vald.org

Nýtt stjórnmálaafl óskast

17. febrúar 2009 | Jóhannes Björn

Bankakerfi margra landa virðist vera að mæta sömu örlögum og það íslenska síðasta haust. Fjöldi ríkja sem áður voru undir áhrifasvæði gömlu Sovétríkjanna stefna hraðbyri í þrot og bankarnir sem lánuðu þeim, t.d. í Austurríki og Sviss, rétt hanga á horriminni. Aðdragandi bankakreppunnar og hún sjálf hafa alltaf verið súrrealísk á köflum—fyrst náði lánastarfsemin einhverju truflunarstigi og eftir hrunið hafa allir kraftarnir farið í að bjarga sama fólki og bar ábyrgð á hruninu—og nú er líka að koma í ljós að peningaböðun á eiturlyfjagróða hefur verið það eina sem hefur bjargað fjölda banka! Hvað heyrir maður næst?

Yfirmaður hjá deild Sameinuðu þjóðanna í Vínarborg (UNODC) sem fylgist með alþjóðlegri glæpa- og eiturlyfjastarfsemi, Antonio Maria Costa, segir að eiturlyfjapeningar hafi oft verið einu beinhörðu peningarnir sem komu inn í bankana og þetta reiðufé hafi reddað þeim þegar kerfið var að sigla í strand á síðasta ári. “Eiturlyfjapeningar eru enn í mörgum tilfellum eina fjárfestingakapítalið,” sagði Costa í nýlegu viðtali. Ekki var tekið fram hvaða bankar þetta eru eða í hvaða löndum, en það má giska á að þetta séu aðallega bankar í “gömlu” Evrópu sem fjármögnuðu austurblokkina.

Nýlega komu fram ásakanir í breska sjónvarpinu þess eðlis að íslensku bankarnir hafi stundað peningaböðun fyrir rússnesku mafíuna. Ef þetta er rétt þá útskýrir það margt í þessu ferli sem oft hefur verið harla undarlegt. Gunnar Tómasson skrifaði nýlega á blogg Egils:

Aukning vaxtaútgjalda þjóðarbúsins úr 1/25 hluta vergrar landsframleiðslu 2004 í 1/3 hluta árið 2008 jafngildir blóðmjólkun samfélagsins.

Enn er óvíst hvað þar bjó að baki - en ekki er hægt að útiloka að íslenzk fjármálafyrirtæki og svartir erlendir peningar komi þar við sögu.

Eins er margt furðulegt í atvikarás síðasta árs innanlands og utan sem vekur spurningar:

Af hverju vildi U.S. Federal Reserve Board ekki hjálpa Seðlabanka Íslands?

Af hverju hikuðu íslenzk stjórnvöld við að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins?

Af hverju beittu Bretar hryðjuverkalögum á Landsbanka Íslands?

Af hverju hefur Geir Haarde ekki rætt við Gordon Brown síðan?

Af hverju vill Davíð Oddsson ekki tjá sig um málið?

Af hverju hika íslenzk stjórnvöld við að leggja deiluna við Breta fyrir dómstóla?

Af hverju reifaði rússneski sendiherrann $4 milljarða lán til Íslands?

Af hverju tóku íslenzk stjórnvöld það tal alvarlega?

O.s.frv.

Ég veit ekki – en óttast sum – svörin við þessum spurningum.

Kv.

Gunnar

P.S. Eins og þú veizt þá hef ég tekið þátt í umræðu síðustu daga um hugsanlegt peningaþvætti í sambandi við óheillaþróun síðustu ára á bloggsiðu þinni.

Hér að neðan er samantekt af því sem ég hef haft um málið að segja - að viðbættum fyrirsögnum til skýringar fyrir lesendur þína.

--- --- ---

1. Hvernig peningaþvætti kann að hafa verið í gangi?

Ein tegund peningaþvættis er eftirfarandi:

1. Svartir peningar (segjum $100 milljónir) eru lagðir inn á (skúffu-) bankareikning á einhverri Kyrrahafseyju.

2. Skúffu-bankinn leggur $100 milljónir inn á reikning alvörubanka í Evrópu sem er þátttakandi í peningaþvættinu.

3. Alvörubankinn í Evrópu lánar íslenzkri fjármálastofnun $100 milljónir á vöxtum sem eru háir en þó lægri en vextir á Íslandi.

4. Íslenzka fjármálastofnunin fjárfestir krónu-andvirði $100 milljóna í íslenzkum hávaxtaeignum.

