vald.org

Tekur bankakreppan aðra dýfu?

17. júní 2009 | Jóhannes Björn

Það eru tíu ár síðan Time magazine setti Alan Greenspan, Robert Rubin og Larry Summers í guðatölu. Þeir björguðu hagkerfi heimsins, sagði Time, og átti þá við afrek þeirra í Asíu, þar sem þeir hvöttu Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, fjölþjóðafyrirtæki og stórbanka til þess að sýna yfirgang sem skildi eftir sig sviðna jörð í mörgum löndum.

Næsta verk snillinganna þriggja var að þenja út mestu fjárfestingabólu allra tíma. Til þess að blása bóluna sem mest leyfðu þeir bankakerfinu að selja ónýta fasteignapappíra, rusl sem bláeygðir fjárfestar út um allan heim hafa þegar tapað á og halda áfram að tapa á hrikalegum upphæðum. Þessi tilraun nýfrjálshyggju-tríósins kallaði líka yfir okkur heimskreppu.

Þremenningarnir hvöttu bankana líka til þess að braska sem mest með afleiður—peningamaskínu sem endurfjármagnaði ruslabréfin—en sá markaður er í dag eins og óútreiknanlegt Frankenstein-skrímsli sem örugglega á eftir að orsaka gífurlegt tjón. Meira um afleiður síðar, en þegar hrunið kemur verður auðvitað aftur seilst í vasa skattgreiðenda, en snillingarnir á Wall Street halda áfram að fá himinháa bónusa. Þetta óréttláta kerfi—þar sem braskarar græða á augljósri glæfrastarfsemi en skattgreiðendur borga tapið þegar pýramídinn hrynur—er í dag keyrt áfram af fyrrnefndum Larry Summers, Timothy Geithner (sem stjórnaði seðlabankanum í New York undir handleiðslu Greenspan) og þyrlu-Ben. Því má skjóta hér inn að allir þrír sækja leynifundi Bilderberg-klúbbsins sem David Rockefeller, stórhluthafi í mörgum bönkum, hefur staðið fyrir í samfellt 56 ár.

Séð frá bæjardyrum hagfræðinnar þá eru flestir hlutlausir sérfræðingar sammála um að viðbrögð fjármálaráðuneytis og seðlabanka Bandaríkjanna við kreppunni hafi verið mjög misráðin. Besta leiðin, segja menn á borð við Paul Krugman og Nouriel Roubini, hefði verið að yfirtaka stærstu banka landsins strax í upphafi, fjarlæga alla vandræðapappíra og selja bankana síðan aftur á opnum markaði. Þetta hefði kostað mikla fjármuni, en samt verið ódýrara en að moka endalausum fjárfúlgum í vonlausar stofnanir. Þessi leið hefur verið nefnt sænska aðferðin og helsti kostur hennar er að hún er fljótvirkust.

Það er líklegt að með upprunalegri stefnu stjórnar Obama í bankamálum hafi glatast síðasta tækifærið til þess að koma í veg fyrir enn dýpri kreppu. Fjármunirnir sem fóru í að halda hálfdauðum bönkum gangandi hefðu líklega nægt til þess að bjarga kerfinu ef skynsamlega hefði verið haldið á spöðunum. En í næstu umferð, ef kerfið siglir aftur í strand, verður nægilegt fjármagn einfaldlega ekki fyrir hendi. Halli ríkissjóðs er þegar of mikill og eina valið verður á milli miklu hærri vaxta (til að laða að lánsfé) eða óðaverðbólgu sem myndast þegar seðlabankinn “peningavæðir” skuldirnar.

Vitlaus viðbrögð við bankakreppunni hafa orðið til þess, að frekar en að vera að ganga í gegnum venjulega efnahagslægð, þá erum við að upplifa heimskreppu. Heimsverslunin dróst saman um 22% á síðasta ársfjórðungi 2008 og bandaríska hagkerfið (fasteignahrunið meðtalið) er búið að blæða $23 trilljónum (evrópskum billjónum) síðan keðjubréf bankakerfisins byrjuðu að hrynja.

