vald.org

Varúð: Hlutabréf eru á uppsprengdu verði

1. maí 2009 | Jóhannes Björn

Undanfarnar vikur hafa hlutabréf víða um heim verið að hækka verulega. Ef undirritaður hefur rétt fyrir sér þá eru þessar hækkanir aðeins stundarfyrirbæri. Mjög líklega erum við að horfa upp á mestu bjarnarhækkun (bear market rally) síðan 1931. Þá var hagkerfið líka á öðru ári heimskreppu. Ef sagan endurtekur sig þá fellur hlutabréfamarkaðurinn bráðum um 30–40%.

Í ársbyrjun birti þessi síða spá sem byggðist á svonefndri Elliott Wave. Samkvæmt henni er markaðurinn þegar búinn (eða nærri búinn) að skrúfa sig upp eins og hægt er. Næst tekur við fall sem hugsanlega keyrir S&P (sem stendur í 877 þessa stundina) niður fyrir síðasta botn, sem var 666 (!) Annað öruggt merki um fyrirsjálegt fall hlutabréfa er spá Abby Cohen hjá Goldman Sachs. Frúin segir að S&P eigi eftir að hækka í 1050 á næstu sex til 12 mánuðum, en hún hefur árum saman spáð vitlaust um svo til alla hluti. Fyrrnefnd Elliott Wave lítur svona út:

Bandarískir ráðamenn eru skiljanlega hræddir um að algjört hrun sé í spilunum og þess vegna hafa þeir tekið höndum saman um að “kjafta” markaðina upp. Þeir geta þó ekki bent á neinar jákvæðar tölur og kjósa því að tala í myndríku máli um græna sprota og annað í þeim dúr. Annað bragð sem sölumenn nota er að einblína á nýjar hagtölur og taka þær úr öllu tímasambandi: “Húrra! Fleiri ný hús seldust í mars heldur en í febrúar.Botn er að myndast og bráðum sjáum við blóm í haga” En miðað við fyrri ár þá var salan í janúar, febrúar og mars 2009 alveg hræðileg.

Það er alveg sama hvað menn tuða um græna sprota og nýtt blómaskeið. Hagkerfið batnar ekki fyrr en fasteignaverðið jafnar sig og fleiri hús seljast. Markaðurinn er, því miður, enn á niðurleið. Tölur um fyrstu skóflustungur, fjölda húsa sem eru í startholunum, eru í sögulegu lágmarki.

Atvinnulaust fólk kaupir sér ekki þak yfir höfuðið og um þessar mundir missir yfir hálf milljón einstaklinga vinnuna í hverjum mánuði. Atvinnulaust fólk sem skuldar missir hins vegar húsin sín og eykur vandann á fasteignamarkaðinum.

Bandaríska hagkerfið gengur 70% fyrir neyslu. Fólk heldur ekki aðeins fastar í budduna þessa dagana, heldur telja margir markaðssérfræðingar að þessi breyting sé varanleg. Það verður ekki lengur í tísku að versla eins og lífið liggi við.

Fyrsta merkið um að efnahagslægð sé að ljúka er oft betri nýting atvinnutækjanna (vélar sem framleiddu í sex tíma á dag ganga núna t.d. í átta). Það eru engin merki um bata á þeim vígstöðvum.

Á fyrsta ársfjórðungi 2009 féll þjóðarframleiðsla BNA um 6,1% og hefur ekki fallið meira á hálfu ári síðan 1958. En tölur tveggja síðustu ársfjórðunga eru raunverulega enn hræðilegri því ef minnkandi innflutningi er sleppt (var ekki inn í dæminu 1958) þá dróst hagkerfið saman um 10%. Það þarf að leita aftur til 1929–1936 tímabilsins til þess að finna slíkar tölur.

Það eru yfirgnæfandi líkur á að bjarnarmarkaður sé enn í fullum gangi og hækkanir á helstu hlutabréfamörkuðum séu tímabundnar. Fjármálageirinn, sem mikið til er búinn að segja sig á sveit, hefur hækkað mest að undanförnu, en beiningamenn og blóðsugur hafa aldrei lyft neinu hagkerfi úr duftinu.