stað. Með sölu auðlinda og banka sem eiga að vera partur af stoðum samfélagslegs hagkerfis. Og með því að viðhalda verðtryggingu sem stuðlar að ofþenslu bankanna á kostnað þegnanna.

Þetta er kjarni vanda okkar og umræðan hefur í raun verið svo yfirborðsleg að ég finn mig knúinn til að tjá mig opinberlega um þetta. Rót vandans er sá réttur til ráðstöfunar innlagna sem bankarnir hafa og lítil sem engin bindiskylda. Og á leikmannamáli þýðir það að ef þú leggur inn þúsundkall getur bankinn lánað 9970 krónur út á þennan þúsund kall. Og rukkað vexti, háa vexti. Og svo meira vaxtavaxtaokurvaxtarugl.

Í þennan bissness vilja allir fégráðugir menn komast. Tökum af þeim möguleikann á að blekkja og svíkja. Látum ekki bankamenn og hagfræðinga kasta froðu í augu okkar lengur. Bankastarfsemi eins og hún hefur verið rekin hingað til er algjörlega óguðleg og af hinu illa. Græðgi. Seðlabankann þarf að endurskipuleggja með ný markmið. IMF lán á að nota til að byggja sama bankakerfið aftur … frábært, en nei takk, blindu menn og konur. Ég vil menn og konur á þing sem sjá í gegnum lygina og þora að standa með sannleikanum.

Þessi ríkistjórn er skaðleg þjóðinni á allan mögulegan hátt vegna stefnu sinnar og það sorglega er að sumir í henni halda í raun að þeir séu að gera gagn. Og ef að þú, lesandi góður, heldur að evra sé lausn fyrir þig þá veistu ekki nógu mikið um vald fölsku peninganna í þessum heimi. Og þar af leiðandi ertu blindur leiðtogi á þingi eða blindur þegn.

Þingmenn munu ekki gera neitt raunverulegt gagn fyrr en þeir afneita þessu kerfi algjörlega. Á meðan Afríka er arðrænd munum við ekki frið hljóta. Skoðið sögu Burkina Faso og verk IMF varðandi gullauðlindir þeirra. Flestar námur í Burkina Faso eru í eigu amerískra og evrópskra fyrirtækja. Mundum við vilja að flest sjávarútvegsfyrirtæki okkar væru í eigu evrópskra stórfyrirtækja?

Auðlindir Afríku eru teknar af þegnum Afríku og þeir deyja úr hungri og við horfum upp á þetta. Á meðan seðlabankar Evrópu þrýsta niður verði á gulli til að viðhalda trausti á fölsku gjaldmiðlum sínum—og hér er evran ekki undanskilin. Þetta getur hver bankamaður sannreynt sem vill komast að raun um hvað liggur að baki. Og ef að þú, lesandi góður, heldur að evra sé lausn fyrir þig þá veistu ekki nógu mikið um vald fölsku peninganna í þessum heimi, því þetta kerfi hefur rænt okkur fullveldi, sjálfstæði, lýðræði og hneppt okkur í þrældóm, eins og gerðist í Afríku og mörgum ríkjum þriðja heimsins þar sem valdið var tekið úr höndum fólksins og fært til auðmanna. Og við erum um það bil að villast til þess að færa valdið enn lengra frá okkur.

Power to the super über rich.

With no obligation to society.

In a European dream.

No way.

Það verður að verða umbylting í þessu landi. Lýðræðisleg umbylting á öllum sviðum þar sem valdið færist til fólksins en ekki frá því. Og stærsta atriðið er vald raunverulegs auðs sem okkur er öllum ætlaður. Hagfræði og vísitöluvextir gera bönkum og stjórnmálamönnum kleift að seilast endalaust í vasa okkar.

Þetta allt þýðir ekki að við ætlum ekki að borga þær skuldir sem sanngjarnt er að greiða eða vera á skjön við aðra menn. Þetta þýðir að við ætlum að vera fyrirmynd en ekki skopmynd eða dæmi um fallna frægð. Og þetta þýðir heldur ekki að við ætlum að einangra þessa þjóð með því að neita samvinnu og samstarfi.

