vald.org

Peningakerfi heimsins að hætti Suður-Ameríku

24. mars 2009 | Jóhannes Björn

Bandaríski seðlabankastjórinn, Ben Bernanke, og fjármálaráðherrann, Timothy Geithner, stíga trylltan dans þessa dagana. Geithner ætlar að gefa vinum sínum á Wall Street þúsund milljarða dollara og þyrlu-Ben hefur ákveðið að prenta peninga með aðferð sem hingað til hefur aðallega þekkst í frumstæðari hagkerfum. Það er yfirgnæfandi möguleiki á að þetta endi allt með skelfingu.

Breski seðlabankinn hóf nýlega að kaupa langtíma ríkisskuldabréf og sterlingspundið féll eins og grjót. Þegar bandaríski seðlabankinn lýsti því yfir (18. mars) að hann ætlaði að fara eins að þá féll dollarinn strax um nokkur prósentustig gagnvart helstu gjaldmiðlum. Verslun með gull þennan sama dag var þó öllu áhugaverðari, en það hafði lækkað um $25 fyrrihluta dagsins. Um leið og seðlabankinn birti tilkynningu þess efnis að hann ætlaði að kaupa fimm og tíu ára ríkisskuldabréf þá æddi gullið upp um $50 og endaði daginn $25 hærra. Flestir sem kaupa gull vita að óðaverðbólga byrjar alltaf með því örlagaríka skerfi að peningavæða skuldirnar.

Peningakerfi nútímans hefur enga kjölfestu. Seðlarnir eru ekki tryggðir með gulli, silfri eða nokkru öðru. Bankakerfið skapar peninga og hugmyndin með þessu kerfi gengur út á það að hægt sé að mæta vaxandi framboði vöru og þjónustu með auknu peningamagni í umferð. Við getum hugsað okkur lítið þorp með fimm hundruð milljónir í umferð. Þegar ný loðnuverksmiðja er reist þá fjármagnar bankinn verkið. Hann er þannig að lána út á framtíðartekjur verksmiðjunnar og eykur þannig fjármagn í umferð til móts við raunveruleg verðmæti. Bankinn mætir auknu framboði vöru eða þjónustu með meira peningamagni í umferð.

En snúum þessu dæmi við.

Fyrrnefnt þorp hefur búið við stöðugleika í mörg ár þegar nýr bankastjóri, rétt útskrifaður frá Hagfræði- og afleiðuvísindadeild háskóla í Boston, tekur við taumunum. Hann skoðar ársreikningana, sem sýna “aðeins” 3–4% hagnað á ári síðustu misserin, og ákveður að gera eitthvað róttækt í málinu. Á næstu dögum sendir bankinn öllum fasteignaeigendum þorpsins bréf þar sem þeim er boðinn yfirdráttarheimild upp á 80% af andvirði eignanna. Mánuði seinna eru fasteignaeigendur þorpsins búnir að sækja um yfirdrátt upp á hundrað milljónir og eyðslustigið hækkar verulega. En þessi eyðsla—ferðalög, ný eldhúsinnrétting, flatskjár o.s.frv.—hefur svo til engin áhrif á hvernig efnahagur þorpsins lítur út eftir t.d. 10 ár. Ef eitthvað, þá skapa þessir nýju peningar meiri verðbólgu vegna þess að fleiri peningaseðlar elta staðnað magn staðbundinnar vöru og þjónustu.

Þetta er frekar einfalt lögmál: Nýir peningar í umferð umfram það sem verðbólgustigið kallar á eru skaðlegir nema þeir séu fjárfestir í einhverju sem skapar auknar tekjur í framtíðinni.

Nú kann einhver að spyrja hvar bankinn í ofangreindu þorpi fékk alla þessa nýju peninga til þess að lána. Seðlabankinn er uppspretta allra peninga sem bankarnir nota. Útþensla bankanna ræðst af bindiskyldu (hluti peningaeignar bankans sem ekki má lána) og öðrum reglum, en viðskiptabankarnir nota seðlabankann eins og almenningur t.d. notar hitaveituna. Vatnið streymir í því magni sem neytandinn óskar og það er aðeins hægt að stýra neyslunni með útsöluverði. Hitaveitan getur hækkað vatnið og seðlabankinn hækkað stýrivexti.

Góður seðlabanki hefur vakandi auga á peningamagni í umferð og reynir að stýra því með ýmsum aðferðum. Samspil stýrivaxta og bindiskyldu er notað til þess að koma taumum á viðskiptabankana. Peningamagni í umferð frá degi til dags er líka hægt að stjórna með því að kaupa eða selja skammtíma ríkisskuldabréf eða ríkisvíxla. Þegar seðlabanki kaupir þessi bréf þá eykur hann seðlamagn í umferð og svo öfugt þegar hann selur þau.

Heimskreppan sem núna ríður yfir byrjaði með fasteignaæði víða um heim og þessi kreppa heldur sínu striki svo lengi sem fasteignaverð heldur áfram að lækka. Með því að kaupa 10 ára ríkisskuldabréf þá eru seðlabankar Bretlands og Bandaríkjanna að reyna að lækka vexti á fasteignalánum (vextir flestra miðast við 10 ára ríkisskuldabréf). En ráðamenn eru greinilega örvæntingarfullir vegna þess að þeir vita ósköp vel að þeir eru að fórna dollaranum og pundinu.

