vald.org

Nú eru góð ráð dýr

6. mars 2009 | Jóhannes Björn

Ástandið er ekki glæsilegt. Flestir bifreiðaframleiðendur heimsins eru á kúpunni. Mörg fyrrverandi kommúnistaríki stefna hratt í gjaldþrot. Margir stórbankar eru tæknilega gjaldþrota. Og risastór líftryggingafélög í Bandaríkjunum riða til falls með skelfilegum afleiðingum. Svartur svanur svífur yfir vötnunum.

Þrátt fyrir þetta hræðilega ástand þá er fólki stanslaust ráðlagt að flýta sér að kaupa hlutabréf á meðan tombóluverð þeirra varir. Endalaus halarófa “sérfræðinga” stundar þessa sölumennsku á fjármálarásum erlendra sjónvarpsstöðva og greiningadeildir stórra banka taka í sama streng. Eins og áður kom fram á þessari síðu þá spáði t.d. Den Danske Bank 30% hækkun hlutabréfa á fyrrihluta 2009 en undirritaður spáði á móti að það yrði 30% lækkun fyrir 1. apríl. Eins og málin standa þá hefur Dow Jones lækkað úr 9034 1. janúar í 6594 í dag eða 27%. Hversu margir einstaklingar hafa stórtapað á því að hlusta á Den Danske Bank og aðra ámóta spámenn? Það væri gaman að vita hvort starfsmenn bankans keyptu sjálfir hlutabréf í ársbyrjun eða hvort þessi ráðgjöf var aðeins ætluð lömbum á leið í sláturhús.

He who blames others has a long way to go on his journey. He who blames himself is halfway there. He who blames no one has arrived

—Kínverskt spakmæli

Kauphallir heimsins eru fullar af sölumönnum og öll fyrirtæki vilja að almenningur fjárfesti í þeim. En það er líka til fólk á Wall Street og víðar sem hlustar aldrei á “blaðrandi höfuð” heldur starfar samkvæmt grundvallarreglum sem hafa verið að þróast í verðbréfaviðskiptum í langan tíma. Þeir sem fylgja þessum formúlum eru þúsund sinnum betur settir en hinir sem glápa á imbakassann í von um góð ráð sérfræðinga. Hér eru nokkrar gullnar reglur sem raunverulegir sérfræðingar fara eftir.

Reyndu aldrei að slást við markaðinn. Í flestum tilfellum er markaðurinn í langtímasveiflu sem varir í mörg ár. Það er vænlegt að taka daglega mið af þeirri bjargföstu staðreynd, að þrátt fyrir tímabundnar og eðlilegar leiðréttingar, þá stefna hlutirnir markvisst í eina átt, upp eða niður. Þetta kann að hljóma full einfalt, en ótrúlega margir eru stöðugt að synda á móti straumnum. Allir sem þessa stundina t.d. ráðleggja fólki að kaupa hlutabréf eru að brjóta þessa reglu.

Í bókinni Reminiscences of a Stock Operator, meistaraverki frá 1923 um viðskiptaferil Jesse Livermore, er því lýst á skemmtilegan máta hvernig söguhetjan áttaði sig á fyrrgreindu lögmáli. Hann vann í fjármálahverfinu í New York á fjölmennri skrifstofu og í hópnum var eldri maður sem heilsaði honum daglega með sömu kveðjunni. “Það er nautsmarkaður núna”, sagði hann og brosti íbygginn, líkt og sá sem býr yfir miklum leyndardómi. Livermore (kallaður Larry Livingston í bókinni) hélt að karlinn væri annað hvort elliær eða hálfgerður kjáni, en mörgum árum seinna áttaði hann sig á að sá gamli var að gefa honum besta ráð sem til var: Ekki slást við markaðinn.

Reyndu aldrei að grípa fallandi hníf. Það er engin ástæða til þess að kaupa hlutabréf í tölvurisanum X vegna þess að þau kostuðu 1000 fyrir sex mánuðum en 500 í dag. Þú veist aldrei hvar fallandi verð endar (skoðið feril deCode) Þú bíður frekar þar til bréfin sýna aftur styrk og eru á markvissri uppleið (t.d. er verðið hærra en það var fyrir 60 dögum). Það hjálpar að lesa sér til um tæknilega túlkun línurita.

Reyndu aldrei að vinna upp tap með því að kaupa fleiri hlutabréf í fyrirtæki sem hefur fallið í verði.

Aldrei, aldrei, aldrei—ekki undir neinum kringumstæðum—aldrei!

Farðu til Las Vegas og horfðu á fjölda hótela sem kosta þúsundir milljóna dollara stykkið. Las Vegas græðir ekkert á því að selja mat eða miða á skemmtanir. Vegas hefur hins vegar grætt hundruð milljarða vegna þess að mannlegt eðli segir fólki það hljóti bráðum að fara að græða vegna þess að það er þegar búið að tapa svo miklu. Það leggur tvöfalt undir … og aftur tvöfalt. Gakktu aldrei í þessa gildru, hvort sem um er að ræða hlutabréfamarkað eða spilavíti.

