vald.org

Obama í bandi

12. febrúar 2009 | Jóhannes Björn

Það lítur út fyrir að fyrstu efnahagsaðgerðir Obama séu dæmdar til þess að mistakast. Kannski var það bjartsýni að halda að bandaríska kerfið myndi gera betur en að vernda hagsmuni lítils hóps innanbúðarmanna. Sauðsvartur almúginn skiptir varla miklu máli í hagkerfi þar sem 1% fólksins á yfir 40% þjóðarauðsins.

Fjöldi óháðra hagfræðinga—og þar er Nouriel Roubini fremstur meðal jafningja—er sammála um að aðgerðirnar sem að grípa þarf til á þessu augnabliki séu ekkert sérstaklega flóknar. Í stuttu máli þá lítur dæmið þannig út að nokkrir stórbankar eru gjaldþrota. Þeir geta enn starfað, þó aðeins vegna þess að þeir eru á framfæri ríkisins.

Tölfræðilega er dæmið alveg út í hött. Ef öll hlutabréf Citigroup, JP Morgan Chase og Bank og America hefðu verið seld núna í byrjun vikunnar þá hefði samanlagt verð þeirra verið $158 milljarðar. Á sama tíma er ríkið að styðja þessa þrjá banka með lánum og skuldbindingum upp á $250 milljarða og sú tala fer upp í $500 milljarða ef staða þeirra versnar. Og nú eru enn meiri peningar á leiðinni!

Það liggur í augum uppi að aðilar sem hafa fjárfest í hlutabréfum þessara banka eru í raunveruleikanum búnir að tapa svo til öllu. Án skattgreiðenda væri fjárfestingin löngu glötuð. Þannig ganga hlutirnir fyrir sig á frjálsum mörkuðum, menn græða á sumum fjárfestingum og tapa á öðrum. Þegar svona staða kemur upp þá á ríkið að þjóðnýta bankana strax og gera útistandandi hlutabréf verðlaus. Þetta er sænska leiðin. Næsta skerf er svo að taka alla vandræðapappíra út úr þessum bönkum og mjatla þeim út á markaðinn á einhverju verði. Þegar bankarnir eru lausir við allt ruslið þá braggast þeir fljótt aftur og ríkið selur þá á frjálsum markaði.

Þótt þetta sé vissulega dýrt í framkvæmd þá er þessi leið ekki aðeins ódýrara en sú sem nú er í gangi, heldur flýtir hún líka gífurlega fyrir nýjum uppgangstímum í hagkerfinu. Með því að ausa peningum árum saman í hálfdauða banka þá er hins vegar verið að tryggja þráláta efnahagslægð. Japanir gengu þessa píslagöngu eftir 1990 og kalla það týnda áratuginn.

En hvers vegna nota Bandaríkjamenn ekki sænsku leiðina?

Bandarískir stórbankar og tryggingafélög eru staðir þar sem “gamlir peningar” hafa lengi hreiðrað um sig. Við erum að tala um ættir sem í kynslóðir hafa spunnið pólitíska vefi og lært að stýra samfélaginu í ákveðna farvegi. Venjulega eru þetta óbein afskipti, t.d. að gera þá hugmynd vinsæla að það sé þjóðfélagslega hagkvæmt að ríkt fólk borgi litla skatta, en stundum grípa þessir auðmenn hressilega í taumana.

Þegar Nixon var forseti ætlaði hann að loka á Cayman og aðra vinsæla felustaði fyrir peninga, en dró svo allt til baka eftir örstuttan tíma þegar mikilvægir stuðningsmenn fóru að láta heyra í sér. Reagan, sem hafði áhuga á að einfalda skattakerfið, ætlaði að afnema frádrátt vegna gjafa til góðgerðamála. Reagan áttaði sig greinilega ekki á því að alls konar góðgerðarstofnanir eru mikilvæg virki gamalríkra ætta. Þessar stofnanir varðveita auðinn, leyfa fólki sjálfu að ákveða upphæðina sem það borgar í tekjuskatta (Nelson Rockefeller borgaði ekkert vegna “mistaka” bókhaldarans 1970, en málið kom upp aðeins vegna þess að það var verið að skipa hann í embætti varaforseta 1974) og eru stórpólitískar. Eftir að grein eftir David Rockefeller birtist í New York Times þá hætti Reagan strax við þessa djörfu hugmynd.

Ef sagan hefur kennt okkur eitthvað þá er alveg víst að baráttan um þennan nýjasta austur billjóna inn í bandaríska hagkerfið hefur að mestu verið háð á bak við tjöldin. Þeir sem halda að slíkum “ókeypis” fjármunum sé mikið til ráðstafað fyrir opnum tjöldum með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi ættu að flytja til Hvergilands og ræða málið við Pétur Pan. Úrslitin urðu sem fyrr segir þau að í staðinn fyrir að staðfesta að eigendur bankanna hafi tapað öllu þá verður þeim haldið á floti með gífurlegum upphæðum úr vasa almennings. Og eftir nokkur ár, þegar búið er að blóðmjólka fólkið, þá tekur bankakerfið aftur við sér og verð hlutabréfanna margfaldast. Þá geta milljarðamæringarnir sem eiga þessa banka aftur farið að kvarta yfir sköttunum!

Þröngir hagsmunir unnu þessa orrustu og það eru miklar líkur á að þessi fáránlega fjárfesting hafi hagfræðilega allt of lítið að segja. Kannski var þetta síðasta tækifærið til þess að bjarga málunum og koma í veg fyrir miklu dýpri kreppu. Eins lengi og bestu lausnir eru ekki notaðar þá vinnur tíminn á móti okkur.

Það er líka verið að framleiða ríkisskuldir sem mjög erfitt verður að endurfjármagna. Skuldirnar eru að aukast á sama tíma og kreppan gerir færri aðilum kleift að kaupa þær. Hvað gerist þegar bandaríski seðlabankinn neyðist til þess að kaupa ríkisskuldabréf fyrir þúsundir milljarða dollara til þess að koma í veg fyrir að markaðirnir heimti himinháa vexti? Jú, sama og alltaf hefur gerst í fortíðinni—fólk hamstrar góðmálma. Þetta vita framleiðendur pappírsverðmæta og þess vegna eru þeir í stöðugu stríði við gull.