Það tekur efnahagslífið mörg ár að vinna sig í gegnum heimskreppu, en samt virðast allt of margir þessa stundina gera ráð fyrir að hagkerfið eigi eftir að bregðast við eins og eftir venjulega efnahagslægð. Kórsöngur um “græna sprota” hefur lyft væntingum víða um heim, en þegar betur er að gáð þá er ekkert kjöt á beinunum. Allar mikilvægar hagtölur eru blátt áfram hræðilegar. Nýlegra hækkana á t.d. olíu, áli og kopar hafa ekkert með hagvöxt að gera, eins og nánar verður rakið síðar.

Það er sjálfgefið að þegar almenn viðskipti byrja aftur að dafna, þá koma aukin umsvif strax fram í tölum um vöruflutninga járnbrautalesta. Nýjustu tölur sem ná yfir allt efnahagssvæði Norður-Ameríku, mikilvægasta markaðssvæði heimsins, sýna hins vegar mikinn samdrátt en enga “græna sprota” (línuritin byrja í fyrstu viku 2008):

Það er líka fróðlegt að skoða hagtölur sem sýna hvernig þróun mála var í kreppunni miklu (línuritið byrjar nokkrum mánuðum fyrir hrunið haustið 1929) og bera saman við það sem er að gerast í dag. Þótt einhver hlutabréfamarkaður falli gífurlega á nokkrum árum, þá koma alltaf tímabil hækkana inn á milli þegar nógu margir byrja að trúa því að botninum sé náð. Hópsálin reynir að grípa fallandi hníf.

Samanburður á helstu hlutabréfamörkuðum heimsins lítur svona út:

Heimsframleiðslan þá og nú:

Heimsviðskiptin:

Þessi línurit eru ekki gerð til þess að sanna væntanlegt hrun, heldur til þess að vekja athygli á þeirri staðreynd að hrun getur tekið langan tíma.

Sumir hagfræðingar hafa verið að halda því fram að Kína geti haldið hagvextinum gangandi og jafnvel stuðlað að vaxandi heimsverslun. Kínverska hagkerfið hefur hingað til hins vegar byggst upp á útflutningi og enn meiri útflutningi. Samdráttur á eftirspurn eftir kínverskum vörum hefur verið ótrúlegur:

Þrátt fyrir miklu minni framleiðslu þá hafa Kínverjar undanfarið verið að flytja inn ótrúlegt magn (miðað við framleiðsluþarfir) hráefna. Þetta er miklu meiri innflutningur en aukin umsvif innanlands gætu hugsanlega kallað á. Kopar er ágætt dæmi um þessa þróun:

Og síðan þetta graf var gert hefur innflutningur á kopar aukist um önnur 6%.

Kínverjar eru líka að hamstra járn, olíu og gull, svo eitthvað sé nefnt, og það er aðeins ein útskýring á þessari hegðun þeirra. Seðlabankinn situr á dollarafjalli, aðallega bandarískum skuldabréfum, og yfirvöld eru á fullu að losa sig við eitthvað af þessum pappírum áður en þeir falla í verði. Nýlegar hækkanir á olíu og áli hafa þó ekkert að gera með hamstur Kínverja, því þessar hækkanir hafa átt sér stað þrátt fyrir vaxandi byrgðir. Meira um það síðar.

Dollarar og verðmæti skráð í dollurum eiga ákaflega erfiða framtíð í vændum. Skuldirnar voru víst nógu hrikalegar áður en bankakerfið hrundi, en nú koma þær til með að tvöfaldast á aðeins nokkrum árum. Þetta gerist á sama tíma og hagkerfi heimsins blæðir peningum og sífellt færri aðilar geta keypt skuldapappíra. Bandaríski seðlabankinn lendir í vondri klemmu.

Markaðslögmálin munu fljótlega setja gífurlegan þrýsting á vaxtastigið og flestar aðgerðir kerfisins munu ganga út á að halda vaxtahækkunum í skefjum. Sumar óbeinar aðgerðir gætu haft skelfilegar afleiðingar fyrir heilu þjóðfélögin. Hinn kosturinn er að leyfa verðbólgunni að æða upp með vöxtunum, en það er varla leið sem nokkur fagnar.

Framhald …