5. Og borgar háa vexti af $100 milljóna láninu til evrópska alvörubankans.

6. Evrópski alvörubankinn heldur eftir hluta af vöxtunum fyrir aðstoðina.

7. Og leggur afganginn inn á (skúffu-) bankareikninginn á Kyrrahafseyjunni.

8. Allir þátttakendur hafa eitthvað fyrir sinn snúð - nema íslenzkir lántakendur!

2. Peningaþvætti í boði íslenzkra stjórnvalda?

Háir stýrivextir Seðlabanka Íslands og okurvextir/verðtrygging í skjóli fákeppni á íslenzkum fjármálamarkaði er forsenda peningaþvættis af þessu tagi.

Skv. hagtölum Seðlabanka Íslands hækkuðu vaxtagjöld þjóðarbúsins úr 3.9% af vergri landsframleiðslu 2004 í ca. 34% árið 2008.

Eða úr tuttugusta-og-fimmta hluta vergrar landsframleiðslu 2004 í einn-þriðja hluta árið 2008.

Skv. nýlegri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins þrefölduðust erlendar skuldir þjóðarbúsins miðað við verga landsframleiðslu á þessu tímabili.

3. Hvernig brást Seðlabanki Íslands við eigin hagtölum?

Aukning vaxtagjalda þjóðarbúsins úr 3.9% af VLF 2004 í ca. 34% árið 2008 getur ekki hafa farið fram hjá yfirstjórn Seðlabanka Íslands, enda jafngildir hún nánast blóðmjólkun samfélagsins.

Það er því tvennt til varðandi yfirstjórn Seðlabanka Íslands:

1. Hún skildi ekki alvöru málsins.

2. Hún lét sig málið engu skipta.

Og er hvorugur kosturinn góður.

4. Hverjar eru afleiðingar sinnuleysis yfirstjórnar SÍ?

Upplýsingar um jöklabréfin eru af skornum skammti – en af fréttum virðist mega ráða að allt að 400 milljarðar séu enn útistandandi og að erlendir eigendur bíði þess að gjaldeyrishöftum sé aflétt þannig að þeir geti flutt fjármagnið úr landi.

Upphæð af þessari stærðargráðu mun væntanlega jafngilda ca. 1/3 af vergri landsframleiðslu Íslands á yfirstandandi ári – og gæti verið hærra hlutfall ef ekki rætist skjótt úr doða innlendrar framleiðslustarfsemi.

Upphæðin er fortíðarvandi sem kostar þjóðina ca. 70 milljarða á ári miðað við 18% stýrivexti – fortíðarvandi sem er alfarið sprottinn af stýrivaxtastefnu Seðlabanka Íslands á liðinni tíð sem ég hef leyft mér að kalla glórulausa.

Engin höft eru á erlendum vaxtagreiðslum þannig að fortíðarvandinn mun endurspeglast í ca. 6 milljarða gjaldeyrisútstreymi á hverjum mánuði svo lengi sem innlent vaxtastig er glórulaust.

5. Hverjir borga vaxtakostnaðinn?

Við núverandi aðstæður er vaxtakostnaður af jöklabréfum byrði sem fæstir innlendir skuldunautar lánakerfisins geta staðið undir.

6. ICESAVE í boði íslenzkra stjórnvalda?

Glórulaus stýrivaxtastefna Seðlabanka Íslands gerði Landsbankanum kleift að yfirbjóða brezka samkeppnisaðila í vaxtasamkeppni um innlán – 5.75% ICESAVE vextir eru einungis þriðjungur af 18% ávöxtun sem Landsbankanum stóð til boða fyrir tilstilli Seðlabanka Íslands.

Þar leiddi blindur blindan.

7. Eru evrópskir bankar virkir í peningaþvætti?

Það er ekki sjálfgefið að evrópskir bankar starfi skv. lögum um aðgerðir gegn peningaþvætti.

Í bókhaldi íslenzks banka myndi vaxtagreiðslur til evrópskra banka ekki vekja neina sérstaka athygli endurskoðendafyrirtækja þar sem forsaga greiðslunnar er ekki upp á borðinu.

8. Væri peningaþvætti nýlunda í íslenzka bankakerfinu?

Í eina tíð var það almenn viðskiptaregla hjá íslenzkum viðskiptabönkum að veita Pétri og Páli lán sem jafngilti innistæðu þeirra á bók hjá viðkomandi banka – og var þá ekki spurt hvort innistæðunni hefði verið stungið undan skatti.

