vald.org

Hvað gerist 2009?

5. janúar 2009 | Jóhannes Björn

Efnahagslega séð þá verður þetta sennilega versta ár sem hefur komið í yfir sjö áratugi. Fasteignir eru í frjálsu falli út um allan heim og það sogar gífurlega fjármuni út úr kerfinu. Höfuðverkurinn núna er verðfall yfir línuna frekar en gömlu verðbólguáhyggjurnar. Hitt er þó alveg jafn víst að þegar bankakreppunni lýkur þá eigum við eftir að heyra verðbólguhvell sem glymur um alla heimsbyggðina.

Eins og venja er um áramót þá eru bankar, fjárfestingafyrirtæki og aðrir sölumenn að spá miklum uppgangi á næstunni. Það er staðreynd að spár af þessu tagi frá þessum aðilum eru upp til hópa rangar á krepputímum, en fjölmiðlar gleypa þær alltaf hráar. Þegar Den Danske bank birti eina ruglspána um daginn þá sagði Morgunblaðið:

Raunhæft er að reikna með að hlutabréfaverð hækki um 30% á fyrrihluta næsta árs, að því er segir í nýrri spá Den Danske bank. Forsendurnar eru m.a. þær að tekjur fyrirtækja verði aftur á svipuðu róli og fyrir fjármálakreppuna.

Þessi danski banki hlýtur að reka útibú á öðrum plánetum því hér um slóðir fara tekjur fyrirtækja lækkandi. Þessi spá hefði átt að birtast 1. apríl og ég ætla hér með koma með mótspá og segja að Dow Jones vísitalan lækki um 30% fyrir þann dag á þessu herrans ári 2009. Það má vel vera að væntingar vegna valdatöku Obama haldi ballinu gangandi í einhvern tíma, en mikil lækkun virðist borðliggjandi.

Þeir sem hafa atvinnu af að fjárfesta í kauphöllum heimsins nota tvær aðferðir til þess að meta verðgildi hlutabréfa. Sumir rannsaka tekjumöguleika fyrirtækja, skuldastöðu og hæfni þeirra til þess að keppa á ákveðnum mörkuðum. Aðrir skoða dæmið frá algjörlega tæknilegum sjónarhóli. Þeir aðilar segja að allar upplýsingar séu þegar á borðinu og enginn einn einstaklingur viti betur. Þess vegna sé betra að skoða línurit sem sýna t.d. á hvaða punkti viðnám myndast eða hvenær verðið hlýtur að æða upp. Þessu kerfi er best lýst í bók frá 1923, Reminiscences of a Stock Operator, sem allir fagmenn á Wall Street lesa enn þann dag í dag.

Margir tæknimenn eru mjög hrifnir af svokallaðri Elliott Wave, en hún spáir því, sennilega réttilega, að eftir nokkrar sveiflur í ársbyrjun 2009 þá taki við verulegt fall.

Það er rétt að taka fram að tæknilegar spár eru mjög erfiðar um þessar mundir vegna þess að seðlabankar og ríkisstjórnir eru að moka billjónum inn í kerfið. Þessi billjónaaustur hefur samt furðu lítil áhrif og helsta ástæðan fyrir því er sú að innvígðir aðilar (þeir sem settu kerfið á hausinn) sitja við kjötkatlana. Með öðrum orðum, það er verið að ausa peningum í botnlaust svarthol óreiðumannanna frekar en veita fjármunum í uppbyggingu sem eykur tekjur almennings og gerir fólki t.d. kleift að kaupa sér þak yfir höfuðið í vaxandi mæli. Þannig væri best að koma í veg fyrir frekari lækkanir á fasteignum.

Þeir sem eru að spá betri tíð á næstunni byggja þessar spár á því einu að samdráttarskeiðið hafi staðið nógu lengi og nú hljóti hjólin að fara að snúast hraðar á ný. Það eru léleg rök og þá sérstaklega í ljósi þess að Kína er rétt að byrja að finna fyrir kreppunni. Bandarískir neytendur og kínverskir framleiðendur hafa í mörg ár verið helsti drifkrafturinn í hagkerfi heimsins. Bandarískir neytendur halda áfram að draga saman seglin allt þetta ár og ástandið í Kína virðist samkvæmt ýmsum heimildum vera miklu verra en yfirvöld þar greina frá. Hagkerfi Japans og Ástralíu finna fyrst fyrir kínverskri niðursveiflu og bæði eru nú þegar í djúpri lægð.Verð á mörgu hráefni endurspeglar líka ástandið í Kína.