En við viljum ekki samstarf við hið illa og þetta kerfi er hið illa—og ég segi það aftur: Hið illa! Þetta kerfi verður að deyja. Annars verður aldrei til nýtt Ísland við verðum kúguð af erlendum bönkum í næstu tilbúnu kreppu sem ákveðin verður á fundi ríkustu eigenda bankanna í Rockefeller Center. Þá hækka þeir vexti. “Strákar, drögum saman aðgang að fölsku lánsfé núna og tökum þær eignir sem eru álitlegastar svo að við getum fjármagnað fleiri stríð.”

Af hverju reiddist Jesú í musterinu og hrinti niður borðum víxlaranna? Þeir voru að svindla á fólkinu sem var að borga skattana sína með raunverulegum gullpeningum. Jesú brjálaðist og við brjáluðumst núna réttilega. Heilög réttlát reiði að fyrirmynd Jesú. Höldum áfram þar til þetta spillta kerfi hrynur og við neyðumst til að nota nýtt kerfi.

Ég get rakið sögu þess illa í gegnum margar heimskreppur og stríð. Eru ekki allir sammála að skuldir þriðja heimsins halda þeim í fátækt. Gull afríku er forði IMF. Nú erum við orðin partur að þriðja heiminum. Þurfum við IMF lánið? Varla. Við þurfum bara að hægja á okkur. Og kaupa gull fyrir fisk og styrkja krónuna með raunverulegum verðmætum en ekki fölskum dollurum.

Fégræðgi er rót alls ills, ekki Írak. Fégræðgi er rót alls ills, segir orð Guðs. Ekki vil ég rengja það, hvað sem hver segir. Og þetta þýðir ekki að þú megir ekki eiga eignir, þvert á móti. Þetta þýðir bara að þú verður og átt að búa yfir sanngirni, réttlæti og heiðarleika í öllum þínum verkum. Þér ber líka að hafa hag þjóðarinnar og þíns minnsta bróður fyrir brjósti.

Það er svo margt sem ég gæti sagt um þennan harmleik sem er í gangi og það er almenn undirliggjandi reiði í þessu samfélagi. Sú reiði þarf að beinast í rétta átt og hún gerir það nú með betri fókus. Látum spádómana um Ísland rætast á einni nóttu og verðum opinberlega völd að heimshruni þessa kerfis. Það mun frelsa heimsbyggðina alla undan fólsku risabankanna.

Höfnum því þessu kerfi. Verum hvíti svanurinn. Verum kanarífuglinn í kolanámunni sem kemst út í ljósið. Þorum að vera öðruvísi og gulltryggjum myntina 100%. Það kostar u.þ.b. 70,000,000,000 til 32,000,000,000. Gjaldeyrisvaraforðinn er 400,000,000,000, Það þarf um 13 tonn af gulli til að festa krónuna við 100–110 á móti dollar. Okkur ber að gera þetta strax og helst kaupa gullið beint frá framleiðanda, sem er í eigu ríkisstjórnar í Afríku er býr við lýðræði.

Hlutverk seðlabanka er að styrkja krónuna og halda henni stöðugri. Og nú segir einhver, ætlar þú að fara aftur til fortíðar og hefja vöruskipti? Þetta snýst ekki um það. Þetta snýst um gjaldgenga krónu út um allan heim. Allir geta lagt traust sitt á gull. Fljótandi gengi er það tæki sem rænir þjóðir auði sínum og tengir við auðhringi sem misnota það.

Látum drauma okkar um kraftmikið líf rætast. Frelsa þú okkur faðir um ókomna tíð. Og megi þessi orð opinbera hverjum þeim sem þetta les nýjan og betri heim. Svo að þú missir ekki vonina og farir af landi brott. Trúum á þetta saman. Von okkar er raunveruleg.

Gefðu okkur von og trú á betri framtíð. Hjálpaðu okkur sem komin eru til vits og ára að gefa þeim ungu von. Saman stöndum vér í sannleika þínum almáttugi faðir. Sendu englahersveitir þínar fyrir okkur eins og þú hefur lofað. Því að þetta er barátta góðs og ills. Ótta og kærleika. Og megi réttlætið og sannleikurinn ná fram að ganga. Fylkjumst um þessa sýn því hún er okkar eina framtíð. Hvar sem þú ert. Og hvað sem þú hefur haldið.

Vaknaðu íslenska þjóð!