vald.org

Hvað gerir Ísland við orkuna? … Framhald

26. janúar 2009 | Jóhannes Björn

Næsta stofnun á Íslandi sem þarf að fara í uppstokkun er Landsvirkjun, en þetta bákn líkist óþægilega mikið leynifélagi eða sértrúarsöfnuði. Þarna bora misvitrir pólitíkusar sér í æðstu stöður, menn sem oft hafa enga sérþekkingu á orkumálum, og hreiðra vel um sig á kostnað skattborgaranna.

Landsvirkjun er sértrúarflokkur sem trúir á einn guð, álguðinn, og lokar augum fyrir öllu öðru sem hægt er að gera. Söfnuðurinn einblínir á það eitt að reisa sem flest musteri—rándýr eiturspúandi álver sem skapa hlutfallslega fá störf—út um allar trissur. Lokaáfangi þessara trúarbragða virðist hafa það markmið að orku landsins verði að mestu varið til verkefna sem þessa stundina eru að færast yfir á þriðja heiminn í vaxandi mæli. Sem sagt kapphlaup niður á botninn í samkeppni við fátækustu lönd heims sem verða vegna eymdar sinnar að hleypa inn vafasamri stóriðju og kyngja eitrinu sem henni fylgir.

Landsvirkjun er leynifélag sem neitar að veita eigendum sínum, fólkinu í landinu, nauðsynlegar upplýsingar um starfsemina. Þetta leynimakk er auðvitað algjörlega óþolandi og með öllu ólýðræðislegt. Fyrirtækið neitar að gefa upp á hvaða verði það er að selja stóriðjufyrirtækjum orkuna og ber við fáránlegum afsökunum. Skattgreiðendur geta því ekki lagt nokkurn dóm á hvort þetta fólk sem það er með í vinnu er að gera eitthvað af viti eða hvort það er það keyra starsemina í strand.

Sennilega er Landsvirkjun ekkert betur rekið fyrirtæki heldur en bankakerfið sem var að fara á hausinn. Það er margt líkt með þessum aðilum. Embættishrokinn og leyndin eru sláandi. Bankarnir voru, líkt og Landsvirkjun, í höndum pólitískra gæðinga. Á báðum stöðum hafa stjórnmálatengsl verið mikilvægari heldur en sérfræðikunnátta.

Landsvirkjun verður að opna hjá sér bókhaldið áður en “ófyrirsjáanlegir” erfiðleikar keyra fyrirtækið í þrot. Eða bara til þess að sanna að þetta sé enn stöndugt fyrirtæki. Eigendur fyrirtækisins, almenningur, á líka heimtingu á að sjá alla samninga sem gerðir hafa verið við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og aðra slíka í gegnum tíðina.

Ef Ísland ætlar að ná sér aftur að fullu eftir bankahrunið þá verður að nýta fiskimiðin í kringum landið og orkuna á skynsamlegan máta. Allir sanngjarnir einstaklingar vita að kvótakerfið er glæpur og byggðalögin verða að endurheimta fiskinn í sjónum. Eins geta allir séð að það er ekki hægt að móta orkustefnu á meðan nokkrir smákóngar neita að gefa upp verð orkunnar. Þetta er nærri því kómískt, líkt og að tala um leynilýðræði! Það þarf að taka afdrifaríkar ákvarðanir og þær verða ekki teknar nema allar staðreyndir liggi á borðinu.