Kreppunni lýkur ekki fyrr en fasteignaverðið hættir að lækka og Bandaríkjamarkaður er langmikilvægastur í þessu sambandi. Þetta graf sýnir að íbúðarhúnæði er enn á hraðri niðurleið.

Línuritið sýnir verðbreytingar í 10 (bláa strikið) og 20 (rauða strikið) borgum Bandaríkjanna í prósentutölu. Allar hækkanir yfir 5% voru óeðlilegar og þær stóðu í mörg ár. Samkvæmt þeim mælikvarða þá er enn spotti í að þessum lækkunum linni.

Kalifornía byrjaði með langhæstu verðin og um $2000 milljarðar hafa sogast út úr hagkerfinu þar, að vísu mest pappírsgróði, en samt nóg til þess að draga niður allt hagkerfi landsins. Annað stórt fylki, Flórida, hefur líka farið hrikalega út úr þessu dæmi.

Það er hrikalegt að sjá Ísland eitt iðnvæddra ríkja sigla inn í þessa kreppu með okurvexti á bakinu. Fyrir utan ofvaxið bankakerfi þá hafa tveir draugar—háir stýrivextir og fljótandi dvergkróna—plagað íslenska hagkerfið árum saman. Hvers konar hagfræðingar vinna hjá Seðlabankanum sem ríghalda í þetta misheppnaða stjórntæki, okurvexti, jafnvel þótt margra ára reynsla sýni að það virkar ekki og er sennilega verðbólguhvetjandi í þokkabót? Það er stundum sagt að það sýni geðveilu að endurtaka sífellt sama misheppnaða hlutinn og halda í hvert skipti að eitthvað nýtt gerist.

Fyrir nokkrum dögum sá ég í fyrsta skipti hagfræðing úr Seðlabankanum á myndbandi. Hann gekk æfur um Austurvöll og virtist hóta fórnarlömbum bankakreppunnar barsmíðum. Hagfræði Seðlabankans varð loks kristaltær.

Það er heldur aldrei gott fyrir hagkerfi ríkis þegar mikillar togstreitu gætir í samfélaginu. Leynipukur varðandi afskriftir og kosningaótti ríkistjórnarinnar verða að taka enda. Ef ekki þá sitjum við brátt uppi með tvær stríðandi fylkingar sem mætast í götubardögum. Minni hópurinn, valdaklíkan og hagsmunaaðilar, verða þá að beita fyrir sig lögreglu og hvítliðum. Væri ekki æskilegra að boða til kosninga heldur en að lama landið á þennan hátt?

Þegar lögreglan sýnir óþarfa ofbeldi þá er hún eins og skaðlegur vírus og þjóðarlíkaminn byrjar að framleiða mótefni. Á vissum punkti—eftir að búið er að kvelja nógu marga með því að úða eitri í augu þeirra eða berja með kylfu—þá verður lögreglan það sem á ensku er kallað “fair game” eða réttmætur skotspónn. Ákveðnir hópar telja þá að ofbeldi lögreglunar hafi svipt hana öllum rétti. Fólkið telur að óþarfa ofbeldið geti líka gengið í hina áttina.

Hvort sem þetta er rétt mat mótmælenda eða ekki, þá höfum við séð þessa atburðarás oft áður og yfirvöld ættu að skoða gang sinn mjög vel áður en næsta skipun um að úða hættulegum efnum í augu fólks verður gefin. Það er hægt að myrða fólk sem er haldið öndunarsjúkdómum með þessum aðferðum.

Það er líka ákaflega slæm hugmynd að fela lögreglumenn á bak við grímur eða láta þá aka um eins og einhverja huldumenn sem sjaldan ná snertingu við fólkið. Fyrir mörgum árum var lögreglumaður í Svíþjóð barinn til bana um hábjartan dag fyrir utan stórverslun. Fólkið stóð aðgerðalaust á meðan á þessu stóð og sum vitni sögðu einhverja hafa haft gaman af. Eftir þennan skelfilega atburð endurskoðaði sænska lögreglan öll samskipti embættisins við almenning.

Íslenska eiturúðalögreglan og andlitslausa víkingasveitin ættu líka að hugsa sinn gang.