Þeir sem halda því fram að hlutabréfamarkaðurinn sé alltaf góð langtímafjárfesting eru annað hvort kjánar eða lygarar. Á hverjum einasta degi endurtaka “sérfræðingarnir” sömu tugguna. Það borgar sig fyrir venjulegt fólk sem er að safna peningum að kaupa dreifð hlutabréf og geyma þau vegna þess að hlutabréfamarkaðurinn hækkar alltaf þegar horft er til lengri tíma. Þegar iðnvædd ríki eiga í hlut þá er þetta einfaldlega ekki satt. Og þegar verðbólga er reiknuð inn í dæmið þá er þetta algjörlega út í hött. Það er ekki til neitt 30 ára tímabil hjá iðnríki þar sem hlutabréfamarkaðir í heild sinni hafa verið góð fjárfesting eftir að verðbólgan er dregin frá. Markaðir út um allan heim hafa nýlega glata á milli 10 og 20 ára hækkunum. Fólk (meðaltal) sem t.d. fjárfesti í bandarískum hlutabréfum fyrir 12 árum stendur núna á núllinu og hefur tapað öllu sem verðbólgan hefur brennt á þessu tímabili.

Fjárfestu aldrei í neinu sem þú skilur ekki. Hér eru heimatökin hæg og auðveldast að benda á gömlu íslensku bankana eða deCode. Útrásin var óútreiknanlegt dæmi fyrir alla nema þá sem höfðu aðgang að bókhaldi bankanna. Þegar deCode var að byrja þá var það ekki á færi nokkurra nema utanaðkomandi sérfræðinga að átta sig á vísindunum sem lágu til grundvallar og hugsanlegum möguleika á að koma þeim í verð. Sérfræðingur sem vinnur við hliðstæðar rannsóknir í London sagði undirrituðum strax í byrjun að hann teldi dæmið vonlaust vegna þess að fyrirtækið gæti ekki þróað seljanlegar afurðir nógu hratt.

Auðvitað er ekki hægt að skilja allt sem háþróuð fyrirtæki eru að gera, en ef þau eru ekki með hagstæðan feril sem hægt er að rekja töluverðan spotta aftur í tímann, þá er eins gott að halda sig í hæfilegri fjarlægð frá þeim.

Skammtímaupplýsingar eru gagnlausar. Heimskreppan byrjaði með fasteignabólu (dýpri orsök er of hröð hnattvæðing nýfrjálshyggjustefnunnar) og allar götur síðan hún sprakk hafa ákveðnir aðilar reglulega lýst því yfir að botninum sé náð. Þessir aðilar einblína þá á nýjustu tölur um eitthvað sem er að gerast en sleppa öllu sögulegu samhengi og hunsa aðra þætti sem benda í þveröfuga átt. Sem dæmi þá tvöfaldaðist nýlega sala á húsnæði á milli ára í Kaliforníu, en það var vegna þess að 60% af öllu sem seldist var húsnæði sem var verið að bjóða upp eða bankarnir voru að selja vegna vanskila. Tæplega góð tíðindi enda er verðið enn á hraðri niðurleið. Eitt línurit—sem sýnir meðalverð húsnæðis miðað við meðaltekjur fólks—segir okkur miklu meira um hvert markaðurinn stefnir.

Við þetta bætist að aukið atvinnuleysi bitnar mjög illa á fasteignamarkaðinum og vinnumarkaðurinn er í frjálsu falli. Sagan sýnir okkur líka að hagkerfið byrjar ekki að skapa ný störf um leið og jákvæður hagvöxtur sér dagsins ljós. Það getur liðið meira en ár frá lokum efnahagslægðar þar til fyrirtækin fara að ráða fleira fólk. Sjáum hvernig núverandi kreppa lítur út í samanburði við tvær síðustu efnahagslægðir í Bandaríkjunum.

Það er ekki útilokað að mesti ríkishallarekstur sögunnar og dæmalaus peningaaustur seðlabanka hafi tímabundin áhrif á hagkerfið og flýti fyrir bata. Efnahagsreikningur bandaríska seðlabankans hefur jú aldrei áður litið út eins og gjósandi eldfjall.

En, eins og máltækið segir, það eru draumórar að halda að einhver máltíð sé ókeypis. Það kemur alltaf að skuldadögum í einni mynd eða annarri. Ef hagkerfinu tekst að klóra sig út úr þessari kreppu áður en hún þróast í 1929–1936 ástand þá tekur fljótlega við nýtt vandamál sem í fljótu bragði virðist óleysanlegt. Hvernig er hægt að endurfjármagna allar skuldirnar sem búið er að hlaða upp?

Það eru vaxandi líkur á mikilli gullhækkun um leið og verðhjöðnunaráhrif kreppunnar dvína. Verðbólga ræðst af peningamagni í umferð og veltuhraða peninga. Kerfið er frosið þessa stundina en um leið og veltuhraðinn eykst þá hækka flestir áþreifanlegir hlutir í verði. Olían á líka eftir að hækka hraðar en flesta grunar og önnur hráefni fylgja á eftir. Kannski eiga landbúnaðarvörur eftir að taka stærsta stökkið og þær hækkanir byrja sennilega áður en kreppan leysist. Kornbændur út um allan heim eru að draga saman seglin vegna þess að sjúkt bankakerfið getur ekki veitt þeim nægileg lán. Og eins og það sé ekki nógu djöfullegt, þá eru gífurlegir þurrkar á mörgum mikilvægum svæðum að eyðileggja uppskeruna. Kreppan hefur leikið “index” eins og t.d. Rogers International Commodity Index grátt undanfarið, en allt bendir til þess að þetta verði frábær fjárfesting næstu tíu ár eða lengur.