Frekar en að tilbiðja álguðinn þá þarf þjóðin að búa sig undir að mæta næstu orkukreppu sem gengur yfir heiminn. Menn geta deilt um hvenær þessi kreppa kemur, en flestir sem hafa kynnt sér stöðuna eru sammála um að orkukreppa sé óumflýjanleg. En það skiptir ekki máli hvort við erum að tala um þrjú, fimm eða tíu ár því við getum aldrei gert nóg til að mæta vandanum þegar hann birtist. Spurningin er þessi: Veðum við betur í stakk búin en flestar aðrar þjóðir og á góðri leið með að verða olíufrítt ríki eða stöndum við mikið til í sömu sporum og í dag? Þessi síða hefur áður vitnað í bók Sir Martin Rees, Our Final Century, en góð vísa er aldrei of oft kveðin:

Innan fárra ára stöndum við andspænis "Endalokum fyrri helmings olíualdar." Þetta entist í 150 ár og leyfði iðnaði, samgöngum, landbúnaði og loks fólksfjölda að eflast í hlutfalli við olíuframboð. Þetta skapaði líka ógrynni fjármuna, sem aftur leiddi af sér hagfræði er stjórnar og hagræðir peningum.

Það virðist sem þetta kerfi hafi búið til peninga úr engu í formi vaxta af lánum sem bankinn bjó til án þess þó að eiga samsvarandi upphæð í innistæðum. Þetta kerfi kallaði á sífellt fleiri lán, sem síðan á einhvern hátt sköpuðu sitt eigið veð í vaxandi hagkerfi. Með öðrum orðum, til að geta gengið upp þá krafðist kerfið hagvaxtar sem aftur var gerður mögulegur með orkuflóði sem byggðist á olíu.

Morgunn seinni helmings olíualdar er að renna upp. Hann einkennist af dvínandi framleiðslu á olíu og öllu sem henni tilheyrir, þar með talið peningakerfið sem er mikilvægast. Það er sjálfgefið að þegar framleiðslan byrjar að dvína þá mun það grafa undan stoðum hagkerfisins og það gæti því hrunið löngu áður en olían klárast eða alvarlegur skortur verður á henni.

Eftir nokkur ár gjörbreytist hagkerfi heimsins. Með fáum undantekningum munu orkusnauðar þjóðir staðna og hagvöxtur heyrir þá fortíðinni til hjá þessum sömu ríkjum. Þjóðir sem á þessu örlagaríka augnabliki þurfa ekki að kaupa orku eða lítið af henni standa hins vegar með pálmann í höndunum. Það er heldur alls ekki víst að álverksmiðjur verði neitt sérstaklega eftirsóknaverðar í hagkerfi þar sem orka er rándýr og fjöldi landa upplifir engan hagvöxt.

Eins og það kemur undirrituðum fyrir sjónir þá ræður orkustefna næstu ára algjörlega úrslitum um hvort hér verður blómlegt hagkerfi eða stöðnun eftir nokkur ár. Heimskreppan tekur enda, sennilega á næstu 12–18 mánuðum, hagvöxtur eykst í nokkur ár, eða þar til orkuverðið æðir aftur upp, og ný kreppa heltekur orkusnauðar þjóðir.

Ísland verður að koma bíla- og bátaflota landsins á innlenda orku í næstu framtíð. Olía og bensín verða ekki aðeins ofsadýrar vörutegundir, það verður líka stundum skortur á þeim á viðkvæmum augnablikum. Framleiðendur láta sín eigin hagkerfi náttúrulega ganga fyrir og það verður aukinn pólitískur þrýstingur í þá veru að ganga ekki of hart að olíulindunum og láta þær endast lengur.

Það er atvinnuleysi á Íslandi og því góður tími til þess að hefja stórframkvæmdir eins og að byggja nýtt dreifikerfi út um allt land fyrir rafmagnsbíla eða svipaða tækni. Á Hawaii er t.d. verið að byggja upp kerfi fyrir rafmagnsbíla þar sem fólk getur hlaðið þá mjög víða (heima, á vinnustöðum og víðar) og síðan verða staðir með ákveðnu millibili þar sem fólk getur skipt á tómum hleðslum fyrir fullar á örskömmum tíma. Þetta er samræmt kerfi sem gæti hentað mjög vel fyrir íslenska einkabíla. Trukkar og skip þurfa aðra tækni.