vald.org

Stundar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hryðjuverk?

2. júní 2009 | Jóhannes Björn

Þegar Gordon Brown kallaði íslenskan banka hryðjuverkastofnun—setti hann bókstaflega á bás með óþokkum sem sprengja saklaust fólk í tætlur—þá vissi hann vel að hann var að stefna öllu íslenska bankakerfinu í gjaldþrot. Seinna viðurkenndi Brown í fyrirspurnartíma breska þingsins að hann hafi notað Alþjóðagjaldeyrissjóðinn (AGS) gagngert til þess að kúga íslensku þjóðina. Hvað vakir eiginlega fyrir þessum aðilum?

Miðað við vinnubrögð Breta og margra annarra Evrópuþjóða þá er freistandi að draga þá ályktun að þessi ríki hafi augastað á landfræðilegri stöðu Íslands og orkulindunum þjóðarinnar. Orkuframleiðsla Breta og Norðmanna er á hraðri niðurleið og höfin í norðri verða sífellt girnilegri. Þá er líka mikilvægt fyrir fjölþjóðafyrirtæki að Ísland haldi áfram að gefa þeim orku sem knýr eiturspúandi verksmiðjur sem keppa við hagkerfi vanþróaðra ríkja.

Eins og Falið vald benti á fyrir 30 árum—og ef eitthvað þá hefur ástandið snarversnað—er AGS stofnun sem sérhæfir sig í að koma ríkjum á hausinn svo þau galopnist og haldi brunaútsölu fyrir útvalda aðila. Formlega hefur AGS þrjú markmið: einkavæðingu, afnám reglugerða og djúpan niðurskurð á félagslegri þjónustu. Kerfið sem sjóðurinn setur á laggirnar kemur þjóðum sjálfkrafa á vonarvöl og gengur í stuttu máli út á að viðhalda okurvöxtum (oft til þess að verja gjaldmiðilinn), krefjast óraunhæfra endurgreiðslu lána (sem þvingar niðurskurð á félagslegri þjónustu og orsakar fjöldauppsagnir) og stuðla þannig að atvinnuleysi sem kollvarpar öllu hagkerfinu. Þessi vinnubrögð hafa verið endurtekinn í S-Ameríku, Afríku, Asíu og A-Evrópu—alltaf með sömu afleiðingum.

Nokkur ríki í Asíu sem lengi höfðu verið frekar aftarlega á merinni—S-Kórea, Tæland, Indónesía, Filippseyjar og Malasía—upplifðu ótrúlegan hagvöxt á árunum fyrir 1997. Þessi uppgangur tókst í blönduðu hagkerfi, þar sem sameiginlegar auðlindir og almenningssamgöngur voru mikið til í ríkiseign, en framleiðslan keppti aðallega á frjálsum markaði. Meirihlutaeign erlendra aðila í flestum fyrirtækjum var bönnuð.

Fjölþjóðafyrirtækin voru óhress með þetta fyrirkomulag og með hjálp Alþjóðaviðskiptamálastofnunarinnar tókst að opna þessi lönd á sumum sviðum. Erlendir bankar og fjárfestingafyrirtæki fengu athafnafrelsi og máttu versla með gjaldmiðla. Þessi sömu peningafyrirtæki rústuðu síðan mörgum ríkjum Asíu nokkrum árum eftir innreið sína.

Það er erfitt að benda á nokkra eðlilega ástæðu fyrir efnahagshruninu í Asíu 1997. Ekkert stríð, engar náttúruharmfarir, mikill hagvöxtur og hár sparnaður heimila. Mörg stórfyrirtæki voru þó skuldug, en framleiðslan var í fullum gangi og stóð undir afborgunum.

Hrunið 1997 var að mestu leyti tæknilegt og mátti rekja beint til erlendra fjárfesta. AGS rak síðan smiðshöggið.

Erlend fjárfestingafyrirtæki sem 1996 höfðu flætt $100 milljörðum inn í hagkerfi S-Kóreu hættu óvænt að fjárfesta 1997 og tóku líka $20 milljarða út úr hagkerfinu. Sama sagan endurtók sig í nágrannaríkjunum. Næst barst óstaðfestur orðrómur um að Tæland ætti í erfiðleikum með að borga skuldir sínar. Gjaldeyrisbraskarar voru í startholunum og settu síðan allt á annan endann.