Þegar hagkerfi þjóðar hrynur þá býður eftirleikurinn venjulega aðeins upp á tvo möguleika. Annað hvort batnar ástandið þegar kerfið er stokkað upp, eins og stjórn Roosevelt gerði í kreppunni miklu, eða ástandið snarversnar vegna þess að einhverjir ribbaldar komast í lykilstöður og leggja hagkerfið mikið til undir sig. Þýskaland fasismans er ágætt dæmi.

Með hverjum deginum sem líður virðist líklegra að Ísland rísi ekki úr öskunni sem betra land. Glæpsamleg verðtrygging lána og okurvextir sjá til þess að fólkið í landinu—og þá sérstaklega yngri kynslóðirnar—verða rassskelltar duglega á meðan gömlu kerfiskarlarnir og kerlingarnar hreiðra um sig við kjötkatlana og sjá til þess að raunveruleg verðmæti leiti á gamlar slóðir.

Verður martröðin að veruleika? Þannig spyr “Vinni” á spjallsíðunni www.malefnin.com og hann heldur áfram:

Hugsið ykkur:

Það er komið sumar og kreppan bítur fast, vonleysi og drungi færist yfir samfélagið og fjölmiðlar eru uppfullir af fréttum af uppsögnum, gjaldþrotum og öðrum hörmungum. Alþingi er í sumarfríi og ný ríkisstjórn er að setjast við kjötkatlana eftir kosningarnar. Þar mun hún sitja næstu 4 árin í ró og næði. Fjórflokkurinn kom nefnilega alveg óskaddaður út úr kosningunum. Sumarið og haustið fer í að raða flokksgæðingum á garðann. Óopinber stjórnarsáttmáli innifelur að ekki megi rugga bátnum um of með því að fara rækilega í saumana á því sem gerðist hér í aðdraganda kreppunnar. Annar stjórnarflokkurinn, eða jafnvel báðir eiga nefnilega nægilegt magn af óhreinum þvotti úr fortíðinni sem ekki má viðra.

Það er mikið líf í kringum stjórnmálaflokkanna sem fengu andlitslyftingu í kosningunum með því að skipta út fáeinum þreyttum andlitum. Þetta mikla líf helgast af því að fyrir liggur sjaldgæft tækifæri fyrir stjórnmálastéttina, áhangendur hennar og velgjörðamenn. Tækifærið felst í því verkefni að endurskipuleggja eignarhaldið á íslandi, bönkum, flestum fyrirtækjum landsins, að ógleymdum náttúruauðlindunum - virkjunum, fiskimiðunum o.s. frv. Oft hefur verið handagangur í öskjunni á Íslandi að komast í gott talsamband við stjórnmálamenn eða til áhrifa innan flokkanna en aldrei sem nú. Enda ekki á hverjum degi sem eignarhald á heilli þjóð er endurskipulagt. Hagsmunaklíkurnar að tjaldabaki eru því allar á hjólum og varla unnt að finna óbrenglaðar fréttir um nokkurn skapaðan hlut í áróðursflóðinu þar sem reynt verður að stýra hugmyndum í réttar áttir; þ.e.a.s þannig að auðurinn renni enn og einu sinni í rétta vasa.

Að sjálfsögðu hefur ekki náðst nein niðurstaða í eflingu lýðræðisins og endurskoðun stjórnarskrár er í nefnd. Nýja Ísland er líka komið í nefnd.

Þetta er martröð – martröð sem getur hæglega ræst.

Fjöldi Íslendinga gerir sér fulla grein fyrir að hér vantar nýtt stjórnmálaafl strax, nýja breiðfylkingu hugsjónamanna sem hefur það eitt markmið að hreinsa út sorann. Þessi fylking þarf að koma 10–15 mönnum á þing til þess að geta veitt nægilegt aðhald áður en landinu verður aftur stolið. Það sem núna blasir við er landflótti unga fólksins og hrikalega misskipt samfélag þar sem valdaklíkan afhendir sjálfri sér allt bitastætt á silfurfati. Svo setningin fræga í Animal Farm sé endursögð og heimfærð upp á nýju ríkisbankana, þá eru allar skuldir jafnar … en sumar skuldir eru jafnari en aðrar. Fáir virðast hirða um myllusteininn sem hangir um háls heimilanna, heldur eru þau eru keyrð betur í kaf á degi hverjum. En þeir sem geta togað í rétta spotta og látið afskrifa hjá sjálfum sér verða kóngar morgundagsins.

Þetta er ekki grunnur sem heiðarlegt og réttsýnt fólk vill byggja á nýtt þjóðfélag.