vald.org

Tekur bankakreppan aðra dýfu? … Framhald

21. júní 2009 | Jóhannes Björn

Samkvæmt skoðanakönnun í desember 2008 töldu aðeins 15% Bandaríkjamanna landið vera á réttri braut. Í maí 2009 hafði bjartsýnisvogin heldur betur sveiflast til og 50% þjóðarinnar leit nú bjartari augum til framtíðar. Hvað hafði breyst á þessum örstutta tíma? Hvernig gat endalaus straumur slæmra frétta haft svo þveröfug áhrif á viðhorf fólks?

Einkaneyslan hefur verið á hröðu undanhaldi og á fyrsta ársfjórðungi 2009 minnkaði innflutningur um 34%. Útflutningur dróst saman um 30% og fyrirtæki greiddu 6,2% lægri laun. Nýjustu tölur seðlabankans sýna að $1851 milljarðar gufuðu upp í einkageiranum á þessum sama ársfjórðungi. Eina “verðmætasköpun” hagkerfisins kom til vegna hallarekstur ríkisins, viðskiptahalla og peningamoksturs seðlabankans í hálfdauða banka. Ekki beint gæfuleg uppskrift.

Það voru blikur á lofti í ársbyrjun 2009. Uppþot í Grikklandi, mótmæli í Frakklandi, kröfugöngur á Bretlandseyjum og byltingarástand í Tælandi. Lettland, Úkraína og fleiri ríki stefndu í gjaldþrot. Pólitíkusarnir voru byrjaðir að missa tökin og nú voru góð ráð dýr. Það er engu líkara en valdamiklir menn hafi á þessum punkti ákveðið að “kjafta” markaðina upp með hjálp voldugra fjölmiðla. Financial Times taldi auglýsingaskrum af þessu tagi góða hagfræði því bjartsýni fólks hefði óhjákvæmilega áhrif á hagvöxtinn. Blaðið sagði orðrétt:

Talking-up recovery prospects can make sense, economists believe. Expectations of better times ahead, if enough people believe in them, can become self-fulfilling.

Laurence Boone, hagfræðingur hjá Barclays Capital, gekk enn lengra þegar hann sagði að “uppörvandi fréttir” væru hentugt móteitur gegn félagslegri upplausn.

Það er full ástæða til þess að staldra hér aðeins við og hugleiða hvað menn eru að segja. Er hagfræðin virkilega komin niður á það plan að áróður þyki vísindaleg lausn á ákveðnum vandamálum? Er fræðigreinin að stórum hluta blekkingarleikur, einhvers konar kukl sem þykist kortleggja huglæg viðbrögð með vísindalegum formúlum? Samkvæmt því sem Financial Times er að segja þá gæti seðlabankastjórar allt eins ráðlagt ríkisstjórnum eftirfarandi: “Við skulum lækka stýrivexti um eitt prósentustig og hækka áróðurinn á sama tíma um tvö þrep.”

Áróðurinn sem í mars byrjaði að lyfta hlutabréfamörkuðum heimsins byggðist á hagfræði-babli um “græna sprota” og notaði taktík sem breytti slæmum fréttum í góðar. James O´Sullivan, yfirhagfræðingur UBS Securities, notaði t.d. þessa aðferð í viðtali við Bloomberg fréttastöðina (16. apríl) eftir að hræðilegar tölur um einkaneyslu voru birtar:

“Það er stór möguleiki á að við stöndum á vendipunkti. Við sjáum samdrátt einkaneyslunnar hægja aðeins á sér. Næsta rökrétta þróun málsins ætti því að vera sú, að veiking vinnumarkaðarins hægi eitthvað á sér.”

Þetta er eins og að hlusta á smábarn segja: “Minna vont er meira betra.”

En sérfræðingarnir voru komnir í stuð og öll skelfileg tíðindi voru skreytt með grænum sprotum Fyrirsög á vefsíðu Bloomberg 21. apríl hrópaði : “Samdráttur útflutnings Japans er merki um að efnahagslægðin sé hugsanlega í rénum.” Gleðitíðindin voru á þann veg að útflutningur Japans dróst saman um 45,6% í mars miðað við sama mánuð fyrra árs, en hafði fallið um 49,4% í febrúar miðað við 2008! Sannleikurinn sem þessar tölur sýndu var hins vegar sá að japanska hagkerfið er í frjálsu falli. Í heild dróst það saman um 14,2% á fyrsta ársfjórðungi 2009 reiknað á ársgrundvelli.

“Góðu” fréttirnar voru alls staðar á sama veg. Á fyrsta ársfjórðungi 2009 skrapp útflutningur Mexíkó saman um 29%, Brasilíu 20%, Bandaríkjanna 30%. Útflutningur Taiwan dróst saman um 24% í mars. Hagvöxtur Úkraínu dróst saman um 23% og Rússlands 10%.

Einu góðu tíðindi ársins hafa komið úr herbúðum bankakerfisins. Eftir trilljónaaustur í þetta svarthol lítur bókhaldið betur út, þótt óhemju tap sé enn falið í bókhaldinu, og millibankavextir hafa lækkað. En bankakerfið lánar mjög lítið af þessum peningum. Eins og þetta línurit frá bandaríska seðlabankanum sýnir er kerfið búið að salta sjóðina í skammtímabréfum.

Þetta graf sýnir glöggt að bankakerfið sér enga græna sprota og hefur engan áhuga á að lána út í hagkerfi sem er á hraðri niðurleið.

Framhald …