vald.org

I Read the News Today … Oh Boy

10. desember 2008 | Jóhannes Björn

Hver hefði trúað því að helstu stórbankar Bandaríkjanna ættu eftir að segja sig á sveit, eitt stærsta tryggingafélag heims færi sömu leið og loks allir innlendir bílaframleiðendur. Þessi ríkiskapítalismi er farinn að minna óþægilega mikið á þýska hagkerfið í stjórnartíð Hitlers. Eða minnir þetta kannski enn meira á íslenska hagkerfið þar sem embættismenn og kapítalistar pukra undir einni sæng.

Bandarískir þingmenn hafa verið ótrúlega fljótir að skuldsetja næstu kynslóðir. Þegar talsmenn banka og tryggingafélaga biðja um upphæðir sem hugurinn vart nemur þá setja þingmenn upp sparisvipinn og kinka kolli eins og þeir skilji eitthvað í æðri peningalist. Sannleikurinn er sá að flestir þingmenn gætu ekki greint afleiðu frá hrossataði.

Við þessar svimandi upphæðir bætast $2000 milljarðar sem seðlabankinn er búinn að pumpa í þetta lið í skiptum fyrir rusl og $700 milljarðar sem þingið rétti Paulson til að leika sér með (hluti þess fór til Citigroup).

GM, Ford og Chrysler fengu fyrst $25 milljarða og fá síðan sennilega um $15 milljarða. En í þessu tilfelli var andrúmsloftið allt annað í þingsölum. Allir skilja hvernig bílar eru framleiddir og þingmenn létu forstjórana fá það óþvegið. Nú voru loks sett skrifleg ákvæði í samningana, t.d. um að fella niður bónusgreiðslur forstjóranna og taka raunhæf skerf til að bæta framleiðsluna. Allt er þetta þó beint úr leikhúsi fáránleikans og dálítið klökkt að fyrirtæki sem geta ekki selt lélega framleiðslu fái samt greitt með því að seilast í vasa skattgreiðenda. Það eru meira en þrjú ár síðan þessi síða spáði gjaldþroti GM.

Þegar ríkið samdi við bandarísku bankana þá héldu flestir að breska leiðin væri í spilunum—að skikka bankakerfið til þess að auka útlán og setja menn frá ríkinu í stjórnir þeirra—en síðar kom í ljós að bankarnir gáfu aðeins óljós loforð og skrifuðu ekki undir neitt sem veitti þeim aðhald.

Forstjórar AIG, sem þáðu $152 milljarða af ríkinu, eru komnir í jólaskap og voru að birta lista yfir bónusgreiðslur í ár! Siðleysið er fullkomið. 38 forstjórar sem eru með árslaun á bilinu $160.000 til $1.000.000, sem hlýtur að teljast allgott kaup fyrir að setja risafyrirtæki svona hroðalega á hausinn, fá bónusgreiðslur sem hljóða lægst upp á $92.500 og hæst upp á fjórar milljónir dollara! Þau rök að þetta sé nauðsynlegt til að halda góðu fólki eru út í hött vegna þess að það er mikið atvinnuleysi í greininni. Nú, og hve margir snillingar vinna hjá þessu gjaldþrota fyrirtæki?

Það sér ekki enn fyrir endann á bankakreppunni og ástandið batnar ekkert fyrr en bandaríski fasteignamarkaðurinn jafnar sig. Upptrekktir pappírar sem tengjast þessum viðskiptum lækka í verði á hverjum degi og bankarnir þora ekki að lána. Björgunarstarf ríkis og seðlabanka hefur hingað til gengið út á að redda bönkunum á meðan gunnorsakir eins og lækkun fasteignaverðs og óbærileg greiðslubyrði fá að grassera. Nú er ástandið á vinnumarkaðinum svo slæmt að stórt hlutfall þeirra sem fengu endurfjármögnum með lægri greiðslubyrði fyrir nokkrum mánuðum er komið í vanskil aftur. Ný skýrsla sem kannar lán er voru gerð hagkvæmari á fyrsta ársfjórðungi 2008 segir að eftir aðeins þrjá mánuði þá hafi 36% þeirra verið komin aftur í vanskil og helmingurinn eftir sex mánuði.Vandinn er greinilega ekki auðleystur.

Hlutabréfamarkaðir út um allan heim hafa verið að hrynja. Síðan menn byrjuðu að halda til haga tölum í bandarísku kauphöllinni þá hefur S&P vísitalan aðeins tvisvar fallið yfir 50% í niðursveiflu. Árið 1931 og 2008. Botninn er heldur hvergi í augsýn.

Almenn hræðsla er á svo háu stigi að fólk sem er að kaupa þriggja mánaða skuldabréf af bandaríska ríkinu þessa dagana tapar peningum á því! Vextir af þessum bréfum sem hófu göngu sína 1929 hafa aldrei verið lægri og ef kostnaður við að kaupa þau er reiknaður inn í dæmið þá eru vextirnir neikvæðir. Bandarísk ríkisskuldabréf til nokkra vikna eða mánaða eru eins og risastór koddi sem heimurinn geymir peningana sína undir.

Mjög margir vogunarsjóðir eru í vandræðum og margir þeirra neita að borga viðskiptavinum sem vilja yfirgefa þá. Það er gífurlegur peningaflótti í gangi út um allan heim frá minni bönkum og sjóðum. Peningarnir leita skjóls hjá risabönkum og í ríkisskuldabréfum.

Það rignir yfir okkur slæmum fréttum. Bretland er í frjálsu falli, kreppa í Japan og helmingur Evrulands farinn að ókyrrast. Í gullgrafaraborgum Kína er ekki lengur hægt að selja $10 milljóna lúxusíbúðir og nýbyggð fimm stjörnu hótel standa auð. Ríki í A-Evrópu sem ekki selja olíu eða gas eru flest tæknilega gjaldþrota. Sennilega væri best að flytja til Ástralíu og hætta að lesa blöðin!