Það er mjög óæskileg seðlaprentun í gangi þegar seðlabanki kaupir langtímabréf ríkisins. Bankinn er ekki að mæta þörfum hagkerfisins vegna vaxandi umsvifa. Það er verið að hunsa allar reglur sem miða að eðlilegri stjórn peningamagns í umferð. Það er enginn kúnst að framleiða peninga en feikilega erfitt að ná þeim sársaukalaust aftur út úr kerfinu.

Fjármálaráðuneytið í Bandaríkjunum tilkynnti í gær um nýja trilljón dollara áætlun sem heldur áfram að moka í svartholið. Þetta er hræðilegt brölt sem örfáir aðilar á Wall Street koma til með að græða á. Allt á kostnað skattgreiðenda. Paul Krugman, James Galbraith og fleiri hafa fordæmt þessa áætlun.

Í stuttu máli þá ætlar ríkið að láta einkaaðila bjóða í ruslapappíra, en það tekur síðan á sig svo til allan kostnað. Einkaaðili kaupir t.d. ruslapappíra fyrir $12 milljónir (nafnverðið er þá kannski $20 milljónir) og leggur út eina milljón. Ríkið leggur út aðra milljón á móti og lánar auk þess $8 milljónir. Ef bréfin eru of eitruð og einkaaðilinn getur ekki borgað þetta $8 milljóna lán þá fellur það á ríkið! Nýfrjálshyggjan lifir enn góðu lífi þar vestra.

Hilda er bareigandi í Berlín. Til þess að auka veltuna þá ákveður hún að leyfa dyggum viðskiptavinum—sem flestir eru atvinnulausir alkar—að drekka út á krít.

Hún skráir allt sem drukkið er í þykkan kladda. Þegar þetta þægilega fyrirkomulag spyrst út þá flykkjast nýir viðskiptavinir á barinn. Frelsi fólks til þess að njóta augnabliksins og borga seinna gefur Hildu valið tækifæri til þess að hækka verðið á vinsælustu veigunum, bjór og víni

Salan eykst gífurlega. Ungur og efnilegur lánafulltrúi í hverfisbankanum gerir sér grein fyrir að þessar skuldir viðskiptavinanna eru framtíðarverðmæti. Hann hækkar því yfirdráttarheimild Hildu í bankanum. Lánafulltrúinn telur þetta vandræðalaust vegna þess að skuldir alkanna eru haldgóð veð.

Í höfuðstöðvum bankans breyta sérfræðingar í æðri peningalist þessum viðskiptaskuldum í Drykkjuskuldabréf, Alkabréfavafninga og Gubbuafleiður. Þessi verðbréf—sem virt áhættumatsfyrirtæki hafa (gegn þóknun) stimplað AAA gæðastimpli—ganga síðan kaupum og sölum út um allan heim. Raunverulega skilur enginn hvað nöfn bréfanna þýða eða hvernig þau eru tryggð. Samt sem áður halda þau áfram að hækka. Þau eru metsöluvara.

Einn góðan veðurdag, þrátt fyrir að bréfin séu enn á uppleið, þá ákveður áhættusérfræðingur bankans að nú sé tímabært að drykkjuhrútarnir á bar Hildu borgi eitthvað upp í skuldirnar. Þeir geta það hins vegar ekki. Hilda getur því ekki staðið í skilum við sína skuldunauta og lýsir yfir gjaldþroti. Drykkju- og Alkabréf falla um 95%. Gubbubréfin gera betur og ná stöðugkeika eftir 80% fall. Nýr veruleiki blasir við hjá fyrirtækjum sem seldu barnum á lánakjörum og hafa jafnvel líka fjárfest í fyrrnefndum bréfum. Heildsalan sem seldi Hildu vín er gjaldþrota og fyrirtækið sem seldi bjórinn er yfirtekið af keppinauti.

Eftir dramatísk fundahöld og andvökustundir sem standa samfleytt í marga sólarhringa þá ákveða stjórnvöld að bjarga bankanum.

Nýr skattur er lagður á. Bindindismenn eru látnir borga brúsann.

—Óþekktur höfundur (með nokkrum breytingum)

Við þessa lýsingu má bæta að bankakerfið var búið að gíra sig upp þrjátíufalt og það var líka búið að gíra upp upphaflegu skuldirnar þrjátíufalt. Hver bjórkrús (fasteignaskuld) var fræðilega séð 900 krúsa virði á pappírunum!

Bandaríska hagkerfið var leiðandi á skuldafylliríinu. Prósentuhlutfall skulda miðað við þjóðarframleiðslu hefur þróaðist svona á liðnum árum:

En ballið er rétt að byrja. Fyrir utan þess fyrrnefndu trilljón (evrópsk billjón) þá ætlar seðlabankinn að taka $750 milljarða ruslabréfa á sinn reikning á næstunni. Bankaeftirlitið (FIDC) hefur óskað eftir $500 milljörðum frá ríkinu. Halli ríkissjóðs næstu tvö ár gæti orðið samtals hátt í fjórar trilljónir. Það er enginn markaður fyrir slíkar skuldir og því verður seðlabankinn að kaupa þær. Verðbólgupressan verður þá óbærileg.