vald.org

Og Óskarinn fær …

28. desember 2008 | Jóhannes Björn

Draumaverksmiðjan í Hollywood framleiðir aðallega kvikmyndir fyrir bestu viðskiptavini sína, táninga, en aðdáendur alvarlegri mynda geta fagnað því 2008 er óvenju gott ár fyrir fullorðið fólk og fagurkera. Aldrei þessu vant eru nokkrar kvikmyndir nógu góðar til þess að verðskulda Óskarinn og margir leikarar sýna framúrskarandi tilþrif. Séð frá mínum bæjardyrum þá eru þetta sex bestu bíómyndir ársins (í stafrófsröð):

Doubt

Upphaflega leikrit sem var sýnt á Broadway fyrir nokkrum árum. Handritið er hreint út sagt frábært og í anda gömlu meistaranna. Miller hefði ekki gert betur. Sagan gerist árið 1964 í kaþólskum barnaskóla—löngu áður en barnaníðingar klæddir hempum komust í hámæli—þar sem skólastýran (nunna) grunar prest um ósiðlegt athæfi. Meryl Streep leikur nunnuna af hreinni snilld og kemur sterklega til greina sem sigurvegari á Óskarsnótt. Ef einhverjum þykir hún ofleika þá vil ég benda á að konan sem lék þetta hlutverk á Broadway var enn beittari og kaldari í túlkun sinni á hlutverkinu.

Frost/Nixon

Handritið er byggt á 30 klukkustunda viðtölum sem David Frost átti við Richard Nixon 1977. Líkt og Doubt þá var þetta fyrst leikrit sem var sýnt á Broadway og víðar. Nixon hafði nokkrum árum fyrr sagt af sér embætti með skömm og ætlaði að nota tækifærið til þess að endurheimta mannorðið. Frost var vaxandi sjónvarpsstjarna sem vildi umfram allt slá í gegn.

Það eru tveir gallar á þessari annars góðu kvikmynd og annar þeirra er e.t.v. óyfirstíganlegur. Það er mjög erfitt að þjappa þrjátíu stunda efni í tveggja tíma bíómynd. Játning Nixon (ef það má orða það þannig) kemur því full snögglega og fyrirvaralaust. Hitt er líka vandamál að Michael Sheen, sem leikur Frost, er um of léttvægur. Þegar maður horfir á upphaflegu viðtölin þá er Frost miklu flóknari karakter. Hann gefur í skyn ákveðna slægð og lætur viðstadda halda að hann lumi á meiri vitneskju en efni standa til. Þessi innri kraftur er list sem Michael Sheen ræður illa við.

Milk

Hér er á ferðinni sönn saga um Harvey Milk, sem var opinberlega samkynhneigður en samt kosinn í borgarstjórn San Francisco 1977. Flott mynd um merkilegt starf brautryðjanda á þessu sviði. Sean Penn hefur aldrei verið betri.

Revolutionary Road

Glæsileg mynd sem snertir allt hugsandi fólk. Þegar draumurinn og raunveruleikinn rekast á þá erum við á slóðum Ibsen þar sem það samsvarar morði að taka lífslygina af fólki. Kate Winslet er stjarna ársins, bæði hér og í The Reader.

The Curious Case of Benjamin Button

Tæknilega séð þá er þetta hugsanlega besta kvikmynd allra tíma. Sviðsmynd, myndatökur, búningar og tíðarandinn—þessir hlutir eru fullkomlega útfærðir og þeir eru svo sannarlega augnayndi. Þessi kvikmynd er eins og ljóð sem varir í 167 mínútur. Því er það grátlegt að þetta listaverk skuli ekki færa okkur sterkari boðskap. Söguþráðurinn—maður fæðist háaldraður og yngist allt sitt líf—býður upp á frábæra möguleika sem ekki eru nýttir.

The Reader

Helsti styrkur íslenskra bókmennta til forna fólst í því að höfundarnir drógu aldrei mjög skýrar línur á milli illmenna og þeirra sem höfðu háleitari hugsjónir. Höfundarnir vissu að lífið er sjaldan svo einfalt. The Reader spilar á svipuðum nótum og það er athyglisverð lífsreynsla að labba út eftir þessa sýningu og vera í vafa um hvort fangavörður sem opnaði ekki dyr kirkju sem brann með 300 manns innan veggja sé sekur eða ekki. Vissulega kvikmynd fyrir fullorðið fólk.