vald.org

Hvað gerir Ísland við orkuna?

19. janúar 2009 | Jóhannes Björn

Bandaríski sjónvarpsþátturinn 60 Minutes fjallaði nýlega um sveiflur á olíumarkaði og gerði það svo illa að grunur hlýtur að vakna um raunveruleg markmið þrýstihópa sem eru í aðstöðu til að reka áróður í gegnum CBS. Helst lítur út fyrir að einhverjir hagsmunir séu að reka áróður fyrir breyttum reglum á helstu olíumörkuðum heimsins. Markmiðið gæti verið að breyta þeim í miðstýrð apparöt til þess að ná betri stjórn á verðsveiflum.

Stóru bandarísku sjónvarpstöðvarnar eru allar í eigu risafyrirtækja sem standa vörð um ákveðna hagsmuni. Fréttaþætti eins og 60 Minutes er í flestum tilfellum ekki fjarstýrt frá reykfylltum bakherbergjum, en ef þörf krefur þá hika valdamiklir aðilar ekki við að notfæra sér vinsældir hans í áróðursskyni. Fyrir báðar innrásirnar í Írak, sem dæmi, sendi þátturinn út svívirðilegt áróðursefni, hreinan uppspuna sem stjórnendur hans hljóta að hafa verið matreitt ofan í fjöldann samkvæmt fyrirmælum.

Samkvæmt 60 Minutes þá má rekja nær allar sveiflur síðustu ára á olíumarkaði til spekúlanta sem spenntu verðið upp úr öllu. Rætt var við Mike Masters, mann sem tapaði 35% af peningum skjólstæðinga sinna með því að veðja á móti olíu á síðasta ári. Og þetta stórtap átti sér stað áður en allt hrundi s.l. haust og aðrir sjóðir byrjuðu líka að tapa stórt. Þetta var heldur ekki það eina sem gerði Mike Masters vægast sagt hlutdrægan. Hann skrifaði nýlega bók um þessa hræðilegu spekúlanta og notaði þáttinn til þess að auglýsa hana.

Olíuviðskipti eru margslungin og það er ekkert eitt einfalt svar við spurningunni um verðsveiflur.

60 Minutes ræddi ekkert af þessu og sleppti líka mikilvægasta atriðinu.

Þrátt fyrir gífurlegar hækkanir á olíu þá tókst framleiðendum ekki að dæla upp mikið meira magni, sem segir okkur einfaldlega að það sé ekki hægt.

Efnahagslægðin sem hófst í ársbyrjun 2008 hefur þróast í heimskreppu. Þótt atburðarásin sé ekki nákvæmlega sú sama þá stöndum við aftur á árinu 1931. Bankakerfið er lamað og á framfæri ríkis og seðlabanka. Við skulum vona að hægt sé að snúa dæminu við áður en atvinnuleysi tvö- eða þrefaldast. Þessi heimskreppa hefur stórminnkað eftirspurn eftir olíu, málmum og öllu öðru hráefni. Og eins of oft vill verða þá hafa verðsveiflur verið mjög ýktar.

Kannski kemur hrun á orkuverði og landbúnaðarvörum sér vel fyrir neytendur í augnablikinu, en þegar litið er til lengri tíma þá erum við að horfa upp á hræðilega atburði. Miðað við höfðatölu þá eru matarbirgðir í heiminum í 50 ára lágmarki en fjöldi búgarða geta ekki fengið bankalán til þess að kaupa áburð. Alls konar orkuverkefni eru í biðstöðu eða þau hafa verið yfirgefin. Á sama tíma upplýsir Alþjóðaorkumálastofnunin okkur um að framleiðsla starfandi olíulinda sé að dragast saman um nærri 7% á ári. Það er nokkuð augljóst að olíuframleiðslan náði hámarki 2005–2006—svokölluðum olíutoppi var náð—og hún fer aldrei yfir það magn sem þá var dælt upp. Það hefur ekki fundist risaolíulind í 40 ár og ný svæði sem verða nýtt gera varla betur en að halda í horfinu í nokkur ár.

Olíukreppan er eins og fellibylur sem byrjaði að ganga yfir snemma á þessari öld, en við erum núna í kyrrð auga hans. Þegar vindkviðurnar hefjast á nýjan leik þá verða þær enn hrikalegri og $140 dollara olíutunna sýnist þá hlægilega ódýr.

En hvað með alla þessa nýju dásamlegu tækni sem hlýtur að leysa olíuna af hólmi? Miðað við stærð verkefnisins þá erum við að tala um draum í ópíumpípu. Við erum líka að upplifa rökvillu sem auðvelt er að útskýra með því einu að horfa á fartölvu. Örgjafar og vinnsluminni eru þúsund sinnum aflmeiri en fyrir 10–15 árum og þessar framfarir gefa þá tálsýn að vísindin geti leyst öll vandamál á frekar stuttum tíma. En þetta eru vísindi sem flokkast undir raf- og stærðfræði. Orkuuppfinningar flokkast hins vegar undir efnafræði og eini hluturinn í fartölvunni sem fellur beint undir þann lið er rafhlaðan. Miðað við aðra hluti í tölvunni þá hefur hún þróast óskaplega hægt.

Peningum verður veitt í vindmyllur, sólarorku, ölduorku, tjörusand, kol og fleira, en þessi þróun átti að byrja á fullu fyrir mörgum áratugum og er allt of seint á ferðinni. Ný orkuframleiðsla ásamt nýjum farartækjum og dreifikerfi er ekki eitthvað sem hrist er fram úr erminni á einni svipstundu.

Ef sæmilegur hagvöxtur byrjar eftir að núverandi kreppu lýkur þá líða sennilega ekki nema tvö ár frá þeim punkti þar til eftirspurn eftir olíu nær framleiðslustiginu. Almenn viðhorfsbreyting og viðurkenning á að olíutoppnum sé náð sendir síðan verðið í áður óþekktar hæðir.

Framhald …