vald.org

Stundar Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hryðjuverk? … framhald

9. júní 2009 | Jóhannes Björn

Bretar frömdu glæp þegar þeir beittu hryðjuverkalögum gegn Íslandi. Til þess að koma í veg fyrir að þeir þyrftu að svara til saka fyrir þennan glæp og hugsanlega borga fyrir hann með hárri skaðabótagreiðslu, þá tóku þeir höndum saman við nokkra aðila og neyddu Ísland að samningaborðinu. Þetta tókst með því að koma í veg fyrir allar fyrirgreiðslur til landsins. Bretar, Hollendingar, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og líklega yfirstjórn Evrópusambandsins stilltu landinu þannig upp við vegg.

Við eðlilegar aðstæður hefðu íslenskir skattgreiðendur farið í mál við Breta og líka látið á það reyna fyrir rétti hvort þeir yfirleitt væru ábyrgir fyrir glöpum eða glæpum íslenskra banka úti í Evrópu. Enginn getur giskað á hvernig slíkt má hefði farið, en það var mjög mikilvægt fyrir Evrópusambandið að ekki yrði látið reyna á lögin með þessum hætti. Hugsanlegur sigur Íslands hefði þýtt töluverða röskun á evrópskri bankastarfsemi.

Það er auðvelt að kúga fólk sem þegar er á hnjánum. Erlend lán voru lífsnauðsyn fyrir landið og nokkra mánaða gjaldeyrissvelti hefði jafnvel getað leitt til eldsneytisskorts. Þetta vissu “vinir” okkar í Evrópu og þeir notuðu fjárkúgaraaðferðir til að koma þrem markmiðum sínum í höfn:

  1. Koma í veg fyrir málshöfðun gegn Bretum
  2. Koma í veg fyrir að Ísland léti reyna á lög um tryggingu bankainnistæðna.
  3. Láta íslenska ríkið borga ofurupphæðir á háum vöxtum (miðað við stýrivexti í Evrópu).

Reyndar var enn eitt mál hér á ferðinni. Gordon Brown viðurkenndi að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafi kúgað Íslendinga til hlýðni. Það var ólögleg samkvæmt lögum um starfsemi bankans. Auðvitað hefur AGS alltaf hegðað sér svona, sjóðurinn er jú verkfæri stórkapítalsins, en þetta var líklega í fyrsta skipti sem háttsettur embættismaður viðurkennir það (sennilega í fljótræði).

Aðferðin sem sjóðurinn notaði var dæmigerð og margreynd út um allan heim. Fyrst lofaði hann láni—lét menn finni lyktina af peningunum—en neitaði svo að afhenda lánið þar til búið var að framkvæma hluti sem fræðilega komu sjóðnum ekkert við. Evrópusambandið (að virðist) kom síðan í veg fyrir að peningar bærust frá öðrum aðilum. “Sveltum skepnuna”, var viðkvæðið hjá Ronald Reagan þegar hann talaði um að skera niður félagslega þjónustu, en það var nákvæmlega aðferðin sem notuð var gegn Íslandi.

Hlutverk AGS er þó miklu stærra í sniðum en að starfa eins og handrukkari. Sjóðurinn stundar óbeint trúboð með því að hjálpa öfgamönnum að útbreiða hugmyndafræði Milton Friedman—nýfrjálshyggjustefnu Chicago skólans—sem boðar einkavæðingu á svo til öllu og taumlausan kapítalisma. Ekkert kætir sjóðinn meira en brunaútsölur á ríkisfyrirtækjum—helst fyrirtækjum sem luma á orku eða hráefnum.

Eitt atriði sem fólk verður að gera sér grein fyrir í sambandi við AGS og nýfrjálshyggjustefnu Chicago skólans er að í framkvæmd fylgja þessir aðilar efnahagsmódeli Mussolini og annarra fasista. Þetta kom best í ljós út um alla Suður-Ameríku upp úr 1970 (fyrr í Brasilíu) þegar hrottafengnar einræðisstjórnir innleiddu hugmyndafræði Milton Friedman og hvert ríkið á fætur öðru réði nemendur hans frá Chicago til þess að stjórna hagkerfum landanna. Líkt og í gömlu fasistaríkjunum þá rann stjórnsýsla stórfyrirtækja og ríkisins saman í eitt. Verkalýðsfélög voru bönnuð og tugþúsundir einstaklinga voru myrtir öðrum til viðvörunar. Án ríkisstjórna sem stunduðu hryðjuverk á sínum eigin þegnum hefði fólkið í álfunni aldrei samþykkt efnahagsstefnu sem nær þurrkaði út millistéttina en gerði nokkra einstaklinga að milljarðamæringum.

Nýfrjálshyggjan—guðspjallið sem AGS vinnur samkvæmt—er ekkert annað en krafa þröngra hagsmuna um að eignast flest verðmæti jarðarinnar. Alls staðar þar sem þessu trúarbrögð, dubbuð upp sem hagfræðivísindi, hafa verið reynd hefur stéttaskipting stóraukist, millistéttin skroppið saman og spillingin farið úr böndunum. Nýfrjálshyggjan eyðilagði íslenska hagkerfið á ótrúlega skömmum tíma, þótt hún hafi aðeins blómstrað á fjármálamarkaði. Menn geta rétt ímyndað sér ástandið ef einkavæðing Landsvirkjunar og orkuveitna landsins hefði verið í höfn.

Frjálst framtak er af hinu góða, en reynslan sýnir okkur að blandað hagkerfi, eins og t.d. Norðurlöndin búa við, hefur reynist best. Einkarekið skólakerfi leiðir af sér óþarfa stéttaskiptingu þar sem allt of margir hæfir einstaklingar fá aldrei að njóta sín. Einkarekið heilbrigðiskerfi er hreint böl. Bandaríska heilbrigðiskerfið borgar t.d. um helmingi hærri upphæðir á hvert mannsbarn en kerfið í Frakklandi og Þýskalandi, en samt eru nær 50 milljónir Bandaríkjamanna án heilsutrygginga.

Menn sem prédika ofstæki eins og nýfrjálshyggjustefnuna eru stórhættulegir. Þeir eru annað hvort illa upplýstir eða illa innrættir. Félagslega þroskaðir og lífsreyndir stjórnmálamenn eins og Ólafur Thors, Eysteinn Jónsson, Gylfi Þ. Gíslason og Hannibal Valdimarsson hefur aldrei fallið fyrir bulli nýfrjálshyggjunnar. Ólíkt seinni tíma pólitíkusum þá voru þeir bæði skynsamir og með fæturna á jörðinni.