Asíuríkin neyddust til þess að tæma gjaldeyrissjóði sína til að verjast spákaupmennsku og verð allra hlutabréfa lækkaði um $600 milljarða á einu ári. Margra ára starf sogaðist út úr hagkerfum landanna og hvarf eins og dögg fyrir sólu. Sjálfsmorðum fjölgaði um 50% í S-Kóreu, landi þar sem 63,7% íbúanna var flokkaður sem miðstéttarfólk árið 1996 en aðeins 38,4% 1999. Fasteignamarkaðurinn í Tælandi hrundi ásamt gjaldmiðlinum, atvinnuleysi magnaðist og ótal örsnauð stúlkubörn enduðu í vændishúsum. Eina “tígrísdýrið” sem slapp alveg óskaddað var Kína, sem leyfði aldrei “frjálsa” fjármagnsflutninga og lét ekki gjaldmiðil sinn fljóta.

Áfallahjálp—þegar auðvelt er að snúa í sárinu—er sérsvið Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og hann beið í nokkra mánuði 1997 þar til jörð var vel sviðin. Í millitíðinni hafði hópur hagfræðinga lýst yfir ánægju sinni með þróunina í Asíu og bent á að hér væri á ferðinni óvenju gott tækifæri til þess að endurskipuleggja (kaupa á bunaútsölu og einkavæða sameiginlegar eignir fólksins) hagkerfi landanna. Það kurraði í Greenspan þegar hann sagði að “þessi krísa á líklega eftir að flýta fyrir því að mörg Asíuríki hætti að fjárfesta á vegum ríkisins” og stjórnarformaður AGS, Michel Camdessus, tók í sama streng þegar hann lýsti því yfir í viðtali að það þyrfti að nota þetta tækifæri til þess að breyta hlutunum: “Hagfræðimódel eru ekki eilíf … þegar þau úreltast á að yfirgefa þau.”

Villt peningaflæði og spákaupmennska með gjaldmiðla knésetti Asíuríkin, en AGS hafði engan áhuga á að draga úr þessari tegund viðskipta. Sjóðurinn heimtaði hins vegar fjöldauppsagnir yfir línuna, niðurskurð á félagslegri þjónustu og brunaútsölu á fyrirtækjum landanna. Kórea varð að samþykkja að útlendingar gætu keypt innlenda banka, en til þess að gera þá fyrst verðminni þá krafðist sjóðurinn þess að 50% allra bankastarfsmanna fengju reisupassann (30% var lokaniðurstaðan).

Indónesía reyndi lengi að klóra í bakkann, en Suharto forseti var haldinn þeirri undarlegu firru (í augum AGS) að það væri óþarfi að rústa hagkerfinu til þess að hægt væri að bjarga því. AGS flýtti þá fyrir hruninu með því að láta þær upplýsingar leka til Washington Post (“háttsetur en ónafngreindur starfsmaður AGS segir”) að samningaumræðurnar gengju ekki allt of vel og lán upp á milljarða dollara væri ekki í höfn. Gjaldmiðill landsins féll um 25% á einum degi og Suharto gafst upp. AGS hafði snúið hressilega í sárinu.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn gekk allt of langt í Asíu 1997 og hagkerfi landanna hrundu gjörsamlega eftir að þau skrifuðu undir afarkostina. 24 milljónir misstu vinnuna. Sveitafólk seldi börnin sín. Her fjárfesta flæddi yfir í “stærstu brunaútsölu allra tíma”, eins og New York Times kallaði það. Samsung, sem dæmi, var bútað í sundur og selt í partasölu. SC Johnson fékk lyfjadeildina, Volvo þungaiðnaðinn og GE skjádeildina. Daewoo, sem var metið á $6 milljarða fyrir hrun fór til GM fyrir $400 milljónir. Bechtel (sem á tímabili átti drykkjarvatn fólksins í Bólivíu) reisti olíustöðvar í Indónesíu og einkavæddi vatn og skolp í austurhluta Manilla. Og þannig mætti lengi halda áfram.

Haustakið sem AGS tók á lýðræðishefðum S-Kóreu er alveg sérstakur kapítuli sem ekki má gleymast. Þegar samningum AGS við Kóreu lauk þá var örstutt í forsetakosningar í landinu. Fjórir buðu sig fram og tveir þeirra voru andvígir samningnum. AGS gerði sér þá lítið fyrir og neitaði að afhenda nokkra peninga fyrr en allir frambjóðendur hefðu skrifað undir plagg þar sem þeir studdu samninginn. Þeir gerðu það og kjósendur voru þannig gerðir alveg valdalausir í þessu mikilvæga máli.